18 maí 2009

Í fjárhúsunum

Ég kom í fjárhúsin í dag og er eiginlega í tilfinningalosti, allar þessar kindur og nokkur lítil lömb, og hún Linda dóttir hans Guðmundar á Finnbogastöðum leyfði mér að finna lyktina af þeim, það var sæt ólýsanlega fíngerð lykt, mmmmm.... ég hafði aldrei vitað það væri svona fín lykt af nýfæddum lömbum. Maður er alltaf bara hérna: Oh, hvað þau eru sæt. Og þau eru sæt. Og kindurnar, þær voru þúsund ára gamlar með þúsund ára gamlar tilfinningar, augun spennt af hyldýpri móðurlegri umhyggju, ég horfði bara í augun á þeim og gat ekkert sagt, ég bara kom ekki orði, svo fór Mundi að segja mér nýjustu sögurnar úr fjárhúsunum og ég sagði: Já, þetta hlýtur að taka á tilfinningalega. Mundi kveikti sér í Camel-sígarettu og sagði: Já, það gerir það.

Engin ummæli: