01 apríl 2007

Upplýsingabox Ellu Stínu

Ella Stína er orðin kúl. Hún finnur heljarkrumlu íshellunnar herpast um brjóstið. Hún getur bara verið kúl og sniðug. Hana langar að hringja í Róbert og segja eitthvað fallegt. Eitthvað fallegt sem kviknar í brjóstinu. En hún finnur ekkert. Hvað er að gerast fyrir Ellu Stínu. Hún þorir ekki að snerta sársaukann.

Hún horfir bara á sársaukann, frá sér numin af viðbjóði og hryllingi og getur ekki hugsað sér að snerta hann. Þetta er sjálfur heimurinn.

Hún er að horfa á heiminn. Og skilur ekki hvernig hún getur verið að horfa á heiminn því er hún er hvorki í lokaða herberginu né hlekkjunum og heldur ekki heiminum, er hún þá í sársaukanum. Heimurinn er bara annað orð yfir sársauka.

Hún ákveður að koma fyrir upplýsingaboxi í heimsveldinu þarsem sársaukinn getur gefið upplýsingar og fyrsta spurningin er:

Afhverju kannast ég svona við þennan sársauka?

Þetta er bara gamli sársaukinn, segir upplýsingaboxið.

Sem var þess valdandi að ég fór útúr heiminum, spyr Ella Stína.

Mikið rétt, segir upplýsingaboxið.

Og hefur þá ekkert breyst, spyr Ella Stína.

Ha ha ha, segir upplýsingaboxið.

Ha? Segir Ella Stína.

Hlátur er upplýsingar, segir upplýsingaboxið.

Hefur þá ekkert breyst, spyr Ella Stína.

Á ég að ansa þessu, spyr upplýsingaboxið.

Þú ert upplýsingabox Ellu Stínu, segir Ella Stína.

Á ég þá að gefa upplýsingar Ellu Stínu, segir boxið.

Ég er ekki með neinar upplýsingar, segir Ella Stína.

Það er nefnilega það, þú hefur aldrei þorað að snerta á sársaukanum, segir boxið sem var farið að kalla sig box.

Hvernig ætti ég að snerta á sársaukanum, spyr Ella Stína.

Hvernig ættir þú að snerta á sjálfri þér, spyr boxið á móti.

Ég er ekki upplýsingabox, segir Ella Stína.

Það er nefnilega það, sagði upplýsingaboxið, þú ert eitt upplýsingabox frá hvirfli til ilja.

Ég gæti fengið rangar upplýsingar.

Eða engar.

Engar?

Já, sagði upplýsingaboxið, það er spurning um traust. Maður gefur bara þeim upplýsingar sem maður treystir, nema maður hafi tapað röddinni.

Sársauki heyrist í röddum.

Vildurðu spyrja að einhverju, spurði upplýsingaboxið.

Já, hvernig kemst ég hingað.

Þú fylgir sjálfri þér.

Engin ummæli: