Ella Stína gerði ýmsar fleiri rannsóknir, einsog rannsóknir á gleðinni. Hún komst að því ef hún var glöð þá fékk hún í bakið. Það er að segja líkaminn reyndi að kæfa andann, því það er andinn sem verður glaður og smitar síðan líkamann af gleðinni. Ella Stína hafði ekki verið neitt glöð, og Nína Björk sem var dáin skáldkona hafði sagt um Ellu Stínu að hún væri svo þung, Ella Stína vissi útafhverju það var, það var svo hún myndi ekki fjúka burt úr heimsveldinu. Hún var þungamiðja heimsveldis og varð að vera þung, já heimsveldið gæti meiraðsegja fokið burt ef Ella Stína fyki burt. Svo hún var jafnan afar alvarleg en svo byrjaði hún að léttast og einn daginn ákvað hún að vera glöð. Og þá búmps!!! Fékk hún í bakið, hún fann heljarkrumlu þursans læsast um mjóhrygginn, þetta var þursabitið og Ella Stína varð sennilega að smyrja nesti handa heilum her tilað ráða niðurlögum þessa þursa, nema hún gæti glatt hann í burtu, já það er nú það. Ella Stína fékk í bakið ef hún var glöð. Því gleðin er þannig að hún hleypir öllu inn, og ef allt kemur inn getur heimsveldið hrunið til grunna og hvað er þá eftir, og gleðin mýkir mann og gerir mann vitran og lætur manni líða vel og vera áhyggjulausan og treysta og treysta guði, og Ella Stína var ekkert vön því svo hvernig átti hún að venjast því. Og hvort var betra að vera glaður eða fá í bakið. Átti hún að vera í 45 gráðu halla og vera glöð. Nei, bakið var að segja: Ekki vera glöð.
Ekki fara yfir landamærin, ekki fara yfir strikið, vertu á þínum stað.
Ella Stína fékk líka í axlirnar, líkaminn fór bara allur í kerfi ef hún ætlaði að vera glöð. Og hún varð að vera glöð því hitt virkaði ekki, þá var hún inní eigin heimi og enginn náði til hennar.
Já, þetta er orðið virkilega spennandi. Hvað gerist næst. Verður viðsnúningur. Hvernig ætlar Ella Stína að vera glöð og fá ekki í bakið. Gera teiknimynd?
Ekki getum við haft keisara sem labbar um boginn í baki? Og ekki getum við haft keisara sem er rosalega glaður? Þrennt kemur til greina:
1. Leggja niður heimsveldið
2. Leggja niður gleðina
3. Leggja niður bakið
*
Meira um þetta síðar. Og Ella Stína vill vekja athygli á því að bróðir hennar Illugi á afmæli í dag einsog Samuel Beckett. Til hamingju Illugi.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Við réttum úr bakinu, fögnum gleðinni og endurreisum hið glaða heimsveldi!!!
Kannast við þetta með axlirnar,... gat loks eftir langan tíma rétt úr mér í bílnum á leiðinni heim eftir yndislegan tesopa í gærkvöldi sem hafði byrjað á sínum vanalega stað, ég sitjandi á kollinum mínum í horninu við ísskápinn þinn og þú gegnt mér, en endaði með okkur báðum liggjandi á eldhúsgólfinu!
Það sannar sig sem þú sagðir mér á franska verkinu í Borgó "Hvernig skyldi þetta nú allt saman enda? " -Sú setning klikkar bara ekki!
Til hamingju með ömmubörnin í dag og eigðu yndisfríðan og GLAÐAN dag.
K8
Katrín krútt, komment!!! takk!!! já það er best að vera á gólfinu, það er satt, ég var að hugsa til þín í dag, fór á aafund, í sund og svo með moggann heim og kaffi, að hringja í barnabörnin sem hafa ekki svarað ömmu sinni!!! og svo er sýning í kvöld, - og heyrðu, ég fer nú ekki á gólfið með hverjum sem er, ha ha ha, og svo byrjaði ég að hugsa um hann á leiðinni í sund og það var svona svipað og búddísk mantra sem bergmálaði í höfðinu, da da da, og þá hugsaði ég alltíeinu elísabet hugsaðu um sjálfa þig, og þá kom bara: það er ekki hægt. HA HAHAHAHAHA. JÁ ekki hægt að hugsa um sjálfan sig, en svo langaði mig í blóm og rífa niður vegginn þegar ég var í heita pottinum og er að hugsa um bara drífa í því, og svo mundi ég eftir einu sem mig langaði í í afmælisgjöf og ætla láta það flakka, ég held það sé ógeðslega dýrt, og þá áttu ekki að gefa mér það, ég mundi bara eftir því, mig langar í HÁRKOLLU.
hahaha.
af því ég ætla líka vera leikkona eða partur af mér eftir að hafa verið í þessum skóla er kominn með kraft tilað fara á svið og ekki bara skrifa baksviðs, ég prófaði hárkollu hjá Laufeyju í fyrra og það var kikk.
ég var alveg bara: halló!!!
Katrín, svo hugsaði ég til þín í heita pottinum og saknaði þín, og MUNDU, þú ert jafn dýrmæt í dag og í gær.
Jafnvel enn dýrmætari.
Þú færð einhverja magnaða afmælisgjöf frá mér... og takk fyrir að segja svona fallegan hlut um að ég sé dýrmæt- ég veit ekki alveg hvernig ég á að bregaðst við því. En ég veit að þú mundir segja við mig "Katrín, nú átt þú bara að segja takk" svo ég segi "Takk" :) og RISAstórt SÖMULEIÐIS....
Og takk fyrir að vilja vera í verkinu mínu!
Knús og kossar,
K8
Skrifa ummæli