07 janúar 2008

Útað borða með krílinu, áramótabrenna og fuglinn

Ég fór útað borða með krílinu, (hún á víst ekki að heita Elísabet) og Garpi og Ingunni á Fridays í Smáralindinni í gær, það var guðdómlegt, þau eru svo skemmtileg, og ég hafði ekki haft hugmynd um þennan stað. Svo fórum við heim til þeirra og ég fékk að skoða barnaföt, ég meina það var undursamlegt, öll þessi litlu föt, ég get varla skrifað um þetta, þetta er svo heilagt alltsaman, og parketið sem krílið lagði, krílið söng líka afmælissönginn á Fridays því ég var þar að reyna að skipuleggja afmælið mitt og hún hélt kannski það væri byrjað, eða hún sparkaði afmælissönginn, Garpur spilaði Bubbatónleikana í Laugardagshöllinni, ég skynjaði nálægð Töfragarðsins, svo magnað að koma á heimili þeirra, svo magnað að eiga svona fólk og fá að elska það.

Svo var ég með læri í kvöld handa öllu genginu, Jökli og Kristínu, Garpi og Ingunni og mömmu sem vill ekki nota sögnina að elska. En við elskum hana samt. Og ég var bara eitt titrandi þakklætisstrá að hafa svona matarboð, dúk og sósukönnu, samræður, og allt svo fallegt.... Mamma fór að horfa á spennuþátt, en ég, Kristín og Ingunn sátum inní stofu, svo mikil forréttindi að sitja með tveimur svona stórgáfuðum og fögrum og yndislegum manneskjum sem þessar tengdadætur mínar eru, eins gott þær lesi þetta, venjulega eru þau öll alltaf að flýta sér, en við sátum bara í stofunni, svona augnablik sem hægt er að hverfa inní, og á meðan voru Garpur og Jökull að safna saman jólatrjám í hverfinu!!!! Svo var áramótabrenna. Ótrúlega falleg.

Ég er ekki búin að vaska upp. En horfði á Planet Earth. Og það er möst að sjá fuglana í frumskógum Nýju-Gíneu. Ég hef aldrei séð annað eins.

Það er líka ein tengdadóttir mín sem býr á Spáni og átti afmæli í gær, og fær hér með síðbúnar en funheitar afmæliskveðjur, hún Helga, og Kristjón og allar dæturnar.

Ég gæti dáið af ást. Ég meina: Fengið tár í augun.

Ég gæti orðið fugl í frumskógum Nýju-Giníu.

Hverfa svo þangað sem ástin skín.

Engin ummæli: