09 apríl 2007
Hvað sá Ella Stína í heiminum?
Ella Stína er búin að krúttast inni í allan dag, mest í sófanum, hún málaði fjórar jesúmyndir í gær, tók soldið til, bloggaði soldið, lagaði kafla í skáldsögu, já krúttaðist aðeins og nennti engu, lagði spil fyrir sjálfa sig, og svo ætlaði hún í sund, en sundið var lokað svo hún fór útí Gróttu, það var orðið skuggsýnt, brim við ströndina, úfinn sjór, vindur í hárinu, og Ella Stína sat í bílnum og kíkti út, fínn heimur hugsaði hún og bara einn bíll við hliðina á henni, einhver gæti verið í djúpum samræðum í næsta bíl og hún var að hugsa ef einhver sæti við hliðina á henni og þau væru að tala rosalega djúpt, það myndi eyðileggja allt, þennan fína gráa dumbung því Ella Stína ætlaði að hlaupa útí hann, útí fjöru, hún opnaði bílhurðina og vindurinn rauk í hurðina, þetta er ekkert, sagði Ella Stína og þá kom hún auga á mennina þrjá við bekkinn, þeir voru allir í gráum regnfrökkum og voru að fá sér kaffi, hún sá það einsog skot, þetta voru þeir Vladimar, Estragon og Godot.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli