07 apríl 2007

Guð í heimsveldinu

Einsog þið munið hafði guð verið inní lokaða herberginu en Ella Stína hafði úthýst guði. Fyrst sagði hún við hann: Guð ég skal gefa þér sóleyjarvönd ef þú opnar dyrnar, en guð vissi að Ella Stína hafði sjálf búið til dyrnar og að dyrnar voru blekking og ætlaði ekki að láta plata sig. Ókei, ég gef þér engan sóleyjarvönd, hreytti Ella Stína í guð og sparkaði í dyrnar og meiddi sig í tánum. Ég vil komast út úr lokaða herberginu, sagði hún. Hún gat auðvitað lítið annað en tönglast á því sama sem var einmitt leiðin tilað halda henni innilokaðri. Guð, ég skal gefa þér tíu dómkirkjur, ég skal gefa út bænakver, ég skal refsa sjálfri mér, ég skal fá mér ömurlega sjálfsmynd og stara á hana daginn út og daginn inn, er ég þá nógu góð ha guð, sagði hún og hvað með dómkirkjurnar tíu, bænakverin, en það var alveg sama hvað, guð hjálpaði Ellu Stínu ekki út úr lokaða herberginu eða svo fullyrti hún enda var hún ekkkert í lokuðu herbergi en henni fannst samt að guð ætti að hjálpa sér, viltu kannski að ég gangi í klaustur, æpti Ella Stína á guð, er það hin dulda meining á bak við lokaða herbergið og las um hvernig Írar höfðu látið múra sig inní veggjum og svo lét Ella Stína múra sig inní veggjum lokaða herbergisins og um tíma var lokaða herbergið tómt því Ella Stína var múruð inní veggina, hún var svo góð og með írskt blóð í æðum þótt það væri frosið, guð guð guð, emjaði Ella Stína, ég geri allt fyrir þig, þú gerir ekkert fyrir mig en ég skal gera allt ef þú hleypir mér út en guð hleypti henni ekki út, aha, sagði Ella Stína, það er meining fyrir þessu, uppgötvaði hún einn daginn, ég á að frelsa heiminn, guð hefur lokað mig inni tilað frelsa heiminn, best ég fari uppí sjónvarp og tilkynni það og svo gekk hún um allan bæinn og fékk endalaus skilaboð um að hún væri full af guðskrafti og ætti að frelsa heiminn en svo einn daginn greip mamma hennar í taumana og lokaði hana inná Kleppi og þá fyrst varð Ella Stína brjáluð.

Hún tilkynnti guði að hún væri hætt að trúa á hann og orðrétt er haft eftir henni: Guð ég ætla að hafa engan í staðinn fyrir þig. Og svo hafði hún engan í staðinn fyrir guð. Og hún elskaði engan jafnmikið og hún hafði elskað guð.

Engin ummæli: