12 janúar 2008

Sumarbústaðurinn

Sko, ef maður ætlar að beita sjálfan sig ofbeldi, verður maður að velja fallegan stað, einsog sumarbústað, sumarbústaður er heilagur staður, og ofbeldið er heilagt, það hefur tilgang, þann æðri tilgang að brjóta sjálfa mig niður, það eru allskonar meðul notuð einsog við hverja aðra messugjörð, einsog að messa sífellt yfir mér, hvað ég sé ómöguleg, ljót, leiðinleg, alltof gömul, illa vaxin, ekki nógu vel menntuð, og ég veit ekki hvað og hvað, ég get ekki unnið, ég er alltaf með rök á móti mér, þetta er sérstaklega í sambandi við karlmenn, en líka í sambandi við aðra rithöfunda, aðrar mæður, aðrar systur, aðra vini, þetta er hljóðlátt leynilegt ofbeldi sem enginn fær að vita af. Útá við sýnir maður svo annað andlit, leikur jafnvel gott sjálfsálit. Þangað til einn daginn þolir maður ekki meira. Og uppgötvar þetta af því maður þó hafði sig í að það ímeila gæjanum sem maður var skotin í, í stað þess að búa sífellt til samræður í höfðinu. Málið er að ég hef gott sjálfsálit, en ég brýt það stanslaust niður. Ég á ekki skilið að lifa áhyggjulausu lífi, ég á ekki skilið að lifa þráhyggjulausu lífi, ég á ekki skilað maður sitji hjá mér í átta klukkutíma og spjalli, ég reyni að brjóta það niður, ég á ekki skilið að fólk komi inná heimsveldið, ég verð hrædd um að hafa ekkert að segja og geta ekki þóknast fólkinu. Þetta er ég í mínum sumarbústað. Ég skammast mín meiraðsegja fyrir að viðurkenna þetta, einsog þetta sé mér að kenna, samt hef ég búið í ofbeldissambandi og ég hélt ég væri búin að vinna mig útúr því, en tíminn er ekki bein lína, tíminn líður í hring, og þær aðstæður geta skapast að maður þurfti aftur að takast á við sömu hlutina. Ég er orðin þreytt á þessu ofbeldi. Á einhvern hátt finnst mér eiga það skilið. Það er ekki víst að það sé bara hausinn á mér sem trúi því, kannski rifbeinin sem voru brotin í mér, kannski glóðaraugun sem ég fékk, kannski eru minningarnar geymdar í líkamanum, og þá verður að tala við líkamann uppá nýtt. Og kannski rífa þennan sumarbústað. Hætta að fegra ofbeldið. Hætta að hafa það leynilegt. Það getur enginn beitt mig ofbeldi nema ég beiti sjálfa mig ofbeldi.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

þú hlýtur nú að geta fundið eitthvað sem þú ÁTT skilið !!!! ;)

Nafnlaus sagði...

Góður, Garpur er gæddur leiðtogahæfileikum og sér þessvegna alltaf það góða í fólki, í tilverunni, já, ég á allt gott skilið.

Best ég geri smá blogg um það.

ást og knús, mamma

Nafnlaus sagði...

Já, ég vil meina að að ég hafi átt komment frá Garpi fyllilega skilið.

ha ha ha... mamma