21 júní 2007

Blómið í glugganum

Það er blóm í eldhúsglugganum mínum. Glugginn er gylltur einsog kirkjugluggi og segja má að altaristaflan sé hafið og skipin og skýin. Það er blóm í glugganum, blóm sem Kolbrá litla systir mín skildi eftir þegar hún fór til Panama fyrir tíu eða fimmtán árum. Hún man ekki eftir blóminu. Ég passaði blómið öll þessi ár, hafði það yfirleitt á píanóinu, útí stofuglugga eða á borði og blómið stóð í stað, það rétt hékk svona á nokkrum blöðum og mér var sagt að henda því.

En af því systir mín hafði beðið mig um að passa blómið vildi ég ekki henda því og setti það fyrir einhverja rælni í eldhúsgluggann. Og viti menn, blómið tók á sprett og hefur nú í tvö ár vaxið og vaxið og breytt úr sér í glugganum. Það er komið á réttan stað. Þetta er dæmisaga um rétta staðinn. Það var norðurglugginn.

Og ég fór að hugsa einsog þetta blóm, á ég að flytja norður, er ég á rétta staðnum, hver er rétti staðurinn fyrir mig?

Og enn hafa undur og stórmerki gerst!!!!!!!!!!!!!!!!!

Blómið hefur borið ávöxt.

Það eru stórfurðulegur ávöxtur, kristalsklasi, sem hefur litið dagsins ljós.

Kristalsklasi brúnleitur, undurfíngerður, eftir öll þessi ár.

Það er margir örfínir stilkar og á hverjum stilk er svona kristalslaga jurt og þetta er einsog knippi eða vöndur, kristalsblómavöndur.

Þetta var sagan um Elísabetu og blómið.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Nú skil ég svo margt. Dæmisögur eru dýrmætar. Takk.

luv.

Nafnlaus sagði...

Já, ég fór alltíeinu að hugsa hvort ég ætti að búa í kirkju, ég meina blómið er í kirkjuglugga, og það er svona útsýni, innsýni, þe. glugginn er altaristaflan, en útsýnið er altaristaflan líka en í annarri vídd ef svo má að orði komast, að búa í kirkju, eða þarsem er vítt og þröngt, heilagt og jarðbundið.... bla bla bla... þetta er góður staður en umferðarhávaðinn er að gera mig vitlausa. æ ég læt þetta bara flakka luv jú tú ekj