Ég hef svo sterka tjáningarþörf að nú ætla ég að blogga um lærið. Geðlæknirinn minn hringdi hérna áðan tilað segja mér að mitt ágæta steinefni líþíumið væri komið í apótekið. Og svo bætti hann við og ítrekaði það sem hann sagði í síðasta tíma að ég ætti að hætta að analýsa og gera hlutina. Það er eins gott að ekki margir lesa þetta blogg. En mér láðist að segja þessum ágæta lækni það að alltaf þegar ég hætti að analýsa þá færi ég í maníu, nú væri ég tildæmis búin að skrifa vini mínum þrjú ímeil, og einmitt alveg tóma dellu en ég er alltaf að reyna að þróa delluna. Annars er ég búin að þrífa baðið, klósettið og vaskinn og fara í bankann og selja bækur í bókasöfn og hitti meiraðsegja Hrafn bróður minn í bankanum og hann leit út einsog strákur, svo vakti Fréttablaðið mig í morgun og bað mig um að segja eitthvað um landsliðið, og það vafðist eitthvað fyrir mér. En ég er búin að vera í þunglyndi sem hefur lýst sér svona:
1. Hrædd við að deyja í svefni
2. Hrædd við að fá krabbamein
3. Hrædd um að fá aldrei jafnvægi í peningamálin
4. Hrædd við að eiga ekki fyrir þessum risa tannviðgerðum
Já, aðallega þetta þrennt, man ekki eftir meiru. Verða kannski sjötíu ára og alltaf á kúpunni. En ráð geðlæknisins kann að breyta því. Just do it. Adidas stal þessu slagorði frá mér á sínum tíma. Það vekur mér undrun í hvert sinn þegar einhver segist elska mig, hey já það var eitt, ég var að labba Laugaveginn í gær og kynntist því hvað reykingabannið er sniðugt, það voru nokkrir útað reykja og einn sagði:
Þarna er Elísabet Jökulsdóttir fegursta kona í heimi.
Takk fyrir reykingabannið.
En ég ætlaði að blogga um lærið, mamma, Jökull, Kristín, Garpur og Ingunn eru á leiðinni í mat og ég er í kasti, stresskasti, nei ég hlakka tilað sjá þau. En Gummi vinur minn í Nóatúni selur mér læri og ég var á leiðinni í bæinn og ætlaði að fara Sólvallagötuna þegar ég ákvað að fara Holtsgötuna af því mig langaði aða heilsa gamla gráhærða manninum sem er búinn að vera nágranni minn í 17 ár og ég setti í skáldsögu og ég er nýbyrjuð að heilsa honum og veit aldrei hvort hann tekur undir kveðju mína, en hann heilsaði, þetta er fallegur maður með skip í glugganum hjá sér, nokkur skip og báta, seglskip líka, svo kom Gummi labbandi á móti mér og ég tilkynnti honum ég ætlaði að koma og kaupa læri af honum því ég verð alltaf að hafa serímóníu þegar ég kaupi læri, helst að skrifa skáldsögu á undan og fara til New York, og svona, og ég vil kaupa lærið af Gumma og engum öðrum og það kemur í ljós seinna í þessari sögu hversvegna, það er reyndar gaman að kaupa læri í Melabúðinni en það verður að vera gaman að kaupa læri, hann sagði mér að koma við, hann ætlaði strax að taka út læri og geyma það handa mér við stofuhita en þegar ég sagðist þurfa að elda það í dag sagðist ekki taka út lærið en hafa tilbúið gott læri handa mér og hvað þarftu fyrir marga, jæja jæja, þetta var á Holtsgötunni, svo fór ég í Nóatún og Gummi tilkynnti mér þau ógnartíðindi að það væru ENGIN LÆRI TIL í búðinni, ég vissi ekki hvert ég ætlaði og spurði hvort ég ætti að hringja í Fréttablaðið eða Sjónvarpið, og þá fór hann að benda mér á krydduð og marineruð læri og líka vakúmpökkuð læri og það runnu á mig tvær grímur, ég sagði honum að tvíburarnir vildu helst fá læri kryddað af mér, bara salt og pipar, og þá kemur kjötbragðið í ljós, mamma er betri en öll maríneríng, og svo eftir löng fundahöld fyrir framan kælinn og eitt símtal til Jökuls sló ég mér á læri sem var kryddað með íslenskum kryddjurtum, soldið grænt en ókei, og svo ræddum við um hvernig ætti að steikja það, ég sagðist steikja það á hundrað í fimm tíma og snarhækkaði í áliti hjá Gumma, fór svo heim með lærið, tók utanaf því en viti menn, fannst lyktin skrítin svo ég hringdi í Gumma, (ég er auðvitað með farsímann hans!!!!) og þegar ég sagði það væri í lagi með dagsetninguna sagði hann það væri bara betra ef það væri svona lykt af lærinu. Svo var ég á leið út í apótek tilað ná í líþíumlyfin mín og þurfti að fara þrjár leiðir aftur inní húsið, fyrst til að ná í lykil en þá tók ég óvart nikótíntyggjóið mitt og svo tilað gá hvort væri læst og svo tilað ná örugglega í lykilinn, - kemur þá ekki Gummi á móti mér og ég spurði hvort hann vildi koma inn og tjékka á lærinu, hann var á leið heim úr vinnunni, en viti menn, hann kom hérna inn og viti menn: HANN KRAUP VIÐ OFNINN, KRAUP, já segi og skrifa, hann kraup við ofninn og opnaði hann, og sagði þetta væri allt í besta lagi, fallegt læri og góð lykt. Og ég sagði honum hann gerði allt svo fallega, ég hef aldrei kropið við ofinn, ég krýp yfirhöfuð ekki nóg, bara við bænirnar mínar á morgnana en ég þarf að krjúpa meira, krjúpa við ofninn.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
love you blóm
svona saga, svona læri svona líf ... það breytir manni!
takk frú lyng. vona þér hafi gengið vel í skólanum. og takk fyrir kommentið, næst gæti kannski bloggað um uppvaskið.
ást og knús, ella stína
Skrifa ummæli