18 janúar 2008

Kærleikssambandið

Það var erfitt að komast á fætur, ég notaði kærleikann, kveikti á rafmagnsofninum, talaði blíðlega við sjálfa mig þegar mér datt í hug að læra eitthvað af Jökli syni mínum sem er afburða fótboltamaður og þarf örugglega oft að beita sig hörku, ég þarf að spyrja hann útí þetta, svo ég sagði: Jæja!!! Á fætur!!! Þetta líður hjá, þunglyndið, en gat varla sofnað í gærkvöldi, þá var svo gaman í hausnum á mér. Fékk mér vatnsglös, lyfin, lýsi, vítamín, mjólkurglas, kveikti á tölvunni, sá póstinn, ætla reyna koma mér útúr húsinu, fór ekkert út í gær, skrifaði borgarstjóra ímeil um að hætta að rífa niður húsin, (borgarstjori@reykjavik.is) er komin í leðurstígvélin mín, bað bænirnar mínar, sagði sjálfri mér að sjálfsvirðing mín væri ekki fólgin í peningum, ég er svo blönk að það er með ólíkindum. En þetta kemur allt með kærleikanum. Já, svo strauk ég mér blíðlega um vangann. Elísabet, þetta lagast. Sonur minn myndi sennilega kalla þetta væl. :) Hann er svo kærleiksríkur, hann segir alltaf hvað honum finnst.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er hlynnt gömlum húsum vel að merkja. En Laugavegshúsin 4 og 6 vil ég rífa í tætlur. Bara svoleiðis
M

Nafnlaus sagði...

Mamma, hvaða tætlur eru þetta, hafa þessi hús gert þér eitthvað, afhverju í tætlur, hefurðu séð myndirnar af þeim sem ég sendi þér, .... Halldór Laxness drakk kaffi í öðru þessara húsa,

annars varstu góð í sjónvarpinu.