07 apríl 2007

Nornin í Ellu Stínu

Einsog þið munið var norn í Ellu Stínu og þegar hún sagði karlmanni frá því að hún elskaði hann spratt nornin út í hverjum andlitsdrætti, Ella Stína vissi ekki af því og hélt hún væri voða sæt þegar hún var að gefa þessar ástaryfirlýsingar, en svo fyrir tilviljun leit hún í spegil og sá þá þetta hatursfulla gerpi og það var bara ein hugsun sem komst að í henni: Ég elska engan. Þetta er eitthvað voða flókið og Ella Stína skilur þetta ekki. Nú voru nornir auðvitað brenndar á báli hér á öldum áður og það eru hinar hreinu meyjar sem gilda í hinum vestrænu nútímasamfélögum, og Ella Stína setti alltaf ástina svoleiðis upp: Einsog þetta væri hrein og tær, hrein og tær nútímaást, og ekkert gruggugt við hana, ekkert nornalegt, ekkert skemmtilegt, ekkert óvænt, nei gott ef hún var hún ekki búin að fara á ræðu hjá ræðuliði tilað steypa ást sinni yfir einhvern, ástaryfirlýsingar hennar voru svona álíka blóðheitar og ríkisstjórnarfundur. Einu sinni langaði hana að skvetta úr vatnsglasi yfir einhvern og það var einhverveginn það eina eðlilega í stöðunni miðað við allt romsið sem kom út úr henni. Það má líka leiða getum að því að Ella Stína hafi beinlínis hatað karlmenn og fyrirlitið, en þarsem konur eru svo góðar, við vitum það, konur eru góðar, menn eru slæmir, já konur eru góðar og eru frá venus, og konur eru svo góðar að þær eru alveg að deyja úr góðmennsku og þar með leiðindum, en ef þið munið eftir sögunni þarsem Ella Stína hataði pabba sinn en þorði ekki að sýna það svo hún andvarpaði djúpt af áhyggjum, og á meðan safnast hatrið og fyrirlitningin saman, já Ella Stína hafði auðvitað líka hatað og fyrirlitið sjálfa sig en yfir þetta allt breiddi hún úr rósrauðum teppum og óf stjörnur í teppið og nú þegar er þetta orðið óskiljanlegt bull,

- það sem ég ætlaði að segja var eitthvað um þessa norn sem elskaði engan. og ég veit ekkert hvað það þýðir.

- en auðvitað þýðir þetta að hún elski guð.

og menn fá ekki að vera menn, menn þurfa að vera guðir og ella stína fær ekki að vera ella stína, ella stina þarf að vera guð, rigningin fær ekki að vera rigning, rigningin þarf að vera guð og hver getur lifað í þessum heimi sem fær ekki að vera heimur og maður bara labbar um í honum og segir hæ og er jurt á ókunnri strönd og segir góði guð láttu hann hringja í kvöld.

Engin ummæli: