02 júní 2007

Bréfpokinn

Einu sinni var kona og hún elskaði bréfpoka. Það kom rödd úr þessum bréfpoka. Karlmannsrödd. Konan greindi ekki orðaskil en hún elskaði þennan bréfpoka. Hún var alltaf að hugsa um þennan bréfpoka og hvað það táknaði að hún elskaði rödd í bréfpoka. Og hvað bréfpokinn táknaði. Hún bara elskaði þennan bréfpoka og þessa rödd í bréfpokanum og bréfpokinn var uppá hól. Kannski var þetta bréfpokinn sem gleymdist. Hún bara elskaði bréfpokann og elskaði bréfpokann og botnaði ekkert í sjálfri sér hvernig hún gat elskað bréfpoka. En hún gat ekki hætt að elska þennan bréfpoka og röddina sem kom úr bréfpokanum. Hún fór um allt með bréfpokann og hún opnaði einu sinni bréfpokann tilað hleypa röddinni út og svo hugsaði hún hvað þýðir bréf og hvað þýðir poki. Hvað þýðir poki? Afhverju var röddin hans í bréfpoka og svona verður allt ruglað ef einhver elskar bréfpoka.

Og vill sjá meininguna að bréfpoki þýðir eitthvað gamalt og viðkvæmt, að rödd þýðir líkami og bréf þýðir ímeil, að rödd í poka þýðir niðurbæld rödd, niðurbældur líkami, en samt er eitthvað fyndið og hvað myndi Snorri Goði segja.

Fjórði maður þinn verður rödd í bréfpoka. Opnaðu pokann, ekki fleygja honum inní himnaríki, opnaðu pokann eða hlustaðu á pokann og talaðu við hann. Og þá breytist hann í prins einn daginn.

Ónei, ég er búin að fá nóg af prinsum, var ekki númer þrjú prins og gott ef ekki líka númer sjö eða eitt, sagði konan við Snorra Goða hinn mikla draumráðningameistara.

Segðu pokanum að þú elskir hann, sagði Snorri goði.

Og hvað þá, sagði Elísabet ósvífna.

Að því það er bara alltílagi, sagði Snorri goði.

Breytist hann þá eitthvað, sagði Elísabet

Já kannski í fiðrildi, sagði Snorri goði.

Fiðrildi, gapti Elísabet.

Notaðu ímyndunaraflið, ef þú værir poki og einhver segðist elska þig, hvernig myndir þú breytast?

Ekki í poka, sagði Elísabet

Og hvað þá, sagði Snorri goði.

Líkama með tilfinningum, sagði Elísabet.

Já tilfinningar eru í líkamanum, hitt er í höfðinu, tilfinningar eru eldsneyti fyrir hugmyndir.

Ég skil ekkert í þessu, sagði Elísabet. Í hvað myndi ég breytast ef ég væri poki og einhver segðist elska mig.

rödd í poka. leiðrétti snorri goði.

drekkingarhylur, sagði elísabet.

en þetta er maður, sagði snorri goði.

þetta er kannski maður sem syrgir konuna sína sem var drekkt í poka. hann elskaði hana svo mikið að hann samsamar sig henni. hættu að láta drekkja þér. segðu honum að þú elskir hann. bjóddu honum í mat, kveiktu á kerti, spilaðu tónlist, vertu í kjól og sætum skóm, þú gleymir alltaf þessu hlutverki, kannski ef þú ert góð í því verðurðu líka góð í hinum hlutverkunum.

kannski maður sem syrgir konuna sína sem var drekkt í poka? endurtók Elísabet.

Engin ummæli: