03 apríl 2007

Dansinn

Ella Stína komst að því að pabbi hennar hafði sett hana í hlekki þegar hún var að dansa. Dansa! Hugsið ykkur. Þarna var hún lítið saklaust barn að dansa sinn ástaróð til lífsins og hvað!? Kemur ekki ekki pabbinn með hlekkina. Og smellur!!! Hver er ekki orðinn leiður á þessum pabba hennar Ellu Stínu. Ekki Ella Stína. Jú einmitt Ella Stína. Er furða að hún hafi skipt um nafn á honum? Og svo framvegis. En nú var Ella Stína farin að halda að þetta væri allt dansinum að kenna þótt hún væri löngu hætt að dansa. Ella Stína lifði svo flóknu lífi að hún átti ekki vísakort, bara eitt debetkort. Og hvað með mömmu hennar Ella Stína, jú Ella Stína var alltaf svo utan við sig af því hún var að reyna muna hvað stóð á miðanum sem mamma hennar sendi hana með... eitthvert... hún vissi ekki hvert hún var að fara en það var allt í lagi ef hún mundi bara eftir því hvernig hún átti að vera. Fyrstu orðin á listanum rifjuðust upp:

Góð
Góð
Góð
Góð
Góð
Góð
Góð
Góð
Góð
Góð
Góð

Ella Stína sá enga meiningu í þessu. Þetta var allt sama orðið. Það gat varla verið meining í því. Þetta hlaut að vera algjört brjálæði, stóð það kannski á listanum:

Brjálæði
Brjálæði
Brjálæði
Brjálæði
Brjálæði
Brjálæði
Brjálæði
Brjálæði

Það er heldur engin meining í þessu, hugsaði Ella Stína, ég verð að finna eitt orð sem er einhver meining í. Og svo fór hún að gráta.

Engin ummæli: