01 apríl 2007

Ella Stína gerir allt vitlaust

Ella Stína gerði alltaf allt vitlaust. Hún var alltaf að reyna að gera allt rétt og það gerði hana rosalega taugaóstyrka. Hún hélt að hægt væri að skipta öllu í rétt og rangt. Hún var tildæmis alltaf að reyna gera allt rétt í sambandi við pabba sinn. En hún gat aldrei gert neitt rétt. Hann sá hana ekki. Hann heyrði ekki í henni. Alveg sama hvað. Ella Stína reyndi að þóknast honum og færa honum allt kaffi í heiminum, hún læddist á tánum í kringum hann, fylgdist með svipbrigðum hans, reyndi að spá í svipbrigðin og var alltaf að reyna að túlka þau, en hún túlkaði alltaf allt vitlaust, hún sá það á svip pabba síns, en hún gafst ekki, hún var á nálum og gjóaði augunum og reyndi að gera þetta með lokuð augun, en pabbi hennar var alltaf jafn ískaldur. Ella Stína afneitaði öllu tilað þóknast pabba sínum, sjálfi sínu, hreyfingum, tilfinningum, tíma sínum og loks afneitaði hún eigin kyni, hún breytti sér í strák þegar hún skynjaði að pabbi hennar vildi bara eiga stráka, klippti af sér hárið, kallaði sig Georg og fór í önnur hverfi tilað vita hvort blekkingin gengi upp. Já Ella Stína hefði sjálfsagt dáið fyrir föður sinn hefði hún haft hugmyndaflug til þess. En það var búið að stífa vængina hennar. Og svo er heldur ekki víst að hún hefði dáið rétt. Segjum að Ella Stína hefði dáið tilað þóknast föður sínum. Svo í jarðarförinni hefði einhver ættingi spurt pabba hennar sem hefði verið rosalega pirraður að þurfa að mæta í jarðarförina en þessi ættingi hefði sagt við pabba hennar: Jæja ertu nú ekki feginn að Ella Stína er dáin. En þá hefði pabbi hennar sagt: Nei, hún dó vitlaust.

Engin ummæli: