08 maí 2009
Allt að kyrrast
Lóurnar eru enn í felum en það er hætt að snjóa, fjallið sést nú allt, snævi þakið, Finnbogastaðafjall og þetta undarlega sker, Kört, sem ég hef skírt uppá nýtt: Svarta ljónið. Það er bjart, klukkan er ellefu, ég steikti fiskbúðing og svoframvegis, las eina bók í dag eftir Paul Auster, jafn leiðinlegur og venjulega, kaldur og fjarlægur, að takast á við föður sinn ánþess að takast á við föðurinn í sjálfum sér. Sökkti mér svo niður í Fátækt fólk eftir Tryggva Emilison, ótrúlegar lýsingar á aðstæðum fólks, einsog ég segi, ég skil ekki hvernig fólk lifði þetta af og allt í jesú nafni og glaðværð. Það er fullt tungl. Og ég er á leiðinni í bað. Það er ljós í nýju kirkjunni og búið að vera dágóða stund.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli