31 maí 2009

Allt ómögulegt og MÖGULEGT

Í dag var ég meðvirk og með mígreni og allt ómögulegt og þannig er staðan enn. - klukkutíma síðar skrifaði skáldsnillingurinn og fegurðardísin Elísabet eftirfarandi blessunarorð: Sko, ég er nottla bara dreinuð, búin að yrkja 60 ljóð á nokkrum dögum, og svo gerði ég gjörning í Listaháskólanum við útskrift og notaði hvalbein úr Trékyllisvík, sló í gegn, og svo kom hún krúttyndið hún Embla Karen í heimsókn í gær með Garpi og Ingunni, spilaði á píanóið, tíndi fram bækur og fór á kostum. Er alveg búin á því eftir ljóðagerðina, fékk aftur hausverk og rosalegur verkur, ó ó ó, en ljósið hún Embla og hugsýn af ánni fljótandi alltaf rennandi í Víkinni gaf mér kraftinn. Ég er farin að sofa og takk fyrir öll kommentin. (Biturleiki :) Takk fyrir góði guð, ... fyrir lífið og ljóðið.
Svo fór ég á Víkingsleik hjá Jökli, hann er svo mikið undur og gaman að sjá hann spila, Víkingur vann 2:0 enda lukkudýrið mætt á svæðið.

30 maí 2009

Jarðskjálfti Föstudagsson

Ég var að borða þegar jarðskjálftinn reið yfir, í eldhúsinu heima hjá mér, já jarðskjálfti hugsaði ég og ætlaði að halda áfram að borða en ákvað að sýna jarðskjálftanum tilhlýðilega virðingu svo ég fór útá tröppur tilað vita hvort Atlantshafshryggurinn væri nokkuð að klofna í garðinum hjá mér, svo var ekki, svo ég hringdi í börnin tilað vita hvort þau voru óhult, þau höfðu setið í Lazy-boy stólunum sínum og ekki fundið örðu. Svo ég fór aftur inn og hélt áfram að borða.

29 maí 2009

Faðmlagsdraumur

Mig dreymdi ég væri að faðma Harald Jónsson einsog hefur lengi staðið til, mér þótti þetta vera á skólagangi fyrir framan skólastofu og fyrir enda gangsins var stór gluggi, franskættaður, þe. með mörgum römmum, liturinn á göngunum var hafísblár, við föðmuðust lengi og ég kleip í hann milli herðablaðanna og hafði áhyggjur af því að hann héldi að ég þyrfti á honum að halda, en svo hölluðumst við þráðbein þannig að höfuð okkar námu við vegginn en héldum faðmlaginu.

Mér fannst Herðubreið vera einhverstaðar uppá vegg en kem því ekki fyrir mér hvar.

28 maí 2009

Svo gott að vera komin heim!!!

Ég elska að vera komin heim, það er dásamlegt, allt svo hreint og fínt líka af því Jökull og Kristín voru hér á meðan ég var í burtu og það var yyyyyndislegt að vita af þeim hér, og þau buðu mér í grillmat annan daginn sem ég kom. Og Jökull bjargaði líka lífi mínu með því að þegar ég hringdi sárþjáð af mígrenikastinu sem ég fékk (ég er alltíeinu komin með mígreni, þetta er allt að koma!) og þá var ég búin að hringja í 112 og á leið í sjúkrabíl, ef ég hefði haft sög hefði ég sagað hausinn af, en þá hringdi Jökull semsagt og ég grátandi í símanum og hann spurði: Er ekki best að fara skipuleggja útförina. Æ, nei, gólaði ég. Hvaða sálma viltu láta syngja? Hærra minn guð til þín, gólaði ég hærra. Og hvaða fleiri, spurði hann. Blátt lítið blóm eitt er. Ég get sungið það, heyrði ég að Kristín tengdadóttir mín sagði. En þetta er semsagt yndislegt og svo gott eitthvað og Framnesvegurinn er nú líka algjört æði. Nágranni minn sendi mér fingurkoss (við rekum sameiginlega þvottavél í skúr á lóðinni) en þetta sýndi hvað ég hef mikinn sjens allstaðar því hann er nottla 20 árum yngri en ég. Og svo fékk ég spes trítment frá stráknum á kassanum, ég er svona hrikalega ógleymanleg og yndisleg, og ekki nóg með það heldur fór ég á Alanon fund og allir þar: HVAR HEFURÐU VERIÐ!!!????!!! Líka þær sem ég átti að vera sinna sérstaklega og leiða í gegnum sporin. Garpur og Ingunn og Embla eru á sínum stað og ég búin að panta að fara niðrí fjöru með Emblu á laugardaginn að finna galdrafjaðrir og skrítna steina, bara eins gott að verjast kríunni, ég skyldi nefnilega stafinn minn sem Maddý gaf mér eftir hjá Hrafni og Elínu en þess má geta að ég fékk að sjá Vííí í dag í fyrsta sinn, hún var á leiðinni norður með fríðu föruneyti, móður sinni og tveimur dætrum Önnu Jakobínu. Hún var alveg ótrúleg og fín hún Vííí, hún er eiginlega alveg einsog pabbi sinn, nema hún er líka örlítið lík Mána, þessi ákveðni svipur yfir augunum, en hún er mikill karakter og guðsblóm hér á jörðinni. Hún var líka í prjónuðum gallabuxum sem móðir hennar hafði prjónað handa henni. Ég er bara búin að sitja og yrkja síðan ég kom heim, ryksuga smá og fara í bað og svona, kaupa engifer og Elísabet er yndisleg og alveg stórkostlega mikið krúttvesen í veröldinni. Velkomin heim töfrasnillingur.

ps. Svo ætlaði ég að stinga uppá smá verkaskiptingu hér á blogginu - ég geri nefnilega allt, bæði blogga og kommentera. Svo ég ætlaði bara að segja frá því að ég hef óskaplega gaman þegar ég fæ komment frá öðrum og takk fyrir það. Endilega kommentið.

27 maí 2009

Elísabetarhúð

Það er ótrúlegt að sjá á mér húðina eftir Trékyllisvík, allt detox-tal má fara að vara sig, húðin er svona fallega silkimjúk. Ég er alveg í sambandi við spegilinn og bíð eftir að hann hringi.

Dúkkuhausinn og draumatófan

Ég hef verið að hugsa um hvað ég gæti sagt eftir að hafa verið í Trékyllisvík en á meðan ég er að bíða eftir því má geta þess að ég er búin AÐ ÞJÁST AF MÍGRENIKASTI, þjást, þjást, ekki getað reist höfuð frá kodda, ekki getað drukkið kaffi, ekki getað tuggið nikótíntyggjó, ekki neitt, ekki neitt, neitt, nema svo las ég í bók sem Elín á að Búdda tæki þjáninguna frá okkur eða mér skildist það, svo þökk sé Búdda og mígrenipillunum að þjáningin er á undanhaldi nema ég er mjög þreytt, slöpp, úr mér allur máttur dreginn, aumingja greyið ég, og ég vissi ekki einusinni af því ég væri með mígreni, samt hef ég fengið hausverk hægra megin síðan pabbi dó og mígreni kemur víst alltaf öðrumegin, svo kannski hef ég haft mígreni, mí mí mí, en nú var þetta í öllu höfðinu og mér datt í hug að þetta væri útaf dúkkuhausnum, að dúkkuhausinn væri brjálaður, yfir því að vera tekinn af rekanum eða grindhvalurinn brjálaður yfir því að ég tók hauskúpuna af honum af rekanum, svo sennilega þarf ég að spyrja bæði dúkkuhausinn og hauskúpuna af hvalnum hvort ég hafi mátt taka það, það gerði Kristinn á Dröngum alltaf, hann þakkaði allavega fyrir sig, en þetta er vísan í gamla þjóðsögu um að maður megi ekki taka bein, þá komi draugurinn æðandi og segi: ÉG VIL FÁ BEINIÐ MITT. Nú er ég búin að spyrja, maður verður að sýna kurteisi. Og mígreni þýðir auðvitað my greni. Mitt greni.

Hausinn á mér er greni. Mig dreymdi draum áðuren ég fór suður, ég var á ferð í miklum snjó og í veg fyrir mig gengu nokkrir minkar og ein tófa, appelsínugul. Þessir mí-nkar voru mí-grenið mitt og tófan táknar lífskraft minn. Og nú er allur vindur búinn og ég ætla láta renna í bað.

Draumatófan... athuga hana betur.

24 maí 2009

Elísabet kveður vini sína hér

... það er ekki endalaust hægt að yrkja um einmanalegan rekavið á eyðiströndum ef það eru engin spor, enginn hlátur, engar sögur, ...

Svo takk fyrir sporin, hláturinn og sögurnar, ... Allir hér.

Takk Gauti fyrir að segja vinir.

Takk Elín, Hrafn og Vííí fyrir að leyfa mér að vera hér.

OG TAKK KÚRT, ÓSKAR OG BERNHARÐ FYRIR AÐ SOFA UPPÍ HJÁ MÉR.

23 maí 2009

LJÓÐIÐ - (Í vinnslu)

*

Allt þetta fólk
sem lifað hefur hér
frá landnámsöld,
andi þess fyllir staðinn
hér í kvöld.

Gleði þess og sorgir,
dagar þess og nætur.

Það kemur nær og nær,
það þyrpist að,
það hefur eitthvað að segja.

Og þá veit ég
að þetta er sama fólkið
og býr hér í dag.

*

Lítið ljóð

Bátur í flæðarmálinu
og kríuvarp.

Þarf að ákveða
eitt eða annað.

Veisla hjá köttunum

Ég var auðvitað búin að segja köttunum, Óskari, Kúrt og Bernharð að Vííí væri komin í heiminn, ég tók þá hvern og einn á eintal og klappaði þeim um leið. Ekki samt lengi því ég er ekki gefin fyrir strokur og klapp. Kettirnir eru hinsvegar á annarri skoðun og hér hefur farið fram heilmikil klapp-kennsla þessar þrjár vikur í Trékyllisvík. Þú verður að læra að klappa, segir Bernharð. Alveg rétt, segir Óskar. Þú ert að ná þessu, segir Kúrt. En ég hef satt að segja aldrei verið mikið fyrir að kjá og kjássa börn eða dýr. Mest svona leyfa þeim að vera út af fyrir sig. Sérstaklega er mér illa við að taka upp nýfædd börn, og segja do do do eða gúgglí gúgglí gúggíddí gúgg.

Það er í mesta lagi fyrir foreldrana. En ég man hinsvegar hvað það var guðdómleg stund þegar ég fékk að halda á henni Emblu Karen Garpsdóttur aðeins fimm daga gamalli.

En nú í kvöld ákváðum við semsagt að halda veislu yfir því að Vííí væri komin í heiminn með athyglina á þá semsagt, ég kveikti samt á kerti og sauð svo fisk, um leið og ég setti fiskinn í pottinn komu þeir hlaupandi í andaktugum fögnuði og sátu svo dáleiddir í eldhúsinu þangað til fiskurinn var tilbúinn. Svo skammtaði ég á þrjá diska, gjöriði svo vel.

En þess má geta að þótt Bernharð sé hér greinilega mesta veiðidýrið þegar ég sé til hans á nóttunni þá hélt ég þegar ég heyrði hann í fyrsta sinn koma skokkandi eftir ganginum að það væri verið að banka.

Saltkjötsveisla á Steinstúni

Í hádeginu lenti ég í saltkjötsveislu hjá þeim sæmdarhjónum Selmu og Gústa ásamt fjöldanum öllum af barnabörnum, tengdabörnum og barnabörnum. Fyrir ofan spiluðu hamrarnir sína orgeltóna, lækurinn lék sama lagið og fyrir þrjátíu árum þegar ég, Kristinn og Guðjón rákumst þar inn eftir svaðilfarir frá Seljanesi. Og í túnfætinum fyrir neðan jörmuðu nýborin lömb, golsótt, mórauð, svört og hvít með mæðrum sínum. Það var sól og saltkjötið var ekta saltkjöt. Selma prjónar eina þá alfallegustu lopasokka hér um slóðir. Selma er svo yndisleg og heil manneskja og hefur sterkan svip af minni fyrrverandi tengdamömmu Önnu Jakobínu.

Í Kaupfélaginu var margt um manninn, ég ákvað að byrja aftur með Munda á Finnbogastöðum og fá far með honum í Víkina. En við Mundu höfðum hætt saman fyrir nokkrum dögum, einmitt í Kaupfélaginu. Af því að ég fékk far með öðrum heim svo það var sjálfhætt. Mundi er í þann veginn að fara sofa í nýja húsinu sínu sem er einsog álfahöll, upplýst auðvitað. Ég stakk uppá því að hann byði uppá bændagistingu, húsið er svo stórt, en hann neitaði því alfarið, húsið væri rétt svo mátulegt fyrir hann og hans kamelsígarettu.

22 maí 2009

Þoka II

Þokan er köld
og miskunnarlaus,
hún breytir öllu
svo það verður
rómantískt.

Þoka I

Þokan gerir allt merkilegt,
einsog rekaviðardrumbinn í fjörunni
sem var venjulegur
en nú er hann að hverfa.

Þoka

Þokan læðist inn fjörðinn,
fjörðurinn læðist inní þokuna.

Ég verð eftir með einsemdina.

Að sortera þvottinn

Mig dreymdi Suðurgötu eina nóttina, ég bjó þar um tvítugt, ástfangin í fyrsta sinn en veiktist líka á geði í fyrsta sinn, í kjölfar dauða föður míns, svo það voru sterkar tilfinningar í húsinu, mig langaði alltaf að flytja í húsið aftur, þetta var líka svo fallegt hús og með tvennum svölum, en ég held ég sé tilfinningalega föst í húsinu, eða það er að segja þessari ást og sorg af því ég veiktist á geði af sorg, og það er spurning afhverju ég vilji endilega flytja þarna aftur, hvort ég sé að sækjast eftir þessum sterku tilfinningum, ástinni og sorginni, geðveikinni sem var annar heimur, en ég kemst kannski að því ef ég hætti að skrifa um sjálfa mig og skrifa um hana Fríðu Maríu sem lenti í þessu, að verða svona ástfangin, sorgmædd og geðveik og vildi aldrei fara útúr húsinu, og vildi aldrei fara útúr húsinu af því hún var að sortera þvottinn.

Konan hans

: Konan hans Geirmundar, var hún ekki rússnesk.

: Nei, var hún ekki thailensk.

: Ég held hún hafi verið portugölsk.

: Hún var allavega ekki íslensk.

Öfugsnúið

Á kvöldin þegar ég er að fara sofa vil ég endilega vaka lengur, og á morgnana þegar ég vakna vil ég endilega sofa lengur.

21 maí 2009

Sólarlagssæti

Ég bjó til sólarlagssæti handa Elínu, Vííí og Hrafni á árbakkanum, þar liggur fallegur trjádrumbur, ég hlóð bálköst við hliðina á og gerði hring utanum með fjörusteinum. Já, og svo er þetta líka fyrir Óskar, Bernharð og Kúrt, þá miklu sólarlagsketti.

Tíðindasamt í Trékyllisvík

Ég er eiginlega hætt að ráða við þetta, fyrstu dagana gerðist það helst að svanur flaug framhjá Finnbogastaðafjalli eða tjaldurinn kroppaði í fjörunni en nú rekur hver stórviðburðurinn annan, ég var við skólaslit í Finnbogastaðaskóla þarsem Ásta og Júlíana útskrifuðust með láði, kökur á eftir og sýning, svo í sund á Krossnesi í tvo klukkutíma með Maddý, í mat til hennar á eftir, maturinn var einsog á fimmstjörnu veitingahúsi, svo fórum við í fimmtugsafmæli til Jóhönnu í Árnesi og þar hitti ég Gústu í Norðurfirði og Óla á Gjögri, alla þessa skemmtilegu krakka og unglinga og já bara alla í sveitinni og svoleiðis kökurnar. Ég þekkti afmælisbarnið ekki mikið en ákvað að gefa henni vísu í afmælisgjöf.

Afmælisbarnið ekkert þekkti
yndi allra hér í kvöld.
Fagnar hennar fríðleiksslekti
frúin fyllir hálfa öld.

*

Ég sá lamb fæðast

Ég fór í fjárhúsin í græna prjónsilkikjólnum mínum, fjárhúsin minntu mig helst á kirkju, slík var stemmningin og svo sá ég eitt lamb fæðast, fyrst var það inni í mömmu sinni, svo kom það út.

Fuglanótt

Nóttina sem hún Vííí kom í heiminn hegðuðu kettirnir sér undarlega, murruðu og vildi strokur og kjass í meira mæli en áður. Ég vaknaði klukkan fjögur og var andvaka eftir það fram undir morgun. Ákvað að fara á fætur svo ég gæti sagt henni hvernig nóttin í Trékyllisvík hefði verið nóttina sem hún fæddist á Akranesi. Og það var fuglanótt, ég hef aldrei séð fleiri fugla, þeir klufu loftið, loftið var krökkt af fuglum, þeir létu sig fljóta í stríðum straumum niður með ánni, svifu á öldunni og spókuðu sig í flæðarmálinu. Og söngurinn... kvakið, blístrið, ... tilbeiðslusöngur, út við sjóndeildarhringinn var dögunin að hefja sitt morgunstef, og þegar ég gáði útum gluggann til fjallsins var þar kona að hengja þvott á snúru.

*

19 maí 2009

Elísabet, vinir

Já, "erindisleysa" - einsog hirða um ketti bróður síns og mágkonu, heimsækja vini sína, heimsækja fjöllinn, sjá svan fljúga framhjá Finnbogastaðafjalli og annan svan að kafa í vatninu, og heyra lítinn snáða hann Gauta Rakelarson sem er eins og hálfs árs en hann er óvenju fljótur til máls og bræddi hjarta mitt þegar hann sagði: Elísabet, vinir.

Að flækjast svolitla erindisleysu

Í kvöld var ég boðin í mat til Hrefnu í Árnesi, hún sagði mér að áður fyrr hefði það verið kallaður flækingur að fara út fyrir hreppinn nema ef maður væri að fara til læknis. Ég man eftir þessu viðhorfi hjá Kristni á Dröngum sem lagði flæking og erindisleysu að jöfnu, hvort tveggja jafn fáranlegt. Sjálfur flæktist hann aldrei neitt nema einu sinni til Grænlands en þarsem hann var búinn að búa til stærðfræðijöfnu: Að Drangabændur færu á þúsund ára fresti til Grænlands komst hann hjá því að kalla það flæking.

Við Kristinn vorum náttúrulega aldrei sammála um neitt, það var það skemmtilega, og við vorum örugglega sammála um allt.

En ég var nefnilega viss um að ég hef verið send hingað í Árneshrepp af einhverjum sérstökum ástæðum, að ég ætti eitthvert sérstakt erindi, jafnvel að ég ætti að læknast en mér finnst stöðugt og endalaust að ég þurfi að læknast af hinu og þessu, ég þurfi að vera meira opin, meira lokuð, meira ákveðin, betri manneskja, losna úr fjötrum, kafa í sálardjúpið, og svo endalaust framvegis, ég sé ekki nógu góð.

Ertu orðin góð?
Ég er miklu betri.
En ertu orðin góð.
Ég fer að verða góð.

Svo ég hélt að ég hefði verið send út fyrir bæjarmörkin á Reykjavík tilað læknast hér í Trékyllisvík, en þá kemur bara á daginn að ég hef haft gjörsamlega rangt fyrir mér, ég er orðin góð, nógu góð, því um leið og hún Hrefna var að tala um þetta, flækinginn og erindisleysuna, þá rann upp fyrir mér ljós, ég var "að flækjast svolitla erindisleysu."

*

Eins húnar

Húnninn á gömlu kirkjunni í Trékyllisvík er nákvæmlega eins og húnninn heima hjá mér.

Elísabet sendist í Árneshreppi

Við erum sendlar og okkar pósthús er jörðin, eða það sem ég vildi segja, ég var send hingað í Trékyllisvík, það var Vííí sem sendi mig hingað, ég hef verið send hingað og þangað gegnum tíðina og í dag var ég send með bréf í Sparisjóð Strandamanna og súkkulaði í skólann á Finnbogastöðum. Ég hef svona verið að íhuga erindi mitt hingað norður og mun birta niðurstöður um leið og þær berast, verða sendar mér.

Tilfinningastaður

Í sambandi við jörðina undir hjartasteininn hefur hugmyndin undið uppá sig eða blásið út, og nú er ég að hugsa um að kaupa tuttugu jarðir víðsvegar um landið undir hjartasteinana mína, og þá væri alveg rakið að koma þeim fyrir á stöðum þarsem ég er tilfinningalega föst.

Tilfinningalega föst á einhverjum stað

Maður getur verið fastur í skafli, skriðu, brennandi húsi, umferðarteppu, og ég veit ekki hvar en svo er líka hægt að vera fastur einhverstaðar tilfinningalega. Ég bað guð um að gefa mér svarið við því hvar ég væri föst tilfinningalega. Og ég er að bíða eftir svarinu.

Niðursuðudósirnar með blönduðu ávöxtunum

Ég tók það fram hér áðan að Hrafn bróðir minn þættist viss um að einhver vildi gefa mér jörð undir hjartasteininn, ég er er ekki viss um að Hrafn hafi þá vitað að ég er samasem búin að borða allar niðursuðudósirnar með blönduðu ávöxtunum úr búrinu þeirra Elínar.

18 maí 2009

Jarðarbútur

Já, mig vantar semsagt jörð... undir hjartastein. Hrafn hélt að einhver myndi örugglega gefa mér jörð undir steininn. Svo ég ætla að láta það fylgja að hann er sennilega svona 20 x 20 sentimetrar að ummáli. Það er bara spurning með hæðina, hann gæti verið 15 sentimetrar á hæð, ég nefni þetta svona útaf þokunni.

Silfur Egils

Ég hef ekki horft á Silfur Egils síðan hann fékk Evu Joly norsk-franskan saksóknara í þáttinn til sín sem endaði á þá veg að Egill horfði umkomulaus á hana og spurði: Eva, getur þú bjargað okkur???

Í gær horfði ég svo aftur á Silfrið og þar var Paul Bennett í heimsókn, breskur hönnuður sem langar að bjarga Íslandi. Í lok þáttarins horfði Egill á hann jafn umkomulaus og áður og sagði: Mr. Bennett, getur þú kannski gætt okkur bjartsýni á nýjan leik???

Ég ætlaði að fara dæma Egil en ákvað að kasta ekki fyrsta steininum því í hvert skipti sem ég hitti útlendinga langar mig alltaf að biðja um kók og prinspóló.

Í fjárhúsunum

Ég kom í fjárhúsin í dag og er eiginlega í tilfinningalosti, allar þessar kindur og nokkur lítil lömb, og hún Linda dóttir hans Guðmundar á Finnbogastöðum leyfði mér að finna lyktina af þeim, það var sæt ólýsanlega fíngerð lykt, mmmmm.... ég hafði aldrei vitað það væri svona fín lykt af nýfæddum lömbum. Maður er alltaf bara hérna: Oh, hvað þau eru sæt. Og þau eru sæt. Og kindurnar, þær voru þúsund ára gamlar með þúsund ára gamlar tilfinningar, augun spennt af hyldýpri móðurlegri umhyggju, ég horfði bara í augun á þeim og gat ekkert sagt, ég bara kom ekki orði, svo fór Mundi að segja mér nýjustu sögurnar úr fjárhúsunum og ég sagði: Já, þetta hlýtur að taka á tilfinningalega. Mundi kveikti sér í Camel-sígarettu og sagði: Já, það gerir það.

Á rekanum

Sólskinsdag í síðustu viku spurði Maddý hin tígulega kona úr Norðurfirði og fyrrverandi prinsessa úr Stóru-Ávík hvort ég vildi ganga með henni Ávíkurekann. Þetta fannst mér mikil upphefð og neitaði ferð útí eyju að setja upp fuglahræður sem var líka mjög freistandi boð. En við Maddý fórum í Kolgrafarvík, Hellisvík, og allskonar víkur sem of langt mál væri að telja, þetta var einsog meiriháttar hugleiðsla að ganga rekann og mega nú austrænir jógar fara að vara sig með sínar hugleiðslur þegar rekinn er annarsvegar. Því svo kom líka þoka, hún læddist inn við Krossnesið og lagðist svo einsog sæng yfir alla víkina og síðan lét hún (þokan) þyrlu fljúga um í þokunni. Mjög dularfullt. Maddý gaf mér staf og þótt hún hafi búið þarna allt sitt líf hafði hún ennþá lifandi áhuga fyrir skrítnum steinum sem urðu á vegi okkar. Við fylltum svo svarta ruslapoka af brúsum og bjuggum líka til brúsagæs en í Kolgrafarvík fundum plastgæs sem vantaði hausinn á. Þegar við vorum búnar að setja brúsa fyrir haus var komin í leitirnar hin sjaldgæfa brúsagæs. Ég fékk allskonar sögur um villingana í Ávík sem höfðu klifrað uppá syllur, stokkið yfir Kistuvoginn. Svo fékk ég álfasögur og ég meiraðsegja talaði svolítið við þessa álfkonu. Það er þó aldrei að vita nema Maddý hafi sjálf verið álfkonan, allavega ljómaði hún einsog sól í þokunni þegar ég spurði um hvenær hún hefði hitt Gunnstein og það allt saman.

17 maí 2009

Svanir sem gæta sálar

Eftir að við Maddý höfðum þrætt Ávíkurvíkurnar sáum við heim að hlaði í Stóru-Ávík, við töldum fimmtán svani á túninu og ég sagði að svanirnir væru sjálfsagt að gæta sálarinnar hans Guðmundar og samsinnti hún því.

Jörð undir hjartastein

Ég rétt komst útí labbitúr í dag, ég var svo þunglynd að ég vildi að heimurinn stoppaði og eiginlega var hann stopp og allt ómögulegt og ég sá ekki ljósglætu, en þegar ég kom svo heim hlaðin steinum og einn hjartalaga og svo lagskiptur, þungur og stór að nú vantar mig jörð undir hann.

Til hamingju Ísland!!!

Í gær héldum við Júróvísjón partý, ég og kettirnir, Bernharð, Óskar og Kúrt. Þeir fengu sér soldið romm og voru fljótlega orðnir afvelta á gólfinu, ég drap ísbjörn í öðru sæti, þriðja sæti og fjórða sæti, sagði Bernharð. Óskar og Kúrt voru alveg sammála. Svo fengu þeir sér snakk. Og fisk, bruddu fiskbeinin langt fram eftir nóttu og vildu ekki hætta í partýinu. Faiiiirytaaaale, söngluðu þeir þegar ég var að festa svefninn.

Annars vaknaði ég uppí smá þunglyndi og yfir mig hneyksluð á þessari þoku, enginn læsi bloggið mitt, ljóðagerðin gengi afleitlega, enginn vildi lesa nýju söguna mína, hvað þá geðhvarfasöguna mína, ég ætti ægilega bágt og væri ægilega blönk og þyrfti aukþess að fara til tannlæknis. Svo ætti ég engan kærasta. Og væri ekki enn búin að sjá lömbin hér í Trékyllisvík.

En ég kveikti á sjónvarpinu í gær í fyrsta skipti síðan ég kom fyrir tólf dögum, og horfði á söngvakeppnina, ég féll nottla alveg fyrir þessu einfalda lagi um álfasöguna og svo söng hann með hreim, það var guðdómlegt, en ég þoli ekki hvað allir þykjast geta sungið ensku og afneita móðurmálinu sínu sem hefur verið margar aldir að þróast, svo fannst mér franska lagið flott, rússneska, þýska (raffinerað og grípandi) finnska og eitthvað í viðbót. Svo dýrkaði ég atkvæðagreiðsuna að sjá allt þetta yndislega fólk frá öllum þessum löndum, svo merkilegt að sjá þjóðareinkenni, og allskonar yndislegheit og ég fór að hugsa um allt fólkið í heiminum sem kemur frá allskonar löndum og allan fjölbreytileikann og nú er ég orðin frá Trékyllisvík með þrýstnar varir og augun blárri.

En ég myndi segja að Ísland hafi unnið keppnina, Noregur var nottla ekki marktækur og svo stálu þeir álfasögu frá Íslandi, og Íslendingar ættu að læra af þessari sögu og hugsa meira um ál-fana en ál-verin. En þessvegna segi ég TIL HAMINGJU ÍSLAND....!!! Ísland vann og hún var einsog álfkona í bláa kjólnum og Sylvía Nótt hefði átt að vera við hliðina á henni á sviðinu. Til hamingju ó til hamingju.... það var svo gaman að horfa á sjónvarpið og allar auglýsingarnar voru svo yndislegar, og svo horfði ég á ameríska bíómynd á eftir.

Og nú er ég að hugsa um þessi ljóð, ég er nottla að reyna að vera töff en þetta er bara þannig að ég uppgötvaði að sársaukinn er hluti af fegurðinni og maður veit ekki hvað ræður.

Ég sé að þokan hefur lyft sér meðan ég skrifa svo ég er hugsa um að halda áfram alveg uppá brún.

Þoka

Það er búið að vera þoka í þrjá daga, ég meina, hvað hef ég gert af mér!!?

16 maí 2009

Eitthvað hvítt

Þegar maður sér að þetta hvíta útá firðinum sem færist stöðugt nær er hvítur dúnkur en ekki ísbjörn er maður endanlega búinn að missa vitið.

15 maí 2009

Draumaferð

Nú er ekki farið lengur tilað vitja um selanetin heldur tilað vitja horfinna tíma og þegar ég sigldi framhjá Seljanesi í gær fannst mér allteins þessi stelpa sem var þar fyrir þrjátíu árum væri veruleikinn og ég draumur hennar.

Ferð með Pétri í Ófeigsfirði

Pétur í Ófeigsfirði er auðvitað orðinn þjóðsagnapersóna í lifanda lífi, ég man eftir honum á Seljanesi, þá ættleiddi hann mig því honum fannst ég vakna svo seint á morgnana, sjálfur vaknaði Pétur alltaf við sólarupprás og var búinn að saga sex hundruð staura þegar hann kom klofandi yfir þúfurnar útað Seljanesi, þarsem ég og Guðjón vorum rétt að rumska á hádegi og Kristinn ef hann var vaknaður þá var hann ofaní Njálu. Pétur var líka að gera veg, það var nefnilega enginn vegur útí Ófeigsfjörð og Pétur gerði sér lítið fyrir, komst yfir jarðýtu og hóf að ryðja veginn sem er þannig núna að þrjátíu árum seinna streymir þangað jeppafloti landsmanna, Pétur myndi sennilega aldrei samþykkja neitt sem heitir þarsem vegurinn endar enda var hann bara rétt að byrja á veginum, Pétur hamaðist allan daginn á ýtunni í fjallshlíðinni meðan við héldum áfram að lesa Njálu og horfa útí loftið, og það síðasta sem er að frétta af Pétri er að hann vill virkja Hvalána í þágu Vestfirðinga, hann ætlar að byggja stöðvarhúsið inní fjallið en línurnar verða víst ofanjarðar, við höfðum nokkur skoðanaskipti um háspennulínur og ég benti honum á þetta ríkidæmi: Ófeigsfjörðinn, hvort hann vildi fá þar háspennulínur. Ef það er nauðsynlegt, sagði Pétur. Svo ég er nú að yrkja ljóð tilað benda Pétri á að það eru línur í Ófeigsfirði, hann virðist bara ekki sjá þær, það er línur fjallshlíðanna, gárurnar sem koma eftir selinn þegar hann stingur upp kollinum, ákveðnar línur í tófunni svo ekki fer á milli mála að þar er tófa á ferð, í sandinum var línulaga hjarta eftir hjartastein í flæðarmálinu, nú og svo leggur æðarfuglinn línurnar með úinu úr sjálfum sér sem er bæn til almættisins sem heitir þá sennilega ú Ú. Og svo sá ég ekki betur en fossinn í Húsánni væri hárprúð og gráhærð álfkona sem einsog allar álfkonur passar línurnar, - ég hef þá trú þegar Pétur kemur auga á allar þessar línur þá hættir hann við háspennulínurnar.

Mínkaveiðar og gæsaegg

Í gær fór ég á mínkaveiðar en fann í staðinn fjögur gæsaegg.

Fréttir úr Trékyllisvík

Í dag flaug svanur framhjá Finnbogastaðafjalli.
Í gær lentu tvær teistur á Árnesánni og létu sig fljóta niðreftir.
Í dag trítlaði mínkur yfir veginn hjá skólanum.
Í dag sást svanur stinga höfðinu ofaní Finnbogastaðavatn.
Í dag voru tveir grjóthnullungar á veginum í Skriðunum.
Í dag heyrðist til þyrlu í þokunni.
Í dag söng þröstur á kofanum hans Urðarkattar.
Í fyrradag komu sjö kindur inná túnið hjá skólanum, sex hvítar og ein svört og hyrnd.
Í gær stakk selur upp kollinum í Ófeigsfirði.
Í dag sást til spóa á kletti í Hellisvík.
Í dag hafði tjaldið gert hreiður við árbakkann.
Í kvöld er þoka langt niðrí miðjar hlíðar.

Bænahald

Það liggur allt á bæn á þessum degi,
kollan á hreiðrinu,
selurinn á klöppunum,
refurinn á bráðinni,
vargurinn á útkikkinu,
báturinn á sjónum.

Og veðrið: Himneskt.

Línurnar í Ófeigsfirði (í vinnslu)

Himinninn sker
Ófeigsfjörðinn
selurinn gárar
hafflötinn
vel málaður
æðarfuglinn
tófan teiknuð
í þarabunkann
maður dregur
bát að landi
hjartað strokið
í sandinn
gráhærð álfkona
í fossinum
passar línurnar.

14 maí 2009

Úr Ófeigsfirði

Sjórinn flauelsblár
bylgjast langt á haf út,
selur stingur upp kollinum,
æðarfuglinn úar,
hjartað mitt,
Húsáin einsog foss,
gráhærð álfkona
sem passar uppá línurnar.

Ófeigsfjörður

Það er soldið heilagt
að sigla inní Ófeigsfjörð
framhjá Seljanesi
sérstaklega ef stendur þar
stelpa á klöppunum
sextán ára og hefur
bara eitt að segja:
Ég veit hvað ég vil.

Sonur minn og tengdadóttir

Sonur minn og tengdadóttir
tóku mig til Indíánalandsins
til að sýna mér að ég er ekki lengur barn
og Indíánarnir ekki lengur Indíánar,

hvílík hryggð og undarlegheit,
en í staðinn varð til sælustund
við straumharða ána Ooouunalufte
þar sem við sátum kvöld eftir kvöld
og spiluðum tuttugu og einn,
elstu fjöll í heimi vaxin barrtrjám
þar sem leyndust skógarbirnir og fjallaljón.
Vetrarbrautin í allri sinni dýrð
og hláturinn þeirra.

Þessi á sagði stöðugt eitthvað
sem ég skildi ekki
því ég var ekki lengur barn
og ekki lengur Indíáni,
en ég fann samt að hljóðið
var það sama og í æðum mínum.

*

Vestanáttin

Ég var virkilega farin að trúa á vestanáttina þegar ég vakna upp í morgun við einmunablíðu og glaðasólskin.

13 maí 2009

Úrskurður hæstaréttar (Speki dagsins)

Betra er að vera étinn af ísbirni en ofurseldur ísbjarnarhræðslu.

Dögun

Í nótt gerðist svo lotningarfullt atriði að ég get varla andað þegar ég minnist þess. Ég vaknaði um hálffjögur og það var eitthvað að gerast útvið sjóndeildarhringinn, sviptingar, línur og birta, ég lagðist aftur í rúmið og dró gluggatjöldin frá, svo eftir smástund gerðist það: Sólin! Logarauð birtist uppúr djúpinu, hin fyrsta dögun heimsins.

Það var einsog hún lyfti sér upp og allt varð fallegt.

Um áttaleytið var þessi sama sól yfir Reykjaneshyrnunni og nú er hún yfir Finnbogastaðafjalli, hvað er klukkan þá... ha ha ha. Tólf.

Stórtíðindi: Óskar í Tígurholu

Hrafn og Elín keyptu sértilgerðar kattaholur fyrir kettina að kúra í, mjúkar og fínar, einsog fást í gæludýrabúð. Í nótt gerði Óskar sér lítið fyrir og kúrði sig oní holuna með tígrismynstrinu.

12 maí 2009

Elísabet kennir í Trékyllisvíkurskóla

Í skólanum eru tvær stúlkur, Ásta og Júlíana, þær eru alveg ótrúlega gáfaðar og sniðugar, ég fékk að kenna þeim örsögugerð í síðustu viku og í dag var ég að kenna þeim að skrifa leikrit. Það endaði reyndar með að þær kenndu mér meira. Loksins lærði ég eitthvað í þeim efnum!!! Svo fékk ég kjötsúpu í skólanum hjá Hrefnu í Árnesi sem ég held að kunni allt milli himins og jarðar, einsog tildæmis að búa til þráð þar á milli.

Krían er komin og segir krí krí, svo það er spurning hvenær Vííí komi og segi Ví Ví.

Það er yndislegt hér í Árneshreppi og nú er vestanáttin að ganga niður svo sennilega neyðist ég tilað fara útað labba en í gær labbaði ég útað Vatnslæk og viti menn!! Fann gyllta jólakúlu, og örpínulítinn dansandi krossfisk og sá stuðlaberg, rekaviðardrumba og fugla sem flugu upp þegar ég nálgaðist. Kettirnir kúra og bíða næturinnar, það virðist vera þeirra tími enda verður einhver að passa uppá nóttina.

Annars er ég að lesa heimsbókmenntirnar, Kurt Vonnegut, Sláturhús 5, sem ég hef aldrei lesið. Og svo eru leysingar.
Leysingar.
Já leysingar.... í mínu sálarlífi, ég finn hvernig sálin glitrar í þessum leysingum.

11 maí 2009

Regnboginn

Í dag LÁ regnbogi á hafinu, mestu makindum, áin mórrauð, hefur tekið fjöllin með sér og skolar þeim á haf út, - leysingar.

Fallegur skjálfti

Ég fæ alveg í hnén
við að senda þér þetta,
skjálfta í hendurnar,

en þetta er
fallegur skjálfti
og ekkert að honum.

Ég fæ líka soldinn
kökk þegar ég er
að tengja milli hjartans
og heilans, því heilinn vill
alltaf vera sér á báti,
snúast í hringi
og fattar ekki að hann
fær rafmagn úr hjartanu.

Heilinn vill gera hjartað
að eyðilandi, af því hann
er einsog venjulega að
uppgötva gereyðingarvopn,
þetta grey.

Svo það er ekki fyrr
en hendurnar spennast
saman að höfuðið
lútir höfði.

Ó, bergmálar
í kirkjunni,
sem er búin til
úr fjöllum, hamrabeltum,
öldunni sem skríður að landi,
marmaraflísunum,
fuglasöngurinn ómar
í kórnum.

Be kind

Sólin sveipar skýjunum frá,
rekaviður í fjörunni,
svanir á sveimi,
lóa, tjaldur, maríuerla,
eiga sín hreiður,
fálkinn í fjallinu,
sólvindurinn einsog
söngur og ég
er að lesa bókina
man without a country
eftir Vonnegut.

Be kind... be kind á túninu.

Elísabet kattahirðir -

Nú hef ég loks fengið virðulegan titil. Elísabet kattahirðir. Kúrt, Óskar og Bernharð. Þeir sofa uppí hjá mér í stað ísbjarnanna. Drekka úr glasi á borðinu eða í baðinu, svo dansa þeir á kvöldin, og vita nákvæmlega hvað þeir vilja, fisk. Ýsu, túnfisk, sardínur, fisk, meiri fisk.

Kúrt lét sig hverfa en skreið inn í gærkvöldi. Hann var að heimsækja læðu á Finnbogastöðum eða það þykir líklegast. Bernharð læðist í fjöruna á kvöldin, svart kvikindi sem skannar allt svæðið, Óskar gengur um einsog einhver á háhælaskóm, klikk, klakk, klikk, klakk. Og ég er að bíða eftir að þeir komi inn með kríu, lóu eða álft.

Vestankaldinn á oss blæs

Ég var komin á ansi gott ról hér í Árneshreppi, Trékyllisvík, Finnbogastaðaskóla, farin að skrifa samfelldan texta, lesa bækur, horfa á fuglana í flæðarmálinu og framleiða rafmagn með því að klappa köttunum, en svo kom jarðarförin, erfidrykkjan og meira og allt fauk upp í höfðinu á mér, allt riðlaðist fram og til baka, allskonar tilfinningabúnkar og hvað það var skrítið að tíminn hefði liðið og einhver hefði verið svona góður einsog Guðmundur, það minnti mig á afa Kristjón, en alla vega það blæs hér og blæs og blæs og blæs og blæs og blæs.

ÞAÐ BLÆS.

Best að liggja í rúminu í dag og lesa Kúrt Vonnegut.

10 maí 2009

Tíminn - sá miklu brellumeistari

*

We were here yesterday
so today its like time
has been playing his tricks.

*

09 maí 2009

Nýtt ljóð

Þetta djúpa
titrandi augnaráð
sem færði fjall
úr stað.

Elskaðu mig
núna.

Augað þitt
brotnaði
inní augað mitt,

á svo ekkert
að gerast.

Ég gæti rifið þig úr
skyrtunni og leyst
beltið frá.

Svo gætum við gift okkur,
sálir okkar sameinast.

Það var einsog ég vissi
ekkert hvar ég var.

Það var eitthvað mjög
hraustlegt við það.

Að missa allar varnirnar
og raunveruleikaskynið
í kaupbæti.

Í jarðarförinni

Þá grét ég yfir því einsog stendur einhverstaðar sem var gleði mín, um leið og ég sá kistuna minntist ég hlátursins hans Guðmundar og tárin trilluðu niður kinnarnar, þessi lífsgleði sem kom úr svo hreinu hjarta, alltaf svo saklaus og góður við mig einsog ég væri vængbrotinn fugl.

Og það var nefnilega kannski það, en svo líka þetta algleymi, algleymi hláturs og gleði, spratt fram rétt einsog hafaldan hérna fyrir utan. Enda skil ég ekki að hann skuli vera ofaní kistunni, ég skil bara ekki að hann skuli komast þar fyrir, slíkur var slátturinn í höndunum.

En það voru fallegir sálmar og söngur og hafi ég ekki skilið þennan stað áður, þá skildi ég hann þessa stund. Mér fannst einsog Guðmundur væri sjálfur að syngja.

Á leið í jarðarförina

Þung undiralda,
lækjarniður,
fuglakvak

rammað inn
af fjöllunum
í kring.

Áðuren ég lagði af stað í jarðarförina

Ég var eitthvað eitthvað pínu að hugsa áðuren ég lagði af stað í jarðarförina hans Guðmundar, svo settist ég niður í eldhúsinu og þá kom þessi setning í hugann: Taktu tilfinningarnar með.

Ljós í kirkjunni

Það logaði ljós í kirkjunni í alla nótt, hlýtur að vera fyrir lík Guðmundar í Ávík, maður veit svo lítið um svona hluti, en í kirkjugarðinum sést moldarhaugur héðan úr glugganum og fáni blaktir í hálfa stöng, hann blaktir ofur blíðlega og samkvæmt honum er norðanátt.

08 maí 2009

Dansað í Trékyllisvík

Ég dansa alltaf á hverjum degi og dansði hér í Trékyllisvík í kvöld við Óskar, Bernharð og Kúrt, þeir voru í sporum hins agndofa áhorfanda og tónlistin kom úr útvarpinu, harmóníkkulög.

Allt að kyrrast

Lóurnar eru enn í felum en það er hætt að snjóa, fjallið sést nú allt, snævi þakið, Finnbogastaðafjall og þetta undarlega sker, Kört, sem ég hef skírt uppá nýtt: Svarta ljónið. Það er bjart, klukkan er ellefu, ég steikti fiskbúðing og svoframvegis, las eina bók í dag eftir Paul Auster, jafn leiðinlegur og venjulega, kaldur og fjarlægur, að takast á við föður sinn ánþess að takast á við föðurinn í sjálfum sér. Sökkti mér svo niður í Fátækt fólk eftir Tryggva Emilison, ótrúlegar lýsingar á aðstæðum fólks, einsog ég segi, ég skil ekki hvernig fólk lifði þetta af og allt í jesú nafni og glaðværð. Það er fullt tungl. Og ég er á leiðinni í bað. Það er ljós í nýju kirkjunni og búið að vera dágóða stund.

Hreyfing við kirkjugarðinn

Útum gluggann minn sé ég hreyfingu við kirkjugarðinn, traktor og tveir bílar. Mér datt í hug að kannski séu þeir að taka Guðmundi vini mínum í Ávík gröf. Og það snjóar, snjófjúkið æðir áfram og það er hvítt niður í hlíðar, en um leið og ég gerði mér grein fyrir að hann Guðmundur eða lík hans yrði lagt ofaní kalda jörðina þá fylltist ég sorg því ég hef alltaf séð hann skellihlæjandi, beinlínis súpandi hveljur af hlátri yfir einhverju gleðilegu, þurfti ekki að vera merkilegt, eða þá að hann byrsti sig tilað skipa húskörlum sínum fyrir svo halda mætti öllu gangandi, þessi tilfinningaríki stórbóndi og þá tek ég líka eftir svona aftanítrukkbíl, það gæti hafa verið bíllinn sem kom í gær og kom með líkið, hlykkjaðist alla þessa löngu og fallegu leið, hrikalegu leið, og nú er ég orðin soldið orðmörg en það eru ekki nema fáein orð sem komast fyrir á legsteininum.

Og öldurnar æða að landi, einsog hvítfext stóð af frísandi hestum, æða uppí land og brotna.

Japönsk fiðrildi eða segl; eyrnalokkar

Mig dreymdi í nótt ég hefði búið til eyrnalokka, það voru japönsk tákn á þeim, í laginu einsog segl og efnið virtist vera úr fiðrildum.

*

07 maí 2009

Nóttin í nótt

Var farin að taka á taugarnar, öldurnar sleiktu húsið og ísbirnir æddu innum glugga og dyr, fékk aukþess martröð, fór á fætur, las meira í Kurt Vonnegut, - óuppgötvaður höfundur!!! Arfasnjall. Fékk mér te og vatn og talaði við kettina. Dreymdi Björn Jörund svo það er örugglega allt fyrir góðu. Hákarlaskipstjóri og poppstjarna, kúrði mig undir sæng, og enn meiri sæng, horfði útum gluggana, hugsaði mér að þetta væri vestanátt og engir ísbirnir kæmu í vestanátt en þetta reyndist þá vera norðanátt, standa beint af hafi...

Jarðskjálftinn

Einu sinni var kona sem lokaði sig inni í svarta húsinu og fór aldrei út, þá kom jarðskjálfti og sprunga í húsið og ljósglæta innum sprunguna.

06 maí 2009

Átta lóur og þoka niðrí hlíðar

Vaknaði klukkan sjö, þá var alhvít jörð og spor eftir ísbjörn frá glugganum mínum og að þvottasnúrunni en þar hafði hann hengt feldinn sinn til þerris eftir að hafa kíkt á mig sofandi og vöknað um augu, Ísbjarnardrottningin sjálf... þegar ég vaknaði klukkan ellefu hafði snjóinn tekið upp en þoka niður í miðjar hlíðar og átta bústnar lóur með jafnstórt bil á milli sín á túninu, spáin er víst slæm en fullt tungl á leiðinni.

Þegar ég var yngri

Ég var fjórtán þegar kom hingað fyrst, þá tilað heimsækja Illuga bróður minn sem var hér í sveit af því við Illugi vorum svo góð systkini, svo fór það allt fjandans til þegar ég byrjaði með Inga og þeir slógust á Suðurgötunni, en það hefur nú lagast auðvitað enda þrjátíu ár síðan, og margt runnið til sjávar síðan og komið aftur til baka, en ég varð skotin í Benedikt sem var kallaður Beni, í hans augum var ég algjör kettlingur, en hann var svo kátur, með leiftrandi brún augu og gullið sítt hár, ég hef tekið eftir því að ég verð oft skotin í mönnum ef þeir eru kátir eða léttlyndir, það er ekki bara þetta frozen good-look sem höfðar til mín, nei, kætin, léttlyndið sem leysir allt upp.

Svo kom ég aftur fimmtán ára gömul, það er soldið merkilegt að mér finnst ég aldrei hafa verið fimmtán, oft fjórtán og stanslaust sextán, samt var ég fimmtán ára þegar ég missti meydóminn í rúmi frá nítjándu öld.

En hvernig var ég þegar ég kom hingað fyrst, einhvernveginn léttari, einhvernveginn þyngri, vonglöð, áhyggjufull, allt í senn, rómantísk, innhverf, úthverf, gáfuð, einmana, sorgmædd og glöð, ég held ég hafi búist við því að lífið myndi sjá um mig. Og lífið hefur séð um mig en stundum hef ég séð um lífið.

Lífið góða lífið. Elskaðu lífið.

05 maí 2009

Rithöfundaafmæli í Trékyllisvík

Guð hefur sent mig á hjara veraldar tilað fagna tuttugu ára rithöfundaafmæli mínu, en 5.maí fyrir tuttugu árum kom út fyrsta bókin mín DANS Í LOKUÐU HERBERGI en nú ég að skrifa aðra bók í tilefni afmælisins og hún heitir Trans í lokuðu herbergi. Trans já. Það er enginn friður hér í Trékyllisvík, ísbirnir ganga á land, tildæmis þrír í nótt og kröfsuðu í gluggann en Óskar, Bernhard og Kúrt gáfu þeim túnfiskinn sinn svo þeir ætu mig ekki enda fannst þeim of mikið Trópícana bragð af mér, svo er hérna stanslaus fuglasöngur sem þagnar ekki, ekki nema þegar byrjaði að snjóa, þá varð smá þögn en jafnskjótt og fuglarnir höfðu þurrkað fjaðrir sínar byrjaði söngurinn aftur, svo er hér líka stanslaus þoka, ég hef ekki séð í fjöllin ennþá, hún er nú í miðjum hlíðum, svo er enginn friður fyrir bókum, ég er búin að lesa eina bók á dag og svo nokkrar meðfram, þess fyrir utan er ég búin að bjarga tveimur járnsmiðum úr baðinu og heimsækja kirkjugarðinn, forfeðurna og Félagsheimilið þarsem ég kyssti strák undir vegg fyrir 34 árum. 34árum!!!!! Hann var mjög sætur, það var sætasti strákurinn. Hann var þar ekki lengur, ég fann hann í kirkjugarðinum. En harmóníkkan hljómaði ennþá... og mitt sextán ára hjarta.

Leikritið mitt Eldhestur á ís kom auðvitað út á undan ljóðabókinni, það var árið 1987 að ég missti málið og leikritið ruddist fram. Ég var einmitt að fá höfnun frá útgefanda í dag, en undanfarna mánuði hef ég verið að skrifa sögu um geðhvörf. Geðhvörf já. Og aukheldur alkóhólisma, ástsýki og meðvirkni. Bara svona um venjulega stelpu sem af einhverjum ástæðum flúði norðurá Strandir. Partur af mér býr hér, ég þyrfti eiginlega að finna hann, ég finn hann sjálfsagt á rekanum en ég ætla að ganga rekann á eftir og athuga hvort skáldskapargyðjan er með skilaboð til mín á rekanum.

Ég framdi afrek á tölvunni áðan og fann netið uppá eigið umdæmi, svo mikið hef ég lært að Garpi og Jökli, en annars hefur Kristjón komið í hugann hér, ég var nottla alltaf að þvælast með hann hér, en ég var bláeyg og saklaus, og vongóð um framtíðina og ætlaði að gera eitthvað stórt, og þessvegna passar þessi höfnun rosalega vel. En sjálf er ég að skrifa þessa sögu Trans í lokuðu herbergi, og ætla svo að hafa útgáfukvöld með dansi og transi.

Ég flaug hingað í flugvél með kótelettur í poka og sat í 20 mínútna hugleiðslu í vélinni, tilbúin tilað deyja ef guð vildi það endilega en opnaði augun þegar Strandafjöllin blöstu við og þessir tveir sætu flugmenn hlógu að mér og sögðust aldrei vera hræddir við að deyja.

En nú er það semsagt rekinn. Og svo ætla ég að skrifa í þessari sögu, og kúra hjá köttunum, Óskari, Bernharð og Kúrt sem ég er hingað komin tilað passa, ég er kattapassari, háæruverðugur gæslumaður katta, nema að þeir séu að passa mig, málið er nefnilega að Vííí er á leiðinni í heiminn, tilvoanandi dóttir Hrafns og Elínar, og þessvegna er það hún sem hefur sent mig hingað.

En til hamingju með daginn Elísabet.

03 maí 2009

Úr sálarlífi mínu

Ég er bara alsæl og hamingjusöm, allt að smella saman, svo er ég að skrifa dásamlega sögu og ef einhver hefur tekið eftir einhverju sérstöku uppá síðkastið þá er það rétt. Ég er hætta að tala um og hugsa um og tönglast á og hugsa ekki um annað en um og hætta að þrástagast á. Einmitt, rétt, alveg rétt. Hinsvegar skulda ég skatta, fjögurhundruðþúsund, og á að borga þá í maí svo ég verð að fara kyrja, ekki seinna vænna, það er farið að birta, svo er Kristín að koma heim með hundana Zizou og Keano, það verður yndislegt. Áðan kom fullt af fólki í mat til mín og ég eldaði tvö læri, og þau voru bæði jafngóð og brúnuðu kartöflurnar sem mamma brúnaði. Ingunn og Garpur og Embla voru hér, Jökull var hér, Hrafn og Elín og inní henni Víííí. Svo þetta var mikill mannskapur og glatt á hjalla. Mig langar í göngutúr, ég er að fara til Trékyllisvíkur að passa þrjá ketti, það er soldið heilagt af því þar er mikið af æðarfugli sem minnir mig á að ég á eftir að skila blikanum, dúkkunni og blómasúlunni.

Ég elska lífið. Elskaðu lífið.

Þögnin mikla

http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=702414

Ef þið klikkið á þennan línk þá kemur opið bréf til háskólarektors útaf Kárahnjúkavirkjun, en það voru ekki bara pólitíkusar og bissnissmenn sem þögðu heldur fræðasamfélagið.

02 maí 2009

Skórnir í Malahide

Ég gleymdi skónum mínum, ég keypti þessa skó í Malahide og gleymdi þeim hér, ég veit ekki hvað ég var að gera hér, ég man það ekki en ég gleymdi þeim hér, hvort ég kom inní búð sem seldi arinstæði og gleymdi pokanum mínum hér, en ég sé núna að þetta er engin búð, þetta er gamalt hús og hér býr Töfrakona. Hún sendi mig í ferðalag og ég var mjög treg, því ég skildi ekki að það var einsog hún hefði átt von á mér, og svo fór hún sjálf að tala um skó sem hún hefði keypt í Malahide, en hún talaði svo hratt eða þá hvarf svo ég gat aldrei spurt hana. Ókei, byrjum aftur.

Ég gleymdi skónum mínum hér.

Skónum þínum.

Já, ég ætlaði bara að svipast um eftir skónum mínum.

Eru það þessir skór.

Já.

Ég keypti sjálf þessa skó.

Þú?

Já, þetta eru skórnir mínir.

En hvernig stendur á því.

*

Ég kom bara að leita að skónum mínum.

Eru það þessir?

Nei.

En þessir?

Nei.

Þessir, þessir, þessir, þessir.

Nei, nei, nei.

Hvernig voru þessir skór?

Einsog þú ert í.

Ég keypti þessa skó í Malahide.

Malahide?

Já.

Ég keypti þá líka í Malahide.

Og nú verður hulunni svipt af töfrakonunni. Hún er Ella. Ella bjó hana til. Til að gera sér grein fyrir því að líf hennar snerist ekki bara um leitina að skónum, eða að ýmislegt gat gerst ef maður týndi skóm bla blA

01 maí 2009

Lifi Elísabet

Ég reif bita úr veggnum í gær eða það er að segja ég hjó það með hamri, dúnk, dúnk, dúnk, ég fann að ég saknaði beggja herbergjanna, vinnuherbergis og eldhús en nú myndi koma nýtt, samt fannst mér einsog fortíðin myndi koma því þetta var svona einusinni, en það er frekar rólegt

fuglasöngur og umferðarhávaði, ég fór í sund í gær og uppgötvaði freknur á handarbakinu sem kunningi minn í heita pottinum sagði að væru LIVER-SPOTS. Þeir komu kannski útaf gamma-geislunum sem bárust til jarðar í vikunni, ég ætla vera með læri á sunnudaginn, og dúk á borðinu, ég var að horfa á MUNDU TÖFRANA ... MUNDU TÖFRANA... leikritið mitt,

ég held ég hafi fengið sjokk í vor þegar ég fékk einkunina fyrir það, 6 í einkunn, og hætt að framleiða prótín, ég sé nefnilega að þetta er merkilegt snilldarverk, manneskja að reyna að segja eitthvað, og allt þetta sem ég hélt að ég hefði skrifað of mikið og var að skamma mig fyrir var BRÁÐNAUÐSYNLEGT,... já lífsnauðsynlegt að skrifa, svo bara: Persónurnar þróast ekki neitt, ein persónan bæði dó, og þróaðist í allar hinar, og allar hinar persónurnar þróuðust í Ellu,

Ella var allstaðar og þá var voðinn vís. Þegar hurð raunveruleikans var sett allstaðar þá var hún orðin allstaðar, heimurinn orðinn hún og hún var í sjálfsmorðshættu eða dauðahættu, og hún í rauninni dó í þessu ástandi að vera allir, eða það er að segja eina leiðin út úr því að vera allir var að deyja, og svo dó hún,

Og en bjó sér til nýtt líf þar, lifnaði við, það var magnað að sjá persónur deyja og lifna við, ... einsog við erum að gera í lífinu, hún var í brotum, molnaði, brotin náðu ekki saman. Hún vildi ekki fara út, alveg sama hvað.

Og það er óhugnanlegt að sjá það í listaverki en sjá það bara í listaverkinu og annars ekki.

NÆSTA VERK FJALLAR UM AÐ KOMAST ÚT.

Ókei, metafóra, amma Þóra, en ég get líka alveg sagt ykkur frá því að það er þögn í húsinu fyrir utan tikkið í mér, umferðarniður fyrir utan gluggann, bráðum set ég í þvottavélina, fæ ég djús, tek til, gái á hottmeilið tuttugu sinnum, kannski fer ég í sund, ég er með strik á milli augabrúnanna, ég hugsa til barnanna minna, tengdabarnanna, ömmubarnanna oft á dag, og ég hugsa um hurðina, er ekki bara soldið krútt svona eyðibýlaleg og á ég að fara að selja bækur og hvar á ég þá að byrja.

Lifi Elísabet

Læst úti

Það kannski trúir því enginn að það sé sjúkdómur, eða sjúklegt ástand en ég læsti mig úti um daginn útaf þessari fíkn, ....

Skrítin tilfínning

Ég var að vakna, það er það nýjasta úr sálarlífi mínu sem er djúpt, nei grunnt, nei djúpt, grunnt, djúpt, fjólublátt, ég var að vakna og er með svona yfir höfðinu einsog blóðið fari allt uppí höfuðið, jafnvel þegar ég ligg út af.