02 júní 2007

Móna Lísa og Tígulgosinn

Einu sinni fann Ella Stína spil.

Framaná var mynd af Mónu Lísu en hinu megin tígulgosinn. Hún réði gátuna þannig að bráðlega myndi tígulgosinn birtast í lífi hennar og það væri framtíðargosi því tígullinn þýddi framtíð en Ella Stína var reyndar mjög hrifin af tígulsteinaforminu af því það minnti hana á kristalformið. Og Móna Lísa táknaði dularfulla konu en var hún ekki líka frosin og áttu listaverk að vera svona dularfull, einsog Móna Lísa og Beðið eftir Godot. Ella Stína hafði reyndar aldrei lesið svona auðskiljanlegt verk einsog Godot þegar hún las Godot. Og svo var auðsætt að Guðrún ætti við Kjartan svo gátur heimsins voru nú ekki neitt hjá Ellu Stínu nema hún skyldi ekki Mónu Lísu fyrren hún skyldi Tígulgosann. Einsog flestir muna var Tígulgosinn háþróað klámrit hér á árum áður, svo Móna Lísa hlaut að tákna andstæðuna, hina siðprúðu konu (sem kannski var að lesa Tígulgosann) Þannig geta lausnir við gátum komið til manns á ótrúlegasta hátt, því ástin er þannig að hún þarf pláss fyrir drauma, og mesta plássið fyrir drauminn var í sambandi við Kjartan en þá er tekið mið af því að þetta var skáldskapur því í raunveruleikanum hefði hún elskað Snorra goða og verið fyrir eldri menn, nú eða þá Bolla því hún hafði sofið hjá honum og komið við hann og þau höfðu átt svona allskonar daga saman.

Svona er Hamlet líka. Ella Stína var Hamlet í mörg ár svo hún skilur Hamlet manna best.

Hún beið líka eftir Godot svo Godot er heimilisvinur hjá Ellu Stínu.

En gáturnar eru kannski búnar til svo þetta öðlist ljóðrænt gildi. Svo menn smíði sér lás og lykil í huganum, dyr og herbergi og ég veit ekki hvað.

En Ella Stína er helst á því núna að hún eigi að skrifa klámsögur tilað leysa Mónu Lísu úr álögum. Það er ekkert ljótt við það. Ella Stína gerði það þegar hún var lítil,... tilað koma því niður á blað sem var í huganum af því þegar eitthvað er í huganum endalaust og til eilífðar þá verður það svo þungt einsog hjartað er stundum þungt og þegar Nína Björk heitin sagði að Ella Stína væri þung meinti hún að hjartað í henni væri þungt því Ella Stína er líka eitt hjarta.

Engin ummæli: