12 júní 2007

Síðasti blóðdropi Ellu Stínu

Og ef þú heldur að Ella Stína hafi ekki barist fyrir að vera hún sjálf, þá gerði hún það svo um munaði. En í hvert sinn hækkaði staflinn sem geymdi málsskjölin, rottunum fjölgaði, dómarinn varð ófrýnilegri, lögfræðingarnir urðu óskiljanlegri en Ella Stína hélt áfram að berjast. En það var við ofurefli að etja.

Og svo eitt leyndardómsfullt í þessu, Ella Stína geymdi sjálfa sig á vísum stað. Það getur vel verið að hún hafi gleymt því í áranna rás og ruglingi réttarhaldanna, en hún geymdi sig og mundi ekki hvar. En á meðan er von.

En vonandi fer vonin ekki fyrir rétt.

Kannski geymdi Ella Stína sjálfa sig í síðasta blóðdropanum. En hún gat aldrei farið að leita að sjálfri sér því það glumdi alltaf í hátalarakerfinu: Næsta mál á dagskrá: Ella Stína.

Ha, sagði Ella Stína.

Ertu með næsta mál, var spurt.

Já.

Hvað er það?

Ella Stína.

Gott.

Og þannig vildi það til að Ella Stína var orðinn lögfræðingur sem sótti mál gegn sjálfri sér, og svo varð hún dómari yfir sjálfri sér.

Já, það var í þá góðu gömlu daga þegar allt hér Ella Stína.

2 ummæli:

Kristín Bjarnadóttir sagði...

skemmtilegt örleikrit! ást og knús og takk fyrir seinustu geimveruheimsókn/þín kristín

Nafnlaus sagði...

takk og sömuleiðis, ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að ég væri geimvera, (ég gleymi því svo oft) en geimveruheimsóknir, ég skil hvað þú átt við, ég varð himinlifandi þegar ég sá kommentin frá þér, ég hugsaði, það er von fyrir Ellu Stínu, hún kannski setur bara á sig krem í dag og fer á völlinn.