28 júní 2007

Ég er leikhús

Ef ég ætti að lýsa mér í einu orði þá er ég leikhús.

Röddin, andlitið, hreyfingarnar, allt í sambandi við mig er leikhús. Ég er svo fallegt, skrítið, dularfullt, öðru vísi leikhús. Það er einsog ég hafi fæðst með þetta leikhús, einsog það sé demantur sem ég verð að slípa alla ævina. En ég þarf að eignast alvöru leikhús Elísabetarleikhúsið, því ég vil gera búninga, leikmynd, ljós. Ég elska leikhúsið. Ég er alltaf að búa til leikhús. Leikhúsið er nefnilega svo skemmtilegt, og það sem tekur margar blaðsíður í bók að lýsa tekur eina mínútu í leikhúsinu. Leikhúsið er fugl sem reynir að tæla mig, dansa fyrir mig í mýrinni, með töfrandi stél og kamb, þessar hreyfingar í hálsinum.

Stundum hellist yfir mig hamingja í leikhúsinu. Og þú ættir að sjá mig þegar ég er að skrifa leikrit, það er leikhús útaf fyrir sig. Og ég er leikhús. Það sem ég er að gera í leikhúsinu er alveg stórmerkilegt, og undursamlegt, ég er smá saman að sjá heildarmyndina.

Það er annað sem ég er góð í, ég er góð í að sjá heildarmyndina. Ég get séð hluti úr ótrúlegri hæð. Og uppáhaldsliturinn minn er rauður. Og ég elska sólina, miðnætursólina, ég er júníbarn, barn hinna björtu nátta, þó að ágústnæturnar töfri mig uppúr skónum, vetrarnæturnar með kertaljósi og ég elska bíla, föt, snyrtivörur, tísku, mér finnst gaman að skoða tískublöð, og mér finnst gaman að keyra, ég elska að vera ein í bílnum með hendurnar á stýrinu og tónlist og keyra eftir veginum.

Svo finnst mér gaman að skoða tískublöð, flottar konur og flott föt og flotta karlmenn, ég hef mikinn áhuga á fötum og ég geri alltaf búninga á persónurnar mínar, búningurinn kviknar yfirleitt ósjálfrátt. Ég elska myrkrið í leikhúsinu.

Og klappið, andardráttinn, þögnina, lesturinn, tjaldið, tónlistina. Já tónlistin er kannski það eina sem ég geri ekki í mínu leikhúsi. En ég á píanó og ég elska að syngja, stundum er ég að syngja ein fyrir sjálfa mig, fyrir sjóinn eða í bílnum. Ég á engan bíl.

Ég er bláeyg. Augun í mér eru svo falleg að þau gætu töfrað heilan hest tilað fá sér gras að bíta. Ég elska húsið mitt. Ég er með fallegar neglur. Ég sé alltaf á nöglunum á mér hvernig mér líður. Ég elska hárið á mér. Ég er ekki til sölu.

Hárið á mér getur verið eins og á ljóni. Ég hef hugrekki ljónsins.

Sólin er að setjast í hafið. Í gærkvöldi fór ég og settist á klett við sjóinn, Akrafjallið var einsog fjólublár draumur úr flosi. Það kviknaði í mér að senda sms til hans en smsvélin er biluð. Það kviknar oft eitthvað svona í mér.

Og getur orðið að stóru báli. Ég elska það.

Ég fer oft hægt af stað. Ég fer líka oft hratt inní eitthvað og hratt útúr því. En ég safna upplýsingum. Ég er vatn og eldur. Ég á nóbelskjól. Ég er með blá augu.

Ég skrifa tilað ná sambandi. Ég elska samband. Gott samband sem flytur agnirnar á milli okkar, rafmagnið, frá hjarta til hjarta. Ég er svo æðisleg. Og ótrúlega vel vaxin. Það kemur kannski sér kafli um það.

Ég elska blóm, sérstaktlega svona blóm æ þú veist hvað ég meina, segjum bara liljur en líka sólblóm og fíflana í garðinum ó ó ó ó og hvönnina og reynitréð, gleymérei, baldursbrá, sóleyjar ég sá margar villtar saman þegar ég fór framhjá flugvellinum.

Ég er flug.



Og ég er alltaf að búa til samband við fólk.


Á útvöldum augnablikum er ég reyndar blóm. Eða bara venjuleg manneskja og get verið rosalega hörð af mér þannig að ég veit ekki um neinn sem er eins harður og ég, nema kannski synir mínir.

24 júní 2007

Jónsmessan

Í gær vissi ég að eitthvað gott myndi gerast í dag, ég er ekkert tiltakanlega skyggn eða göldrótt, en ég fékk þetta á tilfinninguna, að eitthvað gott myndi gerast í dag, einhverjir töfrar.

Og svo gerðist það.


*

Dansað við sjóinn

Ó ... þetta ó kom óvart. Það er svo margt fallegt hægt að segja. Þegar ég fór í göngutúr í gærkvöldi í miðnætursólinni og dansaði við sjóinn og fann skel ég lét í öldurnar - handa Susie - og furðulegt hvítt fyrirkomulag einsog hásæti og öryggi úr rafmagnstöflu og mér fannst það vera tákn ástarinnar og hugsaði, ég læt það fara. Og svo fór ég að syngja þessa laglínu... það er svo margt fallegt hægt að segja ...

Svo núna áðan var ég að tala við barnabörnin og Jóhanna er búin að semja lag við textann og bæta við... glitrandi tunglskin... hönd þín... ástin ein... og amma ég horfi í augun þín!

Alexia var hinsvegar að fara á kakkalakkaveiðar með pabba sínum og ég lofaði að kalla hana Alexíu Kakkalakkabana ef vel tækist með veiðarnar.

Og Mánadís kvaddi með orðunum: Ég elska þig, þú ert besta amma í heimi.

Þá hafði ég spurt hvort kakkalakkarnir segðu: Hér komum við kakkalakkarnir, þegar þeir gerðu innrás og Mánadís svaraði: Ég held það.


Það er svo margt fallegt hægt að segja.

23 júní 2007

Skrímslið í eldhúsinu

Einu sinni var kona sem fóðraði skrímsli í eldhúsinu hjá sér, hún gaf því allt sem hún átti og loks átti hún bara það.

21 júní 2007

Blómið í glugganum

Það er blóm í eldhúsglugganum mínum. Glugginn er gylltur einsog kirkjugluggi og segja má að altaristaflan sé hafið og skipin og skýin. Það er blóm í glugganum, blóm sem Kolbrá litla systir mín skildi eftir þegar hún fór til Panama fyrir tíu eða fimmtán árum. Hún man ekki eftir blóminu. Ég passaði blómið öll þessi ár, hafði það yfirleitt á píanóinu, útí stofuglugga eða á borði og blómið stóð í stað, það rétt hékk svona á nokkrum blöðum og mér var sagt að henda því.

En af því systir mín hafði beðið mig um að passa blómið vildi ég ekki henda því og setti það fyrir einhverja rælni í eldhúsgluggann. Og viti menn, blómið tók á sprett og hefur nú í tvö ár vaxið og vaxið og breytt úr sér í glugganum. Það er komið á réttan stað. Þetta er dæmisaga um rétta staðinn. Það var norðurglugginn.

Og ég fór að hugsa einsog þetta blóm, á ég að flytja norður, er ég á rétta staðnum, hver er rétti staðurinn fyrir mig?

Og enn hafa undur og stórmerki gerst!!!!!!!!!!!!!!!!!

Blómið hefur borið ávöxt.

Það eru stórfurðulegur ávöxtur, kristalsklasi, sem hefur litið dagsins ljós.

Kristalsklasi brúnleitur, undurfíngerður, eftir öll þessi ár.

Það er margir örfínir stilkar og á hverjum stilk er svona kristalslaga jurt og þetta er einsog knippi eða vöndur, kristalsblómavöndur.

Þetta var sagan um Elísabetu og blómið.

Ella Stína talar upphátt

Ella Stína var alltaf að rústa öllu. Hún tildæmis rústaði öllum brúm sem hún var búin að byggja milli sín og vina sinna og fjölskyldu. Ef fjölskylda og vinir komu í heimsókn fékkst ekki orð uppúr Ellu Stínu því hún var svo upptekin við að hugsa: Afhverju rústa ég alltaf öllu. Það endaði með því að vinirnir og fjölskyldan gáfust uppá henni og fóru, Ella Stína var ein eftir og þá hún sagði upphátt: Afhverju er ég alltaf að rústa öllu.

Og þá vissi hún það! Það var til að geta sagt þetta upphátt.

Önnur gáta

Hér er önnur gáta:

Ella Stína var alltaf að þræla sér út og svo refsaði hún sér fyrir að þræla sér ekki nóg út.

Spurt er: Hvernig getur hún hætt þessu?

Því ef hún hættir þessu hrynur heimsveldið.

Heimsveldið byggir nefnilega á sterkum stoðum.

Ella Stína getur auðvitað haldið þessu áfram að þræla sér út og refsa sér, en það er ekki verið að spyrja að því.


Vinnið fyrstu verðlaun!

20 júní 2007

Við erum öll skrítin

Katrín kom með lausnina í sambandi við söguna hér að neðan og fær að launum ferð til Skagafjarðar. Hún stakk uppá að áhorfandinn færi að hlæja. Ég veit ekki hvaðan hún fær þær hugmyndir að áhorfendur hlæi en hvað um það. En svona gerist þetta.

Þriðji áhorfandinn gengur í salinn og sér einn sofandi áhorfanda og annan grátandi og svo sér hann Ellu Stínu sem er ýmist að hugga grátandi áhorfandann eða læðupúkast fyrir framan sofandi áhorfandann og þá fer grátandi áhorfandinn að gráta meira og þá læðupúkast Ella Stína enn meira. Þriðji áhorfandinn fylgist gaumgæfilega með þessu og hugsar: einn sofandi, einn grátandi, ein sem gerir tvennt í einu og er að klofna. Þriðji áhorfandinn fær þá raunveruleikasjokk og hugsar: Við erum öll skrítin.

Og þá fór hann að hlæja.

Þriðji áhorfandinn

Þið munið eftir Sirkus Ellu Stínu þar sem voru tveir áhorfendur, annar grátandi en hinn sofandi. Ella stína var alltaf að reyna fá þriðja áhorfandann en vissi ekki hvernig hann átti að vera.

19 júní 2007

Guðinn Janus

„Janus var talinn með æðstu goðum Rómverja en Grikir þekktu hann alls ekki,“ segir Jón Gíslason í hinni óviðjafnanlegu Goðafræði Grikkja og Rómverja frá 1944. „Sumir álíta að hann muni í fyrstu hafa verið goð sólar og ljóss. En snemma verður hann goð alls upphafs og byrjunar og öðlast þannig hina mestu þýðingu , bæði í einkalífi og opinberu lífi Rómverja.“ Jón segir frá því að í byrjun janúar var aðalhátíð Janusar – menn skreyttu hús sín blómsveigum og lárviðargreinum og færðu guðinum brauð, vín og reykelsi. Upphaf hvers dags var einnig í vernd Janusar, og Rómverjar hétu á hann þegar þeir hófu eitthvert verk – á Forum Romanum gengu hermenn um hof hans á leið í styrjöld. „Janus var einnig guð farsællar inn- og útgöngu í öllum húsum, strætum og borgum. Hann var verndarvættur og vörður allra hliða og dyra. Festu menn upp mynd guðsins yfir húsdyrum. Voru á henni tvær ásjónur. Horfði önnur út en hin inn.“



Þessi umræða spratt öll af reynitrénu og sér ekki fyrir endann á. Ég skal svo blogga meira um reynitréð. Það eru í því vasaklútar að armenskum sið og glerkúlur að afrískum sið. Ég elska ykkur.

Og eitt enn. Guðinn Janus var úr Rómaveldi þótt sjálfsagt hann átt sér dýpri rætur einsog flestir guðir og oft búinn að skipta um kennitölu en það leiðir hugann að því að við erum stödd í Heimsveldi Ellu Stínu og kannski vantar það heimveldi guð, hof, dyr eða lása, lárviðarsveiga. Já og andlitin tvö. Reyndar vantar mig ekki neitt. Ég elska ykkur.

18 júní 2007

Reynitréð í garðinum

Það vex reynitré í garðinum mínum. Ég tala stundum við það, ekki mikið, en í morgun hrósaði ég því sérstaklega fyrir að hafa teygt sig upp yfir þakrennuna. Svo vaxa á því hvít blóm.

HÚM

Hve hljótt
flögra þau fiðrildin


fegurstu nótt í sumri


(Stefán Hörður Grímsson)

Allt

Í staðinn hugsar maður um eitthvað sem er fext
og hvernig því fari vindur í faxi
en við skulum ekki nota orð
fyrir alla lifandi muni ekki orð
ég bara hangi í hárinu á þér
og sjórinn er fyrir neðan


(Stefán Hörður Grímsson)

Lýðveldiskerran

Nú er Ella Stína að pakka saman í sína lýðveldiskerru, hún pakkar já hverju, æ öllu dótinu, fánanum frá afa og ömmu, fánanum sem hún keypti útí Bykó og skuldar ennþá, þremur litlu standfánunum sem eru útá tröppum í blómapottinum, brotna fánanum í stiganum, stolna rifna blóðuga fánanum af strandferðaskipinu eddu, og hvað er hún farin til vesturheims að stinga þessu öllu niður? Eða til Laugarvatns í sumarnóttina, því nú ræður sumarnóttin, ó sumarnóttin, ekkert er eins fallegt.

Það fannst nefnilega komment hér þarsem einhver káhá er að kommentera að svona eigi ég að skrifa. OPNA HJARTAÐ MITT. eða hvað? hætta með Ellu Stínu, þetta segir mamma líka. Blogg er auðvitað blogg, ég hef verið að gera skáldskap og það ókeypis, en ég get alveg sagt ykkur hvað ég lærði í dag, að það er gaman að fara með mömmu sinni í 17. júní þegar börnin og barnabörnin eru önnum kafin með sína fána einhverstaðar af því lífið hefur haldið áfram.

og eitt annað lærði ég í dag. og það er það að lífið er alltaf að kenna mér eitthvað og það er sársaukafullt því ég vil alltaf vita niðurstöðuna fyrirfram. en þá er lífið að kenna mér eitthvað, það er eitthvað áframhald, hreyfing, og ef ég dulkóða þetta þá skrifaði ég ímeil sem mér fannst ég endilega þurfa fá svar við...

og hvað gerðist:

ÉG FÓR AÐ LESA LJÓÐ. LJÓÐ.

Ljóð eftir vin minn heitinn Stefán Hörð Grímsson.

Af því alltíeinu þráði heilinn í mér ljóð. Ég les aldrei ljóð. En ljóð var það eina í stöðunni. Og þá fattaði ég að lífið er að kenna mér að taka áhættu, bíða, opna hjartað, andvarpa og vona og langa tilað senda sms þarsem stendur:

ég veit um sjóinn á einum stað.

En þegar ég uppgötvaði að lífið var að kenna mér eitthvað og þetta myndi allt koma í ljós, þá segi ég ekki að ég hafi fengið tár í augun, en jú eitthvað nálægt því, og þá kom þetta traust og ég uppgötvaði að lífið er stærra en ég.

en þetta fattaði ég allt út af einu fökking ímeili sem ég sendi....viltu pæla í því.

17 júní 2007

17.júní hjá Ellu Stínu

Ella Stína vaknaði eldsnemma og lagði kókdós að minnismerki Ingólfs Arnarssonar.


Minnismerkið er landnámsskálinn í Austurstræti, öðru nafni Disney-skálinn þarsem hægt er að ýta á takka og heyra í Andrési Önd og kókdósin var auðvitað tóm.

16 júní 2007

Reikningskúnstir Ellu Stínu

Ella Stína er búin að reikna út ef hún skrifar tvær línur fær hún átta komment.
Og mesta athygli ef hún skrifar um höfnun, amk. í tveimur línum! Ella Stína er smám saman að átta sig á heiminum. Því hana dreymir auðvitað um að "fit in" svo hún er allstaðar að reyna að troða sér.

15 júní 2007

Ella Stína rotar selinn

Eða Ella Stína? Stundum má hún fá frí. En ég Elísabet er með geðsjúkdóm, reyndar tvo, geðhvörf og alkóhólisma, og slatta af þráhyggju og paranoju en það er nú bara bland í poka miðað við stóru súkkulaðistykkin. Svo eru sumir dagar þannig að þótt ég hafi ekki veikst í átta ár af geðhvörfum og ekki af alkóhólisma í 14 ár, þá stundum rísa þessir sjúkdómar upp einsog drekar og leggja allt í rústi með einu andvarpi. Þá lækkar sjálfsálitið, sjálfstraustið fer, efasemdarköstin skella á mér, og þótt ég fari með bænir, tali við trúnaðarkonu þá gagnast það ekki neitt, ekki fyrren en ég fer að skrifa líka, eða skrifa og tala við guð og trúnaðarkonu, já og fæ kannski ímeil frá mömmu, því nú er bylgjan hjöðnuð, og allt í góðu, en ég komst að því á fótboltavelli á sínum tíma að það væri ekki einleikið hvað sjálfstraustið væri brothætt, ég sem er svo frábær!!! og það var þá sem ég ákvað að skrifa þessa bók, um geðhvörf, þá mjatlar sjúkdómurinn á bak við og segir: Þú ert geðveik, það er ekki hægt að tala við þig, vinna með þér, þú segir of mikið of lítið, og þetta er svo lágróma rödd að ég heyri hana varla, svona einsog dropinn holar steininn, ég finn reyndar í þessum töluðum orðum hvað þetta er viðkvæmt og ætti ekki að vera það, eða hjálpar mér ekki neitt að það sé svona viðkvæmt: hvað ætli lesandinn haldi!?, af því þetta er minn heimur og ég á rétt að segja frá honum, laga hann, breyta honum og allt þetta hérna. En ég þakka guði fyrir að ég geti skrifað. Takk guð. Og nú ætla ég auðvitað að vera sniðug í restina, því ég er háð því að vera sniðug, og segja að þegar ég verð búin að skrifa þessa bók, THE BIG BOOK OF MADNESS, hin stóra bók um geðveikina, þá fer ég auðvitað heim, á selnum og í fjöruborðinu þá rek ég bókina í höfuðið á selnum og slepp lifandi heim í Odda. Sæææææææææææmuuuuundur, here I come.

Ég meina auðvitað Elísabet.

14 júní 2007

Yfir strikið

Mamma hennar Ellu Stínu sagðist stundum kíkja á Heimsveldið en findist það frekar þreytandi, Ella Stína færi alltaf yfir strikið. Ertu ekki að meina að Ella Stína færi strikið, spurði Ella Stína og mundi þá eftir því að mamma hennar hafði sett á fót strikaverksmiðju sem framleiddi eiginlega bara strik handa Ellu Stínu. Og ef Ella Stína þarf að fara yfir strikið grípur hún með sér eitt strik og færir svo strikið eftir tilfinningunni því auðvitað er Ella Stína komin með mjög góða tilfinningu fyrir strikum. Og ef Ella Stína þarf að fara yfir strikið segir hún mjög hógvær og lítillát: Ef ég má aðeins fara yfir strikið.

En yfirleitt trylltist hún einsog hamstur þegar sú strik og öskraði af öllum lífs og sálarkröftum: HVER SETTI ÞETTA STRIK ÞARNA!!!!!!!!!

13 júní 2007

Höfnun Ellu Stínu

Ég er að bíða eftir höfnun svo ég hrökkvi í gang. Eða einsog maðurinn sagði: Ef ég fæ höfnun, þá er ég fínn.

Ella Stína er feimin nörd

Vinkona mín sagðist ekki geta orðið hrifin strák ef hann er feiminn nörd. En hvers eiga feimnir nördar að gjalda, ef hann er tildæmis sætur, ókei ekki nógu að vera sætur, eða góður, ókei, ekki nóg að vera góður. Ég er tildæmis feimin nörd. Ég vil alltaf vera skrifandi og vil helst ekki fara neitt af því þá er ég ekki skrifandi, mér finnst að vísu gaman að fara á fótboltaleiki. En flest annað, úff. Þá þarf maður að hafa sig til og hætta að skrifa. Svo á ég engan sjéns ef ég er feimin nörd.

Ella Stína leitar að sjálfri sér

Já það yrði nú saga til næsta bæjar ef Ella Stína færi að leita sjálfri sér. Hverjir yrðu þá á hælunum á henni, litlar Ellu Stínur sem vildu vera blóm í blómabeði en Ella Stína las svoleiðis sögur þegar hún var lítil um börn sem höfðu breyst í blóm, já norn hafði galdrað þau og Ella Stína fann svo til með þeim, verst af öllu var að vera blóm og í einhverjum garði, fast í garði, og Ella Stína horfði væmin og dreymin útí loftið og beið eftir næstu gusu og stjórnaðist af veðrinu, stjórnaðist og stjórnaðist, fjarstýrt blóm sem lét stjórnast af öllu þangað til hún hneigði höfuð sitt, blómahöfuð sitt, í átt til moldar.

Þá kom lítill ormur og sagði eitthvað um þunglyndislyf eða hvort hann ætti að naga gat á hana en þá sagði Ella Stína, þetta er ekki lengur skemmtileg saga, mundu að þú verður að enda þegar sagan endar.

Og svo fór hún aftur inní þvottahús til ömmu sinnar.

12 júní 2007

Síðasti blóðdropi Ellu Stínu

Og ef þú heldur að Ella Stína hafi ekki barist fyrir að vera hún sjálf, þá gerði hún það svo um munaði. En í hvert sinn hækkaði staflinn sem geymdi málsskjölin, rottunum fjölgaði, dómarinn varð ófrýnilegri, lögfræðingarnir urðu óskiljanlegri en Ella Stína hélt áfram að berjast. En það var við ofurefli að etja.

Og svo eitt leyndardómsfullt í þessu, Ella Stína geymdi sjálfa sig á vísum stað. Það getur vel verið að hún hafi gleymt því í áranna rás og ruglingi réttarhaldanna, en hún geymdi sig og mundi ekki hvar. En á meðan er von.

En vonandi fer vonin ekki fyrir rétt.

Kannski geymdi Ella Stína sjálfa sig í síðasta blóðdropanum. En hún gat aldrei farið að leita að sjálfri sér því það glumdi alltaf í hátalarakerfinu: Næsta mál á dagskrá: Ella Stína.

Ha, sagði Ella Stína.

Ertu með næsta mál, var spurt.

Já.

Hvað er það?

Ella Stína.

Gott.

Og þannig vildi það til að Ella Stína var orðinn lögfræðingur sem sótti mál gegn sjálfri sér, og svo varð hún dómari yfir sjálfri sér.

Já, það var í þá góðu gömlu daga þegar allt hér Ella Stína.

Ella Stína dæmd

Og fyrir hvað var Ella Stína svo dæmd? Jú einmitt, fyrir að vera Ella Stína. Svo smámsaman hætti hún að vera Ella Stína.

Sérstaklega þegar voru komnir 30 lögfræðingar í spilið og réttarhöldin fóru fram í skítaholu og rafmagninu sló alltaf út og rotturnar nærðust á málsskjölunum. Já þá hætti Ella Stína að vera Ella Stína.

Réttarhöldin féllu niður. Ekkert gaman lengur.

Ella Stína hafði verið blíð, góð, kotroskin, ráðagóð, skemmtileg, gáfuð, kunnað fullt af vísum og sagði sögur og kommenteraði. En þetta breyttist semsagt þegar hún var dæmd fyrir þetta allt, já þá varð hún allt öðru vísi, andstæða þess sem hún hafði verið og var ekki lengur Ella Stína.

Svona geta örlögin nú verið börnin góð.

11 júní 2007

Nú skín sólin

og ég hef ekkert að segja. En sólin skín og mig langar útí Flatey eða í Sundlaug Vesturbæjar. Það er þáttur í útvarpinu um frumbyggjaslóðir í Kanada sem telja að talan 4 sé heilög. Merkilegt að þurfa alltaf að hafa eitthvað heilagt, ókei höfum töluna fjórir heilaga. Það er útaf frumefnunum og á meðan finnast ekki fleiri, einsog hljómurinn, hljómurinn er frumefni.

Og nú er Gottskálk í útvarpinu að tala um eitthvað frá 3.öld, ævisögu Þeópastosar, við skulum sjá hvað hann vann sér til frægðar, var í akademíu Platons, þess leiðindapúka sem lagði hornsteininn að þessari geldu vestrænu menningu. Ég veit það gefur færi á kreppu að vera ekki ánægður með sig, ég meina er ég ekki vestræn, jú, en Platon var alltaf að spyrja: Afhverju erum við hérna.

Svona svipað og þegar maður klórar sér. Klórar í sárinu. Ha ha ha.

Sérkenni í siðum manna, skrifaði þessi Þeópastos um. Já, hann skrifaði um lestina, ó sick, ég sem er svo frábær. Nú kemur Garpur í bæinn, hann opnar hurðina einsog enginn annar. Rífur hana upp með tilþrifum og svo segir maður: Ég elska þig langt útá götu þegar hann fer.

Garpur er svo yndislegur, bjartur og gáfaður.

Meira um börnin seinna, best að fara blogga um börnin, þá hlýnar mér svo um hjartaræturnar.

Ást og knús. Mér finnst soldið gott sem Ásta Lovísa sagði Tjá Tjá þegar hún kvaddi, það hefur verið meiri kraftaverkakerlingin og engillinn.

Tjá stendur fyrir tjáningu og Kjá fyrir að kjá.

Tjá Tjá.

Kjá kjá.

10 júní 2007

Konan, djöfullinn og guð

Konan var alveg hrikalega skotin í manni og snerist svoleiðis í hringi í höfðinu á sér hvort hún ætti að hringja í hann en það var alveg sama hvað, hún komst ekki að neinni niðurstöðu svo hún spurði djöfulinn og djöfullinn ansaði: Láttu hann í friði. Þá bað hún til guðs og guð svaraði: Láttu hann í friði. Hva, sagði konan, þið eruð bara sammála, þetta er í fyrsta skipti sem þið eruð sammála svo ég viti til. Já, sögðu guð og djöfullinn, við erum hinsvegar aldrei sammála um hvað sé friður.

09 júní 2007

Réttarhöldin yfir Ellu Stínu

Réttarhöldin yfir Ellu Stínu höfðu staðið í háa herrans tíð, já mörg ár. Ella Stína stóð alltaf í réttarsalnum og svo var réttað yfir henni, vitni leidd fram og hún dæmd sek með því að dómarinn sló hamrinum í borðið. En óðar og Ella Stína hafði verið dæmd í lífstíðarfangelsi hófust réttarhöldin á nýjan leik, vitni eidd fram, dómurinn féll og svo framvegis. Það endaði með því þegar réttarhöldin höfðu staðið í 29 ár eða 49 ár, það man það enginn lengur að Ella Stína ræskti sig og spurði kurteislega: Fyrirgefið, hvenær get ég fengið að fara í fangelsið?

Heilögu mennirnir

Ella Stína og heilögu mennirnir

Ella Stína elskaði heilaga menn, auðvitað elskaði hún þá ekki, hún dýrkaði þá og vissi ekkert hvað ást var. Ella Stína dýrkaði heilaga menn og vissi ekkert að þeir voru heilagir því stundum langaði hana að sofa hjá þeim þótt hún vissi ekkert af því að hún væri orðin stór og komin með konulíkama, hún var alltaf með óspillta barnshugann inní sér, geymdi hann og varðveitti einsog spiladós frá rússneska keisaratímabilinu.

En svo einu sinni skrifaði hún einum heilaga manninum ímeil. Þá kom svo mikið óveður inní henni að hún feyktist næstum um koll, sektin, skömmin, efasemdirnar voru einsog risaöldur sem ætluðu að færa hana í kaf. Hún var ekki viss um að hún gæti staðið þetta af sér því nú kom þunglyndið æðandi svo skinnið á Ellu Stínu rifnaði næstum af. Það var þá sem eitthvað eða einhver bjargaði henni og hinn gríski heimspekingur kom upp í Ellu Stínu eða Jesú þarsem hann hékk á krossinum því Ellu Stínu fannst hún alltaf vera lítill Jesú sem hafði fórnað sér og sem guð hafði yfirgefið því nú hrópaði hún útí tómið af öllum lífs og sálarkröftum: Hversvegna, hversvegna.

Það var þá sem svarið birtist henni á himni eða einhverstaðar þar nálægt: Þú snertir heilagan mann.

Og nokkrum árum seinna því allt sem gerðist einu sinni hjá Ellu Stínu hélt áfram en þá datt henni semsagt í hug að hún væri sek kona og ætlaði að reyna að læknast með því að snerta þennan heilaga mann. Og hún væri ekki bara sek heldur veik. Og ástin hefði lækningamátt.

Lækningamátturinn var aðalkrafturinn í lífi Ellu Stínu. Hún varð alltaf að vera læknast. Hún var svo veik. Og útaf hverju var hún svona veik, jú útaf því að hún var Ella Stína.

Þetta var allt fólgið í nafninu svo hún skipti um nafn á sjálfri sér. Þá gat hún tekið bremsurnar úr og keyrt fram af bjargbrúninni og sjálfa sig í klessu og þar tók þunglyndið við. Því auðvitað gat hún ekki dáið.

Uppvask og Nóbelsverðlaun

Ella Stína vildi helst ekki vera að vaska upp. Hún vildi miklu frekar vera að taka á móti Nóbelsverðlaununum.

Svo ef þú hittir Ellu Stínu og hún er eitthvað annarshugar þá er hún einmitt að taka á móti verðlaununum og eina sem þú getur gert er að klappa, nú eða senda komment.

Konfortsón Ellu Stínu

Ella Stína og konfortsónið

Ellastína elskaði konfortsónið, gálgann, rafmagnsstólinn, hengiflugið, þögnina, hættusvæðið. Einu sinni var Ellu Stínu sagt að hætta að vera í konfortsóninu. Ha? Sagði hún. Er ég í einhverju konfortsóni? Já, þú ert alltaf í höfðinu á þér. Ella Stína vissi ekki hvert hún ætlaði en svo náði hún sér að fullu og sagði: Hausinn á mér er hættusvæði.

Brúðuleikhús Ellu Stínu

Ella Stína er bara sjö ára en hún rekur brúðuleikhús. Hún stjórnar brúðunum með strengjunum. Brúðurnar eru allar flæktar saman í strengjunum svo það er mjög erfitt að hafa nokkurt leikhús. Ein brúðan liggur í gröf, það er pabbi hennar en Ella Stína togar reglulega í spottann sem liggja í pabbann í gröfinni svo hann þeytist uppúr gröf sinni og hún þrýstir honum að brjósti sér og skrækir: Ó pabbi, hvernig gastu dáið.


Brúðan af henni sjálfri.
Ella Stína er auðvitað löngu búin að búa til brúðu af sjálfri sér og setja hana ofaní gröfina hjá pabba sínum en brúðan hverfur alltaf því pabbabrúðan virðist ýta henni í burtu eða kannski éta hana. Svo Ella Stína þarf alltaf að vera búa sjálfa sig til uppá nýtt. Jafnvel á hverju augnabliki.


Kærastinn.
Svo eignaðist hún kærasta og hún taldi þá rétt að taka aðra gröf. Ekki spyrja mig afhverju, Ella Stína er bara sjö ára og vill alvöru dramatík. Hún setti sig og kærastann ofaní gröfina en fljótlega fann hún að kærastinn myndi ekki fá nægilegt pláss svo hún byrjaði að tálga af sjálfri sér og loks var bara ein lítil flís eftir sem passaði einsog flís við rass. Enginn þarf að spyrja hvaða rass. Nema þá var kærastinn búinn að fá allt plássið í gröfinni og Ella Stína gat allsekki togað flísina upp, spottinn slitnaði í hvert sinn. En Ella Stína gafst ekki upp, hún var ekki sú manngerð. Hún hafði líka lesið Zorro, Superman og Batman þegar hún var yngri og glæsilegri.


Viðhaldið.
En þótt Ella Stína væri svona svakalega góð að vilja gefa kærastanum allt plássið í gröfinni þá var hún líka ógeðslega vond og hún hellti sér reglulega yfir kærastann fyrir að taka allt plássið í gröfinni. Kærastinn botnaði ekkert í því, hann hélt hann lægi í sófanum að horfa á Skjá einn í átta klukkutíma. Svo góða Ella Stína var orðin svo vond að hún ákvað einmitt að búa til vondu Ellu Stínu og sú var nú til alls vís. Hún skrifaði manni í bankanum sem átti sér einskis ills von þarsem hann var að reikna út laun bankastjóranna þegar hann fékk kvörtunarbréf Ellu Stínu sem í stað þess að spyrja hann hvort hann vildi sofa hjá henni í hefndarskyni fyrir hvað hún átti leiðinlegan kærasta en þá skrifaði hún svohljóðandi skáldlegt kjaftæði um eitthvert farg sem lá ofaná henni umleið og hún þrýsti bankamannsbrúðunni svo að sér að það rifnaði á henni maginn. En Ellu Stínu var alveg sama, hún glápti bara inní magann og hló. En svona var ímeilið hennar:


Ímeilið.
Elsku hinn
Mér líður einsog ég sé í kremju eða undir fargi af hugsunum, og bíð
eftir að einhver nái í mig, að ég geti allsekki lyft þessu fargi
sjálf, heldur verði einhver að koma og bjarga því, því þessar
hugsanir séu hvort sem er ekki raunverulegar og ekkert að marka þær
og aðalvinnan felst semsagt í því að telja mér trú um að þetta sé
ekkert farg, og ég sé ekki í kremju, og í staðinn fyrir einsog núna
að skrifa þér bréf, þá skuli ég hugsa mig til helvítis og hugsa
þetta allt í burtu þangað til ekki ein einasta hugsun er eftir í
höfðinu, og allt orðið tómt og dimmt, og þá sé fargið farið, en þá
er einmitt allt farið og einhver ýtir krossinum á gröfinni lengra
niður í jörðina svo hann þrýstist niður í höfuðkúpuna, svo hún
klofnar og það er það eina sem frelsar hugann eða líkamann eða
jörðina, einn klofningurinn enn.

En málið er að ég eignaðist það sem ég kalla kærasta og er búin að
vera búa mig undir að jarða hann, með því að afmá sjálfa mig, svo
hann fái allt plássið í gröfinni.

Kær kveðja, Elísabet


Hún laug svo miklu.
Ella Stína minntist ekki orði á brúðuleikhúsið og svo hékk hún í tölvunni og beið eftir svari frá hinum sem ekki kom. Ella Stína varð brjáluð en hún gat ekki stjórnað hinum. Hún laug svo miklu að honum.


Þræðirnir.
Það voru margir fleiri þræðir og ótal persónur hnýttar í Ellu Stínu. Það voru börnin, tengdabörnin, barnabörnin, skólafélagar, kennarar, vinir, mamma hennar, bræður, lesendur, aa-félagar og já, á einum stað hékk guð, alveg svoleiðis í flækju að hann var einsog rækja eða eitthvað. Ella Stína hristi stundum hrúguna. Eða togaði í einn og einn spotta og æpti reglulega: Við erum öll í sama sjónvarpsþættinum.


Puttarnir.
Puttarnir á Ellu Stínu voru marðir og djúp för eftir spottana en henni var sama. Hún sagði: Puttar skipta engu máli. Og svo duttu þeir af einn af öðrum. Þá sagði litla rækjan: Ætlarðu að gefast upp? Aldrei í lífinu, sagði Ella Stína og blóðið spýttist yfir leikhúsið. Svo storknaði blóðið og það kom þögn.

Ætlar enginn að segja neitt, æpti Ella Stína.


Blóðköggull.
Og þannig gekk þetta árum saman og Ella Stína var alltaf sjö ára og átti ekkert líf af því hún var alltaf upptekin af því að leika sjálfa sig. Missa puttana, missa blóðið úr sér, hún þurfti alltaf vera byrja uppá nýtt eða auðvitað byrjaði hún ekki uppá nýtt, hún hélt bara áfram og leikhúsið hennar var þegar hér er komið sögu einn lítill blóðköggull.


Uppgjöfin.
Þá loksins gafst hún upp. Það var nú bara útaf aðsókninni. Það voru allir hættir að koma og hún fór í bað og bað guð um hjálp, að hún mætti gefast upp en það hafði hún lært í AA-samtökunum. Guð sagði: Fáðu þér útidyrahurð!

Útidyrahurð!

Já.

Ókei, og svo fékk hún sér útidyrahurð og guð lét fortíðina hanga fyrir utan á tröppunum semsagt. En Ella Stína var inni að reyna stjórna gömlu brúðunum með gömlu aðferðunum og vissi ekkert að guð hafi sett fortíðina á tröppurnar fyrir utan útidyrahurðina. Ella Stína tók ekkert eftir fortíðinni á tröppunum þegar hún fór í skólann á morgnana enda var hún bara sjö ára.


Fortíðin slapp inn.
Svo einn daginn eignaðist hún kærasta og þegar hún opnaði fyrir honum slapp fortíðin inn með honum. Til að gera langa sögu stutta fór Ella Stína að stjórna kærastanum uppá líf og dauða og fannst hún hefði aldrei lent í þessu áður. Þetta er það erfiðasta sem ég hef lent í, sagði Ella Stína milli þess sem hún reyndi að stjórna í skólanum með því að þykjast ekki kunna talnarunur í Maraþoni eða vera klárari en Fúkó. Eða hún sagðist vera alkóhólisti, eða með geðhvörf, þá þorði enginn að segja neitt og allir urðu andaktugir yfir því hvað Ella Stína var opinská og bara sjö ára og þetta hlaut að vera álag á henni, ef öll sund lokuðust sagðist hún vera Elísabet Jökulsdóttir en þá einmitt lokuðust sundin. En nú er sagan orðin of löng.

Guð sendi Ellu Stínu í bað eitt kvöldið þegar hún átti að gera gjörning.

Bað!

Já, sagði guð.

Og þar gafst Ella Stína upp. Ég get ekki stjórnað honum, ég get ekki stjórnað sjálfri mér.


Um sjálfa þig, sagði guð.
Já, sagði guð, þetta er nefnilega um þig, ekki hann.

Um mig, skrækti Ella Stína og fann að hún var með þræði sem lágu í alla sem henni þóttu vænt um og alla sem skiptu hana máli svo hún þyrfti ekki að finna ást, enda var hún löngu farin að trúa að ást væri stjórnun en ást væri ekki tildæmis að vera og leyfa öðrum að vera.

Ella Stína hélt áfram að gefast upp eftir hún kom úr baðinu. Enda hafði hún aldrei farið í bað, þetta var ný reynsla fyrir manneskju sem býr í brúðuleikhúsi. En þá sagði hún: Guð. Ég gefst upp. Og hún fann að guð ætlaði að taka við. Guð ætlaði að taka þetta frá henni. Guð elskaði hana. Guð ætlaði að taka við.

Kannski gæti Ella Stína einhverntíma búið til leikhús.

Sirkus Ellu Stínu

Sirkus Ellu Stínu stoppaði aldrei og byrjaði aldrei. Það var einn áhorfandi í þessum sirkus. Hann sofnaði alltaf og þá gat Ella Stína skemmt sér verulega, skrattast um og púkast og gert það sem henni sýndist. Annars þurfti hún alltaf að vera gleypa eld, saga fólk í tvennt, sveifla sér í rólum, ganga á línu, dansa á fílum og guð veit hvað. Áhorfandanum fannst það svo leiðinlegt að hann steinsofnaði og þá gat Ella Stína semsagt farið að gera það sem henni sýndist. Þangað til eitt kvöldið að það bættist við nýr áhorfandi. Þessi áhorfandi truflaði sirkusinn með sögu sem hann var að segja. Ellu Stínu rann kalt vatn milli skinns og hörunds og læddist framá brúnina tilað heyra söguna. Og það var þetta sem hún heyrði: Veistu hvernig mér líður. Ég er viss um að þú veist ekkert hvernig mér líður, þér er alveg sama hvernig mér líður. Ella Stína hugsaði sér að hún yrði að finna uppá alveg nýju atriði handa þessum áhorfanda og hugsaði sig lengi um. Og hún er enn að hugsa. Það er reyndar ekki rétt því hún settist niður og saumaði út vasaklút handa þessum áhorfenda og hún er enn að þurrka tárin hans og hefur engan tíma fyrir sirkusinn sinn því tárin streyma viðstöðulaust og ef lát verður á þeim þá kreistir hún áhorfandann svo hann grætur meira og á meðan er sviðið autt.

Ella Stína og ræninginn

Einn daginn ákvað Ella Stína að hætta að gráta og þá
uppgötvaði hún raunverulegt ástand sitt, hún hafði verið
rænd. Hún hafði samt ekki verið að gráta yfir því. Hún hafði
verið að gráta yfir því að ræninginn var dáinn.

Þetta hafði samt ekkert verið sérlega elskulegur ræningi,
hann hafði varla veitt henni eftirtekt, hann yrti varla á
hana, hann hlustaði aldrei á hana, hann mætti ekki einusinni
í afmælið hennar. En Ella Stína neitaði að sjá þetta. Það var
útaf því að hann var búinn að ræna úr henni augunum. Og hún vissi ekki hvar hann hafði látið þau. Hún hafði líka
fljótlega gleymt að spyrja hann, það hefði verið svo
óþægilegt fyrir ræningjann ef hún sagt: Fyrirgefðu, þú ert
búinn að ræna úr mér augunum, geturðu sagt mér hvar þú lést þau.

Ræninginn hefði getað farið alveg í kerfi.

Ella Stína komst fljótlega að því að það var búið að ræna
sögunni hennar svo hún einsetti sér að grafast fyrir um hana
og byrjaði í Landnámsskálanum en fann hana svo í píkunni, þar fann hún eina perlu, skeið, og brot úr diski. Hvað átti hún nú að gera við þetta, hún varð að hitta norn sem gæti hjálpað henni, en það var búið að ræna úr henni norninni svo Ella Stína fór að leita að norninni en þá byrjaði að hún hugsa svo mikið en það fyrsta sem henni hafði dottið í hug var spegillinn svo hún leit í spegilinn og þar sá hún nornina.
Ella Stína fór að hlæja. Nornin sagði: Settu þetta á
Þjóðminjasafnið. Ella Stína gerði það, hún læddist eina
nóttina inná Þjóðminjasafnið og setti skeiðina, perluna og
brotið úr diskinum og skrifaði: Þetta fannst í píku á sjö ára
barni. Er ég ekki annars sjö ára, hugsaði Ella Stína því það
var ekki von að hún myndi hvað hún var gömul því árunum hafði verið rænt frá henni. Æ, skiptir ekki máli, sagði Ella Stína og fór. Daginn eftir varð allt vitlaust því það kom í ljós að það mátti ekki hver sem er setja eitthvað á Þjóðminjasafnið.

Ella Stína rétt gat náð í dótið sitt og ákvað að stofna
Þjóðminjasafn heima hjá sér. Líka ef hún skyldi finna
eitthvað meira í sjálfri sér.

Og Ella Stína vissi aldrei hvað hún átti að segja því hann
var búinn að ræna frá henni málinu. Og hún hafði svo miklar áhyggjur því það var búið að ræna hana traustinu en verst fannst Ellu Stínu þótt hún vissi varla af því því ræninginn hafði rænt frá henni meðvitundinni svo hún var meðvitundarlaus en samt fannst henni verst að hann hafði rænt hana ákveðninni svo hún vissi aldrei hvað hún átti að gera eða hvernig hún átti að vera. Uppáhaldsbókin hennar var Bláskjár en Bláskjá var einmitt rænt af ræningjum og ólst upp hjá ræningjum. Ella Stína lifði sig svoleiðis inní þetta. En það var eitt sem var ekki hægt að ræna af Ellu Stínu og það var lífið.

Ella Stína vissi samt ekkert um lífið. Hún vissi samt að
lífið var útum allt.

Hún hafði verið rænd gleðinni og þessvegna var hún alltaf
sorgmædd og alltaf að gráta en hún vildi ekki að neinn sæi
að hún væri að gráta svo hún skrifaði í staðinn, hún
skrifaði heilu búnkana og heilu staflana og herbergið hennar
var fullt af þessu. Svo nú ákvað hún að hætta að gráta. En
þá tók ekki betra við, hún hét sjálfri sér því að fara elska
sig því ástin veitir manni gleði en það var bara fyrstu
dagana sem hún setti á sig krem, en samt var það nú
svoleiðis að þegar skammirnar dundu yfir hana frá henni
sjálfri, þá sagði hún ella stína ég elska þig.

En víkjum nú að því þegar Ella stína var alltaf skrifandi,
hún var ekkert að skrifa fyrir sjálfa sig, hún var að skrifa
einsog hún hélt að aðrir vildu að hún skrifuðu og hún þorði
ekki að gefa neitt út sem henni sjálfi fannst gott, ekki
nema hún hefði hugsað um það í heila öld, hugsanir voru sama og svefn er fyrir aðra, já hugsanir voru svefn fyrir Ellu
Stínu, og hún hugsaði ofboðslega mikið, lífið komst ekki að
því hún var alltaf að hugsa, guð komst ekki að, Ella stína
hugsaði svoleiðis og svoleiðis að hún var farin að halda að
hún væri snillingur, Ella stína er auðvitað snillingur, en
hún hugsaði samt of mikið, því það var þannig sem hún svaf
og hún varð að halda sér sofandi, hún var eiginlega í
öndunarvél þarsem henni var haldið sofandi, og hún varð
auðvitað að bíða eftir einhverri frelsun, hún var að bíða
eftir prinsinum, hún sá þá svoleiðis þjóta hjá en enginn
stoppaði ekki einu sinni þótt hún vínkaði enda þorði hún því
ekki fyrir sitt litla líf, svo var hún að bíða eftir að
verða fræg, og eða rík, og allaveganna, þegar hún var
unglingur hafði hún beðið eftir að verða uppgötvuð en fannst það svo barnalegt að hún hætti því, en samt í hvert skipti sem komu útlendingar urðu augun í henni svolítið stærri og hún vonaðist eftir að þeir sæju eitthvað í henni sem enginn annar hafði séð, já þannig hugsaði hún og svaf, og skrifaði, hugsanirnar voru líka grátur, það var allt
grátur í Ellu Stína, líka allskonar þráhyggjur einsog hún
gæti bjargað fótboltasigrum og allskonar, það var sama hvað hún gerði, hún var alltaf grátandi, og kannski var það
fyrsta sem kveikti á perunni hjá henni þegar strákarnir
hennar sögðu: fáðu þér tissjú.

Eftirað ræninginn var dáinn var Ella Stínu í stöðugu tölvusambandi við hann. Ræninginn var með hotmeil sem á stóð: ellastina@hotmail.com Aha, hugsaði Ella Stína, ræninginn heitir Ella Stína.

Ella Stína fór að gröf ræningjans en þá komst hún að því að hún var búin að ræna gröfina og ræninginn lá heima hjá henni undir rúmi og saug úr röri.

Ella Stína var rænd guði og það tók hana smá tíma að gera sjálfa sig að guði. Hún tilbað sjálfa sig og hugsaði stöðugt um sjálfa sig í staðinn fyrir gefa út blað sem héti: Smáfuglinn fagri.

Ella Stína var rænd svipunni sem hún notaði á sjálfa sig. Hún var heilt sumar að safna sér fyrir nýrri svipu, en mikið varð hún glöð þegar hún fékk loksins svipuna, hún gat ekki drukkið kaffi, ekki reykt, ekki opnað hurð, ekki strokið einhverjum um vangann, ekki slökkt á sjónvarpinu, ekki greitt á sér hárið, bara skrifað með vinstri hendi, ekki talað í símann, ekki skrúfað frá kalda krananum, og svo framvegis því hún var alltaf að berja sig með svipunni.

En þess ber að geta í sögulok að hún gat auðvitað allsekki
haldið á svipunni því hnefinn á henni var svo krepptur því hún var alltaf að berja sig í andlitið svo hún myndi ekki missa andlitið. Þið haldið kannski að þetta hafi allsekki verið svona en Ella Stína bjó inní píningarklefa og lá þar á píningarbekk, svo lá hún á sálfræðibekk, svo lá hún á ljósabekk, svo lá hún á rónabekk, og hún elskaði píningarbekkinn mest því hún hélt að það væri hennar eigin uppfinning og hún hefði fæðst þar.

Kínverska boxið

Kínverska boxið

I
Það var einn daginn að Ella Stína stóð á þröskuldnum hjá mér og vantaði að fá skrifaða söguna sína. Henni finnst hún eiga svo hrikalega fortíð að henni finnst hún alltaf þurfa að vera í stríði, það er einsog hún búi í fortíðinni, einsog fortíðin sé hús sem hún komist ekki út úr. Svo ég ætla að skrifa söguna hennar uppá nýtt tilað láta hana vita að hún eigi ekkert svona hrikalega fortíð, að hún eigi í raun afskaplega góða fortíð svo hún þurfi ekki alltaf að vera í stríðinu og ekki alltaf inní húsinu. Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja en ég gæti byrjað í fjósinu þarsem kýrnar eru, Stundvís, Huppa og fleiri og hún fær að reka þær útí móa, og það er svo kæruleysisleg stund, gott veður og hún ein í heiminum með kýrnar sem dóla og sletta halanum og með þessar stórkostlegu klaufir, stóra maga og heimspekilegu augu. Eða það segir mamma hennar. Mamma hennar sér heiminn skemmtilega einsog þetta með kýrnar að þær séu heimspekilegar. Það eru hrafnar í fjallinu og Ella Stína þarf ekki að hafa áhyggjur af nokkrum sköpuðum hlut.


II
Ella Stína er blind en það er alltílagi, mamma hennar er alltaf að tálga blindrastafi handa henni þegar hún er ekki að baka pönnukökur eða lesa reyfara.


III
Pabbi Ellu Stínu hafði tekið augun úr henni en mamma hennar setti þau í kínverskt box sem þær Ella Stína höfðu keypt á tombólu og mamma hennar sagði að Ella Stína fengi augun þegar hún yrði stór.


IV
Svo einusinni þegar mamma hennar var að mjólka sló eldingu niðurí fjósið og mamma hennar dó ásamt öllum kúnum. EllaStína leitaði að augunum tilað geta slökkt eldinn en fann hvergi boxið. Hún vissi ekki að mamma hennar var alltaf með augun á sér. En Ella Stína jarðaði allar kýrnar og mömmu sína og var heillengi að því og söng svo sálma og lóur í túninum og hrafnar í fjallinu og álfar í klettunum og lækurinn rann hjá. Ella Stína grét heillengi þegar mamma hennar dó en ekki nóg til að slökkva eldinn.

Hið fína komment

Nú getið þið góðir gestir gefið komment í gríð og erg. Það er búið að laga kommentdótið og það var snillingurinn hún Elísabet Ronaldsdóttir sem gerði það, og fær hún krilljón kossa og knús.

Ég talaði við Mánadís og hún hafði fengið RUGGUHEST í afmælisgjöf og hún sagðist elska mig. :)

Svo gerði Víkingur jafntefli í kvöld. Það var gaman að horfa á leikinn og sérstaklega á Jökul númer tíu.

En svo er það sagan hér að neðan um manninn sem vill ekki bjóða konunni í kaffi af því honum finnst ekki nógu fínt hjá sér og konunni finnst hún ekki nógu fín tilað fara útað borða. Hvernig eiga þau að ná saman??? Því það gæti verið að manninum fyndist ALDREI nógu fínt hjá sér og konunni fyndist hún ALDREI nógu fín. Og þá eiga þau á hættu að fjarlægjast?

Er þetta þeirra leið til að fjarlægjast?

Hvaða tilgangi þjónar fjarlægðin?

Vilja breyta þessu?

Hversu fínn verður maður að vera?

Hvað er fínt?

Er þetta aðferð til að lifa af, þe. maður er aldrei tilbúinn tilað deyja, maður er aldrei tilbúinn tilað fá konu í kaffi til sín, kona er aldrei tilbúin að fara borða með manni, - þetta er kannski hræðslan við dauðann.

Og ef þetta er táknrænt dauði sem drepur spennu og kemur fólkinu á jörðina, já hvað þá.

Og ef þetta er hræðsla við nálægð, - er eitthvað í því að gera. Hvað er svona gott við nálægð? Þau gætu hreinlega klesst á eða klesstst saman. ´

Hræðsla við nálægð. Það hljómar nottla einsog maraþonnámskeið í samskiptum. Nútímamaðurinn má ekki vera hræddur við nálægð, hann á sýna tómleikann og allt eins nálægt og hægt er, til hvers, svo hægt sé að:

Skoða?
Lækna?
Deila?
Skafa burt?
Færa í letur?

Ég er hrædd við nálægð. Nálægð tekur tíma. Ég er líka stundum hrædd við tímann. En ekki ef ég sest niður og horfi á sjóinn. Þá kemur andardráttur.

Nú er ég orðin úrvinda og það farið að bitna á textanum. Og ég farin að analýsera, en geðlæknirinn minn stakk uppá því að ég hætti að analýsera og bara gerði það sem mig langaði til, ekki misskilja þetta, tildæmis ef mér fyndist ég ekki nógu fín, þá færi ég að hugsa afhverju ég væri ekki fín og hvað ég gæti gert tilað verða fín, og ef ég hætti að analýsa þá er ég bara fín og samkvæmt því get ég hringt í manninn en hann er sennilega farinn að sofa.

ÞETTA ER ORÐIÐ FÍNT.

08 júní 2007

Fínt eða ekki fínt

Einu sinni var kona sem hringdi í mann og spurði hvort hún mætti kíkja í kaffi til hans, hún væri samasem fyrir utan en maðurinn sagði að það væri ekki nógu fínt inni hjá honum en hann væri á leiðinni út að borða og spurði hvort konan væri búin að borða. Þá sagðist hún ekki vera nógu fín.

Spurningin er: Mun þetta fólk einhverntíma ná saman. Og hvað þarf að gerast tilað svo verði?

Ég á ekki von á svörum frekar en venjulega. (Biturleiki!!!) En ég bið ykkur um að íhuga málið. Og fara fínt í þetta.

ps. Konan sagðist vera komúr afmæli sem var satt en málið var að henni fannst hún ekki nógu fín en sagði það ekki. Svo allra heimilda sé getið.

Mánadís á afmæli

Yngsta barnabarnið mitt á afmæli í dag, hún Mánadís, Mánadís, Mánadís, - til hamingju hamingju hamingju hamingjusól. Mánadís er sjö ára og er sumarbarn. Hún býr á Spáni. Og skrifaði mér einu sinni póstkort sem er svona:

Elsku amma Elísabet

Þetta er spænsk geit, hún er með sólgleraugu. Því það er svo mikil sól núna. Ég er orðin sex ára og er komin með tvær fullorðinstennur. Niðri á vatni á ég lítinn kastala. Bláu drekaflugurnar passa hann fyrir mig.

Mánadís

Einu sinni þegar ég kom að heimsækja þau öll og var að fara heim sagði Mánadís þegar hún kvaddi mig: Gættu þín.

TIL HAMINGJU MÁNADÍS. SYNGJUM AFMÆLISSÖNGINN.

Ég elska þig.

Ég skil hann ekki

Vinátta okkar Heiðars er að þróast en hefur hingað til einkennst af því að við tölum saman, frá þremur tímum uppí sex tíma og þá kemur ein setning sem gerir gæfumuninn. Hluti af samræðunum fer í það að horfa útí loftið, hika, stama, taka skorpur og svo allt í einu kviknar eitthvað. Einsog á Café París um daginn segir Heiðar: Veistu ég skil hann ekki, ég skil bara allsekki þennan mann.

Þessi hann er maðurinn sem ég er skotin í.

07 júní 2007

Já, þegar ég var búin að snyrta

á mér neglurnar var klukkan orðin hálfsjö.

Leiðin

Ég hélt að pabbi minn hefði átt að vísa mér leiðina. Svo ætti ég að fara hana. En núna var ég á gamals aldri að uppgötva að ég ætla sjálf að finna leiðina og fara hana. Ég er farin, bless!!!!!!!!!!!!!

Þetta er mín leið. Og ég ætla fara hana. Og ég ætla gera hana að minni. Leiðin mín, leiðin mín, la la la.

Og hvert liggur hún? Til mín?

Ó, egóbústið sæta Elísabet....namm.

ps. ég er óóóógeeeeeeeeeeeðslega þreytt.

Einsog tilæmis leiðin til pabba. Já, ég lagði af stað en þá vissi ég að ég var ekki nógu vel greidd svo ég fór heim að greiða mér og lagði aftur af stað og hafði ekki gengið lengi þegar ég vissi að ég var ekki nógu vel máli farin svo ég sneri við og fór heim og lærði góða íslensku og lagði aftur af stað en hafði ekki gengið lengi þegar ég sá að neglurnar á mér voru ekki nógu vel hirtar svo ég sneri við og snyrti á mér neglurnar....

Viðhorf til karlmanna

Tilfinningar okkar og hugmyndir mótast af viðhorfum okkar. Það gleymist stundum. Ég sat í þrjá tíma á Hressó í dag með vini mínum og hann var að tala um viðhorf sitt til kvenna, sem hann sagði helgast af því að þær ættu að vera heilagar og væru jafnframt dómarar yfir honum. Svo ég fór að hugsa um viðhorf mitt til karlmanna:

1. Þeir eru mikilvægir. - Það á að hugsa stöðugt um þá.

2. Þeir eru fjarlægir. - Það á stöðugt að vera reyna nálgast þá eftir öllum kúnstrarinnar reglum. Og alltaf reyna að ráða í háttalag þeirra.

3. Þeir eru dómarar. - Þeir dæma mig og þannig er ég.

4. Þeir stjórna með þögn og augnaráði. Þögnin er valdatæki.

5. ÉG ER HRÆDD VIÐ KARLMENN. Ég var hrædd við pabba minn og held ég eigi að vera hrædd við karlmenn, ég er ekki jafningi þeirra, ég á að vera á nálum gagnvart þeim.

Það er þessi hræðsla já.

Þetta er alkóhólískt samfélagslegt viðhorf. Ég er hætt að sofa hjá. Ég tildæmis er mest að pæla í einum karlmanni sem gæti lesið þessa síðu og pæli stöðugt í hvað honum finnst, og hvað ætla ég að gera ef ég þarf að bjarga lífi mínu og hrópa á hjálp, þegar andlit prinsessunnar afmyndast af hjálparbeiðninni.

Prinsessan: (Afskræmd af öskrinu, hræðslunni og öllu því) HJÁÁÁÁÁLP.

Prinsinn: Því miður, þú ert ekki nógu sæt.

Þá er mjög gott að geta sagt: FUCK IT.

Prinsessan: FUCK YOU.

Prinsinn: Fyrirgefðu, ert þú ekki heilög?

Prinsessan: Fuck you, fuck you, fuck you.

Prinsinn: ÞÚ ERT HEILÖG OG ÁTT AÐ VERA HEILÖG. (Byrjar að berja prinsessuna)

Karlmenn ráða draumana mína

Vinkonur mínar hafa ekki ráðið drauminn minn um Leonardo, ekki nema Kristín sem sagði að henni sýndist lausnin vera fólgin í lýsingunni sjálfri. Það held ég nefnilega líka. Hinsvegar réði Gummi vinur minn með lærið drauminn á þann veg að ég hætti að idolíséra karlmenn !!!! og hætti að fara eftir áliti annarra!!!!

Heiðar vinur minn sagði að draumurinn táknaði að ég gæti fengið það sem ég teldi ófáanlegt og allar þessar vinkonur mínar væru ég sjálf sem tryði ekki á sjálfa mig og þyrði ekki að rífa niður vegginn. !!!!

Indíana útskrifast

Hún Indíana var svo falleg þegar hún var að útskrifast, og mér þykir svo undur vænt um hana, hún er elsta ömmubarnið mitt 15 ára og var að útskrifast frá Grunnskóla Hveragerðis. Svo er ég að athuga hvort þetta festist á síðunni. Af því það gerðist margt á leiðinni.

06 júní 2007

Sporðdrekinn og DiCaprio

Sporðdrekinn og Leonardo DiCaprio

Mig dreymdi sporðdreka í nótt, hann var heill, sást vel, virkaði stór í draumnum. Þegar ég fletti upp á Sjamanisma-síðunni kom í ljós að Sporðdrekinn þýðir:


Attacking from the rear

Death and rebirth

Transmutation of poison

Reflecting dark and negative energy back to its sender


Þetta er semsagt lækningarmáttur Sporðdrekans.

Það merkilega er að mig dreymdi líka Leonardo DiCaprio og þegar ég gúgglaði hann kom í ljós að hann er fæddur í Sporðdrekamerkinu 11.nóvember 1974. Leonardo var hér í hálfsíðum frakka og var á hóteli á Íslandi, hann var eitthvað að þvælast í anddyrinu en hékk mest upp við upplýsingaborðið. Ég átti að fara með honum í bíó. Við fórum í bíó, ég man ekki hvaða mynd við sáum en það fór bara vel á með okkur, eina setningin sem ég man eftir að hafa sagt við hann er:

Stundum þekki ég þig, stundum ekki.

Sometimes I know you, sometimes dont.

Hann var bara einsog venjulegur maður og þá þekkti ég hann ekki sem heimsfrægan leikara. Stundum sá ég að þetta var hann. Mér fannst einsog hann ætlaði að koma aftur, því svo kvöddumst við og þetta voru svona góðir straumar á milli okkar, eitthvað nýtt og spennandi en ekkert endilega kynferðislegt en gæti samt verið. Aðallega var það eitthvað plain. Eitthvað opið, streit, fallegt. En líka dularfullt.

Nema svo hitti ég vinkonur mínar nokkrar sem stóðu í hnapp, þám. Elísabet Ronaldsdóttir og svo einhver Þóra sem bjó víst í kjallaranum á húsinu mínu. Ég sagði þeim að ég hefði farið í bíó með Leonardo DiCaprio og nú ætlaði ég að rífa niður vegginn milli eldhússins og borðstofunnar. Þá urðu þær reiðar og þessi Þóra í kjallaranum hótaði að flytja.

Nú væri gaman að fá ráðningu á draumnum.

05 júní 2007

Rauðu skórnir

Ég hef soldið verið að ganga í rauðu skónum svona heima hjá mér, já, þeir eru með slaufu og hællinn er guðdómlegur, svo verða tærnar svo sætar í þessum rauðu skóm og kemur svo flott sveigja á ristina, sveigja á ristina, ég ætla endurtaka þetta, það eru svo margir flottir smávöðvar í fótunum, jamm, og kynlíf er mjög gott staðsetningartæki, svona tilað vita hvar maður er staddur, hvort maður sé á Norðurpólnum, Framnesveginum, hægra megin, í skýjunum, eða já hvar maður er staddur, kynlíf er staðsetningartæki, hvar maður er staddur í lífinu, hvar maður er staddur sem kona og manneskja, já staðsetningartæki, og svo er ég líka að rannsaka hvað kynlíf er annað en kynlíf og ég mun bráðlega birta niðurstöður mínar.

Því ég hef ekki bara sterka tjáningarþörf, ég hef líka sterka birtingarþörf.

Konan í mér

1. Hún vill eiga bað
2. Hún vill eiga varalit
3. Hún vill eiga maskara
4. Hún vill eiga krem
5. Hún vill eiga sápu
6. Hún vill eiga sjampó
7. Hún vill eiga naglalakk
8. Hún vill eiga sléttujárn
9. Hún vill eiga hárbursta
10. Hún vill hafa aðgang að sinni frumstæðu visku

Bloggað um að renna í bað

Ég er búin að láta renna í bað og með smá sting í hjartanu af því ég er ekki farin í baðið, þegar ég læt renna í bað læt ég renna í bað og svo sest ég niður tilað hugsa, þeas. undirbúa mig andlega og sat einmitt hérna á stigaskörinni og hugsaði um konunni í sjálfri mér en ég er nú að hugsa um að hugsa meira um hana í baði og nú er ég er ekki að fara að ráðum geðlæknisins og bara gera í staðinn fyrir að hugsa og ætti kannski að fara spila smá rapp tónlist, Naz eða eitthvað. Já ég ætla setja Naz á fóninn. Hey, það er tónlist á fóninum, rapp meina ég, here is a song for ladies. Þetta var best of Ennimenns sem er einn af diskum sem Jökull forritaði í Karólínu, en hér kemur Naz... get get down...

A really storyteller einsog Gísli Galdur hann.

Annars er ég að fara á Gróttuleik. Garpur er í byrjunarliðinu skilst mér.

NAZ ER STÓRKOSTLEGUR...fúff, ég var næstum búin að gleyma því. Hreyfir líkamann af sjálfu sér, þeas. líkama minn. Ég mæli með Naz. Best að hækka í græjunum og fara í bað.

ps. búin að vera í áttunda sporin í allan dag með trúnaðarkonunni minni.

Baðið er fullt. Get down.

04 júní 2007

Bloggað um læri

Ég hef svo sterka tjáningarþörf að nú ætla ég að blogga um lærið. Geðlæknirinn minn hringdi hérna áðan tilað segja mér að mitt ágæta steinefni líþíumið væri komið í apótekið. Og svo bætti hann við og ítrekaði það sem hann sagði í síðasta tíma að ég ætti að hætta að analýsa og gera hlutina. Það er eins gott að ekki margir lesa þetta blogg. En mér láðist að segja þessum ágæta lækni það að alltaf þegar ég hætti að analýsa þá færi ég í maníu, nú væri ég tildæmis búin að skrifa vini mínum þrjú ímeil, og einmitt alveg tóma dellu en ég er alltaf að reyna að þróa delluna. Annars er ég búin að þrífa baðið, klósettið og vaskinn og fara í bankann og selja bækur í bókasöfn og hitti meiraðsegja Hrafn bróður minn í bankanum og hann leit út einsog strákur, svo vakti Fréttablaðið mig í morgun og bað mig um að segja eitthvað um landsliðið, og það vafðist eitthvað fyrir mér. En ég er búin að vera í þunglyndi sem hefur lýst sér svona:

1. Hrædd við að deyja í svefni
2. Hrædd við að fá krabbamein
3. Hrædd um að fá aldrei jafnvægi í peningamálin
4. Hrædd við að eiga ekki fyrir þessum risa tannviðgerðum

Já, aðallega þetta þrennt, man ekki eftir meiru. Verða kannski sjötíu ára og alltaf á kúpunni. En ráð geðlæknisins kann að breyta því. Just do it. Adidas stal þessu slagorði frá mér á sínum tíma. Það vekur mér undrun í hvert sinn þegar einhver segist elska mig, hey já það var eitt, ég var að labba Laugaveginn í gær og kynntist því hvað reykingabannið er sniðugt, það voru nokkrir útað reykja og einn sagði:

Þarna er Elísabet Jökulsdóttir fegursta kona í heimi.

Takk fyrir reykingabannið.

En ég ætlaði að blogga um lærið, mamma, Jökull, Kristín, Garpur og Ingunn eru á leiðinni í mat og ég er í kasti, stresskasti, nei ég hlakka tilað sjá þau. En Gummi vinur minn í Nóatúni selur mér læri og ég var á leiðinni í bæinn og ætlaði að fara Sólvallagötuna þegar ég ákvað að fara Holtsgötuna af því mig langaði aða heilsa gamla gráhærða manninum sem er búinn að vera nágranni minn í 17 ár og ég setti í skáldsögu og ég er nýbyrjuð að heilsa honum og veit aldrei hvort hann tekur undir kveðju mína, en hann heilsaði, þetta er fallegur maður með skip í glugganum hjá sér, nokkur skip og báta, seglskip líka, svo kom Gummi labbandi á móti mér og ég tilkynnti honum ég ætlaði að koma og kaupa læri af honum því ég verð alltaf að hafa serímóníu þegar ég kaupi læri, helst að skrifa skáldsögu á undan og fara til New York, og svona, og ég vil kaupa lærið af Gumma og engum öðrum og það kemur í ljós seinna í þessari sögu hversvegna, það er reyndar gaman að kaupa læri í Melabúðinni en það verður að vera gaman að kaupa læri, hann sagði mér að koma við, hann ætlaði strax að taka út læri og geyma það handa mér við stofuhita en þegar ég sagðist þurfa að elda það í dag sagðist ekki taka út lærið en hafa tilbúið gott læri handa mér og hvað þarftu fyrir marga, jæja jæja, þetta var á Holtsgötunni, svo fór ég í Nóatún og Gummi tilkynnti mér þau ógnartíðindi að það væru ENGIN LÆRI TIL í búðinni, ég vissi ekki hvert ég ætlaði og spurði hvort ég ætti að hringja í Fréttablaðið eða Sjónvarpið, og þá fór hann að benda mér á krydduð og marineruð læri og líka vakúmpökkuð læri og það runnu á mig tvær grímur, ég sagði honum að tvíburarnir vildu helst fá læri kryddað af mér, bara salt og pipar, og þá kemur kjötbragðið í ljós, mamma er betri en öll maríneríng, og svo eftir löng fundahöld fyrir framan kælinn og eitt símtal til Jökuls sló ég mér á læri sem var kryddað með íslenskum kryddjurtum, soldið grænt en ókei, og svo ræddum við um hvernig ætti að steikja það, ég sagðist steikja það á hundrað í fimm tíma og snarhækkaði í áliti hjá Gumma, fór svo heim með lærið, tók utanaf því en viti menn, fannst lyktin skrítin svo ég hringdi í Gumma, (ég er auðvitað með farsímann hans!!!!) og þegar ég sagði það væri í lagi með dagsetninguna sagði hann það væri bara betra ef það væri svona lykt af lærinu. Svo var ég á leið út í apótek tilað ná í líþíumlyfin mín og þurfti að fara þrjár leiðir aftur inní húsið, fyrst til að ná í lykil en þá tók ég óvart nikótíntyggjóið mitt og svo tilað gá hvort væri læst og svo tilað ná örugglega í lykilinn, - kemur þá ekki Gummi á móti mér og ég spurði hvort hann vildi koma inn og tjékka á lærinu, hann var á leið heim úr vinnunni, en viti menn, hann kom hérna inn og viti menn: HANN KRAUP VIÐ OFNINN, KRAUP, já segi og skrifa, hann kraup við ofninn og opnaði hann, og sagði þetta væri allt í besta lagi, fallegt læri og góð lykt. Og ég sagði honum hann gerði allt svo fallega, ég hef aldrei kropið við ofinn, ég krýp yfirhöfuð ekki nóg, bara við bænirnar mínar á morgnana en ég þarf að krjúpa meira, krjúpa við ofninn.

03 júní 2007

Hjartað í garðinum

Ella Stína var á göngu í garðinum sínum að huga að blómunum sem voru svo undurfögur, ilmandi og litskrúðug þegar hún gekk fram á hjarta og sá að það var hjartað úr henni.

Mín eigin rödd

Ég er alltaf að vera sniðug og með stæla, ég er ekki að skamma mig en svona er þetta, ég get alveg verið sniðug og allt það, en ég er bara að pæla samt í minni eigin rödd, kannski er ég heill kór, það getur alveg verið, en mín rödd, hvað langar mig tilað segja, hvað kviknar í brjóstinu, kannski einhver stuna bara, sem líður útí nóttina og ég er orðin syfjuð og samt er nóttin björt, og samt langar mig að segja eitthvað og geðlæknirinn minn sagði mér að hætta að analýsa, og þá vaknar þessi eldur, eða vatn, eitthvað sem ryður sér leið, ég er bara svo sterk og svona er mín eigin rödd í kvöld, þvæld og ruglingsleg, ég hef legið undir fargi í dag og fundið hvað ég er þreytt, komst varla útí búð, en það er eitthvað sem mig langar tilað segja og mig langar að vera góð. og mig langar að lífið komist að.

og mig langar til að hlýða.

Rödd í bréfpoka

Ef rödd þýðir líkami og bréfpoki eitthvað gamalt og viðkvæmt og bréf þýðir skilaboð eða tenging og poki... hvað þýðir poki, safn eða heild eða ílát, stundum er líkaminn þýddur sem ílát. Er líkami minn ílát sem hægt er að hella úr.

þá þýðir þetta gömul, viðkvæm skilaboð frá líkamanum.

í poka uppá hól. hóll er augljós staður. skilaboðunum er komið fyrir á augljósum stað.

en hvað þýðir poki. ílát. stendur í orðabókinni.

og sá sem hefur hreint mjöl í pokahorninu er saklaus.

hann hefur eigin rödd í pokanum. það þýðir að hann er saklaus.

sakleysi er eitt dularfyllsta sem til er.

þú getur treyst honum.

02 júní 2007

Bréfpokinn

Einu sinni var kona og hún elskaði bréfpoka. Það kom rödd úr þessum bréfpoka. Karlmannsrödd. Konan greindi ekki orðaskil en hún elskaði þennan bréfpoka. Hún var alltaf að hugsa um þennan bréfpoka og hvað það táknaði að hún elskaði rödd í bréfpoka. Og hvað bréfpokinn táknaði. Hún bara elskaði þennan bréfpoka og þessa rödd í bréfpokanum og bréfpokinn var uppá hól. Kannski var þetta bréfpokinn sem gleymdist. Hún bara elskaði bréfpokann og elskaði bréfpokann og botnaði ekkert í sjálfri sér hvernig hún gat elskað bréfpoka. En hún gat ekki hætt að elska þennan bréfpoka og röddina sem kom úr bréfpokanum. Hún fór um allt með bréfpokann og hún opnaði einu sinni bréfpokann tilað hleypa röddinni út og svo hugsaði hún hvað þýðir bréf og hvað þýðir poki. Hvað þýðir poki? Afhverju var röddin hans í bréfpoka og svona verður allt ruglað ef einhver elskar bréfpoka.

Og vill sjá meininguna að bréfpoki þýðir eitthvað gamalt og viðkvæmt, að rödd þýðir líkami og bréf þýðir ímeil, að rödd í poka þýðir niðurbæld rödd, niðurbældur líkami, en samt er eitthvað fyndið og hvað myndi Snorri Goði segja.

Fjórði maður þinn verður rödd í bréfpoka. Opnaðu pokann, ekki fleygja honum inní himnaríki, opnaðu pokann eða hlustaðu á pokann og talaðu við hann. Og þá breytist hann í prins einn daginn.

Ónei, ég er búin að fá nóg af prinsum, var ekki númer þrjú prins og gott ef ekki líka númer sjö eða eitt, sagði konan við Snorra Goða hinn mikla draumráðningameistara.

Segðu pokanum að þú elskir hann, sagði Snorri goði.

Og hvað þá, sagði Elísabet ósvífna.

Að því það er bara alltílagi, sagði Snorri goði.

Breytist hann þá eitthvað, sagði Elísabet

Já kannski í fiðrildi, sagði Snorri goði.

Fiðrildi, gapti Elísabet.

Notaðu ímyndunaraflið, ef þú værir poki og einhver segðist elska þig, hvernig myndir þú breytast?

Ekki í poka, sagði Elísabet

Og hvað þá, sagði Snorri goði.

Líkama með tilfinningum, sagði Elísabet.

Já tilfinningar eru í líkamanum, hitt er í höfðinu, tilfinningar eru eldsneyti fyrir hugmyndir.

Ég skil ekkert í þessu, sagði Elísabet. Í hvað myndi ég breytast ef ég væri poki og einhver segðist elska mig.

rödd í poka. leiðrétti snorri goði.

drekkingarhylur, sagði elísabet.

en þetta er maður, sagði snorri goði.

þetta er kannski maður sem syrgir konuna sína sem var drekkt í poka. hann elskaði hana svo mikið að hann samsamar sig henni. hættu að láta drekkja þér. segðu honum að þú elskir hann. bjóddu honum í mat, kveiktu á kerti, spilaðu tónlist, vertu í kjól og sætum skóm, þú gleymir alltaf þessu hlutverki, kannski ef þú ert góð í því verðurðu líka góð í hinum hlutverkunum.

kannski maður sem syrgir konuna sína sem var drekkt í poka? endurtók Elísabet.

Guðrún og Snorri goði

Eitt af því sem sannar að Laxdæla er skáldskapur er að Guðrúni skuli fá Snorra goða tilað ráða draumana sína, - annars hefði hún gert það sjálf. En í skáldskap verður einhver annar að gera það og verður þar með lykilpersóna. Snorri verður lykilpersóna og læsir Guðrúnu inní heiminum, draumaheiminum hennar sjálfrar. Sú setning sem kemur henni út úr þessum heimi öllum er frægasta setning sögunnar: Þeim var ég verst er ég unni mest. Þarna brýst Guðrún út úr heimi Snorra goða en aðeins með leyfi höfundar. Ef Guðrún hefði ráðið draumana sína sjálf einsog ég geri venjulega með mína, stundum þó ekki fyrren eftir á, (húlk) þá hefði ekki orðið nein saga, engin tengsl við aðrar persónur. Kannski var Guðrún að hugsa þetta allt eftir að hún heyrði ráðninguna og höfundurinn einhver írskur og desperat sem hafi viljað verða frægur og fá að ríða.

Móna Lísa og Tígulgosinn

Einu sinni fann Ella Stína spil.

Framaná var mynd af Mónu Lísu en hinu megin tígulgosinn. Hún réði gátuna þannig að bráðlega myndi tígulgosinn birtast í lífi hennar og það væri framtíðargosi því tígullinn þýddi framtíð en Ella Stína var reyndar mjög hrifin af tígulsteinaforminu af því það minnti hana á kristalformið. Og Móna Lísa táknaði dularfulla konu en var hún ekki líka frosin og áttu listaverk að vera svona dularfull, einsog Móna Lísa og Beðið eftir Godot. Ella Stína hafði reyndar aldrei lesið svona auðskiljanlegt verk einsog Godot þegar hún las Godot. Og svo var auðsætt að Guðrún ætti við Kjartan svo gátur heimsins voru nú ekki neitt hjá Ellu Stínu nema hún skyldi ekki Mónu Lísu fyrren hún skyldi Tígulgosann. Einsog flestir muna var Tígulgosinn háþróað klámrit hér á árum áður, svo Móna Lísa hlaut að tákna andstæðuna, hina siðprúðu konu (sem kannski var að lesa Tígulgosann) Þannig geta lausnir við gátum komið til manns á ótrúlegasta hátt, því ástin er þannig að hún þarf pláss fyrir drauma, og mesta plássið fyrir drauminn var í sambandi við Kjartan en þá er tekið mið af því að þetta var skáldskapur því í raunveruleikanum hefði hún elskað Snorra goða og verið fyrir eldri menn, nú eða þá Bolla því hún hafði sofið hjá honum og komið við hann og þau höfðu átt svona allskonar daga saman.

Svona er Hamlet líka. Ella Stína var Hamlet í mörg ár svo hún skilur Hamlet manna best.

Hún beið líka eftir Godot svo Godot er heimilisvinur hjá Ellu Stínu.

En gáturnar eru kannski búnar til svo þetta öðlist ljóðrænt gildi. Svo menn smíði sér lás og lykil í huganum, dyr og herbergi og ég veit ekki hvað.

En Ella Stína er helst á því núna að hún eigi að skrifa klámsögur tilað leysa Mónu Lísu úr álögum. Það er ekkert ljótt við það. Ella Stína gerði það þegar hún var lítil,... tilað koma því niður á blað sem var í huganum af því þegar eitthvað er í huganum endalaust og til eilífðar þá verður það svo þungt einsog hjartað er stundum þungt og þegar Nína Björk heitin sagði að Ella Stína væri þung meinti hún að hjartað í henni væri þungt því Ella Stína er líka eitt hjarta.

Gröf Ellu Stínu

Þegar Ella Stína varð ástfangin byrjaði hún á því að grafa gröf handa sér og þeim sem hún var skotin í. En venjulega tók hann allt plássið í gröfinni og Ella Stína kenndi sér um, að hún væri ekki nógu góð í stærðfræði og hefði reiknað þetta allt vitlaust, en hún tróð sér samt ofaní gröfina hjá honum.

En venjulega sat hún inni hjá sér og lagði kapal (hékk á netinu) og beið þess að það væri bankað því það væri einsog venjulega Djákninn á Myrká.

Lásar hafa ljóðrænt gildi

getur einhver svarað því hvernig lásar hafa ljóðrænt gildi? Kannski er það sem er dýrmætt læst inni og einhver með sérstaka fingur, sérstaka hæfileika, sérstaka reynslu sem getur opnað og fundið viskuna, - eða ljóðið. Og eitt lítið ljóð getur verið með vængi og flögrað um í hjartanu, einmitt þegar hjartað var svo þungt og fannst því ekki geta neitt.

En ég heyrði þetta í bíómynd í gær. Ameríkanar vita allt enda eru þeir alltaf að lesa Völuspá og gríska goðafræði. Og ljóðrænt gildi. Hvaða gildi hefur ljóðið? Lásinn? Að opna og loka. Hvort sem það er blekking eða ekki blekking. Maður heldur að maður sé lokaður inni en er það ekki, maður hefur búið til blekkingu sem er svo raunveruleg en þegar raunveruleikinn er skoðaður nánar kemur í ljós að þetta var blekking og maður rammlega læstur inni.

Lásar hafa ljóðrænt gildi. Hvað þá með lásasmiðinn.