Þegar Ella Stína var að fara að sofa í gærkvöldi og var svona aðeins að horfa á tunglið áðuren hún skreið í háttinn þá fékk hún sms. Róbert, hugsaði hún. Það stóð: Þú ert með galdraandlit, á símanum. Sennilega ekki Róbert, hugsaði Ella Stína og sló inn númerið. Þetta var svo skrítið að fá svona ímeil einmitt þegar hún var að horfa á tunglið því tunglið er með galdraandlit en samt var einsog þetta væri sms frá tunglinu.
Friðgeir svaraði símanum. Friðgeir!!! Vinur hennar og bekkjarfélagi staddur á Akureyri. Við höfðum verið að ræða að þú hefðir galdraandlit, sagði hann, en allur bekkurinn nema Ella Stína voru á Akureyri. Við skiljum varla andlitið á þér, sagði Friðgeir, Vilborg sagði þú hefðir galdraandlit, mér fannst ég verða sms-a það til þín á stundinni. Þetta var einmitt hápunkturinn og kom á réttu augnabliki, alveg einsog atriðið í "uppljómaða glugganum" sem er sér kafli eða skott á rófunni. En Ella Stína gat breytt andlitinu á sér alveg ótrúlega eða þeas. andlitið gat breytt Ellu Stínu ótrúlega. Ella Stína elskaði andlitið á sér og hvernig það gat orðið eftirhermuandlit með sönnum dramatískum eða kómískum persónuleikapörtum. Kannski getur Ella Stína birt myndir á síðunni.
Heyrðu, sagði Friðgeir, svo vorum við líka að tala um hvað þú grætur fallega. Ellu Stínu fannst ótrúlegt að heyra að fólk væri að tala um hana í öðrum landshlutum!!! Og hvern hefði grunað, já - eftir öll þessi ár þurrausinna brunna og þornaðra tára, sorgar sem breyttist í steypu en ekki tár, tár sem tókst ekki kreista fram nema undir áhrifum vímuefna, alla sálfræðitímana sem Ella Stína hafði borgað fyrir að fá að gráta en ekki tekist, öll þessi þúsund tár, og tárakirtlarnir farnir að starfa öfugt, þegar hún hló runnu tárin, þegar hún grét orti hún ljóð, já þetta er grátur, að skrifa er að grátur, og reyndar trúin líka, það er svo margt sem er grátur, mannkynið grætur í öllum athöfnum sínum einsog þegar allt þýðir Róbert, já einn allsherjar grátur, Ella Stína hafði ekki grátið þegar pabbi hennar dó, þegar afi hennar dó, soldið þegar amma hennar dó, - en núna, einmitt núna var stödd í símtali þarsem röddin í símanum sagði:
Við vorum að tala um hvað þú grætur fallega.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli