Ég bauð henni í te og hún sagði mér sögu, svona jesúsögu, mjög fallega, hún segir mjög mikið um mig og mitt þunglyndi sem ég var í þótt mér finnist ekki smart að fara í þunglyndi, mér finnst meira smart að fara í maníu en ég veit ekki afhverju smartheitin réðu ekki ferðinni í þetta sinn. En ókei, sagan er svona. Það er maður á Laugaveginum, og svo kemur maður til hans og segir: Ég skal hjálpa þér, ég skal bara hjálpa þér með allt sem þú þarft hjálp með, - já ég er svona hjálparengill. En það er ekki hægt að hjálpa manninum, hann þarf enga hjálp, hann er svo pottþéttur, fullkominn og þarf ekki einusinni að segja ókei takk sæti fíni engill, ég þarf smá hjálp tilað líta til himins. Svo ef það er hvergi sprunga í fólki þá er ekki hægt að hjálpa því. Þá kemst guð ekki inn, því guð kemst aðallega inn um sprungur, svona glufur, en venjulega eru allir og þám. ég búin að múra uppí glufurnar, ef ekki með steypu, þá með hugmyndum. Svo ég skildi þetta alveg hvað konan var að segja. Ég gat ekki beðið um hjálp áðuren ég veiktist, svo veiktist ég, og varð að þiggja hjálp, og nú er ég komin heim, og búin að vera pæla í því allan dag hvort ég ætti að hringja í Lindu, mömmu, trúnaðarkonuna mína, Elísabetu, Óskar, og ég veit ekki hverja, ég hringdi samt í Gumma en hann svaraði ekki, barnið hans gæti verið að fæðast, en ég þarf enga hjálp, ég get allavega ekki beðið um hana, en ég ætla fara núna útí apótek þótt ég sé þrælkvefuð og kaupa nikótíntyggjó af því ég get ekki beðið neinn um að gera það fyrir mig. Þetta heimsveldi er mín eina sprunga, mín eina sálarsprunga, kannski er komin sprunga í heimsveldið.
En þetta var svolítið um guð og hjálpræðið.
Sálfræðingurinn uppá deild var að halda fyrirlestur líka, og við áttum að nefna kost og ég nefndi auðvitað helvítis hugrekkið. Hann nefndi hjálpsemi hjá sjálfum sér.
En þið munið vonandi eftir manninum sem drukknaði í lendingunni og pabbi hans var svo rosalega ánægður með að maðurinn hefði ekki hrópað á hjálp, það hefði heyrst í honum, uppástóð hann.
Þetta var semsagt væl Elísabetar. Sírenuvæl í heimsveldinu.
Allt útaf konunni sem kom með blómið.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli