03 apríl 2007

Reglan hennar Ellu Stínu

Ella Stína ákvað að setja á reglu í Heimsveldinu. Hún lét þau boð út ganga í Heimsveldinu að það mætti ekki nefna á nafn manninn sem hún væri skotin í. Þetta var einfaldlega fyrsta reglan sem henni datt í hug. Ella Stína lagðist í sófann af áhyggjum, hvernig átti hún að reka Heimsveldið ef það mátti ekki nefna nafn hans, og átti þá að nefna eitthvað nafn í staðinn, og hvaða nafn ætti það að vera.

Ella Stína var í vandræðum með regluna þegar síminn hringdi. Vinkona hennar Elísabet Ronaldsdóttir var í símanum, Ella Stína spurði hana hvaða nafn hún gæti sett í staðinn.

Prinsinn, sagði Elísabet Ronaldsdóttir.

Prinsinn? sagði Ella Stína.

Svo það átti að segja prinsinn í staðinn fyrir þann sem Ella Stína var skotin í.

Svo er undantekning, það má aldrei segja prinsinn nema hann leyfi það sjálfur.

Þá er ekki hægt að segja ... sagði Ella Stína, verð ég þá að spyrja ....í hvert sinn ... sem mig langar að segja ... Er það þannig að ... verður að hafa samband ef ... vill leyfa að nafnið ... sé nefnt á nafn. Svo orgaði hún: Það skilur mig enginn.

Er það í lagi svo framarlega sem þú heldur regluna, sagði rödd inní henni.

Ég er byrjuð að heyra raddir, orgaði Ella Stína sýnu hærra.

Talaðu bara um eitthvað annað en ... sagði röddin.

Þú ert að tala um ... orgaði Ella Stína einsog stunginn grís.

Hún ákvað að brjóta regluna og sagði við ráðgjafa sinn: Ég er búin að hugsa um prinsinn í allan dag.

Hefur .... leyft það? sagði ráðgjafinn.

Ha?

Þú átt eftir að venjast þessu, sagði ráðgjafinn, já þú venst því að vissa hluti má ekki tala um, sem ekki er hægt að tala um og loks verður það þannig ef þú nefnir .... skilur enginn hvað þú ert að tala um.

Engin ummæli: