Guð hefur sent mig á hjara veraldar tilað fagna tuttugu ára rithöfundaafmæli mínu, en 5.maí fyrir tuttugu árum kom út fyrsta bókin mín DANS Í LOKUÐU HERBERGI en nú ég að skrifa aðra bók í tilefni afmælisins og hún heitir Trans í lokuðu herbergi. Trans já. Það er enginn friður hér í Trékyllisvík, ísbirnir ganga á land, tildæmis þrír í nótt og kröfsuðu í gluggann en Óskar, Bernhard og Kúrt gáfu þeim túnfiskinn sinn svo þeir ætu mig ekki enda fannst þeim of mikið Trópícana bragð af mér, svo er hérna stanslaus fuglasöngur sem þagnar ekki, ekki nema þegar byrjaði að snjóa, þá varð smá þögn en jafnskjótt og fuglarnir höfðu þurrkað fjaðrir sínar byrjaði söngurinn aftur, svo er hér líka stanslaus þoka, ég hef ekki séð í fjöllin ennþá, hún er nú í miðjum hlíðum, svo er enginn friður fyrir bókum, ég er búin að lesa eina bók á dag og svo nokkrar meðfram, þess fyrir utan er ég búin að bjarga tveimur járnsmiðum úr baðinu og heimsækja kirkjugarðinn, forfeðurna og Félagsheimilið þarsem ég kyssti strák undir vegg fyrir 34 árum. 34árum!!!!! Hann var mjög sætur, það var sætasti strákurinn. Hann var þar ekki lengur, ég fann hann í kirkjugarðinum. En harmóníkkan hljómaði ennþá... og mitt sextán ára hjarta.
Leikritið mitt Eldhestur á ís kom auðvitað út á undan ljóðabókinni, það var árið 1987 að ég missti málið og leikritið ruddist fram. Ég var einmitt að fá höfnun frá útgefanda í dag, en undanfarna mánuði hef ég verið að skrifa sögu um geðhvörf. Geðhvörf já. Og aukheldur alkóhólisma, ástsýki og meðvirkni. Bara svona um venjulega stelpu sem af einhverjum ástæðum flúði norðurá Strandir. Partur af mér býr hér, ég þyrfti eiginlega að finna hann, ég finn hann sjálfsagt á rekanum en ég ætla að ganga rekann á eftir og athuga hvort skáldskapargyðjan er með skilaboð til mín á rekanum.
Ég framdi afrek á tölvunni áðan og fann netið uppá eigið umdæmi, svo mikið hef ég lært að Garpi og Jökli, en annars hefur Kristjón komið í hugann hér, ég var nottla alltaf að þvælast með hann hér, en ég var bláeyg og saklaus, og vongóð um framtíðina og ætlaði að gera eitthvað stórt, og þessvegna passar þessi höfnun rosalega vel. En sjálf er ég að skrifa þessa sögu Trans í lokuðu herbergi, og ætla svo að hafa útgáfukvöld með dansi og transi.
Ég flaug hingað í flugvél með kótelettur í poka og sat í 20 mínútna hugleiðslu í vélinni, tilbúin tilað deyja ef guð vildi það endilega en opnaði augun þegar Strandafjöllin blöstu við og þessir tveir sætu flugmenn hlógu að mér og sögðust aldrei vera hræddir við að deyja.
En nú er það semsagt rekinn. Og svo ætla ég að skrifa í þessari sögu, og kúra hjá köttunum, Óskari, Bernharð og Kúrt sem ég er hingað komin tilað passa, ég er kattapassari, háæruverðugur gæslumaður katta, nema að þeir séu að passa mig, málið er nefnilega að Vííí er á leiðinni í heiminn, tilvoanandi dóttir Hrafns og Elínar, og þessvegna er það hún sem hefur sent mig hingað.
En til hamingju með daginn Elísabet.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli