06 apríl 2007

Ella Stína sigrar Ódysseif

Það var það sem var að. Hátíðleikinn. Stellingarnar. Alltaf þegar Ella Stína settist niður í sínu heimsveldi og ætlaði að segja söguna fór líkaminn í rosalegar stellingar, hún varð öll stíf af hátíðleika og heyrði sjálfa sig segja: Ég er rithöfundur og þetta á vera rosamerkileg saga. Samt var Ella Stína ekki rithöfundur, hún hafði bara gaman af því að segja sögur með puttunum, hún tók kannski vísifingur og sagði: Þetta er hann og hann segir, hæ og svo tók hún vísifingur hinu megin og sagði: Þetta er ég, ég eeeeeeeeeelska þig. Og það gat verið langt á milli þeirra en líka svo stutt, það var borð á milli þeirra og það voru hinir puttarnir sem beygðu sig, það var borðið og þá gátu þau alveg teygt sig yfir borðið og kysstsstttssst. Og það var tré og það heyrðist svona í laufskrúðinu af því það var svolítil gola og þá heyrðist soldið. Og hún lét heyrast með munninum.

Ella Stína burt með hátíðleikann. Stofnaðu bara Hómer og puttaleikhúsið. Þetta er Ódysseifur og nú lætur hann drepa þernurnar einmitt þegar þær ætluðu að segja söguna, að Ódysseifur hafði í raun aldrei lent í þessum hremmingum sem hann sagðist hafa lent í, heldur hafði hann setið við eldinn og sagt af sér gortsögur og Penelópa var orðin svo þreytt að hún varð skotin í öllum.

Já, það er sagt að dráp Óddyseifs á þernum marki lok mæðraveldins, það er hér með endurreist í puttunum á Ellu Stínu.


Vakandi?

Já, hvíslaði hún á móti.

Ekkert svar.

Ert þú sofandi? hvíslaði hún aftur.

Engin ummæli: