28 júní 2007

Ég er leikhús

Ef ég ætti að lýsa mér í einu orði þá er ég leikhús.

Röddin, andlitið, hreyfingarnar, allt í sambandi við mig er leikhús. Ég er svo fallegt, skrítið, dularfullt, öðru vísi leikhús. Það er einsog ég hafi fæðst með þetta leikhús, einsog það sé demantur sem ég verð að slípa alla ævina. En ég þarf að eignast alvöru leikhús Elísabetarleikhúsið, því ég vil gera búninga, leikmynd, ljós. Ég elska leikhúsið. Ég er alltaf að búa til leikhús. Leikhúsið er nefnilega svo skemmtilegt, og það sem tekur margar blaðsíður í bók að lýsa tekur eina mínútu í leikhúsinu. Leikhúsið er fugl sem reynir að tæla mig, dansa fyrir mig í mýrinni, með töfrandi stél og kamb, þessar hreyfingar í hálsinum.

Stundum hellist yfir mig hamingja í leikhúsinu. Og þú ættir að sjá mig þegar ég er að skrifa leikrit, það er leikhús útaf fyrir sig. Og ég er leikhús. Það sem ég er að gera í leikhúsinu er alveg stórmerkilegt, og undursamlegt, ég er smá saman að sjá heildarmyndina.

Það er annað sem ég er góð í, ég er góð í að sjá heildarmyndina. Ég get séð hluti úr ótrúlegri hæð. Og uppáhaldsliturinn minn er rauður. Og ég elska sólina, miðnætursólina, ég er júníbarn, barn hinna björtu nátta, þó að ágústnæturnar töfri mig uppúr skónum, vetrarnæturnar með kertaljósi og ég elska bíla, föt, snyrtivörur, tísku, mér finnst gaman að skoða tískublöð, og mér finnst gaman að keyra, ég elska að vera ein í bílnum með hendurnar á stýrinu og tónlist og keyra eftir veginum.

Svo finnst mér gaman að skoða tískublöð, flottar konur og flott föt og flotta karlmenn, ég hef mikinn áhuga á fötum og ég geri alltaf búninga á persónurnar mínar, búningurinn kviknar yfirleitt ósjálfrátt. Ég elska myrkrið í leikhúsinu.

Og klappið, andardráttinn, þögnina, lesturinn, tjaldið, tónlistina. Já tónlistin er kannski það eina sem ég geri ekki í mínu leikhúsi. En ég á píanó og ég elska að syngja, stundum er ég að syngja ein fyrir sjálfa mig, fyrir sjóinn eða í bílnum. Ég á engan bíl.

Ég er bláeyg. Augun í mér eru svo falleg að þau gætu töfrað heilan hest tilað fá sér gras að bíta. Ég elska húsið mitt. Ég er með fallegar neglur. Ég sé alltaf á nöglunum á mér hvernig mér líður. Ég elska hárið á mér. Ég er ekki til sölu.

Hárið á mér getur verið eins og á ljóni. Ég hef hugrekki ljónsins.

Sólin er að setjast í hafið. Í gærkvöldi fór ég og settist á klett við sjóinn, Akrafjallið var einsog fjólublár draumur úr flosi. Það kviknaði í mér að senda sms til hans en smsvélin er biluð. Það kviknar oft eitthvað svona í mér.

Og getur orðið að stóru báli. Ég elska það.

Ég fer oft hægt af stað. Ég fer líka oft hratt inní eitthvað og hratt útúr því. En ég safna upplýsingum. Ég er vatn og eldur. Ég á nóbelskjól. Ég er með blá augu.

Ég skrifa tilað ná sambandi. Ég elska samband. Gott samband sem flytur agnirnar á milli okkar, rafmagnið, frá hjarta til hjarta. Ég er svo æðisleg. Og ótrúlega vel vaxin. Það kemur kannski sér kafli um það.

Ég elska blóm, sérstaktlega svona blóm æ þú veist hvað ég meina, segjum bara liljur en líka sólblóm og fíflana í garðinum ó ó ó ó og hvönnina og reynitréð, gleymérei, baldursbrá, sóleyjar ég sá margar villtar saman þegar ég fór framhjá flugvellinum.

Ég er flug.



Og ég er alltaf að búa til samband við fólk.


Á útvöldum augnablikum er ég reyndar blóm. Eða bara venjuleg manneskja og get verið rosalega hörð af mér þannig að ég veit ekki um neinn sem er eins harður og ég, nema kannski synir mínir.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

fuck off.

ekj

Nafnlaus sagði...

Haha. Já fuck off.

Elísabet þú ert yndisleg og yndisleg og snillingur og villingur. Svo ertu líka ferlega sæt. Skemmir dálítið fyrir hvað þú ert gáfuð. Ef það væri ekki fyrir allar þessar gáfur værir þú örugglega stöðugt á síðum tískublaða. Innihaldslaus og ögrandi í flottum kjól. Eða eins og Birta sagði í tískublaðinu sínu; "flott tík" En hún hefur þau orð örugglega úr amerískri bíómynd með íslenskum texta...

luv, ER

Nafnlaus sagði...

það er verið að undirbúa tískuþátt með mér.... í alvöru!!!