31 desember 2008

Embla Karen farin að ganga

Embla létt er lögð af stað
lífsins gang hún finnur
skrifar skrefin sín á blað
skært lúðrar hljóma

*

Embla litla er lögð af stað
lífsins gang hún finnur
enn og aftur emblustað
útum heiminn finnur

*

Englar gæti Embluveg
allan lífsins ganginn
stoppin líka stórmerkileg
stúlkan hugfangin.

Verndarsvæði Ellu Stínu

Ella Stína opnar á næstunni verndarsvæði þarsem Ellu Stínu verður komið fyrir og hún nýtur sérstakrar og tilhlýðilegrar verndar...

.... hugmyndina fékk Ella Stína eftir að hún fór með Kristínu og Jökli á verndarsvæði Cherokee Indíana en þar er mikið dót...

... og þar má enginn koma við Ellu Stínu...

26 desember 2008

Englar úr smjörpappír og glimmer

Einn daginn hérna í Greensboro langaði mig að búa til engil, helst að teikna risastóran engil við borðið hjá Jökli og Kristínu. Svo teiknaði ég engil í teikniblokkina mína, hann tókst!!! Og úr þessum engli hef ég gert tvo engla úr smjörpappír, og setti glimmer á þá, annar er silfraður og hinn gylltur. Ég gaf þeim englana í jólagjöf en ég er með frumritið og get bætt við englum í heiminum.

Mínar helgustu stundir í Karólínu

Mínar helgustu stundir eru þegar ég labba í skóginum með Zizou og hún eltir íkorna og ég elti hana, trén eru einsog súlur guðs, birtan smeygir sér á milli, og fyrir utan skóginn þá er það bara ég og hundurinn.

Dýrastra líþíumtafla í heimi

Þegar ég var nýkomin hingað til Karólínu komst Zizou í líþíumtöflu og át hana hálfa. Sama dag var mikilvægur leikur í boltanum. Kristín fór með hana til dýralæknis og hann sagði að hundar væru stundum með geðhvörf og fengju þá líþíum!!!! Heimsóknin til læknisins kostaði hinsvegar tvö hundruð dollara. Ég beið heima í dramakasti en komst á leikinn. Jökull og félagar unnu. En hinsvegar verður þessi tiltekna tafla að teljast dýrasta líþíumtafla í heimi!!!!!!!!!!!!!!!!

*

Heims um ból

Ég hef ekkert heyrt Heims um ból svo ég ætla syngja smá.... heimsumból

heims um ból ból ból
heimsum ból heims um um um bóóóóólllllllllllll

heims heims heims um ból ella stína í kjól helg eru jól silent night
liggur í jötunni.............lávarður seims hins guðlega heims um ból ból helg

En svo fór Jökull að blístra heims um ból og þá varð allt gott....

heimsblís umtur blísturból

Jólagjafirnar mínar í Karólínu

Ég fékk húfu með útsaumuðum stöfum Ella Stína, hvít með ljósbláum stöfum, hið ljósbláa hefur ráðið ríkjum hér, keypti 2 boli með ljósbláu í, .... ljósblátt í.....

svo fékk ég fiðrildi sem búið var að pakka, kínversk..... undralitir....

i hate packing.
just pack the butterflies

hér er ég stökk í leikritinu mínu.

Og svo fékk ég mynd af Jökli með boltann, stórglæsileg mynd, töframaðurinn.

Ég beið á kaffihúsi, Starbökk, meðan verið að sauma stafina í húfuna og versla fiðrildin.

19 desember 2008

Jökull stærðfræðingur

Jökull útskrifaðist í gær og er orðinn stærðfræðingur, þetta var algjör snilld, allir voru í búningum frá sextándu öld og Jökull var í bláum kufli og með skott húfu. Hann var glæsilegur. Svo teinréttur og glæsilegur. Það voru haldnar sniðugar ræður einsog:

Dont ask what the world wants,
ask what makes you come alive.

Og svo var annar prófessor sem sagðist ekki nenna að vinna, nema kenna nemendum sínum sem mættu aldrei í tíma og taldi upp allar afsakanir þeirra.

Jökull var í hafi af tvö þúsund útskriftarnemum, og við Kristín sátum fremst annarstaðar í salnum og höfðum gætur á lögreglunni að hún færi að handtaka neinn fyrir að klappa.

Svo fórum við heim, Kristín var búin að útbúa þvílíkar kræsingar, og Jökull fékk gjafir frá okkur, stærðfræðiboli frá henni og nafnspjöld frá mér. Um kvöldið fórum við á Red lobster og héldum ræður og einsog þessir humrar voru settir í sjóðandi vatn og þá kom kjötið út úr skelinni, þá vorum við líka öll soðin í tilfinningahita og rifum út á okkur hjartað og tjáðum ást og þakklæti.

Um miðnætti fórum við rúnt að skoða ótrúlegar skreytingar hér í bæ og fórum svo með Zizou og Keono út að hlaupa og skemmta sér. Kristín vann svo Jökul í körfubolta meðan hundarnir skutust inní runna að leita að íkornum, og í lokin fékk ég að skora eina körfu.

Þetta var dásamlegur dagur.

16 desember 2008

Hóstakast

Jökull er að fara útskrifast á fimmtudaginn og það má ekki klappa, þá verður maður handtekinn. Það er kannski þessvegna sem fólk er svona rosalega næs hérna, það skælbrosir við manni milli rekkanna í stórmarkaðnum, einsog það sé að hitta gamlan vin, og svo handtekur það mann fyrir að klappa, svona nottla æsir uppí manni hugmyndaflugið, ætti ég kannski að hósta, taka rosalegt hóstakast þegar hann stígur uppá pallinn með þessa frægu húfu.

ps. Það má heldur ekki vera með blöðrur. Balloon...

11 desember 2008

Tveir menn á pallbíl og guð

Í gærkvöldi var ég keyrð heim af tveimur mönnum á pallbíl, ég spurði þá hvernig þeir upplifðu guð og þeir sögðust báðir halda að guð ynni í gegnum fólk.

06 desember 2008

Stop thinking and trust god

Hæ, hæ, það er yndislegt að geta verið með fólkinu sínu alveg frá morgni til kvölds, keypt í matinn, viðrað hundana, horft á sjónvarpið, borðað saman, spjallað, leitað að lyklunum, pening í þvottavélina, dáðst að jólatrénu, fengið sér pepsi, ...

og úti er skógur, og þrjúhundruðþúsund íkornar sem Zizou heldur að guð hafi plantað alveg sérstaklega handa henni tilað eltast við, Keonó litli bróðir hennar er hinsvegar ekki búin að fatta íkornana en hann er svo magnaður að hann á örugglega eftir að ná einum. Hann er samt ekki magnaðri en Zizou, þau eru bæði alveg.... en ég hef aldrei séð hund sem ég upplifi að sé guðleg vera sem er Zizou.

Ég er hér að skrifa og sæki AA-fundi, annan hvern dag, þeir eru alveg búnir að sjá í gegnum mig og endurtaka: STOP THINKING AND TRUST GOD.

ferskeytla um fótbolta

Mörðu þá í Maryland
menn úr okkar liði
grófu þá í grýttan sand
grimmur fyrirliði.

Loksins fréttir

Ég geri ráð fyrir að allir séu byrjaðir á hata mig fyrir að hafa ekki bloggað djók. En ég er ekki með netið, Kristín og Jökull eru svona lærimeistarar mínir og vildu að ég skrifaði en ekki bloggaði, enda kláraði ég heila 19 kafla í handritinu mínu. Og eftir smá hvíld sneri ég mér að leikritinu. Svo vil ég minna á íkornana í trjánum.

26 nóvember 2008

Tían átti töfraleik

*

Númer tíu átti töfraleik
tæklaði þetta sjálfur
Þurfti ekkert þykjustumeik
þruman var hann sjálfur.

*

Þetta er um Jökul í síðasta leik, hann tók leikinn í sínar hendur, sólaði þvílíkt, fór inní varnarvegg og útúr honum aftur, skaut á markið og annar nýtti sér frákastið, það var jöfnunarmark og í framlengingu varð mark úr aukaspyrnu sem Jökull tók.

Tólfsporagarðurinn

Síðasta sunnudag fór ég á AA-fund á meðferðarstöð, meðferðin er byggð á Hazelden sem þykir mjög fín. Í kring er garður, tólfsporagarður, maður getur gengið sporin, farið inná litla reiti, sest á bekk og lesið á skilti ýmis spakmæli og það sem viðkemur hverju spori.

Þarna í garðnum hafði guð skrifað á lítið skilti sem stóð uppúr moldinni:

WORRYING IS A LACK OF FAITH.

Elstu fjöll í heimi

Elstu fjöll í heimi finnast í Norður-Karólínu, Smokey Mountains. Cherokee Indíanar bjuggu í fjöllunum en voru neyddir til að ganga alla leið til Ohio á verndarsvæði. Ferðin tók margar vikur og er kölluð:

The trail of tears.

En það hlýtur að búa andi í fjöllunum sem gaman væri að láta segja sér eitthvað.

22 nóvember 2008

Kveðskapur Ellu Stínu

Dúkana þeir lögðu létt
lögðu þá á borðið
Spartans spilaði ansi þétt
Spartans hafði orðið.

*

Dúkarnir eru liðið Duke sem Spartans (lið Jökuls) lagði að velli í gær í spennandi leik, 2-0

Fréttir frá Karólínu

Jökull og félag hans Spartans eru komnir í 32 liða úrslit yfir öll Bandaríkin. Það var svo kalt á vellinum að ég varð að dansa... og hrópa Common Blue Get Trough... það rímar sko. Ég er orðin lukkudýr hérna, það er eiginlega forsíðufrétt

ELLA STÍNA LUKKUDÝR......:)

Ég veit bara ekki alveg hvernig lukkudýr, sennilega einsog ég er, frábær og allt það, og meira frábær, en allir foreldrar eru búnir að hlaupa uppum hálsinn á mér og segja: You brought us luck, og meiraðsegja þjálfarinn sagði Jökli að við hefðum ekki tapað leik síðan ég kom. Ég er í rauninni snortin yfir þessu, lukkan er ekkert lamb að leika sér að, svo ég sagði bara thank you. Oh thank you. Nei, í alvöru þetta er fallegt og mér finnst það. Hélt bara að þetta kæmi aldrei fyrir mig, en það var einmitt það sem ég hugsaði þegar ég varð ólétt að tvíburunum.

Við Kristín keyrðum til Durham, Kristín er algjör ökuþór og ekur hér um Bandaríkin þver og endilöng einsog ekkert sé, framhjá risastórum trukkum, brjáluðum pallbílum, klikkuðum sportbílum, og svo ræðum við um lífið og tilveruna.

Og óskuðum okkur þegar við sáum stjörnuhrap.

Annars er ég komin með nokkur próf:

1. Ég er komin með próf á hundaól.
2. Ég er komin með próf á uppþvottavélina... næstum því.
3. Ég er ekki komin með próf á sjónvarpið eða videóið.
4. Ég er komin með próf á innkaupakerru í Wal Mart.
5. Ég er komin með próf á hliðin sem þarf að loka á fótboltaavellinum svo hundarnir sleppi ekki út þegar þeir eru að hlaupa um.
6. Ég er komin með próf á pepsidósina.

Og ég get farið út með ruslið og sagt við manninn sem býr í ruslagámnum: Enjoy, þegar hann segir: This is too much.

18 nóvember 2008

Ellu Stínu kveðskapur

Ofdekruð í Amerík
af öllum þar og einni tík
fær að vera sjónvarpsfrík
og fíla sig í pepsi-klík.

*

13 nóvember 2008

Zizou

Hún er merkilegur hundur, stundum horfir hún í augun á mér, svo syngur hún, ég fékk tár í augun þegar ég heyrði hana syngja, þetta var svo mögnuð tjáning, hún hefur óþrjótandi áhuga á íkornum og skilur ekki afhverju þeir dansa ekki fyrir framan hana, svo er hún mjög gáfuð, hún tildæmis sest niður við umferðargötu og bíður eftir að Jökull og Kristín gefi henni grænt ljós. Uppáhaldsstóllinn hennar er Lazy-boy sem ég kalla núna Husky-boy, þar situr hún með mjög heimspekilegan svip. Stundum situr hún úti á svölum í djúpri hugleiðslu, í yogastellingu og hugleiðir á trén sem hvísla að henni leyndarmálum úr universinu.

Hússtjórn og hundarækt

Ég er búin að læra að búa til Tortillas og Lasagna, og svo hef ég fengið að halda í ólina hennar Ziz ou. Svona er lífið stundum öðruvísi en maður ætlar, maður fer í aðra heimsálfu tilað skrifa ævisögu sína en þá bara bætist við ævisöguna.

11 nóvember 2008

Mark aldarinnar!!!!

Jökull skoraði mark af 50-60 metra færi í síðasta leik, það var glæsilegt, boltinn sveif yfir hálfan hnöttinn og festist í netinu. Boltinn ætlaði aldrei að hætta að svífa, hann sveif og sveif og sveif... og endaði í markinu. Og þetta er töframark, það endurtekur sig í huganum, og festist í neti hugans, það var sól og stormur, og ég, Kristín og Zizou sátum réttumegin.... Vívívívívíííííííííí...

04 nóvember 2008

Neikvæðar hugsanir

Jæja, þá má maður hugsa neikvæðar hugsanir og vera reiður, reiði er líffræðilegt viðbragð við ógnun, .... þetta kemur útúr kreppunni, nú sé ég skýringuna á því afhverju ég gagnrýndi ekki allar sósurnar, í góðærinu mátti ekki vera reiður eða hugsa neikvætt um sósur, þá er ég að tala um þrjúhundruð sósur í hillu eftir hillu, þöglar biðraðir, einmitt þöglar biðraðir, það var aldrei neitt gaman á kassanum, ekki nema þegar ég skemmtilega og frumlega kom með appelsínuna mína og sagði sigrihrósandi við kassadömuna, SJÁÐU APPELSÍNUNA MÍNA, og benti svo allri biðröðinni á þessa stórkostlegu appelsínu, en nei nei, í staðinn tróðust allir, maður fékk ekki frið tilað setja í pokann sinn, borga með peningunum sem maður hafði eytt lífsorkunni sinni í að búa til, nei alltaf að flýta sér, sósurnar og kexið... áfram gakk, búðir undanfarið hafa ekki verið neitt annað en útrýmingarbúðir, ég er verulega pirruð yfir því, ég veit þetta er neikvæð hugsun, ég ætla ekki að dvelja þar lengi, BURTU MEÐ SÓSURNAR.

03 nóvember 2008

Til Ameríku!!!!

Ég er búin að lakka táneglurnar... fjólubláar, pakka oní risatösku, kaupa hangikjöt, þrífa eldhúsið fyrir leigjandann, og koma öllu haganlega fyrir í mínu herbergi, og ég var ALEIN heima í kvöld að elda hafragraut og þarf að fara með bílinn í smurningu á morgun, og hvað hvað meira, kaupa gjaldeyri ha ha ha ha ahahahahahahhahahahahah... svo hvað, já hverju gleymi ég, engu, ég ætla nefnilega að chilla í Ameríku hjá Kristínu og Jökli og Zizou....!!!!! Hundinum þeirra, úlfinum með bláu augun, ég er mjög spennt að vita hvar Zizou setur mig í goggunarröðuna, ... hvort ég fæ að fara út að labba með henni og sjá hana grafa holu, þessar holur eru mjög spennandi, og hvað fleira, ó já svo verð ég að kveðja Emblu Karen og Garp og Ingunni, Embla Karen fær loksins bláa trefilinn sem ég prjónaði á Írlandi-Íslandi, þetta er töfratrefill, það er svo mikið af róandi hugsunum í honum, og já eftir að pakka tannburstanum, en þetta er svona algjört rólegt kvöld, af því að vitið þið hvað!!!!!!!!!!!!!!

ÉG FÉKK BOÐSKORT FRÁ AMERÍKU...

Frá skólanum hans Jökuls, um að vera viðstödd hátíðahöldin þegar hann útskrifast,... ég er búin að lesa það í bak og fyrir, graduation from University of North Carolina Greensboro.

01 nóvember 2008

Skemmtilegt

Ég var að spyrja geðlækninn minn hvort honum þætti vænt um mig, jú, svaraði hann. Þykir þér örugglega vænt um mig, ítrekaði ég. Já, sagði hann, þú ert svo skemmtileg. Þú gerir allt svo skemmtilegt. Þú gerir lífið skemmtilegra....

Elísabet... gerir lífið skemmtilegra!

En nú er ég að fara að sofa, ég sef mjög skemmtilega.

Vindurinn Ella Stína

Vindinn, já og svo á ég vindinn, sem stundum blæs blíðlega og stundum varla stætt, vindurinn sem æðir áfram, og vindurinn sem strýkur vanga minn ljúflega, hlýr vindur, kaldur vindur, allskonar vindur og ég get verið einsog vindurinn

Hvað á ég? Listi...yfir það sem ég hef...

1. Hugarró
2. Fallegur sjór
3. Kristalsljósakróna í huganum
4. Hvíta gardínan
5. Hek
lu
6. Eldavél, ein hellan biluð, ég á eina bilaða hellu
7. Réttlætiskennd
8. Yndisleik
9. Kímnigáfu
10. Hús sem er töfrahús við hafið
11. Hús með sögu
12. Hendur og fingur, tíu alls
13. Þögn
14. Te, var að fá mér
15. Haframjöl, engifer, mjólk
16. Gleraugu
17. Fegurð
18. Neglur á tám og fingrum
19. Fjólublátt mjúkt efni
20. Undrun
21. Sætleika
22. Kvenleika
23. Hetjulund
24. Trúðlæti
25. Þrjár hurðir
26. Tvo sófa
27. Rauða tösku, fyrsta taskan mín or so to say.
28. Sköpunargáfu
29. Skauta, held ég alveg örugglega
30. Skautasvell, bráðum

Og mig dreymir á nóttunni

Hið dulda samhengi

Íslenska þingið fær aldrei að fjalla um neitt, ekki Íraksstríðið og ekki ýmislegt, og ekki lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en þingið í Úkraínu er að fjalla um sitt, hér er allt ákveðið bak við tjöldin enda ekki skrítið að íslenska landsliðið í fótbolta getur ekki neitt.

Ella Stína talar um góðærið

já, hér er ég í búðinni og það eru þrjúhundruð sósur og sjöhundruð kexpakkar, og trilljón kryddstaukar, og tvöhundruð tegundir af þistilhjörtum, og allt þetta gos, og allt þetta gos og allar þessar sápur, mikið er ég hamingjusöm, og allt þetta nammi, gos, djús, sviðasulta, álegg, sjöhundruð tegundir af kexi og allt þetta kaffi, sósur og súpur, og heill rekki af klósettpappír, og allir þessir ávextir, allt með rotvarnarefnum nema smá lífrænt og krumpað og betra, og þrjúhundruð sósur, þrjúhundruð sósur, þrjúhundruð sósur, ég ætla halda fund á austurvelli og segja frá því að það séu til þrjúhundruð sósur í búðinni.

Hm?

Afhverju þarf að tala svona mikið um kreppuna, það var aldrei talað neitt um góðærið.

Auðmennina heim!!!!

Einu sinni vildum við fá handritin heim. Við fengum þau heim, við stóðum tárvot á hafnarbakkanum tilað taka á móti þessum sundurnöguðu skinnum. En nú er annað brýnna, enda hitt í höfn, og það er "auðmennina heim" svo við getum aftur staðið tárvot á hafnarbakkanum, það hafa verið uppi kröfur um þetta en aðeins einn gefið sig fram, Hannes Smára búinn að lýsa því yfir að of geyst hafi verið farið í útrásinni og hann ætli að brjóta sparibaukinn sinn ef það mætti verða til þess að hjálpa einhverjum. Mér fannst þetta nú soldið flott hjá honum, bera vott um hugrekki, en það hefur enginn sýnt honum áhuga, ekki minnsti vottur, smá klausa á visir punktur is. Og ekki meir. Svo kannski hefur átt að vera svona, auðmennina heim - nema hannes.

31 október 2008

Ella Stína baby sitting queen

Svo er ég líka svo ótrúlega heppin að fá að passa hana Emblu Karen, dásemd jarðarinnar og perludís, og hún er svo mikið krútt að hún vaknar alltaf aðeins tilað gleðja ömmu sína og sofnar svo í fangi hennar, og þá er hamingjan allt um kring með englum, og svo lauma ég henni inní rúm þótt ég gæti alveg hugsað mér að sitja með hana allt kvöldið. Og þá þarf ekkert meira, hamingjuengillinn svífur um og þræðir sína perlufesti. Og Embla Karen er svo lítil, samt er hún svo stór.

Og síðast þegar ég kom fékk ég svoleiðis grínbros.

30 október 2008

Ella Stína í aukaherberginu

Ég er ein heppnasta og eftirsóttasta mamman í öllum heiminum, ég er boðin til Ameríku, ...!!! viljiði pæla í þessu, Jökull og Kristín buðu mér að vera hjá sér í 2 mánuði, hann er að fara útskrifast og ég fæ að vera viðstödd!!!!!!! Svo buðu þau mér þetta að vera hjá sér í þennan tíma og ég sagði: Já Jökull minn, þetta er mjög höfðinglegt hjá ykkur, en hvernig heldur þú að þið getið afborið hina stjórnsömu móður þína allan þennan tíma. Þá varð smá þögn og Jökull sagði: Þess vegna erum við með aukaherbergi!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Vertu þú sjálfur

Að vera maður sjálfur er þrælahald hins vestræna nútímamanns.

*

29 október 2008

Múgsefjun Ellu Stínu

Ella Stína var að keyra á smábílnum sínum þegar hún sá jeppa allstaðar, ógeðslega vonda jeppa, kapítalistar sem eru búnir að eyðileggja líf hennar með græðgi og óskunda, það munaði engu en hún hlypi á eftir næsta jeppa og rispaði hann með nöglunum, jeppi, jeppi, jeppi, Ella Stína sjá jeppa allstaðar og kenndi jeppum um allt sem miður fór þegar hún áttaði sig á að þetta var hluti af múgsefjun og hugur hennar var ekki frjáls, svo hún bað í örvæntingu: Góði guð, ekki láta mig sjá jeppa.

Kreppubunan

Ella Stína er lítil yndisleg manneskju sem þenst útá þessari jörð en nú hefur hún lent í kreppu og dregist saman, hún ætlaði ekki að láta ástandið hafa áhrif á sig, hún ætlaði að vera hetja einsog fyrri daginn og segja kreppa hvað!!! Thnuhhh. En um leið og ýtt er á takka á Ellu Stínu stendur útúr henni kreppubunan.

27 október 2008

Heiti potturinn

Það voru líflegar umræður í heita pottinum í kvöld og margir afhausaðir, fyrst var Davíð afhausaður, svo Geir, Ingibjörg, Steingrímur, bankastjórarnir, auðmennirnir, Björgólfur var bara ekki týpan til að eiga banka, fjármálaeftirlitið fékk að fjúka, hausarnir flutu þarna um allt og ég spurði hvort þeir hefðu þá ekki hugsað sér að mótmæla ástandinu en þá fussuðu þeir og afhausuðu Kolfinnu og Hörð Torfa, það væri kannski eitthvert vit í þessum Gunnari sem var að halda fundinn í Iðnó, en svo kom í ljós að hann átti portugalska kærustu, hausinn af!!!!

Dramakikk

Kreppa er betri en kosningar, ég sagði við konu um daginn að við ættum að krefjast þess að ríkisstjórnin færi frá. Hún sagði það væri of mikið vesen "og svo verður bara kosið sama liðið"...

Kreppa er betri en kosningar.

Kreppa gefur líka meira drama-kikk.

26 október 2008

Ég er sökudólgurinn

Leitinni að sökudólgnum er hætt, sökudólgurinn er kominn í ljós, hann hefur skriðið fram úr skjóli sínu og játað eftirfarandi, það er semsagt ég og ástæðan fyrir kreppunni er sú að:

1. Ég keypti ekki tjaldvagn.
2. Ég keypti ekki flatskjá.
3. Ég keypti ekki hornsófa.
4. Ég keypti ekki jeppa.
5. Ég keypti ekki íbúð á Manhattan.
6. Ég keypti ekki einkaþotu.
7. Ég keypti ekki fótboltalið.
8. Ég keypti ekki grill á 300.þús.
9. Ég keypti ekki hús á Ítalíu.
10. Ég keypti ekki Magasin du nord.
11. Ég keypti ekki tískufyrirtæki.
12. Ég keypti ekki 30 strokleður.
13. Ég keypti ekki moggann.
14. Ég keypti ekki hótel.
15. Ég keypti ekki stærri ísskáp.
16. Ég keypti ekki gervihnattasjónvarp.
17. Ég keypti ekki sumarbústað.
18. Ég keypti ekki jörð.
19. Ég keypti ekki kvóta.
20. Ég keypti ekki foss, norðurljós, Kerið í Grímsnesi, ekki einusinni eina litla þúfu.

*

Ég játa og sé núna að ég hef stefnt þjóðarbúinu í þrot, ef bara ég hefði keypt allt þetta hefðu komið peningar inní þjóðarbúið, það munar um eina manneskju, en hvað gerði ég, ég fyllti ekki ísskápinn og lifði á kartöflum í sumar meðan krónan féll, - og ég játa eitt í viðbót:

MÉR LÁÐIST AÐ MÆLA TIPPIÐ Á MÉR.

Því fór sem fór.

Og ég mun nú taka út mína refsingu sem er:

1. Taka slátur á hverjum degi til jóla og hafa slátur í jólamatinn.
2. Vera rosalega andleg frá morgni til kvölds.
3. Sækja öll námskeið um innhverfa íhugun og andleg verðmæti sem í boði eru.
4. Prjóna þartil fer að blæða úr fingrunum.
5. Keyra mig upp í drama hvenær sem einhver minnist á kreppu.
6. Spreða þessu drama útum borg og bý.
7. Virkilega taka þátt í þjóðfélagsumræðunni. Aldrei að sleppa úr tækifæri.
8. Læra að finna upp hjólið, eldinn.
9. Aldrei að kenna kapítalismanum um hvernig fór heldur einhverju svakalega dularfullu sem kallað er ástandið.
10. Kenna öllum öðrum um þótt ég sé búin að játa.
11. Vorkenna ríkisstjórninni.
12. Læra gamalt handverk, einsog tildæmis að búa til ljós úr lýsi.
13. Selja auðlindirnar tilað redda málunum.
14. Minnast aldrei á hvað það var nú gaman í einkaþotunni.
15. Jarða allar minningar um grillið, jeppann, laxveiðarnar.
16. Læra Einræður Starkaðar utan að. (Eftir Einar Ben.) Segja tíu sinnum á dag: Ég er Einar Ben. Í dag eru Einar Ben. Og hart í bak.
17. Gleypa í mig viðtöl við Dorrit þarsem hún segir mér að vera nægjusöm.
18. Athuga hvort ég finn eitthvað nýtilegt á strandstaðnum þegar enginn sér til.
19. Segjast ætla hjálpa til.
20. Vita að ríkisstjórnin ber ábyrgð á þessu en passa að minnast aldrei á það. Þá gæti einhver haldið að við búum í lýðræðisþjóðfélagi.

*
Já, svo ætla ég að mæla einbýlishús á nóttunni og hjálpa ríkisstjórninni að finna fleiri sökudólga.

Því fyrst hún talar svona mikið um sökudólga hlýtur hana að hungra í þá, á meðan beinist athyglin ekki að henni, á meðan ríkisstjórnin er svona mikið í sviðsljósinu þá fattar enginn að þetta var hún.

Við trúum ekki að neinn geri neitt vont í sviðsljósinu.

*

24 október 2008

Júhú...!!!

Júhú... það verður bein útsending frá ástandinu, ríkisstjórnin er komin með raunveruleikaþátt, ég held ég bara fái mér te með guði, það er hvort sem er búið að redda flugeldunum!!!!

Rauðu rósirnar

Ég keypti rósir handa mér í gær í tilefni dagsins, og ég er boðin í mat í kvöld hjá Ingunni og Garpi og EMBLU. Ég held að Embla þekki mig, hún er ótrúlegur persónuleiki, svo er hún svo sæt, ég verð alltaf svo glöð að sjá hana og þarf ekki nema hugsa til hennar þá breiðist bros um andlitið.

Það var rok í nótt, það vældi í þakinu og ýlfraði. Ég svaf niðri og svaf og svaf. Ég hef verið beðin um að tala á mótmælafundi en ég veit ekki, í gær hringdi gríska pressan í mig, ég sagðist vera með gest, þeir hringdu ekki aftur, ég sem ætlaði að dásama Grikkland, en ég er að undirbúa ferð mína til Ameríku. Búin að taka til töskuna og strauja einar buxur og setja kjólinn í hreinsun.

Annars var ég heima og skrifaði, fór í nokkra hringi útaf ástamálum, en svo kom danskennarinn og við þróuðum dansinn minn soldið. Ég er heilbrigð, yndisleg og guðdómleg.

Og hér kemur smá gjörningur í lokin:

Hún heldur á blómi og á skilti stendur: Þetta er blóm handa öllum.

23 október 2008

Ég á edrúafmæli í dag...

23. oktober er drekadagurinn minn, þá byrjaði ég að sigra drekann fyrir 16 árum, búin að vera edrú í 16 árum, ekki ein en með hjálp æðri máttar og aa-samtakanna, dásamlegur tími, ný Elísabet, allt nýtt, og hægt að takast á við hlutina með almennilegum verkfærum, sjúkdómur en ekki aumingjaskapur, sjúkdómur en ekki ég, það snjóar, þetta er töfradagur, á eftir kemur hingað danskennari því ég er að búa til nýjan dans sem heitir:

KONA SEM HELDUR HEIMINUM UPPI

Ég bjó til dans í Listaháskólanum sem hét Vörðurinn og fávitinn, uppúr togstreitu þeirra spratt dansarinn, ég ætti kannski að koma og dansa í kerinu, innrásarlið og aðdáendur mínir eru kannski allir hættir að athuga með heimsveldið, netið hefur legið niðri, ég kemst ekki inná heimsveldið nema í gegnum google, og ég er komin í fréttabindindi, ég fór næstum því í maníu við allt þetta rugl, nú er ég bara svona rétt að fylgjast með, ég er svo mikið krútt... gamalt krútt, að það er með ólíkindum,

SVO GETUR HEKLA VINKONA MÍN GOSIÐ HVENÆR SEM ER

Jæja, ég ætla að athuga hvort þetta kemur inná síðuna. Knús.

15 október 2008

á kaffi hljómalind

mig langar eiginlega bara að vera passa emblu karen og skrifa sögu fyrir ömmubörnin á spáni, svo væri ég líka til í að sjá það skýrt hvað ég eigi að gera, halda sýningu á rauðum hestum, gefa út ísbjarnarpíkuna, bænabók, semja dansinn minn, en ég sit hér á hljómalind og áðan var maður að spila á hreindýrah0rn, og ég er á leiðinni á fund, og vantar nikótíntyggjó, þetta er einhver spurning um að taka ákvörðun, og þá dettur mér í hug örn jónsson nuddari sem sagði alltaf ertu búin að ákveða þetta, -
svo væri ég líka tilí að sjá það skýrt, svo kannski ég labbi laugaveginn og athugi hvort ég sjái þetta skýrt.

Í dag er fallegt veður

Það er mjög gott að hafa náttúruna, þá sér maður að lífið heldur áfram, það var tildæmis rosa fjara í morgun og sjórinn sólskinsblár, ég heyrði að Esjan hefði tekið sig ljómandi vel út.

14 október 2008

Elisabet i dag

Eg er ad elska sjalfa mig nuna, a eftir aetla eg ad setja mig i bad og drekka ur kristalsglasinu minu, nota krem og sapur og ilmvotn, halda afram med litla aevintyrid mitt, kaupa mjolk og braud og kannski spaela egg, eg sit her i myndlistarskolanum, netid mitt er farid, sjonvarpid er farid, stundum fae eg sma heimsendatilfinningu en thad eru bara gedhvorfin, og stundum kemur hin tilfinningin, astin, kaerleikurinn, vid erum oll ormagna, nei, eg er ormagna, eg er buin ad hugsa svo mikid um thetta astand, thetta orettlaeti, ad eg er ad hugsa um ad hafa sma rettlaeti handa sjalfri mer, dast ad ollu heima hja mer, hugsa til barnabarnanna, knus, knus, knus, og minn haefileiki er tildaemis ad sja hvad ma betur fara i minu fari, kaerleikskruttid Elisabet.

Eg er ad breyta um adferdir tilad fa ekki alltaf somu utkomu.

Lifi ljosid.

07 október 2008

Mótmæli

"Það er engin kreppa, þetta er bara nokkrir ríkir karlar sem hafa tapað peningunum sínum og vilja láta okkur blæða fyrir það.

Þetta er fréttaskýring Garps sem hefur verið ráðinn aðal hagfræðingur Seðlabankans í Heimsveldi Ellu Stínu.

Og passið ykkar á tilfinningakláminu í Geir Haarde og dramafíkninni í honum og hlustið ekki á það þegar hann kennir öðrum um.

Hlustið ekki á vælið í Björgvini viðskiptaráðherra þegar hann segist hafa vakað heilu næturnar. Ekki gefa honum tissjú, hann getur snýtt sér í ermina.

Ég mótmæli ríkisstjórninni, bankastjórunum, burtu með þetta lið.

24 september 2008

Kveikti ljósið

Það var svo brjálað veður í nótt að ég vaknaði og kveikti ljósið.

*

21 september 2008

Bagdad Café

Galdrastaður í eyðimörkinni... úlfaldar, kaffi, friður, gleði, og ég fékk kveðju frá staðnum og GJÖF. Mig dreymir oft þennan stað að ég sitji þar í allsherjarfriði, og einhver leikur á bensíndúnk með einum streng... eftir að ég er farin.
Ég er hamingjusamasta hamingju hamingjublómið á jörðinni og lífið er svo dásamlega dásamlegt.

Snjóhúsið

Mig dreymdi vinkonu mína, hún bjó í snjóhúsi, ég gerði vart við mig og þá mokaði hún frá kjallaraglugganum einsog ekkert væri, einsog hún væri grunlaus um að hún byggi í snjóhúsi. Heilsaði mér hin kátasta. Mér fannst einsog þetta væri í Flatey.

Draumur

Hann hélt mér svo fast. Svo breyttist rúmið í skíðabrekku, það sporðreistist, við brunuðum niður og lágum þónokkra stund í skaflinum.

20 september 2008

Fyrsta sagan um Ró

Ég trúi á gyðju sem heitir Ró. Ró er úti í fjósi að mjólka kýrnar.

'

Heiðarleikinn

Í fimmtán ár hef ég verið í heiðarleikaprógrammi, sem gengur útá að maður geti ekki verið edrú nema verið heiðarlegur. Svo heyrði ég í lögfræðingi í vikunni og hún sagði að heiðarleikinn væri jafn afstæður og allt annað í heiminum. "Það sem er heiðarlegt að morgni þarf ekki að heiðarlegt að kvöldi...."

18 september 2008

Yndislegur dagur

Fullur af engiferi, hvítlauk, silungi, ölduróti, sundtökum, rigningu, dormi, og haustsól, amma hefði orðið 98 ára, amma Elísabet sem elskaði mig og var þakið á húsinu mínu, fór í lummubakstur til Vilborgar og hún er svo mikið sólskinbarn í heiði, ég fór líka á fund og fékk að vita að ef maður er mjög eigingjarn kemst guð ekki að, fer allan hringinn og hvergi smuga, svo kom Frank Zappa með Womens Liberation í útvarpinu, ég verð að downloud-a þessu, í nótt keyrði ég Garp, Ingunni og Emblu útá völl, hún var svo lítil hún Embla að verndartilfinningin verður risastór, og á morgun ætlum við Kristín í sund, hvílíkur lukkunnar pamfíll að tengdadóttir mín vilji koma með mér í sund, og ég á nýjan sundbol einsog þið munið krakkar mínir, fjólubleik blóm á bolnum,.....!!!!

Já, og svo er ég að mála rauða hesta, ég er búin að mála þrjá rauða hesta.

15 september 2008

Ástin hennar Ellu Stínu

Ég veit aldrei hvar ég á að setja ástina mína, það er hvergi pláss fyrir hana og ég er orðin mjög syfjuð en get ekki farið að sofa fyrren ég hef fundið pláss fyrir hana.

Ella Stína hugsar heim

Ella Stína hefur orðið: Já, ég á pabba og hann er frábær, hann hverfur stundum og ratar ekki heim, hann er mjög lengi að finna leiðina heim og þarf að lesa á öll skiltin, stundum er hann marga daga að finna leiðina heim og ég get orðið mjög hrædd um hann. Ég er stundum að hugsa um að búa til kort handa honum svo hann rati heim, kannski bara kort þarsem stendur stórum stöfum HEIM.

Svo er eitt annað byrjað að gerast, að hann hverfur hérna heima, hann hverfur ekkert inní skáp eða undir rúm eða neitt, heldur situr kannski í stól og er horfinn. Þá væri gott að hafa þetta kort sem ég er alltaf að hugsa um.

14 september 2008

Rauði kjóllinn

Ekki fara í rauða kjólnum.

Ekki?

Þú ert of sýnileg.

Of sýnileg?

Stundum mætti halda þú værir heyrnarlaus.


Mismunandi viðhorf

Ef kona sér sætan mann hugsar hún: Það væri gaman að kynnast honum.

En ef kona með ástarogkynlífsfíkn sér sætan mann hugsar hún: Ég ætla að giftast honum.

So take care.

Þetta á ekki við þegar um ást við fyrstu sýn er að ræða en þá verður að spyrja efnafræðingana ef þeir eru uppteknir ofaní jörðinni í Sviss að svissa öreindum. Annars eiga þeir að vita það.

13 september 2008

Miklihvellur

Ef ekki tekst að sanna að upphaf heimsins hafi orðið í Miklahvelli inní hinni miklu sáðrás í Sviss, þýðir það þá að að Miklihvellur sé ekki til.

Ef ég get ekki sannað ást mína er hún þá ekki til.

Þarf ég alltaf að vera sanna alla hluti, má ég ekki aðeins slappa af, theinkjú, já takk, gefmér appelsín og niður með axlirnar.

Og ef ég bara staldra smá við, takk já, þá heyri ég kannski drunur getnaðarins og fatta að stjörnurnar, alheimurinn, eru bara sáðfrumur á leið sinni að hinu heilaga eggi.

Ha ha ha. Hvar eru Higgs and Hawkins núna!!!!!!! Ha ha hí hí hí.

12 september 2008

Takk samt

Hamingjan liggur bundin við stein. Ragnhildur kemur.

Ragnhildur. Afhverju ertu bundin.

Hamingjan. Þú bast mig.

Ragnhildur. Ég?

Hamingjan. Svo ég gerði ekki allt vitlaust.

Ragnhildur. Sko, hamingjan er svona upphafið augnablik, hamingjuvottur sem streymir um mann, svona gullið ljós sem tindrar í eilífðinni.

Hamingjan. Ertu þá ekki til í að tjútta!?

Ragnhildur. Tjútta?

Hamingjan. Ég skal kenna þér hamingjutjúttið.

Ragnhildur. Veistu.... ég held ekki, takk samt.

Hamingjan

Ég rakst á hamingjuna í dag, hún lá kefluð og bundin útí horni, nei í hún var þörmunum, föst þar. Og hvað var hún að gera þar, fela sig?

11 september 2008

ELLA STÍNA ER BARNASTJARNA

„Þegar maður er barnastjarna er manni sagt hvert maður á að fara og hvar maður eigi að standa, maður er sífellt að leika fyrir fólk. Þetta gerir að verkum að manni finnst að maður þurfi sífellt að gera öðrum til hæfis,“ segir Kirsten, sem m.a. er fræg fyrir leik sinn í myndunum um Kóngurlóarmanninn.

Þetta er haft eftir Kirsten Dunst í mogganum í morgun. Og strax og Ella Stína las þetta fattaði hún að hún hafði verið BARNASTJARNA, nákvæmlega það sem hana dreymdi alltaf um, og fattaði bara ekki að hún hafði verið það fyrren hún las þessi ummæli.

En það var alltaf verið að segja Ellu Stínu hvert hún ætti að fara, hvar hún ætti að standa og hún átti alltaf að vera leika fyrir fólk. Og nú er hún þunglynd útaf þessu og viðurkenningasjúk. Gjörsamlega viðurkenningasjúk og kemst ekki útí Flatey eða til Heklu því einhver gæti komið með viðurkenningu til hennar á meðan, svo Ella Stína verður að vera heima tilað taka á móti viðurkenningum.

En Ella Stína er að hugsa um að brjóta upp mynstrið og hætta þessu barnastjörnuþunglyndi og athuga hvort þá kannski kemur viðurkenning!!!!

Hvað get ég gert í búrinu?

1. Verið nakin innanum fulltaf risaþorskum.
2. Sagt söguna mína.
3. Sýnt mjaðmahreyfingar.
4. Borðað smákökur.
5. Hugsað.
6. Reynt að komast út en kemst ekki út nema búa til auka-persónuleika.
7. Beðið um að láta fleygja einhverju til mín, einsog poppi, banönum, bíómiðum.
8. Reynt að fá pláss á togara.
9. Grátið.
10. Lesið í Bíblíunni og fengið hláturskast yfir Sköpunarsögunni einsog ég fékk þegar ég var átta ára um borð í Gullfossi og las: Guð sagði, verði ljós og það varð ljós. Og ég fór að hlæja því þetta var svo einfalt og ég hélt að trú væri svo alvarleg. Ha ha ha. Ha ha ha.
11. Látið Villa Valla klippa mig.
12. Talið upp í hvaða húsum á Ísafirði ég hef sofið hjá í.

'

Mjaðmadansinn

Ég dansaði mjaðmadans í gær í dansplássinu mínu, lét mjaðmirnar detta út til beggja hliða og sneri höfðinu á alla kantana, ekkert smá brak, já, þetta var í lagi og í lagi þótt heimurinn hryndi svolítið. Ég samdi líka lag á píanóið, ég er guðs undur hér á jörð.

mosalauta

Lífið er dásamlegt. Ég er dásamleg. Það er sól úti. Ég er með tíu fingur. Hafið fellur að. Blátt. Blómið í glugganum er að blómstra þremur knúppum, brúðarvendir, og þrír á leiðinni, ó þau eru svo falleg. Það er mikið að gerast í eyrunum á mér. Ég er að þvo í þvottavélinni og viðra þrjá arabíska dúka. Ég vaknaði klukkan níu. Þá var morgun. Svo kom þáttur í útvarpinu með gömlum dægurlögum, við sátum tvö, við sátum tvö, og lögðumst svo í mosalautu.

10 september 2008

Endursköpun...

Ég hef nú ákveðið að endurskapa það ástand sem skapaðist þegar ég varð ástarfíkill, en ég nota ást við einmanaleika. Þetta verður einhverstaðar neðanjarðar. Kannski sést hausinn á mér uppúr.

Öreindir Ellu Stínu

Ég er að gera smátilraun hérna hjá mér í dag og reyna að láta tvær öreindir rekast saman en þær fara alltaf hvor hjá annarri svo ég hallast að því að ALHEIMURINN HAFI ALLTAF VERIÐ TIL.

Og kannski rúmast upphaf og heimsendir innan hans. En mig langar aðallega tilað hringja í einhvern.

Hulda Villimey

"Það er alltaf verið að sækjast eftir villtri náttúru og svo má maður ekkert vera neitt villtur..."

Svo sagði Hulda Vilhjálmsdóttir vinkona mín.

ALLT EINSOG Í DISNEYLANDI. DISNEYÓBYGGÐIR. DISNEYFOSSINN FELLUR.

09 september 2008

Mjaðmasúla II

Líf mitt snýst um að halda uppi heiminum.
Um leið og ég hreyfi mjaðmirnar
hrynur heimurinn.
Um leið og ég hreyfi mjaðmirnar
og ætla að njóta
og vera hamingjusöm
hrynur heimurinn,
því það þarf að passa hann.

Ég er súla.

08 september 2008

Húsið er galdur

"Þú og húsið er hreinasti galdur sem gott er að vera inní"... kommenteraði mín stórvinkona Stína Bjarna til margra ára og það ég varð að birta það, því þótt ég sé hrútur með allan þann eld sem ég mögulega get valdið, leiðtogi, (kona sagði það, jógakennari, svo ég er ekki að monta sig en það má monta sig og bráðum fer ég í rauðu náttfötin mín!) en elska að gera eitthvað fyrst og á undan öðrum þótt ég þurfi ekki að vera fyrst á fætur, en hrútur, hrútur, en þá er ég RÍSANDI KRABBI, það þýðir sterkt móðureðli, elska heimilið, - mér finnst svo magnað ef húsið sem ég er alltaf að pæla í að flytja úr vegna umferðarhávaða á Hringbrautinni sé galdur. Það verður kannski tilþess ég láti setja þrefalt gler og fái mér þrefaldan kærasta. Ég ætti kannski að selja aðgang að húsinu, meðan ég dansa í eldhúsinu, fólk geti fengið að horfa á mig liggja í bláa sófanum, og liggja í Einarsben sófanum, og krúttast um og helst ekki fara útúr húsinu. Ó, ég held það sé fullt tungl.

Ég talaði við Indíönu, hún var hin sprækasta. Og svo kom hluti af klaninu í heimsókn, Kristín hans Jökuls, Ingunn og Garpur og Embla flotaforingi. Það var svo YNDISLEGT að fá þau í heimsókn. Og lærið var göldrótt. Og leikur á morgun. Áfram KV. Áfram Garpur.

Og hér kemur ein Embluvísa:

Hallar Embla undir flatt
alveg er það satt,
þá er sæta soldið frökk
situr amman kannski skökk.

'

Embla hallar undir flatt
alveg er það hreinasatt
hún er að horfa á ömmu sína
hallast kannski amman fína?

'

8.september

Merkisdagur í mínu lífi, þá fór ég til Írlands... í fyrra.

Og svo á Indíana afmæli í dag, hún er 17 ára, hún er fyrsta manneskjan á jörðinni sem kallaði mig ömmu. Lucky me. Og hún auðvitað ha ha ha. Indíana er blíðlynt hörkutól, fegurðardís og skemmtilegheitaskratti. Hefur kennt mér margt í lífinu. Til hamingju með daginn Indíana knús.

Og Kristinn á Dröngum hefði orðið 96 ára, vinur minn og fv. tengdafaðir. Eitt merkilegt tímabil í lífi mínu þegar við bjuggum tvö saman á Seljanesi, ég veiddi ísbirni og hann smíðaði bát.

Svo eru Kristín Arna, Ingunn, Garpur og Embla Karen að koma í læri í kvöld, mikill hátíðisdagur.

Mér hefur alltaf þótt vænt um 8.september.

07 september 2008

Englaraddir

Ég heyrði loks í Jóhönnu og Mánadís, ömmustelpunum á Spáni, Alexía var að gista, þær voru svo skemmtilegar og frábærar, og sætar, svo horfði ég á danskeppni, kannski get ég dansað í búrinu á Ísafirði, Lísbet vinkona mín á Ísafirði ætlar að setja mig inní búr, loksins ljónabúr handa Elísabetu ljónsmakka,

Lísbet! Það verður að vera fyrir 1. nóvember. Eða eftir áramót. Jamm.

Ég get dansað og borðað smákökur í búrinu.

Katrín Dagmar stórvinkona mín er að fara til Austurríkis, við fórum saman í sund sl. fimmtudag og ég varð vitni hvernig hún barðist hetjulega við geitunga meðan hún lá í öllum pottum laugarinnar, ég kalla það Geitungadansinn í laugunum, en Katrín er dansari og er að fara að heiman!!! Til Austurríkis, til Mozart. En þau eru bæði snillingar. Hennar er óskað góðrar ferðar og vonandi kommenterar hún frá Austurríki á Heimsveldið.

Kristín Bjarnadóttir fór líka heim og ég saknaði hennar, engin Kristín í húsinu þegar ég kom heim, við vorum næstum farnar að rífast um tangó, ég þóttist vita svo mikið um tangó og vita allt betur en hún, en við fengum okkur hafragraut og fórum í bíó og það var svo yndislegt að hafa hana, ég er að vona hún sé hér enn en hún er byrjuð í spænskunámi svo næst þarf ég sennilega að fara til Argentínu, Ella Stína Argentína, tilað hitta hana og krækja fyrir horn.

Ég er komin á bíl núna, en það hringir enginn sætur í mig, eru karlmenn svona hræddir við mig, þora þeir ekki að hringja og bjóða mér í bíó, ég ákvað nefnilega að hætta að hringja í þá, ég er búin að fá mér stiga og ætla að klifra uppí hann og bíða eftir að þeir hringi.

Svo drakk ég marga djúsa í dag.

Kristín hans Jökuls er komin til Íslands og þá lifnar Ísland heldur betur við, hún er alltaf að verða sætari og fallegri, og kannski förum við í sund, ég var að kaupa mér nýjan sundbol sem heitir TIKINI, ekki bikini, heldur tikini, og það var svo yndislega meiriháttar að fá hana til landsins, hún er að gera rannsóknir, ég held hún sé eina manneskjan í fjölskyldunni sem getur gert rannsóknir af einhverju viti, hún tildæmis er núna að rannsaka hvernig Embla Karen fer að því að skríða, ég hafði allsekki gert mér grein fyrir því að það er rannsóknarefni, en Kristín segir þetta sé mjög tæknilega erfitt!!!!!!!!!!!!!!!!

Það er líka stundum tæknilega erfitt að vera Elísabet.... say no more. Snæbjörn sagði að ég væri stofnun. Kristín segir að ég sé blóm. Ég ætla segja Snæbirni það.

Hey og svo var bankað á föstudagskvöldið. Viti menn og Ingunn tengdadóttir mín stóð fyrir utan!!! Og þær mæðgur kíktu í bláa sófann og Embla Karen hallaði undir flatt. ´

Ég gerði mér strax grein fyrir hvað það er tæknilega erfitt!!!!

05 september 2008

Hlátur Emblu Karenar

Hún Embla Karen hló og skríkti, já hún eiginlega skellihló þegar hún sá ömmu sína Elísabetu sem loksins kom í heimsókn, og það var einmitt þessi hlátur sem fylgdi mér inní draumalandið um kvöldið. Ha ha ha.

03 september 2008

Hjartnæmt blogg

Hversu oft hef ég gengið heim stíginn þessi 19 ár sem við höfum búið hér, og það er september, hauströkkrið allsráðandi og berjalykt af trjánum, sumarið búið að vera svo bjart og yndislegt og þá eitt kvöldið verður manni gengið heim stíginn og sér Karlsvagninn liggja makindalega á þakinu, ég heilsaði honum sérstaklega um leið og ég uppgötvaði að maðurinn sem byggði húsið okkar, hann hét Páll og byggði það árið 1926, hann hefur byggt það tilað halda uppi Karlsvagninum.

02 september 2008

Bernskuhetjur mínar

Lína Langsokkur
Batman
Prins Valiant
Caroline Kennedy
Litli Prinsinn
Pollýanna
Zorro
Nancy
Börnin í Enid Blyton bókunum
Skytturnar þrjár
Neil Armstrong
Sæmundur fróði
Superman
Mamma

'

01 september 2008

Ragnhildur, sjúkdómurinn og guð

Ragnhildur og Sjúkdómurinn sitja við eikarborð um kvöldmatarleytið. Þung gluggatjöld og teppi á gólfum. Sparistellið og kristalsglös á borðum.

Sjúkdómurinn. Það er ósköp að sjá þig.

Ragnhildur. Ég er veik.

Sjúkdómurinn. Um leið og þú hættir að kalla mig sjúkdóm þá batnar þér.

Ragnhildur. Jæja, hver ertu þá?

Sjúkdómurinn. Besti vinur þinn.

Ragnhildur. Kannski er sjúkdómurinn besti vinur minn.

Sjúkdómurinn. Þú ruglar öllu saman. Þú hugsar ekki skýrt.

Ragnhildur. Hvernig er kjötið?

Sjúkdómurinn. Einsog venjulega, of steikt.

ÞAÐ ER BANKAÐ.

Ragnhildur. Hvað er þetta?

Sjúkdómurinn. Róleg!

Ragnhildur. Þetta er guð.

Sjúkdómurinn. Guð!?

Ragnhildur. Guð bankar alltaf svona.

Sjúkdómurinn. Þú opnar ekki.

Ragnhildur. Ég verð að opna fyrir guði.

Sjúkdómurinn. Þá er ég farinn.

Ragnhildur. Farinn! Hvert?

Sjúkdómurinn. Í innyflin á þér.

Ragnhildur. Láttu ekki svona.

BANKAÐ AFTUR.

Ragnhildur. Ég verð að opna.

Sjúkdómurinn. Guð á eftir að rústa öllu hérna.

Ragnhildur. Guð!

Sjúkdómurinn. Já.

Ragnhildur. Ég þekki guð. Hann á ekki eftir að gefast upp, hann bankar þangað til er opnað fyrir honum.

Sjúkdómurinn. Þú opnar ekki.

Ragnhildur. Hann hættir ekki.

Sjúkdómurinn. Það er hluti af lífinu, að halda guði utan við.

'

Septembersól

Septembersólin allsráðandi og minnir mig á þegar Garpur og Jökull byrjuðu í skólanum. Og ég sjálf auðvitað. Það var svo mikill hávaði í svefnherberginu mínu í gærkvöldi, einsog ég svæfi útá götu. Eitthvað tætt, formgerðin í heilanum eitthvað riðlast og englar að fljúga inn með ný skilaboð.

26 ágúst 2008

Veggurinn

Sumir menn eru veggir, þegar maður hefur orðið ástfangin af vegg nokkrum sinnum fer maður að þekkja þessa veggi og samtölin við þá. Gjörið svo vel. Og kommenterið svo.

VEGGURINN
Veggurinn.Þú ert æðisleg.
Ég. Takk. Finnst þér það.
Veggurinn. Ómótstæðileg.
Ég. Takk.
Veggurinn. Þegir.
Ég. Hvað segirðu annars.
Veggurinn. Þegir.
Ég. Ertu þarna?
Veggurinn. Þegir.
Ég. Sagði ég eitthvað vitlaust.
Veggurinn. Þegir.
Ég. Fyrirgefðu.
Veggurinn. Þegir.
Ég. Mér finnst þú æðislegur.
Veggurinn. Þegir.
Ég. Frábær. Gaman að tala við þig.
Veggurinn. Þegir.
Ég. Jæja, ég er þá farin.
Veggurinn. Bíddu aðeins.
Ég. Þegi.
Veggurinn. Ertu þarna.
Ég. Þegi.
Veggurinn. Halló.
Ég. Oh, þú ert svo sætur.
Veggurinn. Þú svaraðir ekki.
Ég. Ha.
Veggurinn. Þú svaraðir ekki þegar ég talaði við þig.

Perlusúk

Minni á arabíska markaðinn hennar mömmu og félaga í Perlunni nk. laugardag. Það verður fjör og framandi heimur. Til hamingju mamma. Allt gert tilað styrkja skólabörn í Jemen.

Geitungadráp

Ég drap þrjá geitunga í dag, einn með uppþvottabursta, annan með auglýsingabæklingi og þann þriðja með steingrímu sem sonur minn bjó til í barnaskóla.

Stærðfræðijafna

Alltaf þegar ég elska verð ég svo sorgmædd. Allt verður svo trist, ég heyri það á röddinni.

25 ágúst 2008

ég er sæt

Ég fékk sjúkrabíl í morgun því það var alveg að líða yfir mig, svo komu sjúkramennirnir og tóku púlsinn svo núna hef ég engan púls og líka blóðþrýstinginn og sögðu mér að elda hafragraut á morgnana, og sögðu mér að hringja aftur ef það færi aftur að líða yfir mig, en það hefur bara tvisvar liðið yfir mig og eiginlega bara einusinni, það var í frystihúsi í hnífsdal og svo næstum þegar fyrsta leikritið var sýnt og nú um helgina lék ég fyrsta hlutverkið mitt eftir listaháskólann, ég lék einmana konu, eða ég lék hana ekki, ég var hún, ég fattaði ekki hvað ég var einmana fyrren ég fór til írlands og svo núna um helgina þegar ég var að spila ein á borði í bingó og alltaf að reyna kontakta með því að trufla gáfulega.

einmanaleikinn var svo nístandi og mig langaði að hringja í einhvern... einhvern ókunnugan, hvernig stendur á því, kannski gamla fantasían að einhver ókunnugur myndi bjarga mér, já já já, svo kannski var alveg að líða yfir mig af einmanaleika, og ég þurfti félagsskap tveggja ókunnugra sjúkrarflutningsmanna sem hljómuðu mjög kunnuglega, einsog mamma, þegar þeir sögðu mér að elda hafragraut.

nú nú, ég er búin að kaupa haframjöl. en ég veit ekki hvort ég hef tíma tilað elda hann handa mér á morgun, hef ég tíma fyrir sjálfa mig. eða bara þráhyggjurnar mínar sem éta mig upp. ég er sæt.

Dularfull skilaboð

Það kom hérna sjúkrabíll um hádegið og sagði mér að fá mér hafragraut í morgunmat.

´

21 ágúst 2008

Tilfinningabingó

Þú getur unnið fullt hús tilfinninga á Tilfinningabingóinu á Menningarnótt, fer fram á kaffistofunni á Kjarvalsstöðum kl. 18, laugardaginn 23.ágúst.

Gleði, leynisorg, söknuður, angurværð, pirringur...

eru smá pirraður, heví pirraður, ekkert pirraður.

Þér gefst kostur á að sýna tilfinningarnar sem þú vinnur...

Þröstur Leó, Steinunn og Elísabet tilfinningastjórar sýna tilfinningabombur og tilfinningafötlun og svo mætir kannski ein Dúlla sem finnur ægilega mikið til.

16 ágúst 2008

SÚK - arabískur markaður

"SÚK“

Glæsimarkaður í Perlunni, laugardaginn 30. ágúst 2008

Arabísk stemmning, vandaðar vörur, flott uppboð og ævintýralegar uppákomur!
Ágóðinn rennur óskiptur til uppbyggingar á skóla fyrir börn og konur í Jemen

Nú getur þú lagt góðu málefni lið!
Ef þú átt vandaðan fatnað eða muni sem hægt er að selja á markaðnum
getur þú með einföldum hætti látið gott af þér leiða.
Tekið er á móti fatnaði og munum að Síðumúla 15*

Við óskum eftir:
Vönduðum og vel með förnum nýjum og notuðum fatnaði; kjólum, skóm, pilsum, buxum, peysum, jökkum, veskjum, slæðum, sjölum, höttum, hönskum, jakkafötum, skyrtum, bindum, ermahnöppum, frökkum, beltum, töskum, barnafötum, leikföngum, hálsmenum, hringum, eyrnalokkum, armböndum, fallegum bókum, púðum, teppum, mottum, vösum, lömpum, myndum og málverkum.

Upphaf ævintýrisins
Árið 2005 fékk Jóhanna Kristjónsdóttir verðlaun fyrir bók sína Arabíukonur og fyrir verðlaunaféð stofnaði Jóhanna sjóð til styrktar jemenskum stúlkum. Stofnfjárhæðin var 350 þúsund krónur. Nefndi hún sjóðinn Fatimusjóðinn í höfuðið á stúlkunni Fatimu í Þúla sem þá var 14 ára gömul og átti sér þá ósk heitasta að komast í háskóla. Jemen er fátækasta ríki arabaheimsins og staða fólks, einkum kvenna, bágborin. Talið er að um 60 prósent kvenna séu ólæsar.

Börn og konur fá tækifæri
Þökk sé Jóhönnu og samstarfi hennar við Nouriu Nagi, sem rekur miðstöð fyrir börn í Sanaa, fá 250 börn tækifæri til að ganga í skóla og njóta annarrar aðstoðar. Auk þess fá 24 konur að sækja námskeið. Börnin og konurnar eiga það sameiginlegt að búa við afar bág kjör og erfiðar aðstæður.
Í miðstöðinni komast börnin í skóla, fá skólabúning, skólavörur, reglulega læknisskoðun, leiðbeiningar og aðstoð við heimanám þrisvar í viku, föt fyrir hátíðir og þegar mjög illa stendur á hjá fjölskyldum eru þær styrktar með matargjöfum. Auk þess fá börnin kennslu í skyndihjálp, íþróttum, handmennt, tónlist, ljósmyndun og fleiru sem almennt er ekki í boði í jemenskum skólum.

Konurnar læra að sauma, fá lestrarkennslu, tölvukennslu og leiðbeiningar um hreinlæti og ungbarnavernd. Að auki hefur þeim boðist að taka þátt í teiknitímum og leikrænni tjáningu. Konurnar fá leiðbeiningar um hvernig þær geta stofnað lítil fyrirtæki og hafa sumar konurnar útbúið ýmsa gripi sem þær selja. Það kostar um 270 dollara á ári að styrkja hvern einstakling í miðstöðinni. Mörg börn og konur bíða þess að komast að.

Frábær árangur
Hanak Al Matari sem stundað hefur nám í miðstöðinni verður fyrsti nemandinn til að hefja háskólanám í haust. Stúlkan mun leggja stund á hagfræði og stjórnmálafræði. Þetta er stórkostlegur árangur. Hanak er úr stórri fjölskyldu og foreldrar hennar eru bláfátækir. Faðirinn er húsvörður í verksmiðju í Hadda og fær lítið húsnæði fyrir fjölskylduna í stað launa. Móðirin, sem vinnur við ræstingar, hefur sótt fræðslu í miðstöðinni og lætur sig nú dreyma um að setja á stofn litla saumastofu.

Framtíðarhúsnæði
Markmiðið er að miðstöðin geti sinnt 400 börnum og 40 konum en til þess að það sé hægt þarf stærra húsnæði. Áætlaður kostnaður er ríflega 30 milljónir fyrir húsnæði, tæki og búnað. Í húsnæðinu verður einnig aðstaða fyrir sjálfboðaliða sem munu starfa þar tímabundið. Nýja húsnæðið verður mikill akkur fyrir alla starfsemina.
Ef þú ásamt góðum hópi fólks ert til í að leggja þitt af mörkum mun ætlunarverkið takast!
* Opnunartími að Síðumúla 15 (gengið inn baka til)
Fimmtudagur 14. ágúst 11-13
Laugardagur 16. ágúst kl. 10-16
Þriðjudagur 19. ágúst kl. 16-20
Miðvikudagur 20. ágúst kl. 16-20
Fimmtudagur 21. ágúst kl 11-13
Laugardagur 23. ágúst kl. 10-13
Þriðjudagur 26. ágúst kl. 16-20
Miðvikudagur 27. ágúst kl. 16-20
Fimmtudagur 28. ágúst kl. 11-13

Allar nánari upplýsingar veitir Sigþrúður Ármann í síma 699-6613

SÚKK Í PERLUNNI 3o.ÁGÚST....

Og í Arabalöndunum heitir þetta: Eigum við að skella okkur í súkkið, skellum okkur í súkkið!!!

14 ágúst 2008

Kolbrá kom í heimsókn

Litla systir mín ætlaði rétt að koma við og breytti lífi mínu, hún bauð mér í bíó á Mama Mia og ég dýrka Brosnan og er búin að vera leita að ABBA-diskinum sem Jökull gaf mér einhverntíma og ég botnaði ekkert í því, ég skil það núna, ABBA BROSNAN, þvílíkt listaverk að sjá þennan mann syngja, já svo fyllti Kolbrá ísskápinn af þistilhjörtum, bauð uppá kínverskan mat, BLÁBER MEÐ RJÓMA, það er eitthvað andoxunarefni í þeim fyrir húðina, já, ég veit greinilega ekkert um lífið, ég bara andoxaði í mig þessum bláberjum, og svo horfðum við Kolbrá (Magdalena var að gista annarstaðar) á BROKEBACK-MOUNTAIN......!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Þvílík snilld, ég er bara búin að vera Brokeback Ella Stína. Allt um ástina.

Og hann þarna Heath Ledger og hinn. Kolbrá fannst hann sætari, mér fannst Ledger. En truflaði mig ekkert þannig samt, BARA SVO GÓÐ MYND, maður fær trú á lífið og langar að skapa.

Og takk fyrir að koma í heimsókn Kolbrá, þú ert yndisleg.

Ella Stína Þistilhjarta

Ella Stína hefur hérmeð tekið upp ættarnafnið Þistilhjarta, hún Kolbrá kom í heimsókn og fyllti ísskápinn og þám. krukku með þistilhjörtum. Ella Stína hafði aldrei vitað þetta væri til, jú heyrt nafnið en aldrei smakkað, hún smakkaði, hún fékk í leiðslu, þetta er lífið, hvíslaði hún og skóflaði í sig þistilhjörtunum og rétt gat skrúfað lokið aftur á krukkuna og fengið sér meira seinna, hún sagði bara þistilhjarta, þistilhjarta, þistilhjarta.

13 ágúst 2008

guð í hjartanu

ég fann guð í dag,
í hjartanu,
ég fann hann með því að afhenda honum allar mínar áhyggjur, hugsanir, ástsýki, fyrirframkvíða, stress og svo framvegis.
búið að taka mörg ár!
bara svo ég gleymi þessu ekki.

'

Ekki neitt

Ella Stína prófaði að gera ekki neitt. Hún hafði aldrei lent í þyngri þraut. Það endaði með því að hún settist við píanóið.

Leiðin að hjartanu

Það er bara að treysta guði...

'

08 ágúst 2008

Opinberun...trúlofun!!!

Svo fallegt, rómantískt og hátíðlegt...

Garpur og Ingunn hafa opinberað trúlofun sína. Það gerðu þau eitt júlíkvöld í Aðalvík við ysta haf þarsem hvönnin og bláberjalyngið hefja sig til himins, sporin mjúk í sandinum, silungar vaka í ljóðrænni þrá og friðurinn ríkir, og hamingjan er ekki gestur... heldur gestgjafinn sjálfur, - þar settu þau upp hringana.

TIL HAMINGJU INGUNN OG GARPUR.

ást, gleði og allur sjóndeildarhringurinn.

06 ágúst 2008

Hamingjusólin

Embla Karen Garps og Ingunnardóttir er fimm mánaða, hún er búin að fara til Ameríku og til Aðalvíkur, þar veiddi hún nokkra ísbirni, tíndi tonn af bláberjum, dáleiddi silunga og FÓR Í FJALLGÖNGU. Þar sem ég er búin að smitast af Garpi er ég orðinn hagyrðingur og hér kemur vísa um fjallgönguna hennar Emblu, hún fór uppá Darrann!!!


Embla Karen ofurhetja
ofar og ofar vildi hún setja
markið sæta og fjallið sigra
sjóði fann hún voða digra.


'


ps. Það tók mig sólarhring að berja þessu saman, svipað og vísu sem ég gerði fyrir Kristínu hans Jökuls þegar hún kom úr Evrópureisunni. Já, sólarhring. Ég var soldið ánægð með þá vísu líka, er bara ekki með hana í höfðinu. En jú, hér kemur hún.


Kristín hún er komin heim,
henni var tekið höndum tveim
hún fór geðveikt útí geim,
gaman var það evró-sveim.


'

04 ágúst 2008

Grumpy old Elisabet

Ég hef allt á hornum mér, þá er nú skárra að poppa uppí smá maníu eða þunglyndi helduren vera í skapvonskukasti, ég tildæmis vaknaði og hugsaði um að hætta að blogga af því svo fáir kommenta!!! Og svo er netið bilað. Og síminn lokaður, og fjármálin í steik, og ég er að hugsa um að fara vinna á barnaheimili, aumingja börnin, mig langar að fæla alla frá mér svo allir hætti að tala við mig, og þá get ég átt verulega bágt og einangrað mig. Einangrun er óskastaða geðsjúklingsins eða alkhóhólistans, þá er lífið einsog það á að vera, en ég hef ekki kynnst svona skapvonsku áður, ég þarf sennilega að fara á fleiri fundi, ég hef nefnilega alltaf verið í góðu skapi síðan ég varð edrú, Linda hélt um daginn að þetta væri breytingaaldurinn, eitthvað sem ég vil ekki horfast í augu við, en ég ætti kannski að bjóða þennan breytingaaldur velkominn, og ég er nú reyndar aðeins að hugsa vel um sjálfa mig, og svo þori ég ekki á sviðið en mig langar en þori því ekki, og svo hugsa ég, það hringir enginn í mig, en hringir þú í einhvern, mig langar að vera á sviðinu og bara þegja. Og mig vantar strigaskó og gleraugu, en ég burstaði á mér fótleggina um daginn, burtu allar dauðu húðfrumurnar, og setti olíu á fótleggina, og svo er ekki málið að vera eitthvað rosalega unglegur og já svo hringdu Katrín og Elísabet í mig og komu í heimsókn, og buðu mér í heimsókn en ég hef bara hringt í bankann og hann var lokaður, og svo held ég sé með egglos, og svo hringdi kona í gær tilað segja mér að þessi plant-mál hjá henni hefðu ekki virkað, og hún hefði ekki efni á að fá sér plant útum allt, og hef ég efni á því, og hún sagðist hafa talað við starfsfólk á elliheimili sem sagði þetta væri að plaga gamla fólkið en ég er einmitt á leið á elliheimili, og ég fer aldrei í sund af því þá þarf ég alltaf að tala við alla í heita pottinum, og þetta er allt svo grumpy old Elísabet og aumingja Elísabet, og ég fatta þegar ég skrifa þetta ég hef verið lokuð inni í einhverri hugmynd síðan í sumar, og ekki sagt neinum og ekki talað við geðlækninn minn og ekki farið til læknis af því hvað maginn á mér er þaninn og skrítinn, og ég nota ekki innleggin mín, og það er einsog ég hati sjálfi mig en hatur er einmitt óskastaða fyrir geðsjúklinjga og alkóhólista en þetta er samt búið að vera næs sumar, en ég held að ég sé einhver drottning sem allir eiga að snúast í kringum, ...

ég er samt byrjuð á nýju bókinni minni, búin að sækja um styrk tilað skrifa hana, búin að tala við útgefanda sem vill ekki gefa hana út, búin að viðra allt og taka þvílíkt til, skrifaði synopsis, og svo nenni ég ekki alltaf að vera hetja, en amma var svona, maður átti alltaf að hringja í hana og ég er að verða eins, and I am only 50.

Svo er ég búin að leiða fundi og sponsa for first time in Alanon, fókusera á reiðina, já einmitt, the grumpy old look. The grumpy old hook.

01 ágúst 2008

Kreppan (fréttaskýring)

Núna erum við búin að drekka upp Jöklu og erum þessvegna soldið timbruð og sljó og blönk, en um þetta má ekki tala því næst ætlum við að drekka upp Þjórsá og rétta okkur svo af með Skjálfandafljóti.

En pælið í þessu, afhverju er kreppa á Íslandi eftir "stærstu framkvæmd Íslandssögunnar"

Það voru reyndar sumir hagfræðingar búnir að spá því, það var þaggað niður í þeim.

Afhverju eigum við að trúa því að allt reddist nú með álverum á Bakka og Helguvík. Og þegar kemur kreppa eftir þau álver þá getum við bætt við bara byggt álver.

Mér skilst að á Húsavík hafi gripið um sig Reyðarfjarðarveikin, þe. það er máltæki á Húsavík: Þetta kemur með álverinu. Og svo bara bíða þeir. Ógeðslega pirraðir yfir heildstæðu mati á umhverfisáhrifum. Amk. sumir þeirra.

Verslunarmannahelgin

verður haldin í sófanum, nokkrar flugeldasýningar verða, og kósí kósí kósí.

31 júlí 2008

Meira um sófann

Ég á sófa eftir Einar Ben og í honum finn ég tengingu við alheimssálina og allt það, þessi sófi er einsog rónasófi, en voða þægilegur, og mikill karakter og yfirklæddur með gulli og ég hætti við að henda honum en ég ætlaði að henda honum en svo gat ég ekki hent honum eða ég gat það alveg en vildi það ekki en það kostar 300þús að laga hann og sauma hann saman og þá gæti Einar Ben mætt sig og Gullfoss hætt að streyma í hausnum á honum. Amen.

Sófinn hans Einars Ben.

Systir mín vill ekki að ég fari með Einræður Starkaðar á Einarshátíð sem hún er að skipuleggja, nei nei, hún ætlar að fá einhvern leikara, ég meina hvað geta þeir, en ég ætla þá bara sjálf að fara með Einræðurnar og taka 20.þús kall fyrir. Og ég ætla byrja á því að hringja í Hreiðar Má og fara með þær fyrir hann. Já!!!

Sjónvarpið mitt

Ég elska sjónvarpið mitt, ég lá í allt kvöld og horfði á íranskan standuppara, bara góður, ég hló upphátt, og nýjan þátt um sex vini í New York, úff, alveg yndislegur þáttur, og ég er virkilega tilbúin að taka þátt í lífi þessara persóna.

Persónuleikaröskun

Ég er búin að koma auga á fallegan mann, ég sé hann að vísu ekki í augnablikinu en hann er ólíkur öllum mönnum sem mér hafa fundist sætir. Þetta sýnir sennilega að ég hef orðið fyrir alvarlegri persónuleikaröskun.

Gyðjurnar

Ég safna gyðjum og nú er komið gyðjuborð, nokkrar feitar og pattaralegar og þokkafullar gyðjur frá Austurlöndum úr steini, María Mey úr plasti og líka plastgyðja með sverð sem Matthías Viðar gaf mér einu sinni í afmælisgjöf eða þegar hann kom frá Mexíkó, svo er ég að lesa uppúr brennandi bók, tvær Maríur frá Lindu á vaxkertum og hreiður úr Flóanum, þetta er svona upprennandi, já líka teikning eftir sjálfa mig af Isisi teiknuð í Sýrlandi, svo vantar mig norn.

24 júlí 2008

Elísabet í mótþróanum

Nútímatrúarbrögð ganga útá að við eigum að vera í núinu, vera skapandi, og ekki safna neinu því við tökum það ekki með í gröfina.

Ég er aldrei í núinu, ég er í framtíðinni, nútíðinni og fortíðinni, - þrjár meginelfur sem streyma saman, skiptast og sameinast. Ég er aldrei skapandi nema ég sé um leið eyðandi. Um leið og ég skapa þessi orð eyði ég öðrum orðum.

Og ég safna hjartasteinum. Og langar að safna sápum. Og safna bókum eða safna þeim ekki en læt þær safnast að mér, líður vel að hafa þær í kringum mig, í stöflum, á borði, í skápum, í hrúgu.

Ef ég ætti að fara með eitthvert safn í gröfina myndi ég taka hjartasteinasafnið ef Alexía væri ekki búin að panta það handa sér og fleiri ömmubörnum. En ég fer kannski með einn stein, mitt eigið hjarta....

Amma Elísabet safnaði þjóðbúningadúkkum, það hefði verið fallegt ef dúkkurnar hefðu farið með henni. Þær hefðu kannski breyst í þjóðbúningadúkku-engla.

Meðvirkni er ævintýraheimur

Ég er Mjallhvít og dvergarnir eru skapgerðarbrestir mínir, ótti, gremja, sjálfsvorkun, sýndarmennska, kvíði, stjórnsemi, píslarvætti, - ég er alltaf að hugsa um þá og senda þá uppí námurnar að grafa út meiri kvíða, ótta, og svo framvegis. En ég er ógeðslega pirruð útí þessa dverga þótt ég sýnist vera næs og ég er að bíða eftir frelsun, björgun, prinsinum, sem gæti verið
1. karlmaður
2. lottóvinningur
3. stöðuhækkun
4. bara eitthvað stórkostlegt.

Og auðvitað er þetta allt foreldrum mínum að kenna því komu mér í þessa aðstöðu.

ÞAÐ MÁ EKKERT TRUFLA ÞENNAN ÆVINTÝRAHEIM.

Ef einhver bankar uppá felli ég hann inní ævintýraheiminn.

Getur verið að nornin sé að reyna fá mig tilað sjá að hlutirnir eru ekki í lagi?

En ég held áfram að vera svo fáranlega góð.

Nornin nottla fær mig tilað sofna, eplið hrekkur ofaní mig, hún kann ekki alveg á þetta en hún er að reyna en það þýðir ekki neitt, ég breyti henni í norn en í rauninni er þetta kannski vinkona mín.

ÆVINTÝRAHEIMURINN ER SKOTHELDUR.

MEÐVIRKNI ER ÆVINTÝRAHEIMUR.

23 júlí 2008

Embla Karen kíkti inn og skríkti

Hver nema Embla Karen kom hér í heimsókn í dag með foreldrum sínum, Ingunni og Garpi. Það er svo yndislegt að halda á henni í fangi sér og dáðst að henni, og svo skríkir hún af fögnuði og gleði yfir því að vera til. Og er svo íhugul og sposk á svipinn. Hún var með nýtt dót, alveg svakaflott, ég er að hugsa um að panta svona dót í jólagjöf, en lífið er yndislegt.

21 júlí 2008

Vinkonur

Ég er í mesta basli með vinkonur mínar þessa dagana. Kristín tildæmis hún hálfvegis þrælaði mér til Hveragerðis, ÚTÚRBÆNUM!!!! með því að segja þegar ég sagðist ekki komast af því blómin mín færu bráðum að blómstra, þá sagði hún eitthvað á þessa leið, ER ÉG ÞÁ EKKI LENGUR BLÓM!!!

Þetta var ekki sem hún átti að segja!!!!

Og Linda, hana hafa ég nú varla séð í marga mánuði og við hittumst fyrir tilviljun á Laugaveginum og fengum okkur KAFFI!!!! - eftir vandræðagang og almennt spjall um daginn og veginn, og fórum að tala saman og ég mannaði mig uppí að segja henni, já, mér fannst svo leiðinlegt þú hjálpaðir mér ekki að pakka þegar ég fór til Írlands og hjálpaðir mér ekki heldur fyrir fimmtugsafmælið mitt. Og þá sagði hún eitthvað á þessa leið: Já, þetta er einmitt eitthvað sem vinir eiga að gera!!!!

Þetta var ekki það sem hún átti að segja!!!!

Kristín átti að segja, já komdu bara þegar blómin hafa blómstrað, eftir svona tvær vikur. Ekkert mál, þá verð ég farin héðan.

Linda átti að segja, Elísabet, þú getur ekki verið að stjórna mér svona, að....

Kristín átti að verða auðmjúk og Linda átti að verða brjáluð.

Já, það er gott að vita hvaða pókerslag maður tekur í vináttu-bandinu.

Kær kveðja, Elísabet krútt

ps. ég er nú bara að blogga um þetta því ég heyri ekkert frá þeim!!!!

Sönn vinátta

ég er búin að vera í allt sumar að reyna berja saman atburðarás í leikritið mitt, það ætti nú að vera auðvelt, ég var að skrifa það í þrjá mánuði í vetur en það var nú öðru nær, gekk ekkert né rak fyrren ég fór til stínu bjarna í hveragerði þarsem hún hefur hreiðrað um sig og byrjuð að baka rúgbrauð með tilheyrandi, já segjum ekki meir, ég smitaðist, það var komið nýtt hverasvæði í líkama minn, en þarna eitt kvöldið bjó ég til sögumann og þá fór skriðan af stað, þetta var kannski alltútaf því að við kristín erum hættar að hlæja, eða því heldur hún fram, við vorum að koma úr sundlauginni, ég lagði arminn utanum hana og sagði, jæja, hvað var nú gott að fara í sund, samt hafði hún verið lungann úr tímanum að lyfta og ekki tala við mig, en þá segir hún og slær mig gjörsamlega útaf laginu, VIÐ ERUM HÆTTAR AÐ HLÆJA SAMAN, AFHVERJU ERUM VIÐ HÆTTAR AÐ HLÆJA SAMAN, mér fannst þetta ekki fyndið, ég bara réði ekki situasjónina, og varð ógeðslega pirruð, ég hafði ekki stjórn á aðstæðum, þá verð ég pirruð, frýs, fer í fýlu eða gríp til annarra óyndisúrræða, í staðinn fyrir að leyfa þessari yndislegu setningu að fljóta þarna um á jarðskjálftasvæðinu, en afhverju verð ég alltaf að hafa stjórnina, já afhverju verð ég alltaf að hafa stjórnina. það er svo að guð komist ekki að.

en guð er sprunga.... og gegnum þessa sprungu kemst ljósið inn.

og afhverju má guð ekki komast að.

ókei, við vitum hvernig fór fyrir sókratesi, gerði lítið úr konunni sinni og var svo alltaf halló strákar. en þessi spurning, afhverju má guð ekki komast að, það gæti verið efni í næsta blogg.

fyrsta sem mér dettur reyndar í hug er, að það gæti bent til þess að ég væri manneskja ha ha ha ha ha ha ha. ef guð er til þá er ég manneskja.

Hamingjan einsog í gær

Þá fyllti tunglið sem var fullt og ekkert venjulega fullt, heldur maraði svona í himinkafi og titraði í gegn, það var semsagt sunnanmegin í íbúðinni en norðanmegin í eldhúsglugganum voru öll hvítu blómin mín, að ilma svo þegar ég fór framúr einhverntíma í nótt þá glitraði allt, ilmaði og skein. Takk guð.

Hafið

Ef þú sefur hjá mér eina nótt
skal ég breyta þér í hafið,
í hafið salt og mjúkt,
ólgandi og blátt, löðrandi,
öldur, brim, þú mátt vera hafið
þessa einu nóttsem þú sefur hjá mér.

Já, þú mátt fylla uppí loft,
flæða útum gluggana,
þrengja þér að veggjunum,
titra og finna þrýstinginn,
þegar húsið gefur eftir,
við flæðum út,
þá er miðnætursól,
klukkan er rétt hálffjögur.

17 júlí 2008

Vinur minn rapparinn

Þetta var mitt eigið altari

þarsem ég tignaði sjálfa mig

öll kerin full af fortíð.

Nákvæmar leiðbeiningar um mig

og hvernig mig bæri að nálgast.



En þá hellir hann yfir mig textanum

og honum er alveg sama

hvernig hann kemur út,

orðin bara streyma

og ég er alveg að fara að gráta.

To Andrew

He came one day
trying to open up my door,
I am very supioucious,
he must be up to something,
perhaps want to eat my nails,

I dont believe somebody want to open
my door, they are always closed,
I never let anybody in,
maybe therefore he came at night,
and woke me up.

I am pretending, being strong, wice,
cool, perfect, with endless energie,
and I am acutally getting very sick
in all this show-business,
not knowing how to stop.

Villistrákur

strákur einsog blóm,
einsog eldur, vindur, hreyfing,
æ komdu með mér útá heimsenda,
við náum þangað í kvöld.

strákur með allt
blikandi og mosaþúfu
skerandi stjörnur
sem fljóta í hafinu

í þessari bylgjuhreyfingu
sem hann vekur í mér.
Ég meina eld sem hann vekur
og algjöra hlýðni,

tilað storka alheiminum.

16 júlí 2008

Allt í kærleika

Ég elska þegar er matur í ísskápnum og líka að elda, kótelettur með salti og pipar og nýjar íslenskar kartöflur, eitthvað svo namm og ég elska Elísabetu.

Ella Stína og stíngurinn

Ella Stína er lítil og hrædd, á himni eru stjörnur. Stjörnurnar byrja að stinga Ellu Stínu svo hún verður að píra augun. Allur heimurinn stingur Ellu Stínu svo hún er útstungin. Ella Stína á bágt. Loks stingur Ella Stína heiminn. Þá á hún ekki lengur bágt og á ekki lengur heim.

15 júlí 2008

Ræða Kolbrár í afmælinu mínu

Til Elísabetar
Já, já, og ég sem hélt að ég væri að fara flytja örlítinn ræðustúf yfir fjölskyldumeðlimum sem eru venjulegt alþýðufólk. Og það er nú þannig fólk sem mín elskulega systir hefur valið í kringum sig í gegnum tíðina enda fellur hún jafn vel í fjöldann og fíll í maurabúi.

Hvað sem því líður þá hlýtur það að vera kærkomin tilbreyting, hvort sem er fyrir okkar nánustu fjölskyldu eða aðra sem til þekkja að ég skuli halda hér tölu. Ég er sú eina af systkinunum sem er ekki að baða mig í sviðsljósinu frá morgni til kvölds og tjá mig um allt milli himins og jarðar sem er reyndar svolítið öfugsnúið þar sem ég er sú eina af systkinunum sem hef vit á því sem er milli himins og jarðar.

Samt sem áður hefur það ekki skort að systir mín tjái sig um allt sem hægt er að láta sér detta í hug og í raun miklu meira en það. Hún talar um sjálfa sig, tilfinningar, leikhús, náttúruvernd, sjálfa sig, tilfinningar, fossana, sjálfa sig, klettana, tilfinningar, æskuna, fótbolta sjálfa sig, umhverfismál svo ég nefni nú ekki tilfinningar.

En talandi um tilfinningar þá er það ekki skrítið þó þær beri á góma þar sem systir mín er listamaður og listamenn eru tilfinningaverur. Listamenn eru í raun svolítið eins og Síamskettir eða Púðulhundar. Þeir þurfa mikla athygli, það þarf að klappa þeim, hrósa þeim og þeir þurfa mikla alúð og umönnun enda geta þeir í fæstum tilfellum séð um sig sjálfir. Þessi samlíking á þó ekki að öllu leyti við systur mína því síamskettir eru undantekningalaust mjög þrifaleg kvikindi.

Talandi hinsvegar aftur um ræðumennsku þá man ég reyndar eftir mjög athyglisverðu ræðutímabili hjá systur minni um tíma, en það var “leggja á borð” tímabilið. Þá dröslaði Elísabet með sér alls kyns skran og dót upp á svið er hún flutti ræður og lagði á borð, allt mjög gildishlaðið að sjálfsögðu!

Og skranið var allt frá dúkum, hnífasettum, kötlum, kjöthömrum, kertum, matarafgöngum, vigtum, sælgæti, skrauti og ég man ekki lengur hverju.... en að sjálfsögðu var hver og einn hlutur á borðinu tákn um eitthvað stórkostlegt og mjög tilfinningalegt....Þetta er það næsta sem Elísabet hefur komist að vera húsmóðir og í raun fátt í hennar fari sem minnir á eldhússtörf, nema náttúrulega útlitið því líkamsbyggingin og hárgreiðslan svipar töluvert til uppþvottabursta frá sjöunda áratugnum.

Og ég man líka eftir því að ekki máttu fleiri en þrír fjölskyldumeðlimir safnast saman öðruvísin en ræðuhöldin skullu á, rétt eins og í Tónaflóði hjá Julie Andrews, og allt brast allt í söng.. Því legg ég það til að við launum systur minni þessi góðu afköst og þökkum fyrir okkur með því að flytja öll góðan og tilfinningahlaðinn ræðustúf henni til handa.

Og ef einhver ykkar viljið grípa með ykkur eitthvað af dóti... borð eða annað, garðsláttuvélar eða húsdýr... er ég viss um að Elísabet kynni að meta það!!

En það að vera litla systirin í þessu sambandi var ekki alltaf auðvelt, trúið mér. Og við vorum aldrei neitt Yin og Yan, ooo sei sei nei. Við rifumst, elskuðumst og rifumst, rifumst og rifumst á ný ef því var að skipta.... Og stundum átti ég hreinlega ekki til orð yfir þessari systur minni, enda hafði hún ávallt yfir í orðræðunni........ enda manneskja bæði orðsins og ræðunnar.

Ég man t.d. eitthvert sinnið sem við fórum saman í sund, ég á viðkvæmasta skeiði kynþroskans, rétt um 13 – 14, uppfull af hormónum og sérlega komplexaður unglingur, var rétt að skola af mér í sturtunni til þess að hraða mér í sundbolinn og hylja nekt mína er ég heyri í gegnum vatnsniðinn í henni (sem og allar hinar 8 konurnar sem staddar voru í sturtuklefanum)
“ Guuuuð, Kolbrá!! Ertu rauðhærð að neðan????”

Þið farið kannski hjá ykkur?? En ég vorkenni ykkur ekki rassagat. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig mér leið!!!!

En það er líka mjög auðvelt að vera stoltur af systur minni, og ég er það ansi oft....
Og það er í gegnum baráttur hennar...

Hvort sem er alkólismi, geðveiki, uppeldi uppáhaldsfrænda minna, ástar, náttúrverndar eða skáldskapar... Alla þessa málaflokka sem hún ber á sínum grönnu herðum.
Ég meina, hver þarfnast systkina sem gæti t.d. verið afreksmenn í íþróttum þegar maður hefur Elísabetu sem er afreksmaður í kynlífslýsingu í bókmenntum og geymir öll sín leyndarmál í píkunni???

Ef það er ekki afreksíþrótt þá veit ég ekki hvað. Og þegar maður les lýsingar Elísabetar þá getur maður ekki ímyndað sér annað en það hafi verið hún sem fann upp kynlífið.

Ég verð að segja fyrir mig... ég gæti bara gæti ekki verið stoltari!!!!
Ég gæti sagt svo margt fleira mín kæra sys en þú ert náttúrulega búin að segja það allt sjálf og svo miklu betur.

Ég árna þér heilla og vona að líf þitt verði skrautlegt og skemmtilegt næstu fimmtíu árin.

Flateyjarbók

ÚR FLATEY
Ella situr í fjörunni og horfir á rauða spóann. Hún vill taka hann inní klaustrið sitt, skera hann upp, taka út innyflin og borða þau. Svo getur hún flogið burt einsog rauði spóinn.

Ella horfir á ölduna sogast að landi og falla út aftur, alltaf sama hreyfingin, og hún hugsar sér að hún liggi í fjörunni og hvað verði þá um hana þegar guð tekur hana.

Ella horfir á litlu æðarungana sem stundum hverfa í sælöðrinu og skjóta svo upp kollinum, og hún hugsar sér að hún búi til óróa úr þeim og hengi óróann upp.

En það er ekki þannig, hún horfir á þetta allt gerast, hreyfast, og uppgötvar að þetta er ein harmónía. Þá biður hún bænirnar sínar.

Ella sér stelkina, steindepilinn og þrjár teistur, það er líka sjór og klettar, tvær teistur fljúga burt en sú þriðja er lengi kyrr áðuren hún flýgur. Ella var að hugsa um hvort hún gæti lagt hana á stein.

Ella sér margar kríur, og kríurnar ráðast á hana svo hún verður að bölva þeim og þá verður guð óþolinmóður.

Það eru fjöll allt í kringum Flatey, Ella veit af fenginni reynslu að þau þurrkast burt úr minninu og eyjan verður ein eftir.

Ella horfir lengi útum gluggann, klukkan er fjögur um nótt og sólin er hátt á lofti, hún hugsar um að ganga útí nóttina, í grasinu en er hrædd um að rekast á einhvern eða vera ekki ein.

Ella horfir á sjóinn, sólin glampar á hann, svo hverfur hún inní klaustrið sitt, þar er líka sól og sjór.

Ella fer inní húsið þarsem Flateyjarbók er geymd, það eru svo fallegir stafir í bókinni einsog á legsteinunum í kirkjugarðinum.

Ella les á alla legsteinana, hún passar að skilja engan útundan, þetta er svo erfitt verk að hún er að hugsa um að koma daginn eftir, svo þekkir hún eina konuna.

Ella bíður eftir bátnum, hún er að hugsa um skipstjórann en hann gæti eyðilagt klaustrið hennar sem hún er orðin svo leið á en það er á heimsminjaskrá.

Það eru engin ský á himni, en það voru ský í gær og hvöss austanátt. Þar á undan var steikjandi logn, það var líka sólstormur.

Ella er mjög áhyggjufull, það er útaf því sálin í henni er full af skelfingu og örvæntingu en er samt tóm. Svo Ella hugsar um eitthvað annað en það sem hún er að gera.

Þarsem vegurinn endar

: Mig langaði fyrst við erum komin úr Ártúnsbrekkunni að segja þér að ég fæ soldið í hnén gagnvart þér.
: Já, heldurðu að þú jafnir þig ekki á því.
: Ha, jú sjálfsagt. (Smá hlátur) Ég er nú ekkert vön að fá í hnén.
: Þetta gleður mig. Er það ekki málið, að gleðja fólk.
: Jú, það er gott að þetta gleður þig.
: Hvað er annars að frétta af Hrafni bróður þínum?
: Hrafni! Allt gott, hann býr í Trékyllisvík.
: Ég las þessa fínu bók eftir hann, þar sem vegurinn endar.

11 júlí 2008

Kristín Arna á afmæli í dag

Kristín Arna tengdadóttir mín en þau Jökull hafa verið sama í sex ár, - á afmæli í dag, hún er algjör snillingur og fegurðardís, og gaman að tala við hana, hún er núna í heimsreisu, tilgangur ferðarinnar er að finna hjartasteina handa tengdó ha ha ha.

Til hamingju, hamingju, hamingju!!!! Víííííí....;)

Hún er alltaf að koma á óvart og finna uppá einhverju sniðugu, hefur Kristínarlega sýn á lífið, og er bara algjört krútt og yndisleg ung kona. Takk fyrir að vera þú Kristín, - hvar sem þú ert í heiminum, hún er í heimsreisu!!! Ég elska þig.

10 júlí 2008

Að rústa ímyndinni

Ég er ekkert svona töff og kúl, ég er blíð og viðkvæm en þori bara ekki að vera það, því það gæti rústað ímyndinni, ég rústa bara sjálfri mér í staðinn, svo hef ég líka mikið skap en það gæti líka rústað ímyndinni. Og svo þori ég ekki í sólbað útá tröppurnar mínar því iðnaðarmennirnir í næsta húsi gætu haldið að ég þyrfti ekkert að vinna. Svo skil ég ekki afhverju ég er að játa þetta, ég er ekki fyrir neinum dómstól, því miður.

Hrefnuveiðimaðurinn

Hrefnuveiðimaðurinn var soldið góður í sjónvarpinu í gær, þegar Sigursteinn Másson sagði að við þyrftum að passa uppá ímynd Íslands, þá svaraði Hrefnuveiðimaðurinn: Hver er hún?

Þetta er einmitt góð spurning tilað spyrja sóleyjarnar að og fjalldrapann og telja svo inní nokkur sjálfsmorð unglinga af því þeir eru fastir í ímynd og geta ekki beðið um hjálp.

Ímynd Elísabetar

Hver er ímynd Elísabetar Jökulsdóttur, er hún eitthvað merkileg, er hægt að átta sig á ímyndinni, fer hún aldrei útfyrir mörkin, er hún hlýðin og góð og heldur sig innan rammans tilað passa uppá ímyndina, meira gullið, en ég er samt svo meðvirk að ég er alltaf að hugsa hverjir lesa þetta blogg og afhverju þeir kommenteri ekki og hvort ég sé svona leiðinleg og mig vantar einhvern tilað hugsa um mig og ef vændi væri leyfilegt þá mundi ég kaupa mér mann, og láta graffa húsið mitt en nú þarf víst leyfi til þess, ég er klikkuð yfir svona, leyfi tilað graffa húsið sitt, en nýja vodafone auglýsingin er skemmitleg, (nú er ég orðin einsog hinir bloggararnir og farnir að tala um þjóðfélagsmál, ég tala bara um málin í mínum haus) en mig vantar einhvern tilað hugsa um mig, vekja mig á morgnana, færa mér kaffi, elda mat handa mér, minna mig á eitthvað, setja harmóníkkutónlist á fóninn, pressa brúðarkjólinn, mig vantar svo mann á bak við konuna sem er nottla bara klisja en mig vantar svoleiðis klisju, ég held það yrði hrikaleg viðurkenning einsog Guðbergur segir, afhverju er hann annars ekki láta rökstyðja bullið í sér, hann er alltaf að segja þetta með viðurkenninguna, og alltaf að segja þetta með að vanti hugsun í ísl. bókmenntir, og svo bara þessu slegið fram, ég meina ég elska Guðberg en.... (þetta er tildæmis meðvirkni) afhverju má mér ekki finnast eitthvað ánþess að segjast elska hann. Og svo eitt, ég hitti konu um daginn, þá var ég í silfurslegnu þunglyndi og hún sagði: ég hélt þú værir svo stór og sterk, guð minn góður, ég hélt þú værir svo stór og sterk og svo ert þú bara svona, auminjga konan fattaði ekki að ég er allskonar, tilað ég geti verið stór og sterk get ég verið veik, en nei, nei, pína mig inní ímyndina, sjálfa Elísabetu Jökulsdóttur, pína hana inní stóru og sterku ímyndina, og ef ég á að vera þar, þá bara dey ég eða verð hauskúpa af hrossi, eða póstkort já. Ég meina, ef ég á að vera ímynd, en ekki ég sjálf.... Kafka hefði nú bilast yfir þessu ég sjálf.... stundum flýtur guð tildæmis inní mig.... ´já eða ýmislegt, ég er hætt að hugsa um karlmenn á kvöldin, ég hugsa bara um hvar ég er og ég er mikið að hugsa um að skipta um herbergi.

09 júlí 2008

Rósrauður haugur

Svo lagðist rósrauði ísbjörninn til hvílu og fólk lagði rauðar rósir ofaná hann og smám saman varð til einn stór rósrauður haugur. Og þannig varð miðnætursólin til.

*

08 júlí 2008

Undur og stórmerki

Ég fékk alltíeinu leið á karlmönnum, undur og stórmerki, sennilega á augnabliki einsog þessu sem alheimurinn hefur orðið til.

*

Þramm

Þramm, þramm, þramm, sagði ísbjörninn. En þá heyrði hann bamm, bamm, bamm.

Ísbjarnaröskur

Það skilur enginn í mér, hugsaði rósrauði ísbjörninn hnugginn, enda er ég villtur. En ég man þegar gengu 18 ísbirnir á land og þá voru ekki öll þessi læti og þegar eitthvað svona villt rekur á fjörurnar þá verður allt svo skrítið og ég get ekki hætt að segja ísbjarnarsögur svo ég rek upp ísbjarnaröskur. (Ýttu hér)

Ísbjarnarblóð

Þið munið eftir blóðinu á nefi ísbjarnarins, það var ekki blóð, þetta var rósrauði ísbjörninn.

Grátur rósrauða ísbjarnarins

Rósrauði ísbjörninn fór alltíeinu að gráta og hann grét og grét og grét og ætlaði aldrei að geta hætt. Tárunum var safnað í vaskafat og svo var hrært í þeim alveg þangað til þau voru komin á fleygiferð og búið að myndast svona svelgur.

Rósrauði ísbjörninn fær sófa

Þegar rósrauði ísbjörninn hafði verið smástund á Íslandi bauðst einhver tilað gefa honum sófa en rósrauði ísbjörninn skildi ekki sófann. Hann skildi bara allsekki sófann.

Þriðji ísbjörninn

Þriðji ísbjörninn var með hófa og hrútshorn og spratt þannig beint útúr goðsögunni eða þjóðsögunni.

Maðurinn í brúnni

Það er ekki alltaf hægt að flokka allt, hvað sé sólarlag, hvað séu fjöll, hvað himinn, hvað haf og maðurinn í brúnni.

*

Sólarlagið

Rósrauði ísbjörninn laumaðist inní sólarlagið, það var sama kvöldið og þetta rann allt saman.

*

Rósrauði ísbjörninn á forsíðu

Rósrauði ísbjörninn var með hramma og klær, allt mátulega stórt tilað rota mann með, svolgra hann í sig, velta sér um hamingjusamur á eftir en í dýrabókum stendur að dýr geti ekki orðið hamingjusöm og ekki tré eða blóm heldur, hamingjan er forréttindi mannskepnunnar einsog svo margt annað í þessum heimi svo það var ísjakinn sem rósrauði ísbjörninn átti útaf fyrir sig, því enginn maður vildi sitja á honum nema rétt þegar var verið að taka forsíðumyndina.

Rósrauði ísbjörninn - ritgerðarefni

Börnin í skólanum voru fengin tilað skrifa ritgerð sem hét: Rósrauði ísbjörninn, ekkert þeirra kannaðist við hann en blöðin voru öll útí tárum.

Ísbjarnarsál

Menn vita ekki hér að ég kem frá landi sjamana, frá landi goðsögunnar þarsem sálin á enn sinn fasta bústað, já menn vita ekki að ég er með sál, ísbjarnarsál og ef kallað er á sálina mína að fylgja sér þá gerir hún það en viðbúið að hún kalli aftur.

Ísbjörn í æðarvarpi

Ísbjörn í æðarvarpi, hugsaði ísbjörninn með sér, þetta hljómar eitthvað svo vel og svo át hann öll eggin og hugsaði: Æðarvarp í ísbirni, rosalega er ég fyndinn, víííí....

Ísbjörn í æðarvarpi II

Loksins er ég orðinn krútt, hugsaði ísbjörninn í æðarvarpinu, ég ætla gera mér sæng úr öllum þessum æðardúni og í staðinn mega kollurnar fá feldinn minn.

En fréttin sú komst aldrei í loftið enda hver skilur að fréttir ferðist nútildags bara í loftinu þegar ísbjörninn synti alla þessa leið.

*

Þriðji ísbjörninn

Þegar ísbirnirnir voru lagðir að velli höfðu menn engin huggunarorð handa sjálfum sér svo þeir fóru í messu en guð var kominn svo langt uppí himinninn að þeir gátu ekki teygt sig í hann, svo eftir heilabrot og niðurgang fundu þeir út að þetta voru fjölmiðla-ísbirnir og því réttdræpir og menn þyrftu enga huggun yfir því að hafa drepið þá. En þá fór ísbjörn að ofsækja þá í draumi og lapti upp vatnið þeirra sem þeir höfðu sett í skál fyrir utan húsið, vatnið var gert úr kristöllum og á hverjum degi settu mennirnir nýtt vatn í skálina og ísbjörninn lapti allt upp í draumum þeirra, menn fengu eitthvað í kverkarnar, og vissu ekki að þarna var þriðja ísbirnum rétt lýst.

Ráðgáta

Það kom jarðskjálfti í Hveragerði 29. maí og enginn vissi að konan sem átti afmæli þennan dag býr í miðju þorpinu.

Rósrauði ísbjörninn I

Þegar rósrauða ísbjörninn rak að landi skömmuðust menn svo fyrir hann að þeir földu hann í gróðurhúsi þarsem voru ræktaðar rósir. Þar skalf rósrauði ísbjörninn af tilbeiðslu eða ótta eða hvort hann át allar rósirnar, þær gætu líka hafa étið hann, ég er alveg að fara að gráta.

Rósrauði ísbjörninn II

Einu sinni rak rósrauðan ísbjörn að landi, ég veit ekki afhverju mér datt það í hug, það kom í gærkvöldi þegar mér leiddist yfir því að fara að sofa, og miðnætursólin hafði glennt sig einsog risastórt kvikmyndatjald yfir kvöldið. Sumt kemur bara og ég held þetta hafi ekkert haft með hlýnun jarðar að gera.

Rósrauði ísbjörninn

Einu sinni rak rósrauðan ísbjörn að landi, hann sat prúður og penn á ísjakanum sínum, svona rósrauður og fínn, allir komu hlaupandi niðrí fjöru tilað bjóða hann velkominn og hentu rósum til hans, rósrauði ísbjörninn, rósrauði ísbjörninn, og svo upphófust miklar spekúlasjónir hvar átti að hafa ísbjörninn því einhverstaðar varð að hafa hann og var honum að endingu komið fyrir í Ikea. Þar breyttist þessi rósrauði ísbjörn í glórulaust rándýr sem eirði engu og var hann uppfá því kallaður Ikea-björninn en hafði áður verið rósrauður en engum datt í hug að setja hann aftur á jakann sinn enda hafði gleymst að setja jakann í frysti.

07 júlí 2008

Góð í höfðinu

Ég var að tala um að þetta væri allt í höfðinu á mér að ég væri ekki nógu góð, ég held ég sé ekki nógu góð í höfðinu.

Ha ha ha ha ha ha... ég er svo fyndin.

Sólskinið í júlí

Ég er góð en ég kemst ekki útí sólskinið. Fjöllin er í blámóðu og sjórinn dúar, hann er svo sléttur.

Ég er góð

Ég er alltaf að skammast í mér að ég sé ekki nógu góð, ekki nógu góð móðir, rithöfundur, dóttir, vinkona, systir, amma, aa-manneskja, tengdamamma, og svo endalaust framvegis. Ég komst að því í dag að þetta er vitleysa, þetta er bara í höfðinu á mér, þetta stendur hvergi, þetta hefur ekki komið í mogganum, það hefur enginn kvartað í fjölskylduboðunum og kassadömurnar hafa ekki minnst á þetta einu orði.

05 júlí 2008

Ferðahugur

Þegar ég var lítil voru mörg orð skrítin, einsog ferðahugur, einsog eitthvað gæti breytt huganum og hann gæti orðið ferðahugur, einsog ferðahugurinn laumaðist einhverstaðar inní hugann, var ferðahugur kannski hugtak útaf fyrir sig?

Er kominn ferðahugur í þig?

Svo voru mörg fleiri skrítin orð einsog bráðkvaddur, það var alveg voðalegt orð, að kveðja í skyndingu, fyrirvaralaust, einsog maður bráðnaði inní sig, gæti kannski ekki einu sinni kvatt, og líka eitthvað dularfullt sem enginn réði yfir þegar ég spurði mömmu en hún kunni venjulega skil á öllum orðum.

*

03 júlí 2008

Halló

Ég hef fylgst með fólki, það talar við sjálft sig, já það hefur ýmislegt að segja sjálfu sér, margt áríðandi, léttúðugt og allt þar á milli, þetta er bara svona þessi leynilega aðgerð sem fólk hefur þörf fyrir.

02 júlí 2008

Töfrahugsun

Ég er með töfrahugsun, í kvöld var ég að hugsa um að skreppa á tangóball þarsem vinkona mín væri en var eiginlega ekki í stuði svo ég sleppti því þangað til það rann upp fyrir að hugsanlega gæti maðurinn sem ég er skotin í verið þar, (ég veit ekki tilþess hann hafi áhuga á tangó en hann gæti skyndilega hafa fengið hann) nú ef hann væri ekki þar, væri hugsanlega sá sem mér væri ætlaður þar. Þetta er töfrahugsunarháttur. Einsog um daginn hitti ég mann á bar sem ég var að tala við og þá kom vinkona mín og sagðist þurfa að flýta sér heim svo ég kvaddi en fékk svo rosalega bakþanka að kannski hefði ég átt að fara og kynnast manninum betur, og kannski væru örlögin eitthvað að pæla sem ég hefði nú sundurslitið. Þetta er töfrahugsunarháttur.

Ráð við sektarkennd

Muna eftir sakleysinu.

*

Ráð ef maður heldur að maður hafi fengið póst

Athuga póstinn sinn. Í hvert sinn.

Ráð ef illa gengur að hafa sig að verki

Hugsa um að þetta sé ekki rétti tíminn og best sé að gera annað.

Ráð tilað endurnýja sig

Fá leið á því sem maður hefur verið að gera, fá alveg uppí kok, þangað til maður ælir af leiðindum. Leiðinn er stórlega vanmetinn.

Og svo er hérna ráð tilað fá kjark tilað gera eitthvað nýtt þegar maður hefur leið á því gamla: Byrja á því að GÆLA við hugmyndina. Gælur er stórlega vanmetnar.

Ráð til að hætta að hanga á netinu

1. Vera á netinu allan daginn og alltaf þegar maður kemst á netið og alltaf að tjékka á póstinum, fréttunum, hinum bloggsíðunum, segja öllum frá því og tala ekki um annað, og fara svo aftur heim og á netið þangað til maður er kominn með svo ógeðslega mikið leið á þessu að maður hættir því.

Hvernig komast skal 20 ferðir í sundi

1. Taka eina ferð í einu.

Gott ráð ef maður hefur mann á heilanum

1. Ímynda sér að heilinn sé sófi og maðurinn liggi í honum.

Gott ráð ef maður hefur mann á heilanum

1. Hugsa ekki um neitt annað.

Gott ráð ef maður hefur mann á heilanum

1. Skera úr sér heilann, fylla hann af hveiti og rúsínum, baka hann í ofni, setja hann í frysti, taka hann út, skera hann í marga litla bita og fá sér með kaffinu.

Gott ráð ef maður kemst ekki í sund

1. Hanga heima allan daginn og hugsa um það.

Gott ráð við afbrýðissemi

Skera sig með rakvélarblaði uppeftir handleggjunum og kveikja svo í kjólnum.

01 júlí 2008

Góð ráð við ástinni

Taka nál og þráð og sauma fyrir öll sárin með ástinni.

Ella Stína hlutgervingur

Ella Stína las um konur væru hlutgerðar svo hún neitaði að verða kona og þegar brjóstin byrjuðu að vaxa á hana píndi hún þau inni, svo ef horft er inní Ellu Stínu er hún hlutgerð.

Hugsuðurinn Ella Stína

Hvernig get ég breytt einhverju ef ég er allt? dæsti Ella Stína. Ég get ekki breytt fjöllunum því þau eru Ella Stína, ég get ekki breytt veginum því hann er Ella Stína, ég get ekki breytt vatninu því vatnið er Ella Stína.
Þú verður bara að breyta Ellu Stínu, sagði Ella Stína.
En þá hrynur heimurinn, sagði Ella Stína.
Við komum að því síðar, sagði Ella Stína.

Frímerki af Ellu Stínu

Ella Stína lét útbúa frímerki af sér, og þar var mynd af lóu, og svo lét hún útbúa bréfsefni og umslög með sér, þar voru svona myndir af Ellu Stínu, og hún undirritaði öll bréf í heimsveldinu, Ella Stína, Ella Stína, Ella Stína, Ella Stína, Ella Stína, og svo lét hún setja mynd af sér framan á hrísgrjónapakkana og kókapöffspakkana og mjólkurfernurnar, og Ella Stína fann út að það var mikil vinna að vera Ella Stína og þá fór hún aftur að búa til frímerki af sér og gerði allt aftur af sér og gerði þetta allt aftur og fann út að það var mikil vinna að vera Ella Stína, og þá gerði hún það aftur, allt uppá nýtt, og hún fékk alltaf sömu útkomuna, og þá kom stærðfræðingurinn uppí Ellu Stínu (hún las þetta reyndar í sporunum) að ef maður gerði alltaf það sama fengi maður sömu útkomuna, svo Ella Stína hætti að gera frímerki af sér, og bréfsefnin, hrísgrjónapakkana, en bjó til plaköt af sér en varð jafnþreytt, hún var alltaf að riða einsog hún væri að riða til falls, sljó og mundi ekki neitt, já riða til falls, og þá fann Ella Stína út að það var ekkert heimsveldi, hún var heimsveldi, - er það ekki önnur útkoma, spurði hún. Nei, nei, nei, það er samasemmerki, og má ekki vera samasemmerki. Voðalega er erfitt að skrifa söguna, sagði Ella Stína, voðalega erfitt, afhverju var mynd af lóu á frímerkinu þínu, af því ég er allt, sagði Ella Stína, þú verður að breyta einhverju tilað fá aðra útkomu. Já, sagði Ella Stína. Já einmitt.

Skrímslið

Ella Stína trúði ekki á Skrímsli og það kom henni í koll þegar Skrímslið kom loksins og síðan vitum við ekkert hvað gerðist.

Kóngurinn Ella Stína

Ella Stína var kóngur og það erfitt fyrir hana því hún bjó ekki í höllinni.

Ofnæmi

Ég er með:

1. Nikkelofnæmi
2. Skeggofnæmi
3. Moskítóofnæmi

Man ekki eftir fleirum ofnæmum, nema kannski er ég með ofnæmi fyrir gróðri og verð að búa við hafið, og svo er ég með ofnæmi fyrir því en þó ekki líkamlegt, meira andlegt ofnæmi fyrir því að drekka úr plastglösum, ég verð að hafa postulínsbolla.

30 júní 2008

Ég elska þessi orð:

“Maður hittir víða menn sem eru fullir af skemmtilegu spakvitríngaslúðri og aðra sem kunna furðulegar sögur. Það er í íslendingnum ákveðið dramatískt ris, sem á í senn rætur sínar í hinu hrikalega landi hans og fáranlegu lífsbaráttu. Í örlögum hins smæsta manns er ævinlega eitthvað stórbrotið og yfirdímensjónerað; maður sem er svo lítill bógur að enginn tekur eftir honum, getur hæglega verið sifji einhverra gífurlegra náttúrukrafta og voða, uppalinn í samfélagi við ótrúlegustu hörmúngar. Þessvegna er þjóðlífið líka ótæmandi skáldskaparefni hvar sem maður grípur niður, lífið alstaðar jafn stórfeinglegt, sögulegt og frámunalegt.
Ömurlegar sögur sem gánga yfir öll skynsamleg takmörk eru algeingar, sömuleiðis sögur sem nálgast geðveiki.”

Halldór Kiljan Laxness

28 júní 2008

Líþíum-saga

Líþíum er salt úr jörðinni. Það er í lotukerfinu með gulli, silfri, vetni og öðrum efnum jarðarinnar. Þegar ég var á geðdeild 1997 var ég greind með geðhvörf. Það var einhver léttir sem fylgdi því og útskýrði allt þetta "rugl". Allt þetta rugl þýddi ekki bara meiriháttar sturlun sem ég hafði glímt við þetta sumar og næstum kostað mig lífið, heldur allskonar litlar uppákomur, allskonar viðhorf til lífsins. Svo ég var fegin að heyra þetta frá læknunum. Þeir sögðu ég ætti að taka líþíum, það kom ekki til greina, ég ætlaði ekki að verða einhver pillukerling, en fyrst og fremst ætlaði ég að lækna mig sjálf. Verða fræg og rík fyrir vikið. Allir áttu á geta bent á mig: Hún læknaði sjálfa sig. Hún fann leiðina.

Svo fór ég í allskonar óhefðbundnar lækningaaðgerðir, (ég er ekki að gera lítið úr þeim, ég held að þær á endanum hafi hjálpað mér og átt þátt í því að ég fór loksins að taka lyf)

En í tvö ár streittist ég á móti, fór í heiftarlegar maníur og gat varla fermt tvíburasyni mína, ég gat ekki hugsað um ömmubörnin mín, ég gat ekki klárað bækurnar mínar og aftur og aftur stofnaði ég lífi mínu í hættu með áhættuhegðun og stjórnleysi. Minn eigin haus réði heiminum.

Svo hitti ég gamlan mann á götu: Það verður stofnaður Geðhvarfahópur í kvöld, sagði hann. Ég hugsaði um að fara en hugsaði líka um að hætta við. Þannig hugsaði ég og hugsa reyndar ennþá stundum. Svo spurði ég tvíburana hvort ég ætti að fara og sembeturfer tók ég mark á þeim þegar þeir sögðu mér að fara. Ég var næstum því farin að gráta á fundinum af því þar var bara venjulegt fólk. Myndin af mér var greinilega mynd af skrímsli, það uppgötvaði ég þarna um kvöldið.

Eftir tvo mánuði var ég farin að taka líþíum. Margir á fundinum notuðu það lyf, aðrir notuðu önnur lyf. En líþíum var talið best. Eiginlega töfralyf og uppgötvaðist fyrir tilviljun. Og hvað réði úrslitum, ég hafði hlustað á þau, þau voru bara í fínu lagi þótt þau tækju lyf. Þau sögðu mér að úthaldið myndi aukast og ég myndi ekki hætta að fá skrítnar hugmyndir.

Ég ætti að gefa þessi séns í tvör ár!!! Tvö ár, hugsaði ég, ég hafði hugsað um tvo mánuði. Síðan eru liðin 9 ár. Og ég passa alltaf uppá líþíumskammtinn minn. En ég þarf að passa uppá svefninn, tilfinningarnar, sjálfa mig svona í kristalsformi.

Það gerðist ekki neitt þegar ég fór að taka líþíum. Það var það merkilega, ég hélt kannski að það myndi vaxa á mig þriðja höndin eða eitthvað slíkt en fyrsta sem ég gerði var að pota í naflann á mér...

Ég hafði ekki snert á mér naflann í mörg ár.

Samkvæmt óhefðbundnum læknisaðferðum, tildæmis orkustöðvunum á jafnvægisstöðin aðsetur í naflanum. Og geðhvörf snúast um jafnvægi.

Ég fór að greiða á mér hárið.

Ég fékk meira útúr kynlífi.

Og ég veit það ekki, það bara svona varð allt í lagi, án þess ég geti haft um það stórkostleg lýsingarorð.

Konan á strætóstoppistöðinni sagði: Þú hefur lifnað við, og vinur minn fyrir norðan sagði: Það er einsog innra sárið hafi gróið.

Sveiflur II

Hjá okkur sem eru með geðhvörf er stundum talað um dægursveiflu. Ég veit ekki hvort það er líka gert hjá öðrum. En mín dægursveifla er þá sú að ég vakna í þunglyndi og sofna í maníu, svona ef ég ýki þetta. Því ég hef ekki farið í maníu síðan ég fór að taka líþíum. En líþíum virkar betur á maníurnar en þunglyndið. Þótt ég taki þessi ágætu lyf þarf ég stundum að kljást við sveiflur, einsog að vakna í þunglyndi á morgnana, sannfærð um að ég sé komin með krabbamein, eigi stutt eftir, hafi ekkert gert í lífinu. (Þegar ég var í skólanum hafði ég ekki tíma í þessar hugleiðingar, ég varð að drífa mig á fætur) En svo tók ég eftir því að ég var mikið hressari á kvöldin, þá fékk ég stórkostlegar hugmyndir hvernig ég gæti bætt stöðu mína, fjölskyldunnar og heimsins, glaðvaknaði og átti erfitt með að sofna. Þetta var frekar óþolandi en einhverra hluta vegna ríkir jafnvægi núna, ég veit ekki afhverju. En ég gæti komist að því í næstu færslu.

27 júní 2008

Sveiflur I

Fyrsta sem mér dettur í hug um sveiflur er þegar ég var á leiðinni í maníu árið 1997 og tvíburarnir fóru til pabba síns sem að vísu bjó í næstu götu. Vinur hans hafði "klagað" mig og sagt ég væri á leiðinni í maníu. Ég hafði aldrei heyrt annað eins rugl, ég var að verða ég sjálf, loksins. En ég sat í stignum þegar Garpur og Jökull komu heim með lítinn miða og sögðu: Sjáðu, pabbi teiknaði þetta upp fyrir okkur, þú hefur stærri sveiflur en venjulegt fólk, venjulegt fólk hefur svona sveiflur en þú hefur svona sveiflur. Svo bentu þeir á teikningu af þessum tveimur mismunandi sveiflum sem pabbi þeirra hafði teiknað fyrir þá. Mínar sveiflur voru einsog úthafsöldur, sveiflur annarra voru einsog haf í svefni.

Mér fannst þetta mjög skrítið, ég hugsaði tvennt: Pabbi þeirra var greinilega á móti mér og var að spilla á milli mín og tvíburanna, hann vissi ekkert um mig og mínar sveiflur, við höfðum verið skilin í mörg ár, en á hinn bóginn var ég soldið fegin að hann skyldi taka þetta að sér að útskýra þetta fyrir þeim.

Ég hafði heldur ekki hugsað þetta sem sveiflur, en þarna sá ég sveiflurnar, já þetta voru bara sveiflur, sveiflur sem geta orðið stórhættulegar.

26 júní 2008

Staðan í lok júní

Ég á ekki fyrir mat, dömubindum eða strætómiðum, og það verið að undirrita viljayfirlýsingu um álver á Bakka, virkjanir í Þjórsá, ég var hér á undan stóriðjunni og hafði það fínt.

25 júní 2008

Vantaði typpi í leikritið?

Ein ung kona sem ég hitti var mjög hrifin af leikritinu mínu Mundu töfrana en alveg hissa yfir því að það var ekkert typpi. Ég var viss um að það yrði typpi í leikritinu þínu en svo var ekkert, sagði hún. Það voru sex typpi í einni kippu í síðasta leikriti, sagði ég. Það hlaut að vera, sagði hún.
Það hét Íslands þúsund tár.

24 júní 2008

Það er eitthvað skrítið að gerast með mig

Alltaf einsog ég sé að fá aðsvif, ekki kannski alltaf, og svo þessir kippir í heilanum sem koma venjulega á kvöldin komu alltíeinu í morgun, svo vil ég bara láta mig dreyma en nú er ég að fara lesa upp hjá Blindra, og ég er búin að vera með verk í augunum.

Ella Stína á Jónsmessunótt

Ella Stína ætlar að vaka á netinu í nótt og fylgjast með ísbirninum.

Ella Stína mesti hugsuður heims

Á visi.is má sjá lista yfir hundrað mestu hugsuði heims. Því miður er þessi listi alvarlegur misbrestur. Ellu Stínu er það hvergi getið. En Ella Stína er í fyrsta til hundraðasta sæti og í heimsveldinu hanga uppi myndir af henni: Hugsuðurinn Ella Stína. Þetta hugsaði Ella Stína í gær og þetta hugsaði Ella Stína í dag. Ef einhver getur hugsað er það Ella Stína. Það veit enginn hvað Ella Stína hugsar en hún hugsar og hún er alltaf að hugsa eitthvað merkilegt einsog áðan þegar hún fór að skoða sjóinn hugsaði hún: Nei sko, hann fellur að.

23 júní 2008

Flokkar Lísbet

Lísbet sem er snilli-fegurðardís að vestan, (ræður yfir Vestfjörðum) hefur flokkað bloggið mitt!!!

1. Sögur sem byrja Einu sinni var kona....
2. Sögur með pólitísku ívafi
3. Andlegar sögur sem eru skilaboð að handan til hennar
4. Sögur um Garp og Jökul
5. Sögur um húsið
6. Sögur með tvíræðum tóni.

Ég sé að þetta er mikið betri flokkun en mín og kveikir meira í mér, þetta kom fram í kommenti frá Lísbet, og ég leyfi mér að birta þessa flokkun hér.

Skoðanakönnun

Ég hef tekið eftir því að það eru svona færsluflokkar á moggablogginu svo ég er hér með smá skoðanakönnun um hvað lesendur vilja fá bloggað um:

1. Ellu Stínu
2. Sálina
3. Karlmenn
4. Fótbolta
5. Fegurðina í lífinu
6. Hafið
7. Ísbirni
8. Batann
9. Kærleikann
10. Eldfjöll við þjóðveginn

Elísabet á Þingvöllum

Í dag er Jónsmessa, einu sinni fór ég uppá Arnarfell á Þingvöllum með Þuru vinkonu minni og við gistum þar og vöknuðum í útsýninu eftir úrhellisrigningu sem gerði þá um nóttina, ég er svo frumleg að ég gat ekki verið að velta mér uppúr dögg einsog allir aðrir, svo einu sinni fór ég í brúðkaup á Þingvöllum og hugðist gista úti um nóttina í mínum eðalfína svefnpoka, þá kom maður og vildi komast ofaní pokann minn. Sætt. Nóttin sú var bleik og fjólublá.

Næs

Ég er búin að vera soldið næs við sjálfa mig, færa mér kaffi í rúmið á morgnana og lesa blöðin.

Engillinn Ella Stína

Grosso er ítalskur, ég fór í sund í dag, með Vilborgu, Vilborg er undur hér á jörð, algjört eintak útaf fyrir sig, allt sem hún segir og gerir og hugsar er Vilborg. Það er sól og sól og sól og ég er að horfa á barnaefnið. Og bíða eftir ungri konu sem ég er að leiða gegnum sporin, hugsa sér hvað ég er heppin, en hvað á ég að fara skrifa, ég er bíða eftir hugljómuninni, hún er reyndar komin, en mig vantar kraftinn. En hann lætur bíða eftir sér af ákveðnum ástæðum, allt er í hendi guðs.

22 júní 2008

Sætastur

Ég sá loksins einn sætan á EM, Grosso, þarf samt að sjá hann aðeins betur, hélt annars með Spánverjum, sá loksins Torres, Fabregas og alla kappana. En ég dýrka vítaspyrnukeppnir enda vítaskytta í fjölskyldunni, sá besti af þeim öllum, Jökull I. Elísabetarson

Yndislegt líf

Þetta er svo yndislegt líf, sól og sjór, allt blátt og gult og skínandi, glitrandi, nóttin svo undrafögur. Og ljúf. Mamma kom í mat í gær og við borðuðum bóg, BÓG já. Og enn skín sólin, horfðum á fótbolta, mamma hélt með rússum og ég hollindingum. Svo kom Embla Karen til landsins í gær, hún hafði STÆKKAÐ, já heldur betur einsog faðir hennar segir, þau voru svo brún og sæt, og gaman að ná í þau til Keflavíkur, það er svo yndislegt að eiga svona fólk, takk, og hvenær kemur Mánabarnið í heimsókn, bráðum. Og ég er að fara á fund, labba útí góða veðrið, lá í smá þunglyndi en svo gerðist svoldið skrítið, já, en nú hringir síminn: Fyrirgefðu, ég er að reyna að ná í aðra konu. Ég er önnur kona. Er það önnur kona. Já, það er önnur kona. Annars sá ég soldið sætan mann í gær sem keyrði mig á KRvöllinn eftir að ég hafði verið að lesa uppá Lækjartorgi, ég meina ég er snillingur, ég fékk vitrun rétt fyrir upplesturinn að lesa einsog vélbyssa og það var frábært því það varð gjörningur í leiðinni. I am the best. Það stóð líka í skýrslunni.

21 júní 2008

Banaslys

Ég keyrði fram á hræðilegt bílflak í nótt, þetta var svo fallegur morgun og falleg nótt, sumarsólstöður í hámarki, fjöllin í fjólublárri móðu og sólin hátt á lofti, og þá sá ég þennan bíl ef bíl skyldi kalla, það var varla nokkuð eftir af honum, hræðilegt flak, og seinna frétti ég að 19 ára gamall ungur maður hefði látist í slysinu. Þetta er þyngra en tárum taki. Ekki keyra full. Ekki keyra of hratt.

Elskaðu lífið.

20 júní 2008

Faðmaðu sólina

Breiddu út faðminn og faðmaðu sólina, og spurðu dapra manninn á klettinum: Er ekki allt í lagi, og hann segir: Jú jú og vonar hann sé að segja satt, allavega það hafi opnast eitthvað í sál hans við að segja jú jú.

17 eldfjöll

Við búum í eldfjallalandi, það er alveg greinilegt, það sá ég á leiðinni í Flatey, þau voru svo falleg og ósnortin og í hópum, mörg saman, ég drap á bílnum.

19 júní 2008

Útkoman

Jú, héðan er allt gott að frétta, nema ég fæ alltaf sömu útkomuna og ég er farin að halda að þetta sé heilög útkoma og heimurinn hrynji ef ég fæ ekki sömu útkomuna.

*

Ég er að hugsa um að stofna kirkju utanum þessa útkomu og trúarbrögð og allt. Ég held að það sé auðveldara en hætta að fá þessa sömu útkomu, og ég veit ekki hvað yrði um mig, ef ég hætti að hugsa um útkomuna yfirleitt.

Ef þú hefur ekki heyrt um útkomuna ertu ekki í bata!!!!!! Ha ha ha.

*