28 maí 2009

Svo gott að vera komin heim!!!

Ég elska að vera komin heim, það er dásamlegt, allt svo hreint og fínt líka af því Jökull og Kristín voru hér á meðan ég var í burtu og það var yyyyyndislegt að vita af þeim hér, og þau buðu mér í grillmat annan daginn sem ég kom. Og Jökull bjargaði líka lífi mínu með því að þegar ég hringdi sárþjáð af mígrenikastinu sem ég fékk (ég er alltíeinu komin með mígreni, þetta er allt að koma!) og þá var ég búin að hringja í 112 og á leið í sjúkrabíl, ef ég hefði haft sög hefði ég sagað hausinn af, en þá hringdi Jökull semsagt og ég grátandi í símanum og hann spurði: Er ekki best að fara skipuleggja útförina. Æ, nei, gólaði ég. Hvaða sálma viltu láta syngja? Hærra minn guð til þín, gólaði ég hærra. Og hvaða fleiri, spurði hann. Blátt lítið blóm eitt er. Ég get sungið það, heyrði ég að Kristín tengdadóttir mín sagði. En þetta er semsagt yndislegt og svo gott eitthvað og Framnesvegurinn er nú líka algjört æði. Nágranni minn sendi mér fingurkoss (við rekum sameiginlega þvottavél í skúr á lóðinni) en þetta sýndi hvað ég hef mikinn sjens allstaðar því hann er nottla 20 árum yngri en ég. Og svo fékk ég spes trítment frá stráknum á kassanum, ég er svona hrikalega ógleymanleg og yndisleg, og ekki nóg með það heldur fór ég á Alanon fund og allir þar: HVAR HEFURÐU VERIÐ!!!????!!! Líka þær sem ég átti að vera sinna sérstaklega og leiða í gegnum sporin. Garpur og Ingunn og Embla eru á sínum stað og ég búin að panta að fara niðrí fjöru með Emblu á laugardaginn að finna galdrafjaðrir og skrítna steina, bara eins gott að verjast kríunni, ég skyldi nefnilega stafinn minn sem Maddý gaf mér eftir hjá Hrafni og Elínu en þess má geta að ég fékk að sjá Vííí í dag í fyrsta sinn, hún var á leiðinni norður með fríðu föruneyti, móður sinni og tveimur dætrum Önnu Jakobínu. Hún var alveg ótrúleg og fín hún Vííí, hún er eiginlega alveg einsog pabbi sinn, nema hún er líka örlítið lík Mána, þessi ákveðni svipur yfir augunum, en hún er mikill karakter og guðsblóm hér á jörðinni. Hún var líka í prjónuðum gallabuxum sem móðir hennar hafði prjónað handa henni. Ég er bara búin að sitja og yrkja síðan ég kom heim, ryksuga smá og fara í bað og svona, kaupa engifer og Elísabet er yndisleg og alveg stórkostlega mikið krúttvesen í veröldinni. Velkomin heim töfrasnillingur.

ps. Svo ætlaði ég að stinga uppá smá verkaskiptingu hér á blogginu - ég geri nefnilega allt, bæði blogga og kommentera. Svo ég ætlaði bara að segja frá því að ég hef óskaplega gaman þegar ég fæ komment frá öðrum og takk fyrir það. Endilega kommentið.

Engin ummæli: