09 júní 2007

Kínverska boxið

Kínverska boxið

I
Það var einn daginn að Ella Stína stóð á þröskuldnum hjá mér og vantaði að fá skrifaða söguna sína. Henni finnst hún eiga svo hrikalega fortíð að henni finnst hún alltaf þurfa að vera í stríði, það er einsog hún búi í fortíðinni, einsog fortíðin sé hús sem hún komist ekki út úr. Svo ég ætla að skrifa söguna hennar uppá nýtt tilað láta hana vita að hún eigi ekkert svona hrikalega fortíð, að hún eigi í raun afskaplega góða fortíð svo hún þurfi ekki alltaf að vera í stríðinu og ekki alltaf inní húsinu. Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja en ég gæti byrjað í fjósinu þarsem kýrnar eru, Stundvís, Huppa og fleiri og hún fær að reka þær útí móa, og það er svo kæruleysisleg stund, gott veður og hún ein í heiminum með kýrnar sem dóla og sletta halanum og með þessar stórkostlegu klaufir, stóra maga og heimspekilegu augu. Eða það segir mamma hennar. Mamma hennar sér heiminn skemmtilega einsog þetta með kýrnar að þær séu heimspekilegar. Það eru hrafnar í fjallinu og Ella Stína þarf ekki að hafa áhyggjur af nokkrum sköpuðum hlut.


II
Ella Stína er blind en það er alltílagi, mamma hennar er alltaf að tálga blindrastafi handa henni þegar hún er ekki að baka pönnukökur eða lesa reyfara.


III
Pabbi Ellu Stínu hafði tekið augun úr henni en mamma hennar setti þau í kínverskt box sem þær Ella Stína höfðu keypt á tombólu og mamma hennar sagði að Ella Stína fengi augun þegar hún yrði stór.


IV
Svo einusinni þegar mamma hennar var að mjólka sló eldingu niðurí fjósið og mamma hennar dó ásamt öllum kúnum. EllaStína leitaði að augunum tilað geta slökkt eldinn en fann hvergi boxið. Hún vissi ekki að mamma hennar var alltaf með augun á sér. En Ella Stína jarðaði allar kýrnar og mömmu sína og var heillengi að því og söng svo sálma og lóur í túninum og hrafnar í fjallinu og álfar í klettunum og lækurinn rann hjá. Ella Stína grét heillengi þegar mamma hennar dó en ekki nóg til að slökkva eldinn.

Engin ummæli: