19 janúar 2008

Rafmagnsofninn

Mamma hennar Ellu Stínu var ekki ánægð með alla athyglina sem pabbi hennar fékk. Ertu að segja að ég hafi ekkert hafnað þér, sagði hún. Ella Stína hugsaði og hugsaði, hún vissi ekki betur en allir höfnuðu henni sífellt, og ef allir voru ekki sífellt að snúast í kringum hana þá fékk hún höfnun. Hún var með höfnunarheila og heilinn á henni hafnaði tildæmis líkamanum, hann hafnaði lífinu og stundum lá Ella Stína undir sæng og hlustaði á snæfjúkið. Svo fékk hún sér rafmagnsofn tilað komast á fætur en þorði ekki að kveikja á honum því hún var sannfærð um að olían í ofninum myndi þenjast út við rafmagið (hún var svo mikill efnafræðingur) ofninn myndi springa, þakið rifna af húsinu og Ella Stína myndi finnast öll brunnin og í tætlum og þyrfti að setja sjálfa sig saman á nýjan leik, heilinn í henni byggði upp niðurbrot og síðan brotnaði hann niður, þá fannst Ellu Stínu allt mjög uppbyggilegt, og byrjaði að tína á sig útlimina, heilinn á henni lét hana ekki í friði, þessvegna þurfti hún að fara á fundi. Það var ágætt nema þegar Ella Stína fór í pontu og svo aftur í sætið sitt og sagði við sjálfa sig: Hvað varstu eiginlega að segja!!! En svo eftir fundinn kom kannski einhver og sagði við Ellu Stínu: Gott að hlusta á þig. Ella Stína tók mark á þessari manneskju og var að hugsa um að gefa henni rafmagnsofninn.

Engin ummæli: