Ég var fjórtán þegar kom hingað fyrst, þá tilað heimsækja Illuga bróður minn sem var hér í sveit af því við Illugi vorum svo góð systkini, svo fór það allt fjandans til þegar ég byrjaði með Inga og þeir slógust á Suðurgötunni, en það hefur nú lagast auðvitað enda þrjátíu ár síðan, og margt runnið til sjávar síðan og komið aftur til baka, en ég varð skotin í Benedikt sem var kallaður Beni, í hans augum var ég algjör kettlingur, en hann var svo kátur, með leiftrandi brún augu og gullið sítt hár, ég hef tekið eftir því að ég verð oft skotin í mönnum ef þeir eru kátir eða léttlyndir, það er ekki bara þetta frozen good-look sem höfðar til mín, nei, kætin, léttlyndið sem leysir allt upp.
Svo kom ég aftur fimmtán ára gömul, það er soldið merkilegt að mér finnst ég aldrei hafa verið fimmtán, oft fjórtán og stanslaust sextán, samt var ég fimmtán ára þegar ég missti meydóminn í rúmi frá nítjándu öld.
En hvernig var ég þegar ég kom hingað fyrst, einhvernveginn léttari, einhvernveginn þyngri, vonglöð, áhyggjufull, allt í senn, rómantísk, innhverf, úthverf, gáfuð, einmana, sorgmædd og glöð, ég held ég hafi búist við því að lífið myndi sjá um mig. Og lífið hefur séð um mig en stundum hef ég séð um lífið.
Lífið góða lífið. Elskaðu lífið.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli