13 júní 2007

Ella Stína leitar að sjálfri sér

Já það yrði nú saga til næsta bæjar ef Ella Stína færi að leita sjálfri sér. Hverjir yrðu þá á hælunum á henni, litlar Ellu Stínur sem vildu vera blóm í blómabeði en Ella Stína las svoleiðis sögur þegar hún var lítil um börn sem höfðu breyst í blóm, já norn hafði galdrað þau og Ella Stína fann svo til með þeim, verst af öllu var að vera blóm og í einhverjum garði, fast í garði, og Ella Stína horfði væmin og dreymin útí loftið og beið eftir næstu gusu og stjórnaðist af veðrinu, stjórnaðist og stjórnaðist, fjarstýrt blóm sem lét stjórnast af öllu þangað til hún hneigði höfuð sitt, blómahöfuð sitt, í átt til moldar.

Þá kom lítill ormur og sagði eitthvað um þunglyndislyf eða hvort hann ætti að naga gat á hana en þá sagði Ella Stína, þetta er ekki lengur skemmtileg saga, mundu að þú verður að enda þegar sagan endar.

Og svo fór hún aftur inní þvottahús til ömmu sinnar.

Engin ummæli: