09 júní 2009

Brekkur og sorg

Sko, einu sinni var ég að fara upp brekku, Eyrarhálsinn, og bíllinn var næstum farinn útaf, þung Saab-bifreið, eða ofaní foss. Kristjón sonur minn bjargaði lífi okkar með því að kenna mér að taka af stað í öðrum. En síðan - og það eru sextán ár síðan - hef ég verið hrædd við brekkur. Ég hef forðast brekkuna hjá gatnamótunum þarsem beygt er inná Loftleiðahótelið (sem er engin brekka) og brekkuna þarsem maður beygir í átt að Perlunni og tönkunum (sem er ekki mikil brekka og varla það) En svona keyrði ég um bæinn og forðaðist allar brekkur, lagði á mig óþarfa krók tilað forðast brekkur... en svona hafði þessi atburður farið með sálarlíf mitt, en svo tók ég mig á og sagði sjálfri mér ég kynni að keyra, ég yrði að treysta og nú fer ég þessar brekkur þótt ég myndi aldrei fara brekkuna frá Norðurfirði útað Krossnesi, það er ekki brekka heldur níutíu gráða halli, en svona geta atburðir sest að í sálarlífi manns og sest þar við stýrið svo ýmislegt fer framhjá manni og óttinn tekur völdin.

Þetta er einsog með dauða föður míns sem hefur tekið þrjátíu ár að syrgja, og nú gæti ég næstum gubbað yfir þessari sorg sem getur varla talist sorg heldur hefur stýrið einfaldlega fest.

*

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Oh, Elísabet, þú ert svo mikill brekkusnigill og guðdómleg vera,

Magnfríður Himna