11 maí 2009

Fallegur skjálfti

Ég fæ alveg í hnén
við að senda þér þetta,
skjálfta í hendurnar,

en þetta er
fallegur skjálfti
og ekkert að honum.

Ég fæ líka soldinn
kökk þegar ég er
að tengja milli hjartans
og heilans, því heilinn vill
alltaf vera sér á báti,
snúast í hringi
og fattar ekki að hann
fær rafmagn úr hjartanu.

Heilinn vill gera hjartað
að eyðilandi, af því hann
er einsog venjulega að
uppgötva gereyðingarvopn,
þetta grey.

Svo það er ekki fyrr
en hendurnar spennast
saman að höfuðið
lútir höfði.

Ó, bergmálar
í kirkjunni,
sem er búin til
úr fjöllum, hamrabeltum,
öldunni sem skríður að landi,
marmaraflísunum,
fuglasöngurinn ómar
í kórnum.

Engin ummæli: