07 janúar 2008

Geðhvarfaþáttur í sjónvarpinu

Stephen Fry (er hann leikari?) var með sjónvarpsþátt í kvöld um geðhvörf, hann var magnaður, einn viðmælanda hans hafði séð djöfulinn og ég fékk tár í augun, ekki það að ég hafi séð djöfulinn, en ég hef séð svo ógeðslega hluti í maníu, og þetta er svo hrikalegt hugarástand að ég vil aldrei fara þangað aftur, - samt er einsog ég noti ástarfíknina tilað halda mér í startholunum ef ég skyldi þurfa að flýja, og sjálfsagt er að gamalt syndróm, að flýja. Mér tildæmis tókst að vakna klukkan tvö, hafa til skuldabréfin mín, gera lista yfir það sem ég þyrfti að gera og lesa helminginn af leikriti sem ég er að skrifa um. Þrjár manneskjur hringdu í mig, ein tilað fá að koma í heimsókn, ein af geðdeild tilað heyra í mér, og krúttlingarnir Hulda og Valli tilað segja gleðilegt ár. Ég hringdi ekki neitt, stundum get ég ekkert hringt, ég vissi að ég myndi komast í gegnum þennan dag, og ég veit að morgundagurinn verður betri, ef guð lofar, ég eldaði meiraðsegja mat, brokkólí og var á leiðinni í sund þegar þátturinn byrjaði, ég er rotuð eftir þessi jól, og ég verð að passa uppá mig, og kannski kemst ég í bankann á morgun. Það sem bjargar mér er bara: Elísabet ekki skammast í þér. En ég finn svona næstum skömm að skrifa um að ég hafi fundið fyrir þunglyndi í dag þegar ég veit að fólk les þetta, en það er bara eina leiðin tilað hætta þessu. Svo er ég bara heppin, ótrúlega heppin og einhver náð yfir mér, hvað ég get skrifað, takk guð. (Ef þú lest þetta.)

Engin ummæli: