Í gær héldum við Júróvísjón partý, ég og kettirnir, Bernharð, Óskar og Kúrt. Þeir fengu sér soldið romm og voru fljótlega orðnir afvelta á gólfinu, ég drap ísbjörn í öðru sæti, þriðja sæti og fjórða sæti, sagði Bernharð. Óskar og Kúrt voru alveg sammála. Svo fengu þeir sér snakk. Og fisk, bruddu fiskbeinin langt fram eftir nóttu og vildu ekki hætta í partýinu. Faiiiirytaaaale, söngluðu þeir þegar ég var að festa svefninn.
Annars vaknaði ég uppí smá þunglyndi og yfir mig hneyksluð á þessari þoku, enginn læsi bloggið mitt, ljóðagerðin gengi afleitlega, enginn vildi lesa nýju söguna mína, hvað þá geðhvarfasöguna mína, ég ætti ægilega bágt og væri ægilega blönk og þyrfti aukþess að fara til tannlæknis. Svo ætti ég engan kærasta. Og væri ekki enn búin að sjá lömbin hér í Trékyllisvík.
En ég kveikti á sjónvarpinu í gær í fyrsta skipti síðan ég kom fyrir tólf dögum, og horfði á söngvakeppnina, ég féll nottla alveg fyrir þessu einfalda lagi um álfasöguna og svo söng hann með hreim, það var guðdómlegt, en ég þoli ekki hvað allir þykjast geta sungið ensku og afneita móðurmálinu sínu sem hefur verið margar aldir að þróast, svo fannst mér franska lagið flott, rússneska, þýska (raffinerað og grípandi) finnska og eitthvað í viðbót. Svo dýrkaði ég atkvæðagreiðsuna að sjá allt þetta yndislega fólk frá öllum þessum löndum, svo merkilegt að sjá þjóðareinkenni, og allskonar yndislegheit og ég fór að hugsa um allt fólkið í heiminum sem kemur frá allskonar löndum og allan fjölbreytileikann og nú er ég orðin frá Trékyllisvík með þrýstnar varir og augun blárri.
En ég myndi segja að Ísland hafi unnið keppnina, Noregur var nottla ekki marktækur og svo stálu þeir álfasögu frá Íslandi, og Íslendingar ættu að læra af þessari sögu og hugsa meira um ál-fana en ál-verin. En þessvegna segi ég TIL HAMINGJU ÍSLAND....!!! Ísland vann og hún var einsog álfkona í bláa kjólnum og Sylvía Nótt hefði átt að vera við hliðina á henni á sviðinu. Til hamingju ó til hamingju.... það var svo gaman að horfa á sjónvarpið og allar auglýsingarnar voru svo yndislegar, og svo horfði ég á ameríska bíómynd á eftir.
Og nú er ég að hugsa um þessi ljóð, ég er nottla að reyna að vera töff en þetta er bara þannig að ég uppgötvaði að sársaukinn er hluti af fegurðinni og maður veit ekki hvað ræður.
Ég sé að þokan hefur lyft sér meðan ég skrifa svo ég er hugsa um að halda áfram alveg uppá brún.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Takk fyrir að muna eftir mér,
þín Sylvía Nótt forever
Skrifa ummæli