09 júní 2007
Sirkus Ellu Stínu
Sirkus Ellu Stínu stoppaði aldrei og byrjaði aldrei. Það var einn áhorfandi í þessum sirkus. Hann sofnaði alltaf og þá gat Ella Stína skemmt sér verulega, skrattast um og púkast og gert það sem henni sýndist. Annars þurfti hún alltaf að vera gleypa eld, saga fólk í tvennt, sveifla sér í rólum, ganga á línu, dansa á fílum og guð veit hvað. Áhorfandanum fannst það svo leiðinlegt að hann steinsofnaði og þá gat Ella Stína semsagt farið að gera það sem henni sýndist. Þangað til eitt kvöldið að það bættist við nýr áhorfandi. Þessi áhorfandi truflaði sirkusinn með sögu sem hann var að segja. Ellu Stínu rann kalt vatn milli skinns og hörunds og læddist framá brúnina tilað heyra söguna. Og það var þetta sem hún heyrði: Veistu hvernig mér líður. Ég er viss um að þú veist ekkert hvernig mér líður, þér er alveg sama hvernig mér líður. Ella Stína hugsaði sér að hún yrði að finna uppá alveg nýju atriði handa þessum áhorfanda og hugsaði sig lengi um. Og hún er enn að hugsa. Það er reyndar ekki rétt því hún settist niður og saumaði út vasaklút handa þessum áhorfenda og hún er enn að þurrka tárin hans og hefur engan tíma fyrir sirkusinn sinn því tárin streyma viðstöðulaust og ef lát verður á þeim þá kreistir hún áhorfandann svo hann grætur meira og á meðan er sviðið autt.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli