Í hádeginu lenti ég í saltkjötsveislu hjá þeim sæmdarhjónum Selmu og Gústa ásamt fjöldanum öllum af barnabörnum, tengdabörnum og barnabörnum. Fyrir ofan spiluðu hamrarnir sína orgeltóna, lækurinn lék sama lagið og fyrir þrjátíu árum þegar ég, Kristinn og Guðjón rákumst þar inn eftir svaðilfarir frá Seljanesi. Og í túnfætinum fyrir neðan jörmuðu nýborin lömb, golsótt, mórauð, svört og hvít með mæðrum sínum. Það var sól og saltkjötið var ekta saltkjöt. Selma prjónar eina þá alfallegustu lopasokka hér um slóðir. Selma er svo yndisleg og heil manneskja og hefur sterkan svip af minni fyrrverandi tengdamömmu Önnu Jakobínu.
Í Kaupfélaginu var margt um manninn, ég ákvað að byrja aftur með Munda á Finnbogastöðum og fá far með honum í Víkina. En við Mundu höfðum hætt saman fyrir nokkrum dögum, einmitt í Kaupfélaginu. Af því að ég fékk far með öðrum heim svo það var sjálfhætt. Mundi er í þann veginn að fara sofa í nýja húsinu sínu sem er einsog álfahöll, upplýst auðvitað. Ég stakk uppá því að hann byði uppá bændagistingu, húsið er svo stórt, en hann neitaði því alfarið, húsið væri rétt svo mátulegt fyrir hann og hans kamelsígarettu.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Takk Elísabet fyrir þessa skemmtilegu færslu,les oft bloggið þitt og hef gaman af.
bestu kveðjur frá okkur Önnu og Ronald í Malmö
Gaman að heyra í þér Anna!!!
Ætlaði varla að trúa mínum eigin augum, gaman að þú skulir lesa bloggið, ég vona að þið öll hafið það ægilega gott og blessað,
þín Elísabet
Skrifa ummæli