19 maí 2009

Að flækjast svolitla erindisleysu

Í kvöld var ég boðin í mat til Hrefnu í Árnesi, hún sagði mér að áður fyrr hefði það verið kallaður flækingur að fara út fyrir hreppinn nema ef maður væri að fara til læknis. Ég man eftir þessu viðhorfi hjá Kristni á Dröngum sem lagði flæking og erindisleysu að jöfnu, hvort tveggja jafn fáranlegt. Sjálfur flæktist hann aldrei neitt nema einu sinni til Grænlands en þarsem hann var búinn að búa til stærðfræðijöfnu: Að Drangabændur færu á þúsund ára fresti til Grænlands komst hann hjá því að kalla það flæking.

Við Kristinn vorum náttúrulega aldrei sammála um neitt, það var það skemmtilega, og við vorum örugglega sammála um allt.

En ég var nefnilega viss um að ég hef verið send hingað í Árneshrepp af einhverjum sérstökum ástæðum, að ég ætti eitthvert sérstakt erindi, jafnvel að ég ætti að læknast en mér finnst stöðugt og endalaust að ég þurfi að læknast af hinu og þessu, ég þurfi að vera meira opin, meira lokuð, meira ákveðin, betri manneskja, losna úr fjötrum, kafa í sálardjúpið, og svo endalaust framvegis, ég sé ekki nógu góð.

Ertu orðin góð?
Ég er miklu betri.
En ertu orðin góð.
Ég fer að verða góð.

Svo ég hélt að ég hefði verið send út fyrir bæjarmörkin á Reykjavík tilað læknast hér í Trékyllisvík, en þá kemur bara á daginn að ég hef haft gjörsamlega rangt fyrir mér, ég er orðin góð, nógu góð, því um leið og hún Hrefna var að tala um þetta, flækinginn og erindisleysuna, þá rann upp fyrir mér ljós, ég var "að flækjast svolitla erindisleysu."

*

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Elísabet mín!
Njóttu þess bara að flækjast um í erindisleysu. Það koma alltaf einhver erindi út úr því eins og t.d. að koma bréfi eða súkkulaði á sinn stað, bera heim hjartasteina. Nú eða bara að hitta fólk og spjalla. Hlakka til að heyra frá þér.
Kv Hrefna

Nafnlaus sagði...

Hrefna!!!

Takk fyrir kommentið.

Já, það er nefnilega það, flækjast svolítið og losa um hugann.

Knús, Elísabet