26 janúar 2008
Ég er að verða amma
Einhverntíma á næstunni kemur barnið í heiminn, litla barnið hjá Garpi og Ingunni, fyrsta barnið þeirra. Og ég er svo glöð. Það er eiginlega um þetta sem maður ætti að skrifa skáldskap. Lítið barn sem kemur í heiminn. Svo verð ég amman. Og það er svo óendanlega dýrmætt og ég er svo þakklát fyrir að mega vera amman. Ég átti nefnilega ömmu sem var þakið á húsinu mínu og tíndi með mér gula kuðunga í fjörunni, kenndi mér að fara í vettlinga, kenndi mér að hekla og kenndi mér að maður bankar uppá ef hlutirnir eru ekki í lagi. Þetta var hún amma Elísabet. Elísabet Engilráð Ísleifsdóttir. Hún var eiginlega herforingi, amma mín var herforingi. En líka fimleikastjarna, kjóladrottning og raðaði öllu saman, kannski af því henni fannst heimurinn í molum. Nú ætla ég að fá mér te. Og blogga meira um litla barnabarnið sem er í vændum, gleðina í hjartanu, áhyggjurnar sem stundum koma og veita manni engan stuðning svo ég verð að biðja guð um að taka þær frá mér. Svo á ég fjórar aðrar ömmustelpur og það er líka efni í skáldskap. En þetta er svo mikið kraftaverk að fingurgómarnir bara hugsa: Snerting, líf.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Kannski vildi hún skapa heiminn uppá nýtt... amma mín meina ég sem lét smella í hælunum.
Ella Stína Wonder Prina
ps. Komst ekki í sund í dag en pússaði borð.
Skrifa ummæli