02 apríl 2007

Ísklumpurinn

Pabbi hennar Ellu Stínu var alltaf inní ísklumpi og fór aldrei út úr honum. Bernska Ellu Stínu leið við það að reyna bræða ísklumpinn og frelsa pabba sinn, það var eftir að hún hafði starað stórum augum á þessi undur og ósköp hvernig ljósið klauf hann í marga parta í ísnum eða skein í gegnum svo stundum sýndist pabbi hennar einsog geislandi engill eða allur afskræmdur af ljósbrotinu. Ella Stína var því fullkomlega hugfangin af pabba sínum. En svo varð hún soldið leið á honum og hélt kannski að hann myndi segja henni sögu ef henni tækist að ná honum út. Svo hún reyndi allskonar hitastig dag eftir dag eftir dag og skráði allar rannsóknirnar. Höfuð hennar var orðið fullt af niðurstöðum sem sköruðust hver við aðra og línuritin og súlurnar fylltu hausinn á henni einsog þéttriðið net. Ellu Stínu fannst hún alveg hafa rétta hausinn í þetta. En svo leið og beið og ekki bráðnaði ísklumpurinn. Stundum reyndi hún að brjóta hann en þá kom mamma hennar alveg klikkuð og sagði að Ella Stína væri erfitt barn. Ella Stína trúði auðvitað mömmu sinni og fór að trúa því að hún væri erfitt barn og þessvegna væri erfitt að brjóta ísklumpinn svo hún beið eftir því að hann myndi bráðna af sjálfu sér. Ella Stína trúði því líka að þegar hún yrði ung stúlka og hætti að vera barn hætti hún að vera erfið og þá yrði ekki erfitt að láta ísklumpinn bráðna. En einmitt á þeim tímamótum dó pabbi hennar. Þá varð til pláss í ísklumpinum. Ella Stína varð himinlifandi og setti draumaprinsinn inní ísklumpinn. Hún setti alla draumaprinsana inní ísklumpinn en þeir hurfu allir á tilteknu augnabliki. Það var þegar Ella Stína sagðist elska þá. Hún var farin að þekkja ísklumpinn svo vel að auðvitað elskaði hún hann, hann var hið eina stöðuga í lífinu, og hún gerði engan greinarmun á ísklumpinum og draumaprinsinum. En þegar Ella Stína sagði:Ég elska þig ísklumpur eða Ísklumpur ég elska þig, þá hvarf draumaprinsinn úr ísklumpinum. Svo Ella Stína setti alltaf nýjan draumaprins í plássið. Því hann passaði svo vel í plássið. Og svo ætlaði hún að þíða hann með ást sinni. En kannski skynjuðu draumaprinsarnir hatrið sem lá að baki, kannski faldi hún það, maður má ekki láta sjást að maður hatar ísklump, nei þá er betra að elska ísklump. Einsog þegar maður segir æ hann er svo mikill ísklumpur, ég er bálskotin í honum. Ella Stína hafði líka einhverntíma sagt við pabba sinn þegar hún var lítil: Ég hata þig. Og þá hafði mamma hennar komið og sagt: Þú getur ekki sagst hata pabba þinn. Hann er pabbi þinn. Pabbi minn! Hann er ísklumpur. Hann er kannski ísklumpur en hann er pabbi þinn. Svona höfðu allskonar ljón verið í veginum fyrir því að Ella Stína fengi einn daginn Nóbelsverðlaun í eðlisfræði. Því loksins fann hún svarið, ef hún gæti bara geymt draumaprinsinn í ísklumpinum við rétt frostmark svo hann kæmist ekki úr klumpinum væri björninn unninn.

Já, þá fengi hún einn daginn Nóbelinn í eðlisfræði fyrir formúluna: Hvernig best er að frostið haldist á draumaprinsi í ísklumpi.

Engin ummæli: