05 apríl 2007

Tréð hennar Ellu Stínu

Ella Stína heyrði einu sinni að við værum ekki að leita að tilgangi lífsins nema við hefðum týnt honum. Það var vinur hennar sem sagði henni þetta, hann Siggi Avatar. Þetta er auðvitað mjög lógískt og þá mundi Ella Stína eftir því að hún hafði fæðst með tilganginn einsog húmorinn en svo hafði þetta allt týnst hjá henni þegar hún var á leiðinni úr og í skólanum í hlekkjunum og hirti ekki einu sinni um að beygja sig eftir þessu þegar þetta hrundi allt af henni, svo gleymdist það og hún eyddi heilu árunum í að finna tilgang og húmor einsog hún hefði aldrei haft það og ætti bara alltíeinu að fá það. Annars langar Ellu Stínu bara að skrifa um uppljómaðan glugga, drauma og segja sögu. En hún er núna í rosa feimni og óöryggiplássunum sínum, en hún er líka ástfangin og þá er alltaf saga. Hvortveggja er gjöf sem Ella Stína verður að hugsa vel um. En Ella Stína heldur hún þurfi vernd tilað skrifa söguna. Já hana langar líka að skrifa um strákinn í Ellu Stínu. Stundum er einsog Ella Stína sé á gangi í skóginum og þá sér hún alltíeinu tré og þá er einsog það sé saga í trénu og þá þarf bara að tálga utanaf trénu, eða reyndar ekki tálga utan af því, heldur hlusta á tréð. Ella Stína viknar í þessum töluðum orðum. Því það er líka stundum svo erfitt að hlusta á tré, þau eru stundum lengi að segja söguna, þau taka sinn tíma, eða þau geta líka talað hratt, eða kannski það sem málið, maður þarf stundum að vera einn með trénu.

Engin ummæli: