15 maí 2009

Ferð með Pétri í Ófeigsfirði

Pétur í Ófeigsfirði er auðvitað orðinn þjóðsagnapersóna í lifanda lífi, ég man eftir honum á Seljanesi, þá ættleiddi hann mig því honum fannst ég vakna svo seint á morgnana, sjálfur vaknaði Pétur alltaf við sólarupprás og var búinn að saga sex hundruð staura þegar hann kom klofandi yfir þúfurnar útað Seljanesi, þarsem ég og Guðjón vorum rétt að rumska á hádegi og Kristinn ef hann var vaknaður þá var hann ofaní Njálu. Pétur var líka að gera veg, það var nefnilega enginn vegur útí Ófeigsfjörð og Pétur gerði sér lítið fyrir, komst yfir jarðýtu og hóf að ryðja veginn sem er þannig núna að þrjátíu árum seinna streymir þangað jeppafloti landsmanna, Pétur myndi sennilega aldrei samþykkja neitt sem heitir þarsem vegurinn endar enda var hann bara rétt að byrja á veginum, Pétur hamaðist allan daginn á ýtunni í fjallshlíðinni meðan við héldum áfram að lesa Njálu og horfa útí loftið, og það síðasta sem er að frétta af Pétri er að hann vill virkja Hvalána í þágu Vestfirðinga, hann ætlar að byggja stöðvarhúsið inní fjallið en línurnar verða víst ofanjarðar, við höfðum nokkur skoðanaskipti um háspennulínur og ég benti honum á þetta ríkidæmi: Ófeigsfjörðinn, hvort hann vildi fá þar háspennulínur. Ef það er nauðsynlegt, sagði Pétur. Svo ég er nú að yrkja ljóð tilað benda Pétri á að það eru línur í Ófeigsfirði, hann virðist bara ekki sjá þær, það er línur fjallshlíðanna, gárurnar sem koma eftir selinn þegar hann stingur upp kollinum, ákveðnar línur í tófunni svo ekki fer á milli mála að þar er tófa á ferð, í sandinum var línulaga hjarta eftir hjartastein í flæðarmálinu, nú og svo leggur æðarfuglinn línurnar með úinu úr sjálfum sér sem er bæn til almættisins sem heitir þá sennilega ú Ú. Og svo sá ég ekki betur en fossinn í Húsánni væri hárprúð og gráhærð álfkona sem einsog allar álfkonur passar línurnar, - ég hef þá trú þegar Pétur kemur auga á allar þessar línur þá hættir hann við háspennulínurnar.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Tær snilld...það er svo magnað að lesa skrifin þín um Ófeigsfjörð og nágreni því að mér líður eins og ég sé á staðnum á meðan ég les. Takk fyrir það Elísabet ;) Kveðja Tabitha