30 júní 2009

Ella Stína Jackson og Michael Jökulsdóttir

Ég er búin að lesa allt um Michael Jackson uppá síðkastið nema ég stillti mig um að hlusta á síðasta samtalið en stóðst ekki mátið að kíkja á síðustu myndina af honum en bað svo guð fyrirgefningar á þessari óþarfa hnýsni. En ég er búin að bjóða börnunum hans að koma hingað á Framnesveg í fóstur ef þau vilja, þau mundu örugglega kunna vel við sig, þó veit ég ekki með garðinn, þau mundu kannski slá hann fyrir fósturmömmu sína, og ég bíð spennt eftir að heyra um nýju lögin, en eftir öllu þessu að dæma virðist maðurinn hafa verið alkóhólisti ogeða fíkill, og dauði hans slys. En alkóhólistar lenda einmitt mjög oft í slysum, fjölskyldan ætlaði að svipta hann forræði og koma honum í meðferð en það tókst ekki, kannski hefði verið hægt að bjarga lífi hans, svo hefur hann örugglega verið skíthræddur við yfirvofandi tónleika en ég kannast við það, ef ég hef ekki komið fram lengi finn ég miljón ástæður tilað sleppa því, eða ef ég hef ekki selt bækur lengi, einsog ég hef ekki selt bækur í tvö ár og verið ógeðslega blönk en í gær fór ég og seldi bækur og það var mjög gaman að hitta fólk og heyra allskonar setningar sem hrutu af vörum þess, og selja bókina, - en það sem ég ætlaði að segja útaf því að það átti að svipta Michael forræði að ég var einu sinni svipt forræði og sett inná Klepp, þá var ég tvítug og hafði lent í tveimur áföllum sem virtust kalla fram sjúkdóminn geðhvörf, maníu nánar tiltekið þarsem ég gekk um göturnar í kyrtli og fannst ég vera Jesú og ætti að frelsa heiminn en mamma vildi ekki láta frelsa heiminn svo hún setti mig inná Klepp og það bjargaði örugglega lífi mínu, annars hefði ég getað lent í slysi.

29 júní 2009

Já, ég veit það

Í hvert skipti sem einhver segir við mig:Þú ert svo mikið fórnarlamb, - það er reyndar bara einn maður sem segir það við mig, Garpur sonur minn, þá tek ég heilshugar undir það og segi: Já, ég veit það, ég er svo mikið fórnarlamb.

Pytturinn

Fórnarlambið var fast í pytti sem örlögin, - eða bensínafgreiðslumaðurinn höfðu skapað því, og kannski bara bensíntankurinn því afgreiðslumennirnir sjást ekki lengur.

28 júní 2009

Hvernig má þekkja fórnarlambið?

Fórnarlambið ber sig yfirleitt mjög mannalega, það er að leita að smugu!

Regla fórnarlambsins

Fórnarlambið þarf ekki að fara eftir reglum.

Það er bara ein regla í lífi fórnarlambsins: Ég á bágt.

Og það er ekki regla.

Fórnarlambið "hlýðir" samt þessari reglu,

og "refsar" þeim sem brjóta hana.

*

Gróði og tap fórnarlambsins

Hvað er fórnarlambið að forðast með því að leika fórnarlamb?

Og hvað ávinnur það sér með því að leika fórnarlamb?

STÓRU SPURNINGARNAR::::

Fórnarlambið forðast ábyrgð, ... að taka ábyrgð á tilfinningum sínum, það verður sárt en ekki reitt.

Og það ávinnur sér virðingu fyrir að útmá sjálft sig og taka þátt í leiknum með öllum hinum fórnarlömbunum.

Fimm viðhorf fórnarlambsins

1. Þarf ekki að vera heiðarlegt. (Það á svo bágt.)

2. Þarf ekki að veita öðrum athygli. (Það getur það ekki.)

3. Þarf ekki að sýna hlýju. (Því er svo kalt.)

4. Þarf ekki að taka ábyrgð á að fullorðnast. (Það átti svo erfiða æsku.)

5. Þarf ekki að vera spontant. (Það gæti komist upp um það og þessvegna hugsar það frammí rauðan dauðann.)

Skoðum þetta nánar:

Á fórnarlambið bágt? Er það getulaust? Er því kalt? Átti það erfiða æsku? Getur komist upp um það? Þarf það að hugsa?

Nei, ekkert af þessu stenst. ÞETTA ERU ALLT BLEKKINGAR.

*

Og fyrir þá sem hafa ekki vit á raunveruleikanum þá eru blekkingar hluti af raunveruleikanum, þær standa ekki ofan við eða til hliðar við raunveruleikann, þær eru partur af honum.

Eftir öllu þessu að dæma lifir fórnarlambið stórkostlegu lífi (þrælskipulögðu og útsmognu) svo það er engin ástæða tilað hætta að vera fórnarlamb. Eða hvað, framhald í næsta bloggi.

Viðhorf fórnarlambsins

Tilfinningar byggjast á viðhorfum svo það er spennandi að athuga í þessari smásjárrannsókn hvaða viðhorf fórnarlambið hefur til lífsins, það vill tildæmis láta standa stórum stöfum: FÓRNARLAMB. F-Ó-R-N-A-R-L-A-M-B.

Fórnarlambsskoðun

Ég hef beðið guð um að leyfa mér að sjá fórnarlambið í sjálfri mér. Þetta er mjög erfitt blogg, ég strika út hverja setninguna á fætur annarri, fórnarlambið vill ekkert láta sjást, það vill bara vera hresst og yfirborðskennt, ég meina er það bannað, og sýnast gáfað og skemmtilegt, það vill ekki vera að væla á bloggsíðum heimsins, þá gæti komist upp um það og það misst öll völd. Svo ég veit ekki hvað ég á að skrifa. FÓRNARLAMBIÐ!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Heyrt á kaffihúsi

Það er bannað að veiða í hafi gleymskunnar...

27 júní 2009

Nefið

Ég fór í fegrunaraðgerð í dag, ég komst loks að, biðlistinn var víst mjög langur, ég byrjaði á því að láta laga á mér nefið.

26 júní 2009

Salt frá Enkeladusi

Á Enkeladus einu af tunglum Satúrnusar hefur nú fundist salt sem bendir til lífs eða að það geti þróast. Þetta minnir mig á saltkrúsina sem ég erfði frá afa og ömmu á Reynimel, hún er hvít úr postulíni með tréloki og bláu blómi. Þegar ég var lítil þá var þar örugglega salt frá Enkeladusi.

Söngur er heillaráð

Ætlaði bara að minna á það að þegar maður byrjar að hugsa er heillaráð að syngja.

Michael Jackson dáinn...

En fallega tónlistin hans lifir, algjört undrabarn og villingur og meistari sveiflunnar, tónlistin hans svo ...........klikkuð og falleg, og maður verður að DANSA!!!

If you aint got the swing, it aint mean a thing!!!!!!!!!!!!

Það var annað undrabarn hann Garpur sem kynnti mig fyrir Jackson og bræddi niður fordómana. Nú er ég að spila BILLY JEAN.

25 júní 2009

Sturlunga er gamansaga

Ég er að lesa Sturlungu, ég ákvað nú að taka þetta létt, ég var orðin svo leið á öllum þessum körlum sem segja: ÞAÐ ER VOÐALEGA ERFITT AÐ KOMAST INNÍ STURLUNGU. Svo ég les hana bara einsog hverja aðra bók, og þegar ég var komin að fjórtánda húskarlavíginu uppgötvaði ég að þetta hljóta að vera gamansögur.

Og meiraðsegja eftir voðaatburðinn: Flugumýrarbrennu þarsem Gizzur faldi sig í sýrukerinu, þar segir: Það var kalt í sýrunni.

Ha ha ha ha ha...

Ég heyri hlátrasköllin í samtíðafólki mínu á landnámsöld... "kalt í sýrunni...." ha ha ha.

Jarðskjálfti

Það kom jarðskjálfti þegar ég var uppí rúmi að lesa Sturlungu, ég hugsaði: hvað er að gerast, og hélt áfram að lesa Sturlungu.

24 júní 2009

Mömmuröskun eða mótstöðuþrjóskuröskun

Þegar ég fór í Listaháskólann ákvað ég að ganga bekkjarfélögum mínum ekki í móðurstað en það hafði ég reynt frá barnsaldri, ég gekk foreldrum mínum í móðurstað (þau tóku að vísu ekki eftir því) bræðrum mínum, litlusystur, afa mínum, Íslandi, manninum mínum fyrrverandi og auðvitað reyndi ég að ganga s0num mínum í móðurstað....bíddu þessi var lúmskur!!!

Hlutverkið var að fara með mig þegar ég byrjaði í skólanum en ég var að velta því fyrir mér áðan hvaða hlutverk hafi tekið við, hvort það hafi semsagt verið mótstöðuþrjóskuröskun, eða hvers vegna fékk ég 6.0 í meðaleinkunn, sennilega af því ég er snillingur og rekst ekki í svona meðalmennskustofnun.

Ég var að hugsa um þetta á leiðinni úr sundi, eða í sund, því ég er alltaf að hugsa um að mig langar svo að kaupa heilu kassana af grillmat og gefa sonum mínum og tengdadætrum, alltaf að hugsa um að passa barnabarnið, hundana, og eitthvað fleira, vera góð, næs, skemmtileg, næs,áhugasöm og vitur með ráð við öllu á hverjum fingri. (Ég gat ekki einusinni gefið tengdadóttur minni almennilegt ráð með að steikja læri þótt ég hafi steikt hundrað læri.) Og þá fékk ég alvarlegt tilfelli af mömmuröskun þegar ég sms-aði syni mínum eftir jafnteflisleik: Hlakka tilað heyra um leikinn!!! En draumurinn um grillmatinn virkar ekki nú um stundir, í fyrsta lagi á ég engan pening fyrir grillmat og í öðru lagi er ég ekki næs og vitur nema einn dag í einu og þá yfirleitt bara smá parta úr deginum.

Svo ég var að hugsa um að gerast mamma sjálfrar mín, (þótt ég eigi bestu mömmu í heimi) en ég var að hugsa svona mömmu sem segir, settu á þig bodylotion, kveiktu á reykelsi, fáðu þér vítamín, en þá mundi ég eftir einu: Ég er uppkomin, og þarf því ekki mömmu nema rétt svona að heyra í henni og hlusta á hana segja mér að ég sé með OF SÍTT HÁR. (Alvörumamma mín!)

Svo mömmuröskunin er dated, og mótstöðuþrjóskunin er líka dated... úr gildi... komin fram yfir síðasta söludag, - svo í hvaða hlutverki á ég að vera.

Kannski kærleikskrúttina, kynnast mér einn dag í einu, því ég er ég enn að kynnast sjálfri mér eða einsog frægt er orðið: Daginn sem hún kynntist sjálfri þér.

Hvenær kynntist þú Elísabetu?

Já, ég kynntist henni tildæmis í gær þegar hún bað guð um að taka frá sér allan hræðsluáróðurinn sem hrannast upp í höfðinu á henni og guð einn virðist geta tekið burt.

Ég á von að kynnast henni næst þegar hún sættir sig við að guð einn geti tekið þetta í burtu.

Annars er hún dásamleg manneskja. Jamm.

*

Því má bæta við að ég labbaði í sund, fór í pottinn, synti hálfan kílómeter, aftur í pott og á leiðinni heim fann ég fyrir hamingjuna. Frekar erfið sundferð!!! Þurfti á sundenglum að halda. Samt sá ég vatnið glitra á botninum einsog alltaf er svo fallegt. Og ég spurði guð í sambandi við hugsanir mínar sem gerðu árás í sundinu: Verður þetta alltaf svona. Guð svaraði engu, guð er svo leyndardómsfullt, annars er ég mjög þakklát, það virkar alltaf, en ég er með svona heila sem er einsog tunglið að því leyti að stundum er þakklætið minnkandi og stundum er þakklætið vaxandi.

Það getur gert mann soldið upptekin af sjálfum sér.

Þessvegna er ég að fara með stelpu í gegnum annað sporið. Fjúkkett!!!

Það minnir mig á að ég kynntist Elísabetu best þegar hún sætti sig við það að það að hjálpa öðrum hjálpar henni sjálfri jafnvel þótt hún þurfi að labba alla leið uppá Hverfisgötu.

HELJARSKINNIÐ.

23 júní 2009

Minn haus

Ég hallast að því að guð sé eina lausnin, allavega við mínum haus.

*

Þúsundasti gesturinn???

Virðist hafa brotist inní heimsveldið síðan 18.maí... samkvæmt mínu tímatali en best að vaska aðeins upp. Og niður.

22 júní 2009

Skap? Skap.

Skap. Ég þarf að skrifa aðeins um skap. Ég sá að Ómar Ragnarsson skrifar á móti þeim sem honum sýnist. Mér er alltaf ráðlagt að biðja fyrir öllum. Er það málið? Þetta er ekki alveg svona einfalt en ég er orðin soldið syfjuð svo meira á morgun um skap.

Ást á færibandi

Í dag er 22.júní og þetta er 44.færslan svo þetta er fimmtíu prósent árangur í bloggi, og takk fyrir öll kommentin. Biturleiki. Svítan í höfðinu á mér er uppbúin og galdranornin sem segir sögurnar er núna að hvetja mig tilað verða nunna. Nunna. Já og notaðu smjör á brauðið. Þetta er saga til næsta bæjar og enn er bjart og bráðum er Jónsmessa og þá gisti ég einusinni uppá fjalli með Þuru vinkonu minni, það rigndi um nóttina en útsýnið gott um morguninn og hvenær fer Breiðafjarðarferjan og mér er ekki alveg sama um allt en ætla að klára söguna. Bless og ást á færibandi.

Þerapía Elísabetar

Það var ótrúlega hressandi að færa aðeins til í bókaskápnum. Ég ætti kannski að opna þerapíu Elísabetar.... Farðu heim og breyttu í bókaskápnum. Fimm þúsund kall. Nei sjö.

Sundferð

Ég ætlaði bara í heitu pottana sem var ljúft tilað ná úr sér ljóðaþreytunni en synti svo líka 500 metra og það var yndislegt og lífið er yndislegt og fékk mér prótíndrykk þegar ég kom heim:

2 msk Mangoini úr sjö ávöxtum
1 mæliskeið Prótín með jarðaberjabragði
1 glas af nýkreistum appelsínusafa

Hristist í mixernum og súpist... glæsilegt!

Eitt fegursta hrósið

Kristín og Jökull komu hér um daginn og spurðu hvort ég ætlaði ekki að fá mér hund því einsog Kristín bætti við "væri ég svo góð með hunda".

Þreyta skáldsins; hafnanir og silfurskeiðar

Ég er ógeðslega þreytt, búin að yrkja 103 ljóð um Árneshrepp og veit ekki hvað ég á að gera við það. Á þessu ári á ég 20 ára bókarútgáfu afmæli en þá kom út ljóðabókin Dans í lokuðu herbergi. En viti menn, ég fékk starfslaun í þrjá mánuði sem hrekkur ansi skammt!!! Og þar að auki búin að fá eftirtaldar hafnanir:

Eina frá útgefandanum.
Eina frá Bókmenntasjóði.
Þrjár frá Prólógus.
Eina frá Borgarleikhúsinu.
Eina frá Rannís.

Og kannski einhverjar sem ég er búin að gleyma.

Þetta er nokkuð glæsilegt og vinur minn segir að bak við eitt silfurskeiðasett séu fimmtíu hafnanir enda brá mér nokkuð í brún að heyra að Árnastofnun vill nota textann úr Lásasmiðnum. Og svo vilja tvær konur fá mig tilað skrifa leikrit um konu. Engin borgun í hvorugu tilvikinu.

Samt sem áður kann ég ekki vel við svona aðsókn og aðdáun, betra væri að fá fleiri hafnanir því ég er að safna uppí silfurskeiðasettið.

Alheimsskipulagið

Ég var að koma, ég var í Trékyllisvík, braut upp mynstrið, hef farið þangað á sautján ára fresti, en nú liðu bara nokkrar vikur en ekki sautján ár, hvað gerist þegar alheimsskipulagið riðlast?

18 júní 2009

Uppsveifla?

Ég skrifaði hér um daginn um niðursveiflu, það er spurning hvort hún sé búin og uppsveifla tekin við, mér datt það í hug vegna þess að ég setti tónlist á fóninn í dag, fyrst Michael Jackson og núna La Hhasa.

Samkvæmt rannsóknum stóð niðursveiflan í tólf daga.

Yndislegur dagur

Þetta er búið að vera yndislegur dagur, (þeas. 17.júní) Í hádeginu komu Zizou og Keano í heimsókn í fyrsta sinn til ömmu sinnar og ég fattaði ekki einusinni að ég ætti kjúkling inní skáp handa þeim, en verð hér eftir að eiga harðfisk og auðvitað fullan frysti af frostpinnum handa Emblu Karen. Hundarnir rannsökuðu hér allt hátt og lágt og það var svo yndislegt að fá þá.

Svo orti ég tíu ljóð, setti í tvær þvottavélar, og þurfti aðeins að taka skoðun á tilfinningar mínar svo þær færu ekki með mig útí móa.

Um kvöldið fór ég á fund, það var yndislegt.

Hitti svo Garp og drakk með honum kakó og það var yndislegt. Lífið er yndislegt.

Og ég er svo þakklát.

17 júní 2009

Ástin er lógísk

Það er hausinn sem er órökréttur - einsog þegar ég heyrði "guð blessi ísland ræðuna" datt mér helst í hug að netið færi veg allrar veraldar. En hjartað er rökrétt, segir mamma, "ástin er lógísk" Ég man ekki afhverju mér datt þetta í hug í dag.

Í framhaldi af þessu minni ég á það sem stærðfræðingur sagði: að stærðfræði væri reiknuð með hjartanu.

*

Sökudólgarnir fundnir

Gott að hafa 17.júní, þá er hægt að finna sökudólgana og hengja þá á Austurvelli: Útrásarvíkingana.

Um þetta má lesa í ræðu Jóhönnu forsætisráðherra, annað eins samsafn af innantómum og ofnotuðum frösum er vandfundin, festa og samhugur, festa og samhugur... getur manneskjan ekki einu sinni sagt festuhugur eða "förum í samfesting"... svona rétt tilað fá okkur tilað líta uppúr mókinu.

16 júní 2009

Hið dulda samhengi tilverunnar

Skyldi vera samhengi á milli hrunsins og uppgöngu þjóðarinnar á Hvannadalshnjúk??

Ronald 1 árs

Ég fór í sund í gær og vann í ljóðahandriti, hitti Erlu í pottinum, hún er svo skemmtileg, synti hálfan kílómeter og er með verk í sinunum í dag, ég er með svo skakka fætur og skakkt hjarta, fékk mér kjúklíng úr Melabúðinni svo svöng eftir sundið, labbaði heim og fór að yrkja nokkur dásamleg ljóð. Vaskaði upp og setti í þvottavélina. Bauðst að lesa upp ljóð á skákmóti norður í Djúpuvík en verð að afþakka það nema einhver sé á leiðinni sama dag, ég get ekki alltaf verið á ferðinni eða get ég það?

Karl Ágúst og Sunna eru að gifta sig í dag, hann er skólabróðir minn úr LHÍ og þau halda mikið brúðkaup og eru sæt og yndisleg. Tilhamingju.

Ronni er 1 árs í dag!!! Ronald Mánason en Máni er sonur Hrafns og uppáhaldsfrændi minn og líka pabbi Aþenu. Ronni er algjör húmoristi og flottur karakter og sætur. TIL HAMINGJU RONNI.

14 júní 2009

Kveðjur frá Kvöld-stelpunni

Sko, svo er alltaf sagt: Það fólk hefur guðsgáfu og englarödd og er svo himinhrópandi heppið sem vaknar á MORGNANA svo glatt og kátt, - en það er aldrei talað vel um það fólk sem getur ekki farið að sofa á kvöldin af því það hefur þessa náðargáfu að þykja lífið svo yndislegt að það getur varla hugsað sér að fara að sofa á kvöldin.

Það er mornga-dýrkun í þessu samfélaginu.

Bestu kveðjur frá Kvöld-stelpunni.

Hugleiðingar á sunnudagshádegi

Afhverju má maður ekki vera í smá þunglyndi á morgnana og hugsa lífið er búið og það er eitthvað að mér og ég er komin með þetta eða hitt sem er að mér og best að sofa aðeins lengur, en á kvöldin þá gæti ég alltaf vakað lengur og ort frameftir og allt svo yndislegt og ekkert að mér.

Ég tek þrjár líþíumtöflur á kvöldin og tvær á morgnana, ég ætti kannski að svissa skammtinum, eða breyta um svefnherbergi.

En það er eitt merkilegt í þessu, hvað þessar "raddir" eru sannfærandi, röddin sem vill ákaft yrkja frameftir og hin sem vill sofa frameftir.

Fréttir af Framnesveginum

Í dag keyrðu hundrað bílar framhjá húsinu mínu eftir Hringbrautinni.

Í gær birtist jarðýta í garðinum og byrjaði að grafa fyrir drein í næsta garði.

Í dag er skólaleikvöllurinn tómur enda sunnudagsmorgun.

Í dag eru fuglarnir hljóðir enda rigning.

Í dag hef ég engan séð labba framhjá húsinu mínu.

Í dag bærast laufblöðin á trénu fyrir utan gluggann ofurhægt og á þeim er regndropi.

Í dag sé ég manneskju í bláum jakka á umferðarljósunum með hund.

Í dag þarf ég að fara útí skúr á næstu lóð og ná í þvottinn og hengja upp.

13 júní 2009

Hollywood

Ég man hvað ég varð leið þegar allt þetta 2000 byrjaði og það var ekki lengur 1956 eða 1985 eða nítjánhundruð eitthvað. Þetta gekk yfir á einhverjum tíma en ég semsagt saknaði tuttugustu aldarinnar, hún var horfin í aldanna skaut... 19oo og eitthvað búið og ég saknaði þess og ég man ekki eftir neinni umræðu um þetta, enginn virtist sakna þess einsog ég, allavega var ekki talað um það... svo leið þetta hjá, lífið hélt áfram, af því núna er ég er í 50 ára krísu og finnst ómögulegt að ég verði fimmtíu og eitthvað, 51 árs, og svo 52... og allt hitt sé búið, og svo dvel ég við þessar hugsanir einsog ég sé útí lautu með kakóbrúsu en þá er ég í sófanum að hugsa um þetta, ég 51 árs og eigi bara tíu ár eftir, þá sé allt búið, þetta er nottla allt í höfðinu á mér, ég fékk líka svona hugsanir þegar ég var tvítug og þrítug, ég spurði annan tvíburann sem varð 25 ára um daginn hvort hann fengi svona hugsanir en hann sagði ekki, ókei takk fyrir það, ég á svona vel heppnuð börn því þessar hugsanir eru bara dragbítar og það er sennilega bara þakklætið sem virkar á þetta, af því ég hef átt alveg stórkostlegt líf, miklu stórkostlegra en mig óraði nokkurn tíma fyrir en núna langar mig svo til Hollywood að verða uppgötvuð þar, ... kannski var það gamli æskudraumurinn, kannski ætti ég að fara til Hollywood, er það nokkuð vitlaust, eða kannski þarf ég að hugga manneskjuna sem kvaddi aldrei Hollywood draumuinn, ég trúi því ekki að ég sé að skrifa þetta, það er önnur manneskja byrjuð að skrifa í gegnum mig, þetta er ekki ég, ég vil allavega ekki viðurkenna það, já hún yfirgaf ritvöllinn og fór til Hollywood.

Ljóð

Ég sé að þessi rannsókn er ljóð.

Rannsókn

Ég ligg í sófanum og hugsa um líf mitt.

Ég sit við tölvuna og fletti fram aftur.

Ég fer fram í eldhús og gái hvort það sé eitthvað í ísskápnum.

Ég leggst inní litla herbergið og hugsa um líf mitt.

Ég slæ þrjár nótur á píanóið.

Ég kíki útum gluggann á gröfuna í garðinum.

Ég hugsa með mér að þetta sé allt ómögulegt og ég ætti að vera gera eitthvað annað.

12 júní 2009

Getgáta

Ég er sennilega einmana, mig langar að tala við einhvern eða öllu heldur heyra í einhverjum.

Sveifla

Sl. sunnudag varð ég vör við sveiflu niður á við, hún kom fram á mælum og hefur nú staðið í sex daga og ég er að fylgjast með hvort sveiflan fari uppá við.

Að rannsaka hrunið

Við erum hér í fílabeinsturni og höfum ekki orðið varir við neitt hrun, tjáði forstöðumaður Snorrastofu mér í gær þegar ég heimsótti Reykholt en þar er verið að rannsaka Sturlungaöldina í allri hennar dýrð, ágjarna höfðingja, útrás, leynimakk og hagsmunahjónabönd. Það eru áttahundruð ár síðan. Og þeir eru enn að rannsaka hrunið.

*

09 júní 2009

Brekkur og sorg

Sko, einu sinni var ég að fara upp brekku, Eyrarhálsinn, og bíllinn var næstum farinn útaf, þung Saab-bifreið, eða ofaní foss. Kristjón sonur minn bjargaði lífi okkar með því að kenna mér að taka af stað í öðrum. En síðan - og það eru sextán ár síðan - hef ég verið hrædd við brekkur. Ég hef forðast brekkuna hjá gatnamótunum þarsem beygt er inná Loftleiðahótelið (sem er engin brekka) og brekkuna þarsem maður beygir í átt að Perlunni og tönkunum (sem er ekki mikil brekka og varla það) En svona keyrði ég um bæinn og forðaðist allar brekkur, lagði á mig óþarfa krók tilað forðast brekkur... en svona hafði þessi atburður farið með sálarlíf mitt, en svo tók ég mig á og sagði sjálfri mér ég kynni að keyra, ég yrði að treysta og nú fer ég þessar brekkur þótt ég myndi aldrei fara brekkuna frá Norðurfirði útað Krossnesi, það er ekki brekka heldur níutíu gráða halli, en svona geta atburðir sest að í sálarlífi manns og sest þar við stýrið svo ýmislegt fer framhjá manni og óttinn tekur völdin.

Þetta er einsog með dauða föður míns sem hefur tekið þrjátíu ár að syrgja, og nú gæti ég næstum gubbað yfir þessari sorg sem getur varla talist sorg heldur hefur stýrið einfaldlega fest.

*

Norðurljósin veita þjónustu í kvöld

Ef fólk sækir vöru og þjónustu beint til náttúrunnar, t.d. með því að horfa á
norðurljósin í stað þess að fara í bíó,

eða týnir villta sveppi í stað þess að kaupa ræktaða, þá
er eftirspurn heimilanna eftir vöru og þjónustu svarað
án þess að það valdi hreyfingu í
hagkerfinu.

(Stolið úr erindi ÓPJ)

08 júní 2009

Mánadís 9 ára

Helena Mánadís á afmæli í dag, hún er 9 ára í dag tra la la. Það er gaman að tala við hana, hún segir: Gættu þín. Hún er með fallegt hár og er tölvusnillingur. Hún er skemmtileg, ég hef ekki séð hana lengi, hún býr á Spáni, ég bý á Íslandi Við erum á fiðrildaveiðum. Púff fyrir óskina. Gleði fyrir kertaljósin níu og Mánadís ömmustelpa svo sérstök og fín.

Lóðin

Ég lyfti á hverjum degi í Trékyllisvík, ég hef ekkert lyft síðan ég kom heim, lóðin liggja bara þarna á ísbjarnarfeldinum.

07 júní 2009

Kíkið á þetta

http://skakhatid.blog.is/blog/skakhatid/


Minningarmót um Guðmund í Ávík haldið í Djúpuvík 20.júní nk.

Glæsileg verðlaun!


Ps. Djúpavík er næsti bær við Trékyllisvík ef þið viljið í leiðinni sjá hvar ég ól manninn í maí ásamt köttunum Kúrt, Óskari og Bernharð ofurköttum.

Krútt með tímanum

Til eru samtök sem heita Alanon sem er fyrir aðstandendur alkóhólista. Ég held það þurfi líka að stofna samtök fyrir þá sem eru aðstandendur aðstandenda. Þá yrðu allir krútt með tímanum.

Afmæli

Í dag á Unnur afmæli og í dag átti líka Nína Björk afmæli, í gær átti Hulda afmæli og á morgun á Helena Mánadís afmæli og hinn daginn á Gunnheiður afmæli en þess má líka geta að 1. júní átti Linda afmæli.

06 júní 2009

Embla Karen og Aþena

Embla Karen hitti Aþenu í dag og það tókst bara mjög vel, þær voru mjög sætar þótt Embla Karen væri auðvitað aðeins á varðbergi gagnvart svona stórum hundi, - svo var hún að fara að gista hjá Zizou og Keano í nótt! Hún er farin að gista þetta skott. Við Aþena hittum einmitt Zizou og Keano fyrir tilviljun í fjörunni þegar við fórum í labbitúr, - í þessu líka glaðasólskini. Svo komu tvíburarnir og tengdadætur mínar í læri, Aþena varð mjög glöð yfir þessu læri. Það er svo gott að hafa hana í húsinu að ég er strax byrjuð að sakna hennar. Hún er algjört knús. En það urðu reyndar allir glaðir yfir lærinu og það var svo gaman að hafa alla við borðið, það var yndislegt...

Botna ekki í þessu rugli!!???

Það er eitt sem ég skil ekki, - afhverju má ríkisstjórn vg og samfylk. skrifa undir að við ætlum að borga 650 milljarða og enginn mótmælir, - ef ríkisstjórn sjálfstæðisflokks, framsóknar eða samfylkingar hefði skrifað undir hefði allt orðið brjálað.

Ég er að hugsa um að fara ein og mótmæla.

Ég ætla líka að mótmæla vælinu...VÆLINU Í STEINGRÍMI OG JÓHÖNNU, "Erfitt að skrifa undir...."

Litlu greyin, á maður svo að vorkenna þeim líka!!!!!!!!!!!

Markið hálf slysalegt...

Ég fylgdist með landsleiknum á mbl.is þarsem komu útskýringar á mínútufresti hvað væri í gangi í leiknum, það var einhvernveginn svona:

Gott veður og margir áhorfendur í bláu.
1. Holland skorar
2. Holland skorar
3. Holland skorar
4. Holland á skot
5. Hollland á skot
6. Eiður Smári á sendingu en leikmenn ekki með á nótunum, hitta ekki boltann.
7. Holland á skot
8. Holland á hornspyrnu og aftur.
9. Brunaútsala fyrir framan íslenska markið.
10. Indriði á sendingu en sóknarmenn ekki með á nótunum.
11. Fjórir íslenskir leikmenn fá gula spjaldið, geta ekki verið með á móti Makedóníu.
12. Holland á skot.
13. ÍSLAND SKORAR .... markið hálf slysalegt!!!

Þetta voru ekki mín orð... en semsagt gul spjöld, misheppnaðar sendingar og hornspyrnur nema ein og þá slysalegt.

En skemmtilegast þótti mér þegar stóð í lýsingunni á 70. mínútu: Nokkur hópur áhorfenda hefur staðið upp og klappar saman lófunum. Skömmu síðar setjast þeir.

Landsleikur í níutíu setningum, I like it.

Áfram Ísland.

Kvörnin

Fíknin tekur sjálfstraustið mitt og malar það í kvörn svo það verður að dufti.

Jökull skoraði úr víti

Jökull tók eitt af sínum ástsælu vítum í leiknum á móti Leikni, skoraði með nettum glæsibrag og leikurinn fór 5-1 fyrir Víkingi. Ég fór með Kristínu og Ellý mömmu hennar og byrjaði að hrópa og kalla svo Víkingur myndi vinna leikinn en þá kom í ljós að við vorum Leiknismegin og þeir fóru eitthvað að setja útá mín hróp og köll og hótuðu að hringja í alla landasala í Jórufellinu (ég er enn ekki búin að ná þessum!!) Garpur sem var mættur á leikinn sagðist hafa reynt að þagga niðrí mér 25 ár og ekki tekist. Ég sagði ekki orð það sem eftir lifði leiks.

05 júní 2009

Hvernig á að fá knús?

Ég er búin að læra eitt af Aþenu, ef maður vill knús á maður að hnoða hausnum í magann á þeim sem maður vill knús frá. Virkar!

Ég hitti Zizou og Keano!!!

Zizou og Keano eru komin!!! Og ég sá þau í dag svo undur falleg og himnesk. Hundarnir sem hafa kennt mér svo margt um lífið og kennt mér að vera ekki hrædd við hunda og auk þess er ég amma þeirra. Og það er svo gott að þykja svona vænt um þau.

Ég og Aþena í sófunum

Ég lá í brúna sófanum og Aþena í bláa sófanum og þegar ég horfði á hana skynjaði ég að það var ekki bara hundur í sófanum og ég var ekki bara manneskja heldur vorum við tvær verur á jörðinni.

04 júní 2009

Guð eða Tuð?

Það er gott að vita hvenær guð er að tala við mann og hvenær tuð.

Tuð - segir tildæmis: Ég er að farast úr áhyggjum og mikið er þetta rosalegt og þetta er alveg svakalegt, ég á aldrei eftir að ná þessu, það eru örugglega allir brjálaðir útí mig og enginn þolir mig og ég er alltof feit og ég er viss um að það kemur eitthvað fyrir og ég get ekki verið að liggja og horfa á videóspólu þegar ég á eftir að gera svona margt.

Guð - segir tildæmis: Ég er yndisleg og stórkostleg og falleg og elskuleg manneskja, og ég hef bara ekki áhyggjur af neinu og þetta verður allt í lagi og þetta á eftir að ganga vel og það er svo gaman að vera pínulítið feit, oh sætur magi, og allt er í guðs höndum og ég geri mitt besta og lífið er svo yndislegt og hamingjan dettur af himnum í svona sætum litlum augnablikum.

Svo góðir gestir: Guð ... eða Tuð?

*

Ég var úti að SKOKKA með Aþenu

Endurtakist: Skokka, skokka, skokka í sólarlaginu.

Frænkuboð eða Nornaboð

Ég var að koma úr frænkuboði sem Unnur systir mín hélt, allar frænkurnar í föðurfjölskyldunni, það var alveg herlegt fjör og kræsingar og seiður aldanna, eða einsog ég sagði við Veru frænku mína Illugadóttur að þegar haldið væri svona kvennaboð þá sæi maður nottla nornina betur en ella, að við værum allar nornir, - já, sagði Vera, varst það ekki bara þú ein?

Óraunhæfar væntingar stóðust ekki

Þá er það komið á hreint, menn eru að horfa á hundinn ekki mig, -

03 júní 2009

Líf og dauði við Ástarbrautina

Ég og Aþena löbbuðum næstum útí Gróttu áðan, ég fékk rosaathygli, ég hugsa ég lendi á sjens mjög fljótlega ef þetta á vera svona alltaf, en við áttum frábæran göngutúr og hún hnusaði að öllu, við sáum æðarkolluhjón með tvo unga og ég fékk alveg fiðring í sálina, og svo voru önnur æðarkolluhjón með annan unga, og þá alltíeinu steypir sér svartbakur niður from nowhere og gleypir litla æðarungann í einum bita, oj, ég öskraði svoleiðis á hann helvítis aumingi!!! En hann sat á sjónum sporrennandi litla æðarunganum sem var nýkominn í heiminn og hafði augnabliki áður verið að spóka sig með foreldrum sínum á flauesbláum sjónum í sólskininu, ég ætlaði ekki að trúa þessu og aumingja æðarkollan grét hástöfum, hún hafði reynt að koma í veg fyrir þetta og ráðast á svartbakinn og stóð sig svo vel að ég hélt það hefði tekist þegar ég sá svartbakinn hefja sig til flugs með ungann í kjaftinum, hún teygði hálsinn upp aftur og aftur og grét kvark kvark kvark og svo komu hinir fuglarnir og reyndu að hugga hana með því að segja úa úa ú ú ú... en hún var óhuggandi... aumingja fuglinn - en þá gerðist svolítið skemmtilegt, sæljón, selur eða höfrungur var að leika listir sínar uppúr sjónum einsog honum var einum lagið og mér sýndist þau vera þrjú, selur, sæljón og höfrunugur, - það var skemmtilegt og ég lét huggast.

Aþena er komin

Ég er nú orðinn háæruverðugur hundahirðir og mun gæta Aþenu hans Mána í nokkra daga, hún er Rottweiler, falleg og blíð. Það er einsog æðri máttur sé með plan í gangi að láta mig strjúka og klappa og ég er ekki alveg að ná þessu, hvað guð er alltaf að ráðskast með mig en þetta ber greinilega vott um áhuga guðs á mér, annars fékk ég mér lambasteik á Hróa í gærkvöldi og hugsa kærleikur þegar tuðið í höfðinu byrjar.

02 júní 2009

Andlegur leiðtogi

Ef þjóðina vantar svona mikið andlegan leiðtoga þá er Ella Stína alltaf til, hún er alveg svona andlegur leiðtogi enda með hann í stjörnukortinu sínu, þar stendur víst: Sirkusstjóri!!!!!

01 júní 2009

Samræður mínar við guð

Guð er alltaf að segja mér, þú ert ekki guð, ég skal vera guð og ég er alltaf bara ha? Eða þá að ég svara engu en fæ bara í bakið.

*