03 apríl 2007

Eitthvað óvænt

Mig langar að skrifa eitthvað óvænt, eitthvað sem ég hef ekki hugsað áður eða skipulagt, eitthvað sem sprettur upp núna kannski með aðferðinni ease up, dont freeze up en þannig er það kannski í heiminum, eitthvað óvænt sem er ekki hægt að fella í kerfi eða stjórna og þar eru allar tilfinningar sem vakna, stækka og minnka, sumar koma ekki aftur, aðrar koma alltaf aftur, en ef maður hefur tilfinningar þarf maður á öðrum að halda, augu tilað horfa í, hendur tilað snerta, þegar hendur okkar snertast, já ég er að hita te og mig dreymdi þrjá drauma í nótt, en það er þetta um að treysta heiminum eða treysta guði, því það gerist svo margt fallegt og stundum verð ég yfirkomin af fögnuði bara ef ég sé lítinn fugl, gamlan mann, lítið barn eða skýjatjásu, heyri vatnið sjóða, regnið falla, bara að það er þessi dagur og ég fyllist af hamingju einsog líkami minn sé gerður fyrir hamingju og þá veit ég að líkami minn er hamingjubox og sennilega er hann landamæralaus, sennilega nær hann alla leið til þín og svo ná líkamar okkar til stjarnanna og líkami stjarnanna nær til okkar og nú tek ég andköf af hamingju og veit að líkami minn er líka eitt sársaukabox, móttökustöð fyrir sársauka sem því aðeins er mögulegt að hann hafi verið áður smurður af hamingju.

Engin ummæli: