09 júní 2007

Heilögu mennirnir

Ella Stína og heilögu mennirnir

Ella Stína elskaði heilaga menn, auðvitað elskaði hún þá ekki, hún dýrkaði þá og vissi ekkert hvað ást var. Ella Stína dýrkaði heilaga menn og vissi ekkert að þeir voru heilagir því stundum langaði hana að sofa hjá þeim þótt hún vissi ekkert af því að hún væri orðin stór og komin með konulíkama, hún var alltaf með óspillta barnshugann inní sér, geymdi hann og varðveitti einsog spiladós frá rússneska keisaratímabilinu.

En svo einu sinni skrifaði hún einum heilaga manninum ímeil. Þá kom svo mikið óveður inní henni að hún feyktist næstum um koll, sektin, skömmin, efasemdirnar voru einsog risaöldur sem ætluðu að færa hana í kaf. Hún var ekki viss um að hún gæti staðið þetta af sér því nú kom þunglyndið æðandi svo skinnið á Ellu Stínu rifnaði næstum af. Það var þá sem eitthvað eða einhver bjargaði henni og hinn gríski heimspekingur kom upp í Ellu Stínu eða Jesú þarsem hann hékk á krossinum því Ellu Stínu fannst hún alltaf vera lítill Jesú sem hafði fórnað sér og sem guð hafði yfirgefið því nú hrópaði hún útí tómið af öllum lífs og sálarkröftum: Hversvegna, hversvegna.

Það var þá sem svarið birtist henni á himni eða einhverstaðar þar nálægt: Þú snertir heilagan mann.

Og nokkrum árum seinna því allt sem gerðist einu sinni hjá Ellu Stínu hélt áfram en þá datt henni semsagt í hug að hún væri sek kona og ætlaði að reyna að læknast með því að snerta þennan heilaga mann. Og hún væri ekki bara sek heldur veik. Og ástin hefði lækningamátt.

Lækningamátturinn var aðalkrafturinn í lífi Ellu Stínu. Hún varð alltaf að vera læknast. Hún var svo veik. Og útaf hverju var hún svona veik, jú útaf því að hún var Ella Stína.

Þetta var allt fólgið í nafninu svo hún skipti um nafn á sjálfri sér. Þá gat hún tekið bremsurnar úr og keyrt fram af bjargbrúninni og sjálfa sig í klessu og þar tók þunglyndið við. Því auðvitað gat hún ekki dáið.

Engin ummæli: