29 desember 2009

Dreymandi fljót

Það er kalt úti og allt fýkur um allt og sjórinn kemur að landi með kaldar bylgjur, úfinn og ósofinn, mig vantar kuldaskó og hó hó, allt fýkur og allt er kalt, ég ætti að leggja mig, púff, steinsofna í hálftíma, líklegt, alltílagi að prófa, - og það væri soldið töff af ríkisstjórninni að einmitt núna að láta allar ár í friði á Íslandi, Skjálfandafljót, Þjórsá, - leyfa þeim að streyma og dreyma.

28 desember 2009

Fallegasta jólakveðjan

Garpur og Jökull komu um hádegi á aðfangadag til að segja gleðileg jól..... þeir voru svo fallegir, hátíðlegir, stríðnislegir, góðir og sætir, með jólasveinahúfur og svo myndarlegir og ótrúlega ævintýralegir, komu gangandi stíginn og inní eldhús og föðmuðu mig, og ég fór að hugsa um öll árin hér, öll jólin hér, allar útgáfurnar af okkur hér, jólaenglar og jólaást, ... þeir koma mér endalaust á óvart.

Kærleikssambandið

Vaknaði hálftólf og var að hugsa um konuna í lokaða herberginu, að ég hefði átt að gefa hana út, það er ekki alltaf að marka svefnrofurnar, svo hringdi síminn, ég ákvað að fara á fætur og fá mér kaffi áðuren ég ansaði, kærleikshugsun, því annars væri ég úti á þekju og ekki með á nótunum, hitaði mér kaffi, tók lyfin mín, á eftir að tannbursta mig, því síminn hringdi aftur þegar ég ætlaði að gera það, á eftir að taka lýsi og vítamín, tók samt af rúminu, þvottavélin ennþá biluð, en á aðfangadag kom maðurinn með skrúfuna. Kærleiksrík snjókorn svífa til jarðar, langar í sund og bankann en ekki búin að ákveða hvort ég fæ minn kærleiksríka súrefnisskammt í dag, las Ragnar í Smára í gær, merkilegur maður, soldið stíf lesning þótt bókin sé vel skrifuð, höfundurinn treður þessu soldið inní formið sitt, og lesandinn ég stundum soldið mikið að hugsa, já mikið er þetta smart hjá höfundinum, en Ragnar í Smára og Ólöf Nordal komast til skila, líka Jón Helgason. Já kærleikurinn, ég hef kærleiksfingur sem slá á lyklaborðið, en þessi sem hringdi vildi að ég gæfi út fleiri bænabækur. En þar á undan hringdi Garpur og spurði hvort Embla mætti gista. Lífið er dásamlegt og fínt að hafa þessi snjókorn.

27 desember 2009

Hvernig væri það?

Nú hellist hann yfir - einmanaleikinn, ég er alein heima að sjóða nautatungu og get ekki kveikt á kerti, ekkert kertaljós, hundaskítslykt ef ég opna út, og kuldi ískuldi, ekki að hringja í neinn, bara eiga bágt og vera einamana, svo eru jól og bók tilað hrökkva ofaní, ef ég spyr þennan einmanaleika, bið hann um upplýsingar;:

Ég: Kæri einmanaleiki? Afhverju kemur þú?

Einmanaleikinn: Ég átti ekki í önnur hús að venda.

Ég: Afhverju?

Einmanaleikinn: Ég vil ekki segja það.

Ég: Nú?

Einmanaleikinn: Ég skammast mín fyrir að vera til, ég á engin skartklæði.

Ég: Langar þig að heyra í einhverjum.

Einmanaleikinn: Ég vil frekar vera einmana.

Ég: Langar þig í kjól.

Einmanaleikinn: Það sér mig enginn.

Ég: Bara hafa það kósí.

Einmanaleikinn: Ég vil eignast mann.

Ég: Mann????

Einmanaleikinn: Já, sem hreyfir sig.

Ég: Það tekur nú tíma að ná sambandi við mann.

Einmanaleikinn: Já, þess vegna nenni ég því ekki.

Ég: En ef við segjum, allt fer vel, og vonum það besta.

Einmanaleikinn: Það er allt svo tómt eftir öll þessi skrif.

Ég: Tómleikinn getur verið góður.

Einmanaleikinn: Ég var bara að vekja athygli á honum.

Ég: Ég vil ekki viðurkenna að mig langi í mann, þá verð ég svo upptekin af honum. Að ég gleymi öllu öðru.

Einmanaleikinn: Hvernig væri það?

13 desember 2009

Bænahús Ellu Stínu - bænabók

í vikunni kemur út bænabók, Bænahús Ellu Stínu, - bókin er dýrgripur, skeytt ljósmyndum, blómamyndum, akrílmyndum og skiptist í fimm kafla:

1. Bænahúsið
2. Kærleikssambandið
3. Bænir
4. Þakkargjörðir
5. Andleg vakning

Fáðu þér bænabók

Takmarkað upplag

*

03 desember 2009

Reglurnar og lífið

Lífið snýst um að læra reglurnar, ... og líka nýju reglurnar og breytingar á reglunum, og svo er eitthvað sem þrengir sér í gegn og það er ekki reglan...

*

01 desember 2009

Stór spurning

Er búið að brjóta hana svo mikið niður að hún vill ekki koma út???

*

24 nóvember 2009

Bænahestar

já, ég sýndi þeim líka hestana, bænahestana, ... svo talaði ég við Lindu og það var þá sem Vilborg kom og mér er alveg sama hvað öðrum finnst um mig. (Sagði mjóróma rödd tilað sannfæra sjálfa sig.) En ég er ótrúlega guðdómlega þreytt, ef eitthvað þreytir mig þá eru það hugsanir, ég datt í gömlu gryfjuna, ég hlýt að hafa viljað það sjálf, hvað er ég að öðlast með gömlu gryfjunni og hvað er ég að forðast.

Ég forðast á taka ábyrgð á mínum störfum og vera prófessional.

Ég öðlast samúð, hluttekningu, allir fara blanda sér í mín mál, skipta sér af, segja mér skoðun sína og bjarga mér... hjálparvana mér.

Svo elsku bænahestur... ég sendi þig til hans með bæn.

Manneskjan er bæn, ákall.

Manneskjan er ein titrandi bæn, augun biðja: Má ég sjá eitthvað fallegt, eyrun vilja fá að heyra eitthvað fallegt, skinnið, hörundið: Má ég snerta eitthvað mjúkt tilað tosa í, og svoleiðis er manneskjan einsog bæn.

En ég er komin uppúr gryfjunni og farin að taka ábyrgðina á mínum málum.

Góða nótt kæru bænir. Og bænahestar.

23 nóvember 2009

Kærleikssambandið

Byrjaði aftur í dag... ég steikti folaldasnitsel handa mér með kartöflum frá Kolbrá, fór í bankann og á pósthúsið, hvortveggja mjög kærleiksríkt, ég hafði smá leikhús á pósthúsinu, hitti 2 rithöfunda Kristínu Ómars og Bjarna Bjarnason sem sýndu mér bækurnar sínar, fékk pening í bankanum, póstaði Aðalheiði, keypti símakort, hef ekki getað það í svona mánuð, hmmmm, getur það verið, ekki nógu kærleiksríkt! Fékk vatn á pósthúsinu, hringdi í lækninn, pantaði tíma, fékk tíma, hitti Friðgeir í bókabúðinni og Þórlind mjög gaman alltsaman og kærleiksríkt, hafði þar á undan sýnt mér alveg sérstakan kærleika og keypt mjólk, banana, perur, djús, abmjólk í búðinni, fékk poka, labbaði í bæinn, man ekki eftir að hafa séð kött, með rauða hanska, töskuna mína og í írsku úlpunni, leðurstígvélum, fín, sá kirkjugarðinn, suðurgötuna, stóra rauða húsið, stóra rauða húsið, stóra rauða húsið, skerandi sól, blindsól, ætlaði í prentsmiðju en komst að því að hún var í garðabæ....!! Engin prentsmiðja í miðbænum, hvað er að gerast. Hvar er kærleikurinn? Hringdi í synina. Góð. Vilborg kom í heimsókn, gaf henni te úr töfrakatlinum í stóra rauða húsinu, við töluðum og töluðum, góður dagur og kærleiksríkur, ég hugsaði um að gefa ekkert út, gefa ekki út, svo lagði ég mig og hugsaði, nei.... þetta er hjá guði, ég meika ekki að skrifa um þetta, en ég er búin að vera í útgáfukrísu. Kannski kemur einhver og slítur af mér handritið og setur það í prentsmiðju, aha ekki kærleiksríkt, svo ég bað fyrir þessu, dimmt, ein stjarna, símtöl, bað, sápubað, vatn, leggja sig í sófanum, allt svo kósí hjá mér, lífið svo dásamlegt vinir mínir.

15 nóvember 2009

*

Kærleikurinn er eina vitið.
*

14 nóvember 2009

Vá, ég er búin að vera þvílíkt fórnarlamb!!!

Ég er búin að vera fórnarlamb bókmenntaheimsins,
bænarinnar, heilsunnar, aldursins, peningaleysis, sjónvarpsleysis, ávarpsins guð blessi ísland, hrunsins, hæfileika minna, listaháskólans, tannlæknisins, tryggingastofnunar, hugsunarinnar, þreytunnar, þursabitsins, hússins, minnar erfiðu æsku, alkóhólisma, geðhvarfa, móðurhlutverksins, ömmu, flugfarþega, neytenda, aa-samtakanna, vináttunnar, leikhússins, vá hvað ég er búin að vera mikið fórnarlamb leikhússins, sýndarmennskunnar, skammarinnar, græðginnar, tímans, örlaganna, það verður aldrei neitt úr mér, lesenda minna, aðdáenda, umferðarinnar, og húðin er að breytast, þvílíkt fórnarlamb og sjónin, vá fórnarlamb, ég þarf að borga skatta og sjá fyrir mér þótt ég sé listamaður, ég er fórnarlamb listarinnar, þetta er eitt stórt samband sem ég er í....

og fórnarlamb fyrirlitningarinnar, dómhörkunnar, vantraustsins, skuldanna, lokaða símans, fórnarlambið fær þvílíkt KIKK útúr þvíað vera með lokaðan síma, bilaða þvottavél, og tóman ísskáp. Allt fyrir fórnarlambið!!!

12 nóvember 2009

Videókvöld hjá Zizou, Keano og Ellu Stínu

Í tilefni þess að Zizou og Keano eru að fara heim aftur á morgun ákvað ég að hafa videókvöld, við horfðum á spólu og fengum okkur nammi, hundanammi, kók, lakkrís og popp. Horfðum svo á Changing Lanes og ég táraðist.... TÁRAÐIST...

*

Zizou og Keano létu sér fátt um finnast þegar nammið var búið og steinsofnuðu og rétt rumskuðu við klappið mitt. Yndislegt kvöld.

Ella Stína sauð engirót

Ég sauð engifer-rót og bjó til heilsudrykk, yndislega rammt og með hunangi í. Ég er snillingur í að hugsa vel um sjálfa mig og hálfa mig. Svo sauð ég þorks, frosinn með kartöflum, hvorttveggja varla matur, en magafylli, verð að muna eftir lárviðarlaufunum.

10 nóvember 2009

Uppgötvun

Ég er sjúk í viðurkenningu af því ég kann ekki að taka á móti ást, - en áðan lagði ég mig.

Við hvern er ég að tala?

Ég treysti engum og enginn getur hjálpað mér og ég má ekki segja frá. Ég veit ekki hverju ég má ekki segja frá, ég er búin að gleyma því, það er eitthvað. Og enginn getur hjálpað mér því ég er svo rosalega spes og á svo rosalega bágt og er að sjóða egg og það skammdegi úti. En afhverju treysti ég engum, afhverju er ég að setja það á bloggið mitt, ef ég treysti engum, á örugglega eftir að stroka þetta út en sá sem engum treystir, hann deyr á ísnum. Eða ísnum, hann deyr inní sér, tærist upp og deyr, - deyr inní sér, fer í hringi inní sér, ég er með flökt, ég er svo þreytt, af því ég treysti engum, segi þetta við þennan og hitt við hinn og held að enginn elski mig en segist bara gera það. Spennandi, mig langar í mjólk. Og hvað er þetta sem enginn má vita, - að ég er á leiðinni út.

Ég ætla ekki að hanga inni lengur yfir þessari konu sem starir á vegginn, starir á gulan vegginn og er endalaust inní svefnherbergi og alltaf að skamma mig og alltaf að hafa áhyggjur af mér, og alltaf að toga í mig og alltaf að stjórna mér af því hún er svo hrædd um mig.

Hún getur orðið eftir inni. Ég kann ekkert á hlutina, ég blanda saman vatni og rafmagni, og er með bók undir hendinni sem heitir MYSELF í staðinn fyrir að bókin heiti MY MOTHER MY SELF.

Þetta kemur örugglega núna af því ég er búin að skrifa heilt handrit umað vera upptekin af föðurnum tilað fela hvað.... móðurina. Maður verður að treysta foreldrum sínum eða foreldrum sínum inní sér, við hvern er ég að tala?

09 nóvember 2009

Vetrarljóð

Veturinn er kominn
og sumarið er farið
yfir sæinn
og dvelur í draumi mínum.

*

Tjaldurinn

Við sáum tjald vappa í grasinu. Það var við Sólarlagsbraut. Hann flaug upp þegar við nálguðumst og flaug útá haf. Kann tjaldurinn að synda?

Viðkvæmni

Hundarnir eru búnir að kenna mér eitt, að ég er viðkvæm, ég sá það vegna þess hversu þeir eru viðkvæmir.

*

29 október 2009

Hjartað

Ég er að tala við þig, ég veit ekki hvað þetta er
en þetta er eitthvað alvöru búið til úr hafinu
og ekkert smávegis hafi heldur risastórum öldum
í hjartanu, hjartanu, hjartanu,hjartanu.

Og það færði mér heim sanninn um það
að stundum þekki ég ekki hjartað í mér
fyrren ég sé það í öðrum og þá langar mig

að ná því aftur.

Nokkur orð

Ég trúi því varla að ég hafi séð hann
svona einmana, trylltan og óttasleginn,

og ég hafi haft allt þetta í mér
og það sé hægt að vekja það upp

á augabragði.

Ljóð

Augu þín brenna
af einsemd og ótta
einsog augu mín

fyrir löngu

en þá dæmdi ég
sjálfa mig
fyrir að vera óttaslegin
og einmana

nú skil ég þig.

*

27 október 2009

Velkomin og sæt

Það væri nú gaman að vita hverjir eru alltaf að lesa þetta blogg, annars eruð þið öll velkomin og sæt.

Rauðu stafirnir

Halló, þetta er góður dagur, ég fór með hundana í labbitúr útað bekknum og nú er ég komin heim að skrifa, og það er svo góð útilykt af mér og yndislegt að vera til.

26 október 2009

Húsið -

1. Vantar þakrennur úr járni
2. Útidyramottu
3. Setja þrefalt gler
4. Mála þakið
5. Fóðra suma veggi
6. Gera við útidyrahurðina
7. Mála stigann
8. Mála nokkra ofna og hurðir
9. Nýjan ofn í stofuna
10. Hurð fyrir geymsluna

Listi yfir það sem vantar

Nú er nóvember skammdegið að bresta á, ég á eitt eða tvö kerti og vantar lak, hér er listi yfir það sem mig vantar:

1. Lak
2. Útidyramotta
3. Mynd af Emblu í ramma
4. Mynd af Jökli og Kristínu í ramma
5. Ljósaperur
6. Parmesean ost
7. Kjúklingabringur
8. Meira te
9. Ávexti
10. Þykkni
11. Að naglalakka mig
12. Þvottapoka
13. Gluggatjöld fyrir borðstofuna
14. Sápur
15. Sjampó
16. Að koma sjónvarpinu í lag
17. Kjöt í kjötsúpu, - á grænmetið
18. Kjötsúpupott
19. Borga hituveitureikninginn
20. Og símreikninginn
21. Buxur
22. Nærbuxur
23. Sykur
24. Efni tilað þrífa baðið
25. Stálull

25 október 2009

Ég er svo æðisleg kona....

*

fékk að heyra þetta frá ungum aðdáenda alveg óvænt. Vissi þetta auðvitað, það var bara svo gaman að heyra það, ég set það hér svo ég gleymi því ekki.

23 október 2009

Veit loksins til hvers karlmenn eru....

17 ára edrúafmæli jíbbí

Ég hef fengið að vera edrú í 17 ár.... í dag 23.október 2009. Þá eru 17 ár síðan ég fór í áfengismeðferð á Vífilsstöðum, fyrsta daginn fór ég útá stétt að reykja og labbaði svo útí grasið "skv. eðlisávísun" og fann felgulykil.

Ég elska edrúmennskuna mína, dásamlegur tími, stundum erfiður en hef farið allsgáð í gegn!

*

22 október 2009

Fréttir af rólegheitum

Ég er ennþá mjög róleg.

*

eða einsog töfradrottningin sagði: þú hefur í þér mikla ró.

21 október 2009

Rólegheitaprógrammið

Ég er í prógrammi í því að vera róleg, ég skrifa mjög rólega núna, tek til allt rólega, anda, hlusta, rólega, slakaðu á, slakaðu á og orkan kemur.

15 október 2009

Reykjavík - Madness

Slóðir maníu og þunglyndis í Reykjavík

Boðið verður uppá ferðir undir leiðsögn Elísabetar Jökulsdóttur um Reykjavík þarsem gestir fá að kynnast borginni með augum manneskju í maníu og er einhverstaðar pláss fyrir þunglyndið.

Í þessum ferðum þýðir Vonarstrætið von, von fyrir mannkynið, og ef farið er uppá Haðarstíg kemur í ljós að við göngum blindandi um heiminn en Höður var blindi ásinn í goðatrúnni.

Þannig verða göturnar þræddar með augum manneskju sem er rekin áfram af því að frelsa heiminn og ráða í dulda merkingu sem býr á bak við allt sem er.

Hvað þýðir Laugavegur.... raunverulega? Eða Sóleyjargata....?

Jafnvel umferðarskiltin, verslunarskiltin, .... hvar endar þessi ferð?

Skráið ykkur tímanlega!

*

13 október 2009

Að búa til kærleika

Ég, Zizou og Keano bjuggum til kærleika í göngutúrnum í dag, það var haustsól, gulnuð strá, farfuglar í undirbúningsvinnu, sjórinn skall að landi, einmana golfari að sveifla kylfunni sinni, skýjafar, mávager í kríuvarpi, grátt grjót og við að labba og búa til kærleika.

Viltu hlusta?

í dag hefur hrukkunum fjölgað, þær hafa breytt sér í strik, rauð strik, sérstaklega þetta sem lítur út fyrir að vera horn á enninu, - svo hef ég komist að því að ég get verið hrædd, ég þarf að útbúa umsókn fyrir starfslaun listamanna, og fara í bað, draga frá gluggatjöldin og svona ýmislegt, annars að fara í göngutúr með hundana og passa emblu, - svo er spurning hvort ég kíki inná drafnarstíg, ég er alltaf í þann veginn að skrifa bréf og segja hvað ég eigi bágt, er þetta þunglyndið, sveiflan í sálinni, af því ég er með geðhvörf, eða bara aumingjaskapur eða skapur aumingja, þetta eru ekki góðir dagar, best að sækja um á póstinum, annars ætlaði ég að strauja sængurfötin, og setja utanum sængina, hvar væri ég ef ég hefði ekki bloggið, þetta er ekki nógu hreint og beint, þori ekki að segja hlutina beint út, en mig vantar stuðning. eða hvort mig vantar bara að tala og einhver hlusti.

12 október 2009

Hrukkuþunglyndið

Ég er svo blönk, ég á ekki fyrir mat eða ljósaperum, búin að skrifa fimm handrit af ýmsu ljóð eða sögukyns en kem því ekki út, með viðvarandi þursabit, þetta er raunveruleikinn, eina sem heldur mér á floti eru fundir, sef of mikið en er þó að lesa eina bók: Unaccustomed earth eftir Jhumpa Leri og setti í þvottavél áðan og hengdi útúr annarri, þessi blankheit valda þunglyndi, en ég ætla sækja um hjá póstinum og svo klofnar hausinn á mér, - fara bera út póst, flytja útá land, og bíða eftir að einhver bjargi mér, - það er allt byrjað að síga og ég hugsa ekki um annað en elli og hrukkur, þetta er sennilega þunglyndi en ég sé hrukkur allstaðar á öllum.

05 október 2009

Oktoberkvöld

Lífið er dásamlegt og tunglið er fullt, það var tunglskin yfir öllu suðurlandi í kvöld, merlaði á fjöllin og þau urðu svo draugalega rómantísk í birtunni, svo sást Júpíter, (Júppí) og Karlsvagninn skínandi utanúr himingeimnum, þessum stóra stóra geim og mig langaði að kúra mig hjá einhverju fjalli og vera inní þögn landsins og sleikja soldið útum og ekki fara í bæinn.

En Jóhanna Líf gisti hér og fór á kostum, bjó til leikhús og heillaði alla uppúr skónum, við fórum í sund og útað borða, í bæinn og á kaffihús, og hún var svo skemmtilegur félagsskapur. Svo núna er tómt í kotinu. Ég keyrði hana til pabba síns sem var hjá Guðjóni pabba sínum og Jónu konu hans. Þar átti ég yndislegt kvöld, spjall og læri!!! En Guðjón átti afmæli svo það voru líka kökur og meðal annars heit eplakaka... namm namm. Og meira spjall, gaman gaman, að koma til þeirra og þar hitti ég Alexíu sem var sól og faðmlagasnillingur, og kemur um næstu helgi og gistir.

Svo hitti ég líka Gunnar Óla, Guðrúnu kærustuna hans og Önnu systir Gunnars og Kristjóns. Dásamlegt kvöld og kyrrð og stjörnur og ísbirnir við hvert fótmál í innkeyrslunni.

Svo brunaði ég í bæinn og í nótt koma norðurljós... hugsa ég.

28 september 2009

Afleiðingar 4

Barninu sem lenti í barnaperranum fannst það alltaf skulda heiminum eitthvað, tildæmis útskýringu á því sem hafði gerst.

Afleiðingar III

Barnið sem lenti í barnaperranum klæddi sig í stóra peysu, stórar buxur og stóra kápu sem það mundi ekki sjást hvað hafði gerst.

Afleiðingar II

Einu sinni var lítið barn sem lenti í barnaperra, afleiðingin varð sú að barnið varð að finna nýja leið, - já, því heimur þess hafði hrunið, - barnið fór samt ekki útúr heiminum eða raðaði honum uppá nýtt, ónei, það sagði við sjálft sig hvern dag í rústunum: Sjáðu, hvað þú hefur gert.

Mannréttindabrot!

Nú ætlar ríkið að hætta að moka Árneshrepp, þetta eru gróf mannréttindabrot.

*

Afleiðingar

Einu sinni var kona með vandamál, það var svo stórt að það náði yfir allan heiminn, gerði hann svartan og ósýnilegan og lét hann hristast og hvað eina. Konan greip til þess ráðs að minnka vandamálið niður í ekki neitt og stakk því í vasann, - það leystist samt voða lítið, heimurinn var áfram svartur, ósýnilegur og hristist og úr vasanum skriðu stöðugt svartar pöddur.

24 september 2009

Spurning

Kemur Lísbet á morgun?????????


*

23 september 2009

Kvöldheimsókn

Það kom yndislegt fólk í kvöldheimsókn sem hafði verið að spila körfubolta útá skólalóð, þau fengu sér Súper-klaka og voru sæt og yndislegt, þetta voru þau Jökull og Kristín.

*

Og ég átti edrúafmæli, 16 ár og ellefu mánuðir!!!!!!!!!

18 september 2009

Villigötur eða villilblóm

Ég er að skrifa sögu og veit ekki hvort ég er komin á villigötur, ég er núna voða mikið að láta söguna smella saman, og láta hana vera sögu, en í upphafi var hún svona minningabrot sem röðuðust eða ekki röðuðust saman, svo ég veit ekki hvort virkar, - en það merkilega vildi til að Akrafjallið varð fallegt í dag, það tók semsagt Akrafjallið aðeins fimmtíu ár að verða fallegt í mínum huga, það eru einmitt einhverjar svona skriður sem renna niður og mynda fjallið, engin svona sérstök saga í því, ... en mig klæjaði í fingurna að teikna það, og sé það fyrir mér aftur og aftur, ... já já já, lífið er yndislegt, og núna er dimmt úti, klukkan að verða tvö, ég svaf til tvö í dag svo þetta passar alltsaman, eldaði snitsel handa mér og sauð kartöflur, það sem ég dekra ekki við mig, kíkti til Jökuls sem var home alone með hundana og svo bara skrifað og skrifað og skrifað og verulega þurft að stappa í mig stálinu að kíkja ekki alltaf á Facebook. Hafði ömmu hjá mér og hlakka til að hitta vinkonu mína Helgu Luna sem er á kreiki í höfuðborginni og nú er allt mjög fínt hjá mér, og ætti ég ekki að fara í svona hjartatjékk einsog systkini mín, mér finnst samt nóg að vera alkóhólisma, geðhvörf og ýmislegt að ég sé ekki með neikvætt kólestról líka, - en svo stendur fyrir dyrum að láta gera við útidyrahurðina. Og mála hana svo hún verði ekki einsog í eyðibýli og kannski fæ ég að sjá hana Emblu Karen um helgina, yndi heimsins einsog hinar ömmustelpurnar mínar sem búa á Selfossi og koma vonandi bráðum að borða ísinn og segja ömmu sinni töfrasögur, og lífið er dásamlegt og Elísabet ætlar þú ekki að skríða í háttinn.

13 september 2009

Lífið er yndislegt

Og ég er að fara passa Emblu Karen í kvöld þá miklu töfradís og skemmtikrakka, svo kom endirinn á sögunni minni á fundi í gær, - þegar ég slaka á þá gerast undur og kraftaverk, stjörnur hrynja í lófann á mér, bull bull, ekki bull, jæja, ég ætla setja í vélina og fara í heimsókn og hvað á ég að koma með, eitthvað fallegt og yndislegur dagur.

07 september 2009

Ég skal bíða þín

Hann er sendur til mín
á nokkurra ára fresti
tilað veita mér vernd
og líf,

en ég bið alltaf um meira,
að hann komi með mér
í rúmið,

helst að hann verði þar alltaf
þótt ég myndi aldrei þola það,

svona flæki ég málin,

í staðinn fyrir að undrast
og þakka fyrir

og hugsa: Hver
skyldi senda hann?

*

05 september 2009

Saxófónninn

Hann breiddi úr teppinu
Opnaði nestiskörfuna
Blés í saxófóninn
Ég þurfti bara að vera sæt
Hann benti á Skjaldbreið
Og kýldi mig beint
Í andlitið sem var
Ekki lengur mitt
Ég hafði heldur ekki trúað
Að þetta væri mitt andlit
Ég var alltaf að reyna
Að sýna heiminum það.
Eða hvort ég reyndi
Að fela það fyrir heiminum
Eða fela heiminn
Sýna heiminn
Það var bara aldrei
Friður.

Svo það var gott
Að staðfesta það
Meðan blóðið lak
Niður Skjaldbreið
Marinn og bláan.

Og nestiskarfan tóm
Dúkurinn í kuðli
Saxófónninn,
Hvaða saxófónn.
Auðvitað, það er alltaf
Saxófónn.

03 september 2009

Ég veit að minnsta kosti hvað mig vantar

The most creative moment is the relaxing one, .... -

Mig vantar ró, ég er of spennt.

*

02 september 2009

Afi minn

Afi minn hélt uppá mig þótt ég væri stelpa. Honum fannst ég alveg frábær og yndisleg og stórkostleg og merkilegt undur hér á jörð. Hann elskaði mig svo mikið að hann veiktist þegar ég veiktist. Það er kannski meðvirkni, já sennilega er það meðvirkni. Og svo sýndi hann mér Ísland, Laugarvatn, Þingvelli og allt heila galleríið og þegar ég veiktist á geði keyrði hann mig útum allt í leit að skilaboðum, hann hélt kannski að það gæti hjálpað, enda hjálpaði það að vera með afa sínum en ekki ráfandi útá götu.

01 september 2009

Í höfðinu

Svo tók ég allt
af honum
og setti það í kistur.

Það var nóg
að hafa hann í höfðinu.

Þar gat ég alltaf
stjórnað honum

bara þessi nagandi ótti
að höfuðið klikkaði
einn daginn.

Vörðurinn

Ég gerði úr honum vörð,
lét hann hafa allar upplýsingar,
skjöl, albúm, bréf, nótur,
svo lét ég hann hafa vopnin
byssur, spjót, boga, sprengjur,
og bað hann að nota þetta
eftir þörfum
tilað halda mér
á mottunni.

Þráhyggja

Ég er að vona
að hann banki
og vilji komast aftur inn
sem þýðir að ég kemst
ekki út.

Yfirheyrslur

Ef hann gæti tekið mig
til fanga svo yfirheyrslurnar
gætu byrjað því ég er orðin
svo þreytt á mínum eigin
yfirheyrslum.

Draumur

Mig dreymdi að ég byggi á Valhöll og þar brann allt til kaldra kola, Björg Björnsdóttir var að skamma mig og mamma líka, svo fór ég að reyna bjarga einhverjum hlutum og vaknaði þegar ég var að bera tölvuna út.

31 ágúst 2009

Morgunljóð

Hann sagði mér
að hausinn á honum
væri tómur
svo ég tók hann
upp að hjarta mínu
þar var allt dauðhreinsað
eftir síðasta haus.


Hann sagðist aldrei
mundu gera það aftur
hann hafði bara misst stjórn.


Ég fékk það beint
framan í mig
en það var ekki neitt
aðeins merki.


Ég fór að hugsa um
Hvort ég ætti að hreyfa mig
Svona eða hinsegin
Til hægri eða vinstri
Hvort ég ætti að segja
Þetta eða hitt
Og hvort ég ætti að
Segja það svona eða hinsegin
Bara allt allt í lagi
Svo framarlega sem ég gerði
Engin mistök.

30 ágúst 2009

Andleg vakning

Ég sá það ekki
fyrren ég braut
niður veggina
að ég bjó
í klaustri.

*

Umkringd

Þá rennur upp fyrir mér ljós

að ég er á bersvæði

umkringd öllum

þessum mönnum.

Og eina leiðin út

er að kíkja í bæklinginn,

Ikea-bæklinginn.

*

Taugaáfall

Ég er að reyna að fá
taugaáfall

öðru vísi get ég ekki skilið

að ég stjórna ekki

heiminum.

*

Ástarljóð

Mig langar að yrkja ástarljóð
um venjulegan mann,

ekki fótboltamanninn sem rífur
kjaft við dómarann og er merki
um það villta í náttúrunni,

ekki skipstjórann sem stýrir
að landi sem hann á ekki,

ekki alkóhólistann sem ég ein
get sent í meðferð,

ekki fangann sem ég þarf
að frelsa úr fangelsinu,

eða innilokaða manninn
sem ég opna uppá gátt,

ekki manninn sem er nógu langt
í burtu tilað hægt sé að elska hann,

ekki manninn sem meiðir mig
svo ég geti fengið bernskuna mína aftur,

ekki rómantíkerinn sem bullar tóma
froðu og ég baða mig í,

ekki leikarann á sviðinu
svo ég fæ ofbirtu í augun,

ekki þennan sem vill breyta mér
í mömmu sína og vælir í mér,

ekki pabba minn sem á bjarga mér,
hlusta á mig, stjana við mig, dýrka mig,

leiða mig áfram einhverja leið
sem ég vil ekki fara

af því ég þykist vera blind og opna
augun bara þegar ég sé hann í hlutverkinu,

og ekki manninn sem ég get meitt
og tekið allt frá af því það er svo gott að meiða

á meðan finn ég ekki eigin sársauka,

ég á nefnilega engan sársauka
og sýningin gengur út á það,

sennilega finn ég ekki manninn
fyrren ég afsala mér heiminum mínum.

*

27 ágúst 2009

Sama sagan

Stundum endurtekur sama sagan sig og þá er það sagan sem skiptir máli, ekki endurtekningin....meira bullið í þér stundum Elísabet, meira yndislega bullum bullið í þér yndislega Elísabet.

18 ágúst 2009

Lífið á Framnesvegi

Embla Karen kom hér í gær og hélt tónleika fyrir tíu lukkutröll, litaði myndir, huggaði agnarsmáa gyðju og lét hana fara að sofa, gaf nokkrum leikföngum að borða, og trallaði um og gladdi hjarta ömmu sinnar. Svo í dag komu Zizou og Keano og voru hér allan daginn, við fórum í tvo göngutúra, annan út að Eiðistorgi, og þá var ég bara búin að drekka einn kaffibolla, jamm, og lífið var allsekki komið í gang en eftir göngutúrinn vissi ég hvað átti að gerast næst í sögunni minni, og það var dásamlegt.

Í seinna skiptið fórum við Sólvallagötuna og inní Hólavallakirkjugarð, þarsem við hittum leiksýningu í fullum skrúða, ég fékk kaffi og þeir aðdáun, Raggi frændi var samt smeykur, hélt ég væri með úlfa. Fórum svo í Hljómskálagarðinn þarsem þau veiddu nokkrar gæsir, endur og máva og tóku svoleiðis heljarstökkin tilað ná því.

Og nú er jazz í útvarpinu, áðan var viðtal við Lilla Berndsen þann mikla sómamann sem var nágranni okkar Garps og Jökuls á Ránargötunni og yndislegur. Því miður tapaði Víkingur, ég bara úff, þeir voru með unna stöðu. Óþolandi leiðinlegt.

Og af því ég átti ekkert í ísskápnum eldaði ég hrísgrjón, steikti egg með fullt af hvítlauk, sauð gulrófur og þetta var fullkomin máltíð. Zizou nagaði í sundur eitt lukkutröll. Mjög gaman hjá henni og Keano dáðist að. Svo slógust þau aðeins í stofunni, minnir alltaf á dans slagsmálin þeirra.

Blíbb.

Vissi ekki um stöðu sína

Loksins reyndi hún að finna útgönguleið, ánþess að vita af því, kannski hafði hún reynt það áður en þetta var ein af tilraunum hennar tilað komast út, ætlaði að fljóta út í ástinni en þá stoppaði geðveikin hana, en svo komst hún út í geðveikinni, var alltíeinu farin að frelsa heiminn og gera allskonar gloríur, eina leiðin tilað komast út var að verða geðveik, hún þekkti enga aðra leið, hún varð geðveik af öllum leiðum, líka ástinni.

13 ágúst 2009

Fór loksins út

Einu sinni var stelpa og þegar hún fór loksins út úr herberginu fór hún í bæinn og sparkaði í allt, tildæmis alla búðargluggana, borðin, ljósastaurana, bíla og bekki.

Veikleiki

Veikleiki minn er að halda í það sem er farið.

12 ágúst 2009

Eldsvoðinn

Og þegar að endingu hún fór fyrir rétt lýsti hún öllu mjög furðulega, sagði að það legið ís yfir öllu, sprungur í ísnum og sumar sprungurnar ófærar, tíðir jarðskjálftar og eldgos, myrkur og hún á náttfötunum að bjarga fjölskyldunni úr ægilegum eldsvoða.

Siðferðileg hetja

Ella Stína ásetti sér að verða siðferðileg hetja og segja aldrei frá ástandinu á bernskuheimili sínu enda gleymdi hún öllu mjög fljótlega.

10 ágúst 2009

Ég er of andleg.

Ég er orðin of andleg, allt í sambandi við mat og peninga, þe. sem snertir líkamann er mér ofviða, áðan þurfti ég skera banana útí súrmjólkina mína og það var þvílíkt starf, líka að hringja í endurskoðandann, tollstjórann og þessa aðila. Mér finnst ekkert mál að fara á fundi en ef ég þarf að fara í sund byrja viðræðurnar í höfðinu á mér. Ég verð að fara líta á sundið sem bænastund.

Ég vil fá að hlusta.

Í dag var ég að hugsa um að selja húsið mitt og hætta að skrifa og gera hvað? Ferðast, kaupa hús útá landi, byrja að leika eða dansa eða lesa. Aumingja litla bloggsíðan mín eða flytja á Selfoss þarsem sægur af ömmustelpum eru til húsa. Fór í sund og synti 20 ferðir í dag og í gær, tók til í geymslunni. Leiddi fund og fór svo með Huldu í labbitúr með Keano og Zizou, undursamlegt fallegt og logn logn, íslenskt logn, hver fann uppá þessu landi?

06 ágúst 2009

Vantar eina hugsun

Fór að sofa á miðnætti tilað vakna níu en vaknaði klukkan 14. eða tvö. Hvað er að gerast, afhverju er ég svona þreytt, eru þetta hómópatatöflurnar sem konan gaf mér tilað líkaminn myndi losa um áföll sem hún sagði hefðu fest sig þar. Ég steinsvaf allavega og vaknaði dauðþreytt og hélt áfram að sofa, ég er líka stanslaust að hugsa um bækurnar mínar, hvort ég eigi að taka frí, eða skattinn minn uppá hálfa miljón, plús sekt uppá aðra hálfa milljón, sjálfstraustið er ekki í lagi af því að hausinn er með of margar hugsanir.

29 júlí 2009

Fallegustu hundar í heimi


Þetta eru ömmuhundarnir mínir Zizou og Keano í eigu Jökuls og Kristínar, fyrstu hundar sem ég kynnist, undursamlegt að ganga með þá, ég gleymi öllu öðru, og get ekki hugsað um annað á meðan. Miklir persónuleikar.
Myndin er tekin útí Gróttu af ljósmyndara ÁMJ.

Bullaðu bara eitthvað: Ég er byrjuð að tala.

Svo fallegt tungumálið hennar Emblu Karenar, mig langar að eiga það á bandi. Ég fór í kyrrðarstund í Kristskirkju í hádeginu, orgel básúna og söngur.

13 júlí 2009

Sjálfshyggjan á bálið


Hér sést engillinn sem Elísabet breyttist í eftir að hafa kastað sjálfshyggjunni sinni á bálið. Einsog þið sjáið er hún í bleiku, angurvær og sterk, og hún er að drekka úr túrkísbláum bolla. (Myndirnar tók Hafdís Hrund en þetta er í fyrsta sinn sem Ekj tekst að setja myndir inná bloggið og hætta að væla í öðrum að gera það fyrir hana. En þær komu samt í öfugri röð en hva!!)





Hér er bálið sem nornin Elísabet kastaði sjálfshyggjunni sinni á. Konan með skallablettinn sem notar sjálfshyggjuna sem staf tilað styðjast við það er Elísabet. Hún uppgötvaði í þessum gjörningi að hún notar sjálfshyggjuna sem lurk tilað "lemja fólk með" og sem staf tilað styðjast við.




Hér sjáið þið nornina Elísabetu sem er á leið með sjálfshyggjuna á bálið. Hún hefur valið sér lurk í Kolgrafarvík á Ströndum þareð hún var búin að fá nóg af sjálfshyggjunni og allt þetta ég ég ég... ég á bágt, ég er feit, ég er edrú, ég þarf að keyra þessa vegi, ég þarf að fá mér tyggjó, ég þarf að anda, ég þarf að eiga bágt, ég þarf að vera í sokkum, allt þetta ég ég ég. Einn daginn í Trékyllisvík var hún tilbúin að kasta því á bálið og hefja nýtt líf. 5.júlí 2009






Góðan daginn, tæknin lætur ekki sér hæða.

Tilkynning

Bráðum kemur stórkostlegt blogg með myndum um sjálfshyggjuna. Þegar ég verð búin að læra að setja myndir inn. Takk fyrir.

Sófasaga

Konan í hálsinum fannst hálsinn merkilegur staður, svo merkilegur að hún lagði sig í sófann og hugsaði um það.

Alvarleg veiki

Einu sinni var kona sem var alltaf að reyna að stjórna og þegar það tókst ekki reyndi hún enn meira að stjórna og þegar það tókst ekki heldur tók hún bláu pillurnar sínar... virkilega gott stjórntæki. Og þá fyrst sást að konan var veik, að stjórnsemi getur verið veiki.

Um stjórnun

Sumt fólk er alltaf að reyna stjórna manni, það notar allskonar ráð til þess, hrós, áhyggjur, hótanir, beitir öðru fólki fyrir sig, peninga, það er alltaf að reyna að stjórna og ef það stjórnar heldur það að það sé ekki veikt, segir sumsé: Fyrst ég get stjórnað öðrum er ég ekki veik.

Kok og kúgun

Konan í hálsinum flutti enn lengra, hún flutti niður í kok en það er þar sem kúgunartækið býr, það sem lætur mann kúgast.

Konan með hálsinn

Einu sinni var kona með háls, í hálsinum geymdi hún ýmislegt einsog peningaveskið sitt, minnisbókina, gleraugun, og sólhlífina. Einu sinni þurfti hún að skúra eldhúsgólfið og það var verulega sárt. Það var þó bót í máli að verið var að leika Hvíta máva í útvarpinu.

Ömmuhelgi

Embla Karen gisti um helgina í fyrsta sinn og kenndi ömmu sinni mikilvæga lexíu. Hún lá í rúminu sínu og var að æfa sig að halda á snuðinu með tánum!!! Þegar það tókst klappaði hún en þegar það mistókst reyndi hún aftur.... Alveg í algleymi æfingarinnar.

En það var yndislegt að heyra andardráttinn hennar á Framnesvegi um nótt og vakna svo um morgun og fara og tína blóm og elta kisur. Svo spilaði hún á píanóið og sagði Gakur sem hlýtur að túlkast sem Garpur og mamma. Annars á hún sitt eigið gullfallega tungumál sem streymir tildæmis fram þegar hún talar í síma við einhvern greinilega mikinn vin hennar.

Svo í kvöld passaði ég Zizou og Keanó og við fórum í göngutúr útí Gróttu!!! Það var yndislegt og veðrið með ólíkindum. Þau voru svo sæt og forvitin, svo öguð og lífsglöð, - munaði engu að þau veiddu spóa í matinn og grilluðu hann á teini.

Ég sagði þeim að mófuglar og spófuglar á Íslandi væru háheilagir en þau skildu það ekki, þau sáu bara grill-spóann á hlaupum fyrir framan þau og ég átti fullt í fangi með að halda þeim. Svo stilltu þau sér upp fyrir ljósmyndara. Svo þetta var algjör dásamleg ömmuhelgi.

11 júlí 2009

Kristín 25 ára!!!

Kristín Arna konan hans Jökuls á afmæli í dag hún er snillingur og getur séð lífið beint framundan. Hún er 25 ára fögur blómarós og hefur vísindalega sýn á lífið. Til hamingju Kristín.

Ella Stína kakali

Ég var að koma úr Reykholti, alveg búin á því, ég er að fatta að það er eitt sem ég þarf að nota og það er sjálfstraustið mitt, ekki það að mig vanti sjálftraust, heldur nota ég það ekki alltaf.

08 júlí 2009

Jóhanna Engilráð

Ég var í skírn í Trékyllisvík, Hrafn bróðir minn og Elín kona hans skírðu litla barnið sitt, það hlaut nafnið Jóhanna Engilráð, ... sterkt og hugljúft nafn. Barnið ómótstæðilegt og forvitnilegt, veislan unaðsleg í þoku sem sveipaði allt dulúð. Þeim tókst að ná saman bróðurpartinum af fjölskyldunni alla leið norður og héldu fallegar ræður og svo kyrjuðum við meiraðsegja kærleikann. Allir í sveitinni komu í veisluna og börnin sáu um skemmtiatriðin, - á eftir fórum við í Krossneslaugina þarsem öldurnar sleikja fjórða vegginn og um kvöldið var brenna og tveir bálkestir, annar til að grilla sykurpúðana, hinn tilað loga glatt.

Söngur Emblu Karenar

Ég var að passa Emblu Karen í gær og söng allar vísurnar og svo byrjaði hún að syngja la la la la la la la....

Taktu inn

Hvernig laufið bærist í golunni, hljóðið í lyklaborðinu þegar fingurnir þjóta yfir það, og bakkspeisið.

Veit ekki svörin

Ég hitti gamla kennarann minn úti á götu um daginn og spurði hvernig karakter ég hefði verið:Það var ekki hægt að kvarta undan þér sagði hann. Þið voruð tvær sem hétuð Elísabet. Mér fannst þetta ekki nógu krassandi svar en bætti við að pabbi og mamma hefðu verið nýskilin, og ég hefði verið lögð í einelti í bekknum. Já, sagði gamli kennarinn minn og horfði þessum blíðlegu augum sínum útí loftið, ég vissi ekkert af því. Við vissum ekki alltaf svörin. Mér fannst þetta svo flott hjá honum að viðurkenna það.

Svo hitti ég unga stúlku sama dag sem hafði verið að segja kærastanum sínum upp og var á algeru óvissusvæði, nú veit ég ekkert hvað gerist, sagði hún, ég veit ekki svörin.

Þarsem ég var búin að heyra sama frasann tvisvar sama dag fór hjátrúin að gera vart við sig, nú gæti eitthvað hræðilegt gerst fyrir mig en þegar ég fór að hugsa þetta betur sá ég að þetta átti best við í kærastamálum mínum: Ég hringi aldrei í einhvern sem ég er skotin í tilað bjóða honum á stefnumót af því ÉG VEIT EKKI SVARIÐ.

Góðar stundir.

06 júlí 2009

Taktu inn

Murrið í olíunni á pönnunni undir hrefnusteikinni, brakið í skornum lauknum, glamrið í pottlokinu þegr kartöflurnar sjóða, hvítu blómin í gylltum eldhúsglugganum sem vísar til hafs. Og rennandi vatn úr krananum.

Að taka inn lífið

Að taka inn lífið, taka inn blómin, vatnið, kertalogann, að taka inn allt lífið svo maður fái innsæi.

Ég sá litla stelpu með pabba sínum á bílaplaninu við Nóatún og hún sagði, sjáðu pabbi, pollur, en pabbinn var að flýta sér og þau horfðu ekkert í pollinn en í honum speglaðist himinninn og svo var soldið skítugur. En pollur sem hún greinilega tók inn. Eða veitti athygli. Tók inn, útilokaði ekki, hafnaði ekki.

Ég lærði þetta á bekknum hjá Erni í dag, þessi þráláti verkur í þriðja auganu, einsog einhverju sé stungið inn og hrært. Allt lokaðist. Svo prófaði ég að taka inn, nuddstofuna, sporthúsið, kópavoginn, ég lærði þetta af Trékyllisvík sem sagði við mig: Elísabet, geturðu ekki tekið mig einsog ég er, gleymt því að ég er að fara í eyði, eða fara ekki í eyði, og séð mig einsog ég er, dregið mig inní þig. Takk.

Góða ferð.

Farið hefur fé betra

já, ég bloggaði hér um daginn að maður væri heilbrigður á milli maníukasta, þvílík gleðitíðindi, en, það er eitt en, að ég hef látið það eftir mér að verða hrædd við maníuna á milli, eða þunglyndið, og ég var að hugsa um það þegar menn detta ofanaf húsþaki eða eru næstum drukknaðir, keyra útaf, þá geta þeir orðið hræddir við húsþök, vatn eða vegi, ég er alltaf hrædd við að fara í maníu og hræðslan truflar venjulegt líf. Hér koma nokkur ráð í því sambandi:

1. Taka utan um sjálfan sig og segja: Æ, æ, æ, veiktistu skinnið mitt, svona svona þetta verður allt í lagi, ég skil að þú hefur orðið hrædd. Það er svo vont og sárt að veikjast svona.

(Ef maður getur ekki tekið utanum sjálfan sig er gott að fá einhvern annan til þess.)

2. Segja við sjálfan sig: Hvað með það þótt maður fari í maníu, þú lifðir þetta af, þótt þú finnir byrjunareinkennin geturðu leitað hjálpar.

3. Ef þetta dugar ekki segir maður: Farið hefur fé betra!

En það er semsagt betra að nota þessi ráð heldur en að láta hræðsluna ná tökum á sér "á milli".

Góðar stundir.

02 júlí 2009

Hún var greind með fórnarlamb

Ég gúgglaði geðhvörf eða bipolar 1 einsog ég er haldin. Einkennin eru sveiflur, háar hugmyndir, minnkaður svefn, og svo framvegis. Þetta kannaðist ég vel við og fékk síðast svona maníu fyrir tíu árum. En svo stóð eitt í viðbót: Fólk er heilbrigt á milli.

Heilbrigt á milli!!!

Ég er búin að vera tvo daga að jafna mig, eða þeas. fórnarlambið í mér því er ég er haldin af fórnarlambi þótt ég hafi ekki verið greind með það. Það verða virkileg framför í læknavísindum þegar fólk fer að greinast með fórnarlamb.

Styrkur

Reyndu að koma auga á styrkleika í fari annarra, það gefur styrk.

Heimsóknir

Í dag kom Zizou og Keano, Embla Karen, Garpur og Jökull í heimsókn, ég fílaði mig einsog alvöru mömmu og ömmu af því ég átti harðfisk og kókómjólk, og svo kom Linda í heimsókn og ég fílaði mig einsog alvöru vinkonu af því ég átti kanelkringlu með smjöri handa henni.

Fullkomleiki

Það er ekki bara ég sem verð að vera fullkomin, kærastinn minn verður líka að vera fullkominn.

01 júlí 2009

Konan síðan í gær

Ég hef ekki drukkið gos í fimm daga. Ótrúlegt en satt.

Hvar í andanum hefur þú verið?

Ert þú konan síðan í gær?

30 júní 2009

Ella Stína Jackson og Michael Jökulsdóttir

Ég er búin að lesa allt um Michael Jackson uppá síðkastið nema ég stillti mig um að hlusta á síðasta samtalið en stóðst ekki mátið að kíkja á síðustu myndina af honum en bað svo guð fyrirgefningar á þessari óþarfa hnýsni. En ég er búin að bjóða börnunum hans að koma hingað á Framnesveg í fóstur ef þau vilja, þau mundu örugglega kunna vel við sig, þó veit ég ekki með garðinn, þau mundu kannski slá hann fyrir fósturmömmu sína, og ég bíð spennt eftir að heyra um nýju lögin, en eftir öllu þessu að dæma virðist maðurinn hafa verið alkóhólisti ogeða fíkill, og dauði hans slys. En alkóhólistar lenda einmitt mjög oft í slysum, fjölskyldan ætlaði að svipta hann forræði og koma honum í meðferð en það tókst ekki, kannski hefði verið hægt að bjarga lífi hans, svo hefur hann örugglega verið skíthræddur við yfirvofandi tónleika en ég kannast við það, ef ég hef ekki komið fram lengi finn ég miljón ástæður tilað sleppa því, eða ef ég hef ekki selt bækur lengi, einsog ég hef ekki selt bækur í tvö ár og verið ógeðslega blönk en í gær fór ég og seldi bækur og það var mjög gaman að hitta fólk og heyra allskonar setningar sem hrutu af vörum þess, og selja bókina, - en það sem ég ætlaði að segja útaf því að það átti að svipta Michael forræði að ég var einu sinni svipt forræði og sett inná Klepp, þá var ég tvítug og hafði lent í tveimur áföllum sem virtust kalla fram sjúkdóminn geðhvörf, maníu nánar tiltekið þarsem ég gekk um göturnar í kyrtli og fannst ég vera Jesú og ætti að frelsa heiminn en mamma vildi ekki láta frelsa heiminn svo hún setti mig inná Klepp og það bjargaði örugglega lífi mínu, annars hefði ég getað lent í slysi.

29 júní 2009

Já, ég veit það

Í hvert skipti sem einhver segir við mig:Þú ert svo mikið fórnarlamb, - það er reyndar bara einn maður sem segir það við mig, Garpur sonur minn, þá tek ég heilshugar undir það og segi: Já, ég veit það, ég er svo mikið fórnarlamb.

Pytturinn

Fórnarlambið var fast í pytti sem örlögin, - eða bensínafgreiðslumaðurinn höfðu skapað því, og kannski bara bensíntankurinn því afgreiðslumennirnir sjást ekki lengur.

28 júní 2009

Hvernig má þekkja fórnarlambið?

Fórnarlambið ber sig yfirleitt mjög mannalega, það er að leita að smugu!

Regla fórnarlambsins

Fórnarlambið þarf ekki að fara eftir reglum.

Það er bara ein regla í lífi fórnarlambsins: Ég á bágt.

Og það er ekki regla.

Fórnarlambið "hlýðir" samt þessari reglu,

og "refsar" þeim sem brjóta hana.

*

Gróði og tap fórnarlambsins

Hvað er fórnarlambið að forðast með því að leika fórnarlamb?

Og hvað ávinnur það sér með því að leika fórnarlamb?

STÓRU SPURNINGARNAR::::

Fórnarlambið forðast ábyrgð, ... að taka ábyrgð á tilfinningum sínum, það verður sárt en ekki reitt.

Og það ávinnur sér virðingu fyrir að útmá sjálft sig og taka þátt í leiknum með öllum hinum fórnarlömbunum.

Fimm viðhorf fórnarlambsins

1. Þarf ekki að vera heiðarlegt. (Það á svo bágt.)

2. Þarf ekki að veita öðrum athygli. (Það getur það ekki.)

3. Þarf ekki að sýna hlýju. (Því er svo kalt.)

4. Þarf ekki að taka ábyrgð á að fullorðnast. (Það átti svo erfiða æsku.)

5. Þarf ekki að vera spontant. (Það gæti komist upp um það og þessvegna hugsar það frammí rauðan dauðann.)

Skoðum þetta nánar:

Á fórnarlambið bágt? Er það getulaust? Er því kalt? Átti það erfiða æsku? Getur komist upp um það? Þarf það að hugsa?

Nei, ekkert af þessu stenst. ÞETTA ERU ALLT BLEKKINGAR.

*

Og fyrir þá sem hafa ekki vit á raunveruleikanum þá eru blekkingar hluti af raunveruleikanum, þær standa ekki ofan við eða til hliðar við raunveruleikann, þær eru partur af honum.

Eftir öllu þessu að dæma lifir fórnarlambið stórkostlegu lífi (þrælskipulögðu og útsmognu) svo það er engin ástæða tilað hætta að vera fórnarlamb. Eða hvað, framhald í næsta bloggi.

Viðhorf fórnarlambsins

Tilfinningar byggjast á viðhorfum svo það er spennandi að athuga í þessari smásjárrannsókn hvaða viðhorf fórnarlambið hefur til lífsins, það vill tildæmis láta standa stórum stöfum: FÓRNARLAMB. F-Ó-R-N-A-R-L-A-M-B.

Fórnarlambsskoðun

Ég hef beðið guð um að leyfa mér að sjá fórnarlambið í sjálfri mér. Þetta er mjög erfitt blogg, ég strika út hverja setninguna á fætur annarri, fórnarlambið vill ekkert láta sjást, það vill bara vera hresst og yfirborðskennt, ég meina er það bannað, og sýnast gáfað og skemmtilegt, það vill ekki vera að væla á bloggsíðum heimsins, þá gæti komist upp um það og það misst öll völd. Svo ég veit ekki hvað ég á að skrifa. FÓRNARLAMBIÐ!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Heyrt á kaffihúsi

Það er bannað að veiða í hafi gleymskunnar...

27 júní 2009

Nefið

Ég fór í fegrunaraðgerð í dag, ég komst loks að, biðlistinn var víst mjög langur, ég byrjaði á því að láta laga á mér nefið.

26 júní 2009

Salt frá Enkeladusi

Á Enkeladus einu af tunglum Satúrnusar hefur nú fundist salt sem bendir til lífs eða að það geti þróast. Þetta minnir mig á saltkrúsina sem ég erfði frá afa og ömmu á Reynimel, hún er hvít úr postulíni með tréloki og bláu blómi. Þegar ég var lítil þá var þar örugglega salt frá Enkeladusi.

Söngur er heillaráð

Ætlaði bara að minna á það að þegar maður byrjar að hugsa er heillaráð að syngja.

Michael Jackson dáinn...

En fallega tónlistin hans lifir, algjört undrabarn og villingur og meistari sveiflunnar, tónlistin hans svo ...........klikkuð og falleg, og maður verður að DANSA!!!

If you aint got the swing, it aint mean a thing!!!!!!!!!!!!

Það var annað undrabarn hann Garpur sem kynnti mig fyrir Jackson og bræddi niður fordómana. Nú er ég að spila BILLY JEAN.

25 júní 2009

Sturlunga er gamansaga

Ég er að lesa Sturlungu, ég ákvað nú að taka þetta létt, ég var orðin svo leið á öllum þessum körlum sem segja: ÞAÐ ER VOÐALEGA ERFITT AÐ KOMAST INNÍ STURLUNGU. Svo ég les hana bara einsog hverja aðra bók, og þegar ég var komin að fjórtánda húskarlavíginu uppgötvaði ég að þetta hljóta að vera gamansögur.

Og meiraðsegja eftir voðaatburðinn: Flugumýrarbrennu þarsem Gizzur faldi sig í sýrukerinu, þar segir: Það var kalt í sýrunni.

Ha ha ha ha ha...

Ég heyri hlátrasköllin í samtíðafólki mínu á landnámsöld... "kalt í sýrunni...." ha ha ha.

Jarðskjálfti

Það kom jarðskjálfti þegar ég var uppí rúmi að lesa Sturlungu, ég hugsaði: hvað er að gerast, og hélt áfram að lesa Sturlungu.

24 júní 2009

Mömmuröskun eða mótstöðuþrjóskuröskun

Þegar ég fór í Listaháskólann ákvað ég að ganga bekkjarfélögum mínum ekki í móðurstað en það hafði ég reynt frá barnsaldri, ég gekk foreldrum mínum í móðurstað (þau tóku að vísu ekki eftir því) bræðrum mínum, litlusystur, afa mínum, Íslandi, manninum mínum fyrrverandi og auðvitað reyndi ég að ganga s0num mínum í móðurstað....bíddu þessi var lúmskur!!!

Hlutverkið var að fara með mig þegar ég byrjaði í skólanum en ég var að velta því fyrir mér áðan hvaða hlutverk hafi tekið við, hvort það hafi semsagt verið mótstöðuþrjóskuröskun, eða hvers vegna fékk ég 6.0 í meðaleinkunn, sennilega af því ég er snillingur og rekst ekki í svona meðalmennskustofnun.

Ég var að hugsa um þetta á leiðinni úr sundi, eða í sund, því ég er alltaf að hugsa um að mig langar svo að kaupa heilu kassana af grillmat og gefa sonum mínum og tengdadætrum, alltaf að hugsa um að passa barnabarnið, hundana, og eitthvað fleira, vera góð, næs, skemmtileg, næs,áhugasöm og vitur með ráð við öllu á hverjum fingri. (Ég gat ekki einusinni gefið tengdadóttur minni almennilegt ráð með að steikja læri þótt ég hafi steikt hundrað læri.) Og þá fékk ég alvarlegt tilfelli af mömmuröskun þegar ég sms-aði syni mínum eftir jafnteflisleik: Hlakka tilað heyra um leikinn!!! En draumurinn um grillmatinn virkar ekki nú um stundir, í fyrsta lagi á ég engan pening fyrir grillmat og í öðru lagi er ég ekki næs og vitur nema einn dag í einu og þá yfirleitt bara smá parta úr deginum.

Svo ég var að hugsa um að gerast mamma sjálfrar mín, (þótt ég eigi bestu mömmu í heimi) en ég var að hugsa svona mömmu sem segir, settu á þig bodylotion, kveiktu á reykelsi, fáðu þér vítamín, en þá mundi ég eftir einu: Ég er uppkomin, og þarf því ekki mömmu nema rétt svona að heyra í henni og hlusta á hana segja mér að ég sé með OF SÍTT HÁR. (Alvörumamma mín!)

Svo mömmuröskunin er dated, og mótstöðuþrjóskunin er líka dated... úr gildi... komin fram yfir síðasta söludag, - svo í hvaða hlutverki á ég að vera.

Kannski kærleikskrúttina, kynnast mér einn dag í einu, því ég er ég enn að kynnast sjálfri mér eða einsog frægt er orðið: Daginn sem hún kynntist sjálfri þér.

Hvenær kynntist þú Elísabetu?

Já, ég kynntist henni tildæmis í gær þegar hún bað guð um að taka frá sér allan hræðsluáróðurinn sem hrannast upp í höfðinu á henni og guð einn virðist geta tekið burt.

Ég á von að kynnast henni næst þegar hún sættir sig við að guð einn geti tekið þetta í burtu.

Annars er hún dásamleg manneskja. Jamm.

*

Því má bæta við að ég labbaði í sund, fór í pottinn, synti hálfan kílómeter, aftur í pott og á leiðinni heim fann ég fyrir hamingjuna. Frekar erfið sundferð!!! Þurfti á sundenglum að halda. Samt sá ég vatnið glitra á botninum einsog alltaf er svo fallegt. Og ég spurði guð í sambandi við hugsanir mínar sem gerðu árás í sundinu: Verður þetta alltaf svona. Guð svaraði engu, guð er svo leyndardómsfullt, annars er ég mjög þakklát, það virkar alltaf, en ég er með svona heila sem er einsog tunglið að því leyti að stundum er þakklætið minnkandi og stundum er þakklætið vaxandi.

Það getur gert mann soldið upptekin af sjálfum sér.

Þessvegna er ég að fara með stelpu í gegnum annað sporið. Fjúkkett!!!

Það minnir mig á að ég kynntist Elísabetu best þegar hún sætti sig við það að það að hjálpa öðrum hjálpar henni sjálfri jafnvel þótt hún þurfi að labba alla leið uppá Hverfisgötu.

HELJARSKINNIÐ.

23 júní 2009

Minn haus

Ég hallast að því að guð sé eina lausnin, allavega við mínum haus.

*

Þúsundasti gesturinn???

Virðist hafa brotist inní heimsveldið síðan 18.maí... samkvæmt mínu tímatali en best að vaska aðeins upp. Og niður.

22 júní 2009

Skap? Skap.

Skap. Ég þarf að skrifa aðeins um skap. Ég sá að Ómar Ragnarsson skrifar á móti þeim sem honum sýnist. Mér er alltaf ráðlagt að biðja fyrir öllum. Er það málið? Þetta er ekki alveg svona einfalt en ég er orðin soldið syfjuð svo meira á morgun um skap.

Ást á færibandi

Í dag er 22.júní og þetta er 44.færslan svo þetta er fimmtíu prósent árangur í bloggi, og takk fyrir öll kommentin. Biturleiki. Svítan í höfðinu á mér er uppbúin og galdranornin sem segir sögurnar er núna að hvetja mig tilað verða nunna. Nunna. Já og notaðu smjör á brauðið. Þetta er saga til næsta bæjar og enn er bjart og bráðum er Jónsmessa og þá gisti ég einusinni uppá fjalli með Þuru vinkonu minni, það rigndi um nóttina en útsýnið gott um morguninn og hvenær fer Breiðafjarðarferjan og mér er ekki alveg sama um allt en ætla að klára söguna. Bless og ást á færibandi.

Þerapía Elísabetar

Það var ótrúlega hressandi að færa aðeins til í bókaskápnum. Ég ætti kannski að opna þerapíu Elísabetar.... Farðu heim og breyttu í bókaskápnum. Fimm þúsund kall. Nei sjö.

Sundferð

Ég ætlaði bara í heitu pottana sem var ljúft tilað ná úr sér ljóðaþreytunni en synti svo líka 500 metra og það var yndislegt og lífið er yndislegt og fékk mér prótíndrykk þegar ég kom heim:

2 msk Mangoini úr sjö ávöxtum
1 mæliskeið Prótín með jarðaberjabragði
1 glas af nýkreistum appelsínusafa

Hristist í mixernum og súpist... glæsilegt!

Eitt fegursta hrósið

Kristín og Jökull komu hér um daginn og spurðu hvort ég ætlaði ekki að fá mér hund því einsog Kristín bætti við "væri ég svo góð með hunda".

Þreyta skáldsins; hafnanir og silfurskeiðar

Ég er ógeðslega þreytt, búin að yrkja 103 ljóð um Árneshrepp og veit ekki hvað ég á að gera við það. Á þessu ári á ég 20 ára bókarútgáfu afmæli en þá kom út ljóðabókin Dans í lokuðu herbergi. En viti menn, ég fékk starfslaun í þrjá mánuði sem hrekkur ansi skammt!!! Og þar að auki búin að fá eftirtaldar hafnanir:

Eina frá útgefandanum.
Eina frá Bókmenntasjóði.
Þrjár frá Prólógus.
Eina frá Borgarleikhúsinu.
Eina frá Rannís.

Og kannski einhverjar sem ég er búin að gleyma.

Þetta er nokkuð glæsilegt og vinur minn segir að bak við eitt silfurskeiðasett séu fimmtíu hafnanir enda brá mér nokkuð í brún að heyra að Árnastofnun vill nota textann úr Lásasmiðnum. Og svo vilja tvær konur fá mig tilað skrifa leikrit um konu. Engin borgun í hvorugu tilvikinu.

Samt sem áður kann ég ekki vel við svona aðsókn og aðdáun, betra væri að fá fleiri hafnanir því ég er að safna uppí silfurskeiðasettið.

Alheimsskipulagið

Ég var að koma, ég var í Trékyllisvík, braut upp mynstrið, hef farið þangað á sautján ára fresti, en nú liðu bara nokkrar vikur en ekki sautján ár, hvað gerist þegar alheimsskipulagið riðlast?

18 júní 2009

Uppsveifla?

Ég skrifaði hér um daginn um niðursveiflu, það er spurning hvort hún sé búin og uppsveifla tekin við, mér datt það í hug vegna þess að ég setti tónlist á fóninn í dag, fyrst Michael Jackson og núna La Hhasa.

Samkvæmt rannsóknum stóð niðursveiflan í tólf daga.

Yndislegur dagur

Þetta er búið að vera yndislegur dagur, (þeas. 17.júní) Í hádeginu komu Zizou og Keano í heimsókn í fyrsta sinn til ömmu sinnar og ég fattaði ekki einusinni að ég ætti kjúkling inní skáp handa þeim, en verð hér eftir að eiga harðfisk og auðvitað fullan frysti af frostpinnum handa Emblu Karen. Hundarnir rannsökuðu hér allt hátt og lágt og það var svo yndislegt að fá þá.

Svo orti ég tíu ljóð, setti í tvær þvottavélar, og þurfti aðeins að taka skoðun á tilfinningar mínar svo þær færu ekki með mig útí móa.

Um kvöldið fór ég á fund, það var yndislegt.

Hitti svo Garp og drakk með honum kakó og það var yndislegt. Lífið er yndislegt.

Og ég er svo þakklát.

17 júní 2009

Ástin er lógísk

Það er hausinn sem er órökréttur - einsog þegar ég heyrði "guð blessi ísland ræðuna" datt mér helst í hug að netið færi veg allrar veraldar. En hjartað er rökrétt, segir mamma, "ástin er lógísk" Ég man ekki afhverju mér datt þetta í hug í dag.

Í framhaldi af þessu minni ég á það sem stærðfræðingur sagði: að stærðfræði væri reiknuð með hjartanu.

*

Sökudólgarnir fundnir

Gott að hafa 17.júní, þá er hægt að finna sökudólgana og hengja þá á Austurvelli: Útrásarvíkingana.

Um þetta má lesa í ræðu Jóhönnu forsætisráðherra, annað eins samsafn af innantómum og ofnotuðum frösum er vandfundin, festa og samhugur, festa og samhugur... getur manneskjan ekki einu sinni sagt festuhugur eða "förum í samfesting"... svona rétt tilað fá okkur tilað líta uppúr mókinu.

16 júní 2009

Hið dulda samhengi tilverunnar

Skyldi vera samhengi á milli hrunsins og uppgöngu þjóðarinnar á Hvannadalshnjúk??

Ronald 1 árs

Ég fór í sund í gær og vann í ljóðahandriti, hitti Erlu í pottinum, hún er svo skemmtileg, synti hálfan kílómeter og er með verk í sinunum í dag, ég er með svo skakka fætur og skakkt hjarta, fékk mér kjúklíng úr Melabúðinni svo svöng eftir sundið, labbaði heim og fór að yrkja nokkur dásamleg ljóð. Vaskaði upp og setti í þvottavélina. Bauðst að lesa upp ljóð á skákmóti norður í Djúpuvík en verð að afþakka það nema einhver sé á leiðinni sama dag, ég get ekki alltaf verið á ferðinni eða get ég það?

Karl Ágúst og Sunna eru að gifta sig í dag, hann er skólabróðir minn úr LHÍ og þau halda mikið brúðkaup og eru sæt og yndisleg. Tilhamingju.

Ronni er 1 árs í dag!!! Ronald Mánason en Máni er sonur Hrafns og uppáhaldsfrændi minn og líka pabbi Aþenu. Ronni er algjör húmoristi og flottur karakter og sætur. TIL HAMINGJU RONNI.

14 júní 2009

Kveðjur frá Kvöld-stelpunni

Sko, svo er alltaf sagt: Það fólk hefur guðsgáfu og englarödd og er svo himinhrópandi heppið sem vaknar á MORGNANA svo glatt og kátt, - en það er aldrei talað vel um það fólk sem getur ekki farið að sofa á kvöldin af því það hefur þessa náðargáfu að þykja lífið svo yndislegt að það getur varla hugsað sér að fara að sofa á kvöldin.

Það er mornga-dýrkun í þessu samfélaginu.

Bestu kveðjur frá Kvöld-stelpunni.

Hugleiðingar á sunnudagshádegi

Afhverju má maður ekki vera í smá þunglyndi á morgnana og hugsa lífið er búið og það er eitthvað að mér og ég er komin með þetta eða hitt sem er að mér og best að sofa aðeins lengur, en á kvöldin þá gæti ég alltaf vakað lengur og ort frameftir og allt svo yndislegt og ekkert að mér.

Ég tek þrjár líþíumtöflur á kvöldin og tvær á morgnana, ég ætti kannski að svissa skammtinum, eða breyta um svefnherbergi.

En það er eitt merkilegt í þessu, hvað þessar "raddir" eru sannfærandi, röddin sem vill ákaft yrkja frameftir og hin sem vill sofa frameftir.

Fréttir af Framnesveginum

Í dag keyrðu hundrað bílar framhjá húsinu mínu eftir Hringbrautinni.

Í gær birtist jarðýta í garðinum og byrjaði að grafa fyrir drein í næsta garði.

Í dag er skólaleikvöllurinn tómur enda sunnudagsmorgun.

Í dag eru fuglarnir hljóðir enda rigning.

Í dag hef ég engan séð labba framhjá húsinu mínu.

Í dag bærast laufblöðin á trénu fyrir utan gluggann ofurhægt og á þeim er regndropi.

Í dag sé ég manneskju í bláum jakka á umferðarljósunum með hund.

Í dag þarf ég að fara útí skúr á næstu lóð og ná í þvottinn og hengja upp.

13 júní 2009

Hollywood

Ég man hvað ég varð leið þegar allt þetta 2000 byrjaði og það var ekki lengur 1956 eða 1985 eða nítjánhundruð eitthvað. Þetta gekk yfir á einhverjum tíma en ég semsagt saknaði tuttugustu aldarinnar, hún var horfin í aldanna skaut... 19oo og eitthvað búið og ég saknaði þess og ég man ekki eftir neinni umræðu um þetta, enginn virtist sakna þess einsog ég, allavega var ekki talað um það... svo leið þetta hjá, lífið hélt áfram, af því núna er ég er í 50 ára krísu og finnst ómögulegt að ég verði fimmtíu og eitthvað, 51 árs, og svo 52... og allt hitt sé búið, og svo dvel ég við þessar hugsanir einsog ég sé útí lautu með kakóbrúsu en þá er ég í sófanum að hugsa um þetta, ég 51 árs og eigi bara tíu ár eftir, þá sé allt búið, þetta er nottla allt í höfðinu á mér, ég fékk líka svona hugsanir þegar ég var tvítug og þrítug, ég spurði annan tvíburann sem varð 25 ára um daginn hvort hann fengi svona hugsanir en hann sagði ekki, ókei takk fyrir það, ég á svona vel heppnuð börn því þessar hugsanir eru bara dragbítar og það er sennilega bara þakklætið sem virkar á þetta, af því ég hef átt alveg stórkostlegt líf, miklu stórkostlegra en mig óraði nokkurn tíma fyrir en núna langar mig svo til Hollywood að verða uppgötvuð þar, ... kannski var það gamli æskudraumurinn, kannski ætti ég að fara til Hollywood, er það nokkuð vitlaust, eða kannski þarf ég að hugga manneskjuna sem kvaddi aldrei Hollywood draumuinn, ég trúi því ekki að ég sé að skrifa þetta, það er önnur manneskja byrjuð að skrifa í gegnum mig, þetta er ekki ég, ég vil allavega ekki viðurkenna það, já hún yfirgaf ritvöllinn og fór til Hollywood.

Ljóð

Ég sé að þessi rannsókn er ljóð.

Rannsókn

Ég ligg í sófanum og hugsa um líf mitt.

Ég sit við tölvuna og fletti fram aftur.

Ég fer fram í eldhús og gái hvort það sé eitthvað í ísskápnum.

Ég leggst inní litla herbergið og hugsa um líf mitt.

Ég slæ þrjár nótur á píanóið.

Ég kíki útum gluggann á gröfuna í garðinum.

Ég hugsa með mér að þetta sé allt ómögulegt og ég ætti að vera gera eitthvað annað.

12 júní 2009

Getgáta

Ég er sennilega einmana, mig langar að tala við einhvern eða öllu heldur heyra í einhverjum.

Sveifla

Sl. sunnudag varð ég vör við sveiflu niður á við, hún kom fram á mælum og hefur nú staðið í sex daga og ég er að fylgjast með hvort sveiflan fari uppá við.

Að rannsaka hrunið

Við erum hér í fílabeinsturni og höfum ekki orðið varir við neitt hrun, tjáði forstöðumaður Snorrastofu mér í gær þegar ég heimsótti Reykholt en þar er verið að rannsaka Sturlungaöldina í allri hennar dýrð, ágjarna höfðingja, útrás, leynimakk og hagsmunahjónabönd. Það eru áttahundruð ár síðan. Og þeir eru enn að rannsaka hrunið.

*

09 júní 2009

Brekkur og sorg

Sko, einu sinni var ég að fara upp brekku, Eyrarhálsinn, og bíllinn var næstum farinn útaf, þung Saab-bifreið, eða ofaní foss. Kristjón sonur minn bjargaði lífi okkar með því að kenna mér að taka af stað í öðrum. En síðan - og það eru sextán ár síðan - hef ég verið hrædd við brekkur. Ég hef forðast brekkuna hjá gatnamótunum þarsem beygt er inná Loftleiðahótelið (sem er engin brekka) og brekkuna þarsem maður beygir í átt að Perlunni og tönkunum (sem er ekki mikil brekka og varla það) En svona keyrði ég um bæinn og forðaðist allar brekkur, lagði á mig óþarfa krók tilað forðast brekkur... en svona hafði þessi atburður farið með sálarlíf mitt, en svo tók ég mig á og sagði sjálfri mér ég kynni að keyra, ég yrði að treysta og nú fer ég þessar brekkur þótt ég myndi aldrei fara brekkuna frá Norðurfirði útað Krossnesi, það er ekki brekka heldur níutíu gráða halli, en svona geta atburðir sest að í sálarlífi manns og sest þar við stýrið svo ýmislegt fer framhjá manni og óttinn tekur völdin.

Þetta er einsog með dauða föður míns sem hefur tekið þrjátíu ár að syrgja, og nú gæti ég næstum gubbað yfir þessari sorg sem getur varla talist sorg heldur hefur stýrið einfaldlega fest.

*

Norðurljósin veita þjónustu í kvöld

Ef fólk sækir vöru og þjónustu beint til náttúrunnar, t.d. með því að horfa á
norðurljósin í stað þess að fara í bíó,

eða týnir villta sveppi í stað þess að kaupa ræktaða, þá
er eftirspurn heimilanna eftir vöru og þjónustu svarað
án þess að það valdi hreyfingu í
hagkerfinu.

(Stolið úr erindi ÓPJ)

08 júní 2009

Mánadís 9 ára

Helena Mánadís á afmæli í dag, hún er 9 ára í dag tra la la. Það er gaman að tala við hana, hún segir: Gættu þín. Hún er með fallegt hár og er tölvusnillingur. Hún er skemmtileg, ég hef ekki séð hana lengi, hún býr á Spáni, ég bý á Íslandi Við erum á fiðrildaveiðum. Púff fyrir óskina. Gleði fyrir kertaljósin níu og Mánadís ömmustelpa svo sérstök og fín.

Lóðin

Ég lyfti á hverjum degi í Trékyllisvík, ég hef ekkert lyft síðan ég kom heim, lóðin liggja bara þarna á ísbjarnarfeldinum.

07 júní 2009

Kíkið á þetta

http://skakhatid.blog.is/blog/skakhatid/


Minningarmót um Guðmund í Ávík haldið í Djúpuvík 20.júní nk.

Glæsileg verðlaun!


Ps. Djúpavík er næsti bær við Trékyllisvík ef þið viljið í leiðinni sjá hvar ég ól manninn í maí ásamt köttunum Kúrt, Óskari og Bernharð ofurköttum.

Krútt með tímanum

Til eru samtök sem heita Alanon sem er fyrir aðstandendur alkóhólista. Ég held það þurfi líka að stofna samtök fyrir þá sem eru aðstandendur aðstandenda. Þá yrðu allir krútt með tímanum.

Afmæli

Í dag á Unnur afmæli og í dag átti líka Nína Björk afmæli, í gær átti Hulda afmæli og á morgun á Helena Mánadís afmæli og hinn daginn á Gunnheiður afmæli en þess má líka geta að 1. júní átti Linda afmæli.

06 júní 2009

Embla Karen og Aþena

Embla Karen hitti Aþenu í dag og það tókst bara mjög vel, þær voru mjög sætar þótt Embla Karen væri auðvitað aðeins á varðbergi gagnvart svona stórum hundi, - svo var hún að fara að gista hjá Zizou og Keano í nótt! Hún er farin að gista þetta skott. Við Aþena hittum einmitt Zizou og Keano fyrir tilviljun í fjörunni þegar við fórum í labbitúr, - í þessu líka glaðasólskini. Svo komu tvíburarnir og tengdadætur mínar í læri, Aþena varð mjög glöð yfir þessu læri. Það er svo gott að hafa hana í húsinu að ég er strax byrjuð að sakna hennar. Hún er algjört knús. En það urðu reyndar allir glaðir yfir lærinu og það var svo gaman að hafa alla við borðið, það var yndislegt...

Botna ekki í þessu rugli!!???

Það er eitt sem ég skil ekki, - afhverju má ríkisstjórn vg og samfylk. skrifa undir að við ætlum að borga 650 milljarða og enginn mótmælir, - ef ríkisstjórn sjálfstæðisflokks, framsóknar eða samfylkingar hefði skrifað undir hefði allt orðið brjálað.

Ég er að hugsa um að fara ein og mótmæla.

Ég ætla líka að mótmæla vælinu...VÆLINU Í STEINGRÍMI OG JÓHÖNNU, "Erfitt að skrifa undir...."

Litlu greyin, á maður svo að vorkenna þeim líka!!!!!!!!!!!

Markið hálf slysalegt...

Ég fylgdist með landsleiknum á mbl.is þarsem komu útskýringar á mínútufresti hvað væri í gangi í leiknum, það var einhvernveginn svona:

Gott veður og margir áhorfendur í bláu.
1. Holland skorar
2. Holland skorar
3. Holland skorar
4. Holland á skot
5. Hollland á skot
6. Eiður Smári á sendingu en leikmenn ekki með á nótunum, hitta ekki boltann.
7. Holland á skot
8. Holland á hornspyrnu og aftur.
9. Brunaútsala fyrir framan íslenska markið.
10. Indriði á sendingu en sóknarmenn ekki með á nótunum.
11. Fjórir íslenskir leikmenn fá gula spjaldið, geta ekki verið með á móti Makedóníu.
12. Holland á skot.
13. ÍSLAND SKORAR .... markið hálf slysalegt!!!

Þetta voru ekki mín orð... en semsagt gul spjöld, misheppnaðar sendingar og hornspyrnur nema ein og þá slysalegt.

En skemmtilegast þótti mér þegar stóð í lýsingunni á 70. mínútu: Nokkur hópur áhorfenda hefur staðið upp og klappar saman lófunum. Skömmu síðar setjast þeir.

Landsleikur í níutíu setningum, I like it.

Áfram Ísland.

Kvörnin

Fíknin tekur sjálfstraustið mitt og malar það í kvörn svo það verður að dufti.

Jökull skoraði úr víti

Jökull tók eitt af sínum ástsælu vítum í leiknum á móti Leikni, skoraði með nettum glæsibrag og leikurinn fór 5-1 fyrir Víkingi. Ég fór með Kristínu og Ellý mömmu hennar og byrjaði að hrópa og kalla svo Víkingur myndi vinna leikinn en þá kom í ljós að við vorum Leiknismegin og þeir fóru eitthvað að setja útá mín hróp og köll og hótuðu að hringja í alla landasala í Jórufellinu (ég er enn ekki búin að ná þessum!!) Garpur sem var mættur á leikinn sagðist hafa reynt að þagga niðrí mér 25 ár og ekki tekist. Ég sagði ekki orð það sem eftir lifði leiks.

05 júní 2009

Hvernig á að fá knús?

Ég er búin að læra eitt af Aþenu, ef maður vill knús á maður að hnoða hausnum í magann á þeim sem maður vill knús frá. Virkar!

Ég hitti Zizou og Keano!!!

Zizou og Keano eru komin!!! Og ég sá þau í dag svo undur falleg og himnesk. Hundarnir sem hafa kennt mér svo margt um lífið og kennt mér að vera ekki hrædd við hunda og auk þess er ég amma þeirra. Og það er svo gott að þykja svona vænt um þau.

Ég og Aþena í sófunum

Ég lá í brúna sófanum og Aþena í bláa sófanum og þegar ég horfði á hana skynjaði ég að það var ekki bara hundur í sófanum og ég var ekki bara manneskja heldur vorum við tvær verur á jörðinni.

04 júní 2009

Guð eða Tuð?

Það er gott að vita hvenær guð er að tala við mann og hvenær tuð.

Tuð - segir tildæmis: Ég er að farast úr áhyggjum og mikið er þetta rosalegt og þetta er alveg svakalegt, ég á aldrei eftir að ná þessu, það eru örugglega allir brjálaðir útí mig og enginn þolir mig og ég er alltof feit og ég er viss um að það kemur eitthvað fyrir og ég get ekki verið að liggja og horfa á videóspólu þegar ég á eftir að gera svona margt.

Guð - segir tildæmis: Ég er yndisleg og stórkostleg og falleg og elskuleg manneskja, og ég hef bara ekki áhyggjur af neinu og þetta verður allt í lagi og þetta á eftir að ganga vel og það er svo gaman að vera pínulítið feit, oh sætur magi, og allt er í guðs höndum og ég geri mitt besta og lífið er svo yndislegt og hamingjan dettur af himnum í svona sætum litlum augnablikum.

Svo góðir gestir: Guð ... eða Tuð?

*

Ég var úti að SKOKKA með Aþenu

Endurtakist: Skokka, skokka, skokka í sólarlaginu.

Frænkuboð eða Nornaboð

Ég var að koma úr frænkuboði sem Unnur systir mín hélt, allar frænkurnar í föðurfjölskyldunni, það var alveg herlegt fjör og kræsingar og seiður aldanna, eða einsog ég sagði við Veru frænku mína Illugadóttur að þegar haldið væri svona kvennaboð þá sæi maður nottla nornina betur en ella, að við værum allar nornir, - já, sagði Vera, varst það ekki bara þú ein?

Óraunhæfar væntingar stóðust ekki

Þá er það komið á hreint, menn eru að horfa á hundinn ekki mig, -

03 júní 2009

Líf og dauði við Ástarbrautina

Ég og Aþena löbbuðum næstum útí Gróttu áðan, ég fékk rosaathygli, ég hugsa ég lendi á sjens mjög fljótlega ef þetta á vera svona alltaf, en við áttum frábæran göngutúr og hún hnusaði að öllu, við sáum æðarkolluhjón með tvo unga og ég fékk alveg fiðring í sálina, og svo voru önnur æðarkolluhjón með annan unga, og þá alltíeinu steypir sér svartbakur niður from nowhere og gleypir litla æðarungann í einum bita, oj, ég öskraði svoleiðis á hann helvítis aumingi!!! En hann sat á sjónum sporrennandi litla æðarunganum sem var nýkominn í heiminn og hafði augnabliki áður verið að spóka sig með foreldrum sínum á flauesbláum sjónum í sólskininu, ég ætlaði ekki að trúa þessu og aumingja æðarkollan grét hástöfum, hún hafði reynt að koma í veg fyrir þetta og ráðast á svartbakinn og stóð sig svo vel að ég hélt það hefði tekist þegar ég sá svartbakinn hefja sig til flugs með ungann í kjaftinum, hún teygði hálsinn upp aftur og aftur og grét kvark kvark kvark og svo komu hinir fuglarnir og reyndu að hugga hana með því að segja úa úa ú ú ú... en hún var óhuggandi... aumingja fuglinn - en þá gerðist svolítið skemmtilegt, sæljón, selur eða höfrungur var að leika listir sínar uppúr sjónum einsog honum var einum lagið og mér sýndist þau vera þrjú, selur, sæljón og höfrunugur, - það var skemmtilegt og ég lét huggast.

Aþena er komin

Ég er nú orðinn háæruverðugur hundahirðir og mun gæta Aþenu hans Mána í nokkra daga, hún er Rottweiler, falleg og blíð. Það er einsog æðri máttur sé með plan í gangi að láta mig strjúka og klappa og ég er ekki alveg að ná þessu, hvað guð er alltaf að ráðskast með mig en þetta ber greinilega vott um áhuga guðs á mér, annars fékk ég mér lambasteik á Hróa í gærkvöldi og hugsa kærleikur þegar tuðið í höfðinu byrjar.

02 júní 2009

Andlegur leiðtogi

Ef þjóðina vantar svona mikið andlegan leiðtoga þá er Ella Stína alltaf til, hún er alveg svona andlegur leiðtogi enda með hann í stjörnukortinu sínu, þar stendur víst: Sirkusstjóri!!!!!

01 júní 2009

Samræður mínar við guð

Guð er alltaf að segja mér, þú ert ekki guð, ég skal vera guð og ég er alltaf bara ha? Eða þá að ég svara engu en fæ bara í bakið.

*

31 maí 2009

Allt ómögulegt og MÖGULEGT

Í dag var ég meðvirk og með mígreni og allt ómögulegt og þannig er staðan enn. - klukkutíma síðar skrifaði skáldsnillingurinn og fegurðardísin Elísabet eftirfarandi blessunarorð: Sko, ég er nottla bara dreinuð, búin að yrkja 60 ljóð á nokkrum dögum, og svo gerði ég gjörning í Listaháskólanum við útskrift og notaði hvalbein úr Trékyllisvík, sló í gegn, og svo kom hún krúttyndið hún Embla Karen í heimsókn í gær með Garpi og Ingunni, spilaði á píanóið, tíndi fram bækur og fór á kostum. Er alveg búin á því eftir ljóðagerðina, fékk aftur hausverk og rosalegur verkur, ó ó ó, en ljósið hún Embla og hugsýn af ánni fljótandi alltaf rennandi í Víkinni gaf mér kraftinn. Ég er farin að sofa og takk fyrir öll kommentin. (Biturleiki :) Takk fyrir góði guð, ... fyrir lífið og ljóðið.
Svo fór ég á Víkingsleik hjá Jökli, hann er svo mikið undur og gaman að sjá hann spila, Víkingur vann 2:0 enda lukkudýrið mætt á svæðið.

30 maí 2009

Jarðskjálfti Föstudagsson

Ég var að borða þegar jarðskjálftinn reið yfir, í eldhúsinu heima hjá mér, já jarðskjálfti hugsaði ég og ætlaði að halda áfram að borða en ákvað að sýna jarðskjálftanum tilhlýðilega virðingu svo ég fór útá tröppur tilað vita hvort Atlantshafshryggurinn væri nokkuð að klofna í garðinum hjá mér, svo var ekki, svo ég hringdi í börnin tilað vita hvort þau voru óhult, þau höfðu setið í Lazy-boy stólunum sínum og ekki fundið örðu. Svo ég fór aftur inn og hélt áfram að borða.

29 maí 2009

Faðmlagsdraumur

Mig dreymdi ég væri að faðma Harald Jónsson einsog hefur lengi staðið til, mér þótti þetta vera á skólagangi fyrir framan skólastofu og fyrir enda gangsins var stór gluggi, franskættaður, þe. með mörgum römmum, liturinn á göngunum var hafísblár, við föðmuðust lengi og ég kleip í hann milli herðablaðanna og hafði áhyggjur af því að hann héldi að ég þyrfti á honum að halda, en svo hölluðumst við þráðbein þannig að höfuð okkar námu við vegginn en héldum faðmlaginu.

Mér fannst Herðubreið vera einhverstaðar uppá vegg en kem því ekki fyrir mér hvar.

28 maí 2009

Svo gott að vera komin heim!!!

Ég elska að vera komin heim, það er dásamlegt, allt svo hreint og fínt líka af því Jökull og Kristín voru hér á meðan ég var í burtu og það var yyyyyndislegt að vita af þeim hér, og þau buðu mér í grillmat annan daginn sem ég kom. Og Jökull bjargaði líka lífi mínu með því að þegar ég hringdi sárþjáð af mígrenikastinu sem ég fékk (ég er alltíeinu komin með mígreni, þetta er allt að koma!) og þá var ég búin að hringja í 112 og á leið í sjúkrabíl, ef ég hefði haft sög hefði ég sagað hausinn af, en þá hringdi Jökull semsagt og ég grátandi í símanum og hann spurði: Er ekki best að fara skipuleggja útförina. Æ, nei, gólaði ég. Hvaða sálma viltu láta syngja? Hærra minn guð til þín, gólaði ég hærra. Og hvaða fleiri, spurði hann. Blátt lítið blóm eitt er. Ég get sungið það, heyrði ég að Kristín tengdadóttir mín sagði. En þetta er semsagt yndislegt og svo gott eitthvað og Framnesvegurinn er nú líka algjört æði. Nágranni minn sendi mér fingurkoss (við rekum sameiginlega þvottavél í skúr á lóðinni) en þetta sýndi hvað ég hef mikinn sjens allstaðar því hann er nottla 20 árum yngri en ég. Og svo fékk ég spes trítment frá stráknum á kassanum, ég er svona hrikalega ógleymanleg og yndisleg, og ekki nóg með það heldur fór ég á Alanon fund og allir þar: HVAR HEFURÐU VERIÐ!!!????!!! Líka þær sem ég átti að vera sinna sérstaklega og leiða í gegnum sporin. Garpur og Ingunn og Embla eru á sínum stað og ég búin að panta að fara niðrí fjöru með Emblu á laugardaginn að finna galdrafjaðrir og skrítna steina, bara eins gott að verjast kríunni, ég skyldi nefnilega stafinn minn sem Maddý gaf mér eftir hjá Hrafni og Elínu en þess má geta að ég fékk að sjá Vííí í dag í fyrsta sinn, hún var á leiðinni norður með fríðu föruneyti, móður sinni og tveimur dætrum Önnu Jakobínu. Hún var alveg ótrúleg og fín hún Vííí, hún er eiginlega alveg einsog pabbi sinn, nema hún er líka örlítið lík Mána, þessi ákveðni svipur yfir augunum, en hún er mikill karakter og guðsblóm hér á jörðinni. Hún var líka í prjónuðum gallabuxum sem móðir hennar hafði prjónað handa henni. Ég er bara búin að sitja og yrkja síðan ég kom heim, ryksuga smá og fara í bað og svona, kaupa engifer og Elísabet er yndisleg og alveg stórkostlega mikið krúttvesen í veröldinni. Velkomin heim töfrasnillingur.

ps. Svo ætlaði ég að stinga uppá smá verkaskiptingu hér á blogginu - ég geri nefnilega allt, bæði blogga og kommentera. Svo ég ætlaði bara að segja frá því að ég hef óskaplega gaman þegar ég fæ komment frá öðrum og takk fyrir það. Endilega kommentið.

27 maí 2009

Elísabetarhúð

Það er ótrúlegt að sjá á mér húðina eftir Trékyllisvík, allt detox-tal má fara að vara sig, húðin er svona fallega silkimjúk. Ég er alveg í sambandi við spegilinn og bíð eftir að hann hringi.

Dúkkuhausinn og draumatófan

Ég hef verið að hugsa um hvað ég gæti sagt eftir að hafa verið í Trékyllisvík en á meðan ég er að bíða eftir því má geta þess að ég er búin AÐ ÞJÁST AF MÍGRENIKASTI, þjást, þjást, ekki getað reist höfuð frá kodda, ekki getað drukkið kaffi, ekki getað tuggið nikótíntyggjó, ekki neitt, ekki neitt, neitt, nema svo las ég í bók sem Elín á að Búdda tæki þjáninguna frá okkur eða mér skildist það, svo þökk sé Búdda og mígrenipillunum að þjáningin er á undanhaldi nema ég er mjög þreytt, slöpp, úr mér allur máttur dreginn, aumingja greyið ég, og ég vissi ekki einusinni af því ég væri með mígreni, samt hef ég fengið hausverk hægra megin síðan pabbi dó og mígreni kemur víst alltaf öðrumegin, svo kannski hef ég haft mígreni, mí mí mí, en nú var þetta í öllu höfðinu og mér datt í hug að þetta væri útaf dúkkuhausnum, að dúkkuhausinn væri brjálaður, yfir því að vera tekinn af rekanum eða grindhvalurinn brjálaður yfir því að ég tók hauskúpuna af honum af rekanum, svo sennilega þarf ég að spyrja bæði dúkkuhausinn og hauskúpuna af hvalnum hvort ég hafi mátt taka það, það gerði Kristinn á Dröngum alltaf, hann þakkaði allavega fyrir sig, en þetta er vísan í gamla þjóðsögu um að maður megi ekki taka bein, þá komi draugurinn æðandi og segi: ÉG VIL FÁ BEINIÐ MITT. Nú er ég búin að spyrja, maður verður að sýna kurteisi. Og mígreni þýðir auðvitað my greni. Mitt greni.

Hausinn á mér er greni. Mig dreymdi draum áðuren ég fór suður, ég var á ferð í miklum snjó og í veg fyrir mig gengu nokkrir minkar og ein tófa, appelsínugul. Þessir mí-nkar voru mí-grenið mitt og tófan táknar lífskraft minn. Og nú er allur vindur búinn og ég ætla láta renna í bað.

Draumatófan... athuga hana betur.

24 maí 2009

Elísabet kveður vini sína hér

... það er ekki endalaust hægt að yrkja um einmanalegan rekavið á eyðiströndum ef það eru engin spor, enginn hlátur, engar sögur, ...

Svo takk fyrir sporin, hláturinn og sögurnar, ... Allir hér.

Takk Gauti fyrir að segja vinir.

Takk Elín, Hrafn og Vííí fyrir að leyfa mér að vera hér.

OG TAKK KÚRT, ÓSKAR OG BERNHARÐ FYRIR AÐ SOFA UPPÍ HJÁ MÉR.

23 maí 2009

LJÓÐIÐ - (Í vinnslu)

*

Allt þetta fólk
sem lifað hefur hér
frá landnámsöld,
andi þess fyllir staðinn
hér í kvöld.

Gleði þess og sorgir,
dagar þess og nætur.

Það kemur nær og nær,
það þyrpist að,
það hefur eitthvað að segja.

Og þá veit ég
að þetta er sama fólkið
og býr hér í dag.

*

Lítið ljóð

Bátur í flæðarmálinu
og kríuvarp.

Þarf að ákveða
eitt eða annað.

Veisla hjá köttunum

Ég var auðvitað búin að segja köttunum, Óskari, Kúrt og Bernharð að Vííí væri komin í heiminn, ég tók þá hvern og einn á eintal og klappaði þeim um leið. Ekki samt lengi því ég er ekki gefin fyrir strokur og klapp. Kettirnir eru hinsvegar á annarri skoðun og hér hefur farið fram heilmikil klapp-kennsla þessar þrjár vikur í Trékyllisvík. Þú verður að læra að klappa, segir Bernharð. Alveg rétt, segir Óskar. Þú ert að ná þessu, segir Kúrt. En ég hef satt að segja aldrei verið mikið fyrir að kjá og kjássa börn eða dýr. Mest svona leyfa þeim að vera út af fyrir sig. Sérstaklega er mér illa við að taka upp nýfædd börn, og segja do do do eða gúgglí gúgglí gúggíddí gúgg.

Það er í mesta lagi fyrir foreldrana. En ég man hinsvegar hvað það var guðdómleg stund þegar ég fékk að halda á henni Emblu Karen Garpsdóttur aðeins fimm daga gamalli.

En nú í kvöld ákváðum við semsagt að halda veislu yfir því að Vííí væri komin í heiminn með athyglina á þá semsagt, ég kveikti samt á kerti og sauð svo fisk, um leið og ég setti fiskinn í pottinn komu þeir hlaupandi í andaktugum fögnuði og sátu svo dáleiddir í eldhúsinu þangað til fiskurinn var tilbúinn. Svo skammtaði ég á þrjá diska, gjöriði svo vel.

En þess má geta að þótt Bernharð sé hér greinilega mesta veiðidýrið þegar ég sé til hans á nóttunni þá hélt ég þegar ég heyrði hann í fyrsta sinn koma skokkandi eftir ganginum að það væri verið að banka.

Saltkjötsveisla á Steinstúni

Í hádeginu lenti ég í saltkjötsveislu hjá þeim sæmdarhjónum Selmu og Gústa ásamt fjöldanum öllum af barnabörnum, tengdabörnum og barnabörnum. Fyrir ofan spiluðu hamrarnir sína orgeltóna, lækurinn lék sama lagið og fyrir þrjátíu árum þegar ég, Kristinn og Guðjón rákumst þar inn eftir svaðilfarir frá Seljanesi. Og í túnfætinum fyrir neðan jörmuðu nýborin lömb, golsótt, mórauð, svört og hvít með mæðrum sínum. Það var sól og saltkjötið var ekta saltkjöt. Selma prjónar eina þá alfallegustu lopasokka hér um slóðir. Selma er svo yndisleg og heil manneskja og hefur sterkan svip af minni fyrrverandi tengdamömmu Önnu Jakobínu.

Í Kaupfélaginu var margt um manninn, ég ákvað að byrja aftur með Munda á Finnbogastöðum og fá far með honum í Víkina. En við Mundu höfðum hætt saman fyrir nokkrum dögum, einmitt í Kaupfélaginu. Af því að ég fékk far með öðrum heim svo það var sjálfhætt. Mundi er í þann veginn að fara sofa í nýja húsinu sínu sem er einsog álfahöll, upplýst auðvitað. Ég stakk uppá því að hann byði uppá bændagistingu, húsið er svo stórt, en hann neitaði því alfarið, húsið væri rétt svo mátulegt fyrir hann og hans kamelsígarettu.

22 maí 2009

Þoka II

Þokan er köld
og miskunnarlaus,
hún breytir öllu
svo það verður
rómantískt.

Þoka I

Þokan gerir allt merkilegt,
einsog rekaviðardrumbinn í fjörunni
sem var venjulegur
en nú er hann að hverfa.

Þoka

Þokan læðist inn fjörðinn,
fjörðurinn læðist inní þokuna.

Ég verð eftir með einsemdina.

Að sortera þvottinn

Mig dreymdi Suðurgötu eina nóttina, ég bjó þar um tvítugt, ástfangin í fyrsta sinn en veiktist líka á geði í fyrsta sinn, í kjölfar dauða föður míns, svo það voru sterkar tilfinningar í húsinu, mig langaði alltaf að flytja í húsið aftur, þetta var líka svo fallegt hús og með tvennum svölum, en ég held ég sé tilfinningalega föst í húsinu, eða það er að segja þessari ást og sorg af því ég veiktist á geði af sorg, og það er spurning afhverju ég vilji endilega flytja þarna aftur, hvort ég sé að sækjast eftir þessum sterku tilfinningum, ástinni og sorginni, geðveikinni sem var annar heimur, en ég kemst kannski að því ef ég hætti að skrifa um sjálfa mig og skrifa um hana Fríðu Maríu sem lenti í þessu, að verða svona ástfangin, sorgmædd og geðveik og vildi aldrei fara útúr húsinu, og vildi aldrei fara útúr húsinu af því hún var að sortera þvottinn.

Konan hans

: Konan hans Geirmundar, var hún ekki rússnesk.

: Nei, var hún ekki thailensk.

: Ég held hún hafi verið portugölsk.

: Hún var allavega ekki íslensk.

Öfugsnúið

Á kvöldin þegar ég er að fara sofa vil ég endilega vaka lengur, og á morgnana þegar ég vakna vil ég endilega sofa lengur.

21 maí 2009

Sólarlagssæti

Ég bjó til sólarlagssæti handa Elínu, Vííí og Hrafni á árbakkanum, þar liggur fallegur trjádrumbur, ég hlóð bálköst við hliðina á og gerði hring utanum með fjörusteinum. Já, og svo er þetta líka fyrir Óskar, Bernharð og Kúrt, þá miklu sólarlagsketti.

Tíðindasamt í Trékyllisvík

Ég er eiginlega hætt að ráða við þetta, fyrstu dagana gerðist það helst að svanur flaug framhjá Finnbogastaðafjalli eða tjaldurinn kroppaði í fjörunni en nú rekur hver stórviðburðurinn annan, ég var við skólaslit í Finnbogastaðaskóla þarsem Ásta og Júlíana útskrifuðust með láði, kökur á eftir og sýning, svo í sund á Krossnesi í tvo klukkutíma með Maddý, í mat til hennar á eftir, maturinn var einsog á fimmstjörnu veitingahúsi, svo fórum við í fimmtugsafmæli til Jóhönnu í Árnesi og þar hitti ég Gústu í Norðurfirði og Óla á Gjögri, alla þessa skemmtilegu krakka og unglinga og já bara alla í sveitinni og svoleiðis kökurnar. Ég þekkti afmælisbarnið ekki mikið en ákvað að gefa henni vísu í afmælisgjöf.

Afmælisbarnið ekkert þekkti
yndi allra hér í kvöld.
Fagnar hennar fríðleiksslekti
frúin fyllir hálfa öld.

*

Ég sá lamb fæðast

Ég fór í fjárhúsin í græna prjónsilkikjólnum mínum, fjárhúsin minntu mig helst á kirkju, slík var stemmningin og svo sá ég eitt lamb fæðast, fyrst var það inni í mömmu sinni, svo kom það út.

Fuglanótt

Nóttina sem hún Vííí kom í heiminn hegðuðu kettirnir sér undarlega, murruðu og vildi strokur og kjass í meira mæli en áður. Ég vaknaði klukkan fjögur og var andvaka eftir það fram undir morgun. Ákvað að fara á fætur svo ég gæti sagt henni hvernig nóttin í Trékyllisvík hefði verið nóttina sem hún fæddist á Akranesi. Og það var fuglanótt, ég hef aldrei séð fleiri fugla, þeir klufu loftið, loftið var krökkt af fuglum, þeir létu sig fljóta í stríðum straumum niður með ánni, svifu á öldunni og spókuðu sig í flæðarmálinu. Og söngurinn... kvakið, blístrið, ... tilbeiðslusöngur, út við sjóndeildarhringinn var dögunin að hefja sitt morgunstef, og þegar ég gáði útum gluggann til fjallsins var þar kona að hengja þvott á snúru.

*

19 maí 2009

Elísabet, vinir

Já, "erindisleysa" - einsog hirða um ketti bróður síns og mágkonu, heimsækja vini sína, heimsækja fjöllinn, sjá svan fljúga framhjá Finnbogastaðafjalli og annan svan að kafa í vatninu, og heyra lítinn snáða hann Gauta Rakelarson sem er eins og hálfs árs en hann er óvenju fljótur til máls og bræddi hjarta mitt þegar hann sagði: Elísabet, vinir.

Að flækjast svolitla erindisleysu

Í kvöld var ég boðin í mat til Hrefnu í Árnesi, hún sagði mér að áður fyrr hefði það verið kallaður flækingur að fara út fyrir hreppinn nema ef maður væri að fara til læknis. Ég man eftir þessu viðhorfi hjá Kristni á Dröngum sem lagði flæking og erindisleysu að jöfnu, hvort tveggja jafn fáranlegt. Sjálfur flæktist hann aldrei neitt nema einu sinni til Grænlands en þarsem hann var búinn að búa til stærðfræðijöfnu: Að Drangabændur færu á þúsund ára fresti til Grænlands komst hann hjá því að kalla það flæking.

Við Kristinn vorum náttúrulega aldrei sammála um neitt, það var það skemmtilega, og við vorum örugglega sammála um allt.

En ég var nefnilega viss um að ég hef verið send hingað í Árneshrepp af einhverjum sérstökum ástæðum, að ég ætti eitthvert sérstakt erindi, jafnvel að ég ætti að læknast en mér finnst stöðugt og endalaust að ég þurfi að læknast af hinu og þessu, ég þurfi að vera meira opin, meira lokuð, meira ákveðin, betri manneskja, losna úr fjötrum, kafa í sálardjúpið, og svo endalaust framvegis, ég sé ekki nógu góð.

Ertu orðin góð?
Ég er miklu betri.
En ertu orðin góð.
Ég fer að verða góð.

Svo ég hélt að ég hefði verið send út fyrir bæjarmörkin á Reykjavík tilað læknast hér í Trékyllisvík, en þá kemur bara á daginn að ég hef haft gjörsamlega rangt fyrir mér, ég er orðin góð, nógu góð, því um leið og hún Hrefna var að tala um þetta, flækinginn og erindisleysuna, þá rann upp fyrir mér ljós, ég var "að flækjast svolitla erindisleysu."

*

Eins húnar

Húnninn á gömlu kirkjunni í Trékyllisvík er nákvæmlega eins og húnninn heima hjá mér.

Elísabet sendist í Árneshreppi

Við erum sendlar og okkar pósthús er jörðin, eða það sem ég vildi segja, ég var send hingað í Trékyllisvík, það var Vííí sem sendi mig hingað, ég hef verið send hingað og þangað gegnum tíðina og í dag var ég send með bréf í Sparisjóð Strandamanna og súkkulaði í skólann á Finnbogastöðum. Ég hef svona verið að íhuga erindi mitt hingað norður og mun birta niðurstöður um leið og þær berast, verða sendar mér.

Tilfinningastaður

Í sambandi við jörðina undir hjartasteininn hefur hugmyndin undið uppá sig eða blásið út, og nú er ég að hugsa um að kaupa tuttugu jarðir víðsvegar um landið undir hjartasteinana mína, og þá væri alveg rakið að koma þeim fyrir á stöðum þarsem ég er tilfinningalega föst.

Tilfinningalega föst á einhverjum stað

Maður getur verið fastur í skafli, skriðu, brennandi húsi, umferðarteppu, og ég veit ekki hvar en svo er líka hægt að vera fastur einhverstaðar tilfinningalega. Ég bað guð um að gefa mér svarið við því hvar ég væri föst tilfinningalega. Og ég er að bíða eftir svarinu.

Niðursuðudósirnar með blönduðu ávöxtunum

Ég tók það fram hér áðan að Hrafn bróðir minn þættist viss um að einhver vildi gefa mér jörð undir hjartasteininn, ég er er ekki viss um að Hrafn hafi þá vitað að ég er samasem búin að borða allar niðursuðudósirnar með blönduðu ávöxtunum úr búrinu þeirra Elínar.

18 maí 2009

Jarðarbútur

Já, mig vantar semsagt jörð... undir hjartastein. Hrafn hélt að einhver myndi örugglega gefa mér jörð undir steininn. Svo ég ætla að láta það fylgja að hann er sennilega svona 20 x 20 sentimetrar að ummáli. Það er bara spurning með hæðina, hann gæti verið 15 sentimetrar á hæð, ég nefni þetta svona útaf þokunni.

Silfur Egils

Ég hef ekki horft á Silfur Egils síðan hann fékk Evu Joly norsk-franskan saksóknara í þáttinn til sín sem endaði á þá veg að Egill horfði umkomulaus á hana og spurði: Eva, getur þú bjargað okkur???

Í gær horfði ég svo aftur á Silfrið og þar var Paul Bennett í heimsókn, breskur hönnuður sem langar að bjarga Íslandi. Í lok þáttarins horfði Egill á hann jafn umkomulaus og áður og sagði: Mr. Bennett, getur þú kannski gætt okkur bjartsýni á nýjan leik???

Ég ætlaði að fara dæma Egil en ákvað að kasta ekki fyrsta steininum því í hvert skipti sem ég hitti útlendinga langar mig alltaf að biðja um kók og prinspóló.

Í fjárhúsunum

Ég kom í fjárhúsin í dag og er eiginlega í tilfinningalosti, allar þessar kindur og nokkur lítil lömb, og hún Linda dóttir hans Guðmundar á Finnbogastöðum leyfði mér að finna lyktina af þeim, það var sæt ólýsanlega fíngerð lykt, mmmmm.... ég hafði aldrei vitað það væri svona fín lykt af nýfæddum lömbum. Maður er alltaf bara hérna: Oh, hvað þau eru sæt. Og þau eru sæt. Og kindurnar, þær voru þúsund ára gamlar með þúsund ára gamlar tilfinningar, augun spennt af hyldýpri móðurlegri umhyggju, ég horfði bara í augun á þeim og gat ekkert sagt, ég bara kom ekki orði, svo fór Mundi að segja mér nýjustu sögurnar úr fjárhúsunum og ég sagði: Já, þetta hlýtur að taka á tilfinningalega. Mundi kveikti sér í Camel-sígarettu og sagði: Já, það gerir það.

Á rekanum

Sólskinsdag í síðustu viku spurði Maddý hin tígulega kona úr Norðurfirði og fyrrverandi prinsessa úr Stóru-Ávík hvort ég vildi ganga með henni Ávíkurekann. Þetta fannst mér mikil upphefð og neitaði ferð útí eyju að setja upp fuglahræður sem var líka mjög freistandi boð. En við Maddý fórum í Kolgrafarvík, Hellisvík, og allskonar víkur sem of langt mál væri að telja, þetta var einsog meiriháttar hugleiðsla að ganga rekann og mega nú austrænir jógar fara að vara sig með sínar hugleiðslur þegar rekinn er annarsvegar. Því svo kom líka þoka, hún læddist inn við Krossnesið og lagðist svo einsog sæng yfir alla víkina og síðan lét hún (þokan) þyrlu fljúga um í þokunni. Mjög dularfullt. Maddý gaf mér staf og þótt hún hafi búið þarna allt sitt líf hafði hún ennþá lifandi áhuga fyrir skrítnum steinum sem urðu á vegi okkar. Við fylltum svo svarta ruslapoka af brúsum og bjuggum líka til brúsagæs en í Kolgrafarvík fundum plastgæs sem vantaði hausinn á. Þegar við vorum búnar að setja brúsa fyrir haus var komin í leitirnar hin sjaldgæfa brúsagæs. Ég fékk allskonar sögur um villingana í Ávík sem höfðu klifrað uppá syllur, stokkið yfir Kistuvoginn. Svo fékk ég álfasögur og ég meiraðsegja talaði svolítið við þessa álfkonu. Það er þó aldrei að vita nema Maddý hafi sjálf verið álfkonan, allavega ljómaði hún einsog sól í þokunni þegar ég spurði um hvenær hún hefði hitt Gunnstein og það allt saman.

17 maí 2009

Svanir sem gæta sálar

Eftir að við Maddý höfðum þrætt Ávíkurvíkurnar sáum við heim að hlaði í Stóru-Ávík, við töldum fimmtán svani á túninu og ég sagði að svanirnir væru sjálfsagt að gæta sálarinnar hans Guðmundar og samsinnti hún því.

Jörð undir hjartastein

Ég rétt komst útí labbitúr í dag, ég var svo þunglynd að ég vildi að heimurinn stoppaði og eiginlega var hann stopp og allt ómögulegt og ég sá ekki ljósglætu, en þegar ég kom svo heim hlaðin steinum og einn hjartalaga og svo lagskiptur, þungur og stór að nú vantar mig jörð undir hann.

Til hamingju Ísland!!!

Í gær héldum við Júróvísjón partý, ég og kettirnir, Bernharð, Óskar og Kúrt. Þeir fengu sér soldið romm og voru fljótlega orðnir afvelta á gólfinu, ég drap ísbjörn í öðru sæti, þriðja sæti og fjórða sæti, sagði Bernharð. Óskar og Kúrt voru alveg sammála. Svo fengu þeir sér snakk. Og fisk, bruddu fiskbeinin langt fram eftir nóttu og vildu ekki hætta í partýinu. Faiiiirytaaaale, söngluðu þeir þegar ég var að festa svefninn.

Annars vaknaði ég uppí smá þunglyndi og yfir mig hneyksluð á þessari þoku, enginn læsi bloggið mitt, ljóðagerðin gengi afleitlega, enginn vildi lesa nýju söguna mína, hvað þá geðhvarfasöguna mína, ég ætti ægilega bágt og væri ægilega blönk og þyrfti aukþess að fara til tannlæknis. Svo ætti ég engan kærasta. Og væri ekki enn búin að sjá lömbin hér í Trékyllisvík.

En ég kveikti á sjónvarpinu í gær í fyrsta skipti síðan ég kom fyrir tólf dögum, og horfði á söngvakeppnina, ég féll nottla alveg fyrir þessu einfalda lagi um álfasöguna og svo söng hann með hreim, það var guðdómlegt, en ég þoli ekki hvað allir þykjast geta sungið ensku og afneita móðurmálinu sínu sem hefur verið margar aldir að þróast, svo fannst mér franska lagið flott, rússneska, þýska (raffinerað og grípandi) finnska og eitthvað í viðbót. Svo dýrkaði ég atkvæðagreiðsuna að sjá allt þetta yndislega fólk frá öllum þessum löndum, svo merkilegt að sjá þjóðareinkenni, og allskonar yndislegheit og ég fór að hugsa um allt fólkið í heiminum sem kemur frá allskonar löndum og allan fjölbreytileikann og nú er ég orðin frá Trékyllisvík með þrýstnar varir og augun blárri.

En ég myndi segja að Ísland hafi unnið keppnina, Noregur var nottla ekki marktækur og svo stálu þeir álfasögu frá Íslandi, og Íslendingar ættu að læra af þessari sögu og hugsa meira um ál-fana en ál-verin. En þessvegna segi ég TIL HAMINGJU ÍSLAND....!!! Ísland vann og hún var einsog álfkona í bláa kjólnum og Sylvía Nótt hefði átt að vera við hliðina á henni á sviðinu. Til hamingju ó til hamingju.... það var svo gaman að horfa á sjónvarpið og allar auglýsingarnar voru svo yndislegar, og svo horfði ég á ameríska bíómynd á eftir.

Og nú er ég að hugsa um þessi ljóð, ég er nottla að reyna að vera töff en þetta er bara þannig að ég uppgötvaði að sársaukinn er hluti af fegurðinni og maður veit ekki hvað ræður.

Ég sé að þokan hefur lyft sér meðan ég skrifa svo ég er hugsa um að halda áfram alveg uppá brún.

Þoka

Það er búið að vera þoka í þrjá daga, ég meina, hvað hef ég gert af mér!!?

16 maí 2009

Eitthvað hvítt

Þegar maður sér að þetta hvíta útá firðinum sem færist stöðugt nær er hvítur dúnkur en ekki ísbjörn er maður endanlega búinn að missa vitið.

15 maí 2009

Draumaferð

Nú er ekki farið lengur tilað vitja um selanetin heldur tilað vitja horfinna tíma og þegar ég sigldi framhjá Seljanesi í gær fannst mér allteins þessi stelpa sem var þar fyrir þrjátíu árum væri veruleikinn og ég draumur hennar.

Ferð með Pétri í Ófeigsfirði

Pétur í Ófeigsfirði er auðvitað orðinn þjóðsagnapersóna í lifanda lífi, ég man eftir honum á Seljanesi, þá ættleiddi hann mig því honum fannst ég vakna svo seint á morgnana, sjálfur vaknaði Pétur alltaf við sólarupprás og var búinn að saga sex hundruð staura þegar hann kom klofandi yfir þúfurnar útað Seljanesi, þarsem ég og Guðjón vorum rétt að rumska á hádegi og Kristinn ef hann var vaknaður þá var hann ofaní Njálu. Pétur var líka að gera veg, það var nefnilega enginn vegur útí Ófeigsfjörð og Pétur gerði sér lítið fyrir, komst yfir jarðýtu og hóf að ryðja veginn sem er þannig núna að þrjátíu árum seinna streymir þangað jeppafloti landsmanna, Pétur myndi sennilega aldrei samþykkja neitt sem heitir þarsem vegurinn endar enda var hann bara rétt að byrja á veginum, Pétur hamaðist allan daginn á ýtunni í fjallshlíðinni meðan við héldum áfram að lesa Njálu og horfa útí loftið, og það síðasta sem er að frétta af Pétri er að hann vill virkja Hvalána í þágu Vestfirðinga, hann ætlar að byggja stöðvarhúsið inní fjallið en línurnar verða víst ofanjarðar, við höfðum nokkur skoðanaskipti um háspennulínur og ég benti honum á þetta ríkidæmi: Ófeigsfjörðinn, hvort hann vildi fá þar háspennulínur. Ef það er nauðsynlegt, sagði Pétur. Svo ég er nú að yrkja ljóð tilað benda Pétri á að það eru línur í Ófeigsfirði, hann virðist bara ekki sjá þær, það er línur fjallshlíðanna, gárurnar sem koma eftir selinn þegar hann stingur upp kollinum, ákveðnar línur í tófunni svo ekki fer á milli mála að þar er tófa á ferð, í sandinum var línulaga hjarta eftir hjartastein í flæðarmálinu, nú og svo leggur æðarfuglinn línurnar með úinu úr sjálfum sér sem er bæn til almættisins sem heitir þá sennilega ú Ú. Og svo sá ég ekki betur en fossinn í Húsánni væri hárprúð og gráhærð álfkona sem einsog allar álfkonur passar línurnar, - ég hef þá trú þegar Pétur kemur auga á allar þessar línur þá hættir hann við háspennulínurnar.

Mínkaveiðar og gæsaegg

Í gær fór ég á mínkaveiðar en fann í staðinn fjögur gæsaegg.

Fréttir úr Trékyllisvík

Í dag flaug svanur framhjá Finnbogastaðafjalli.
Í gær lentu tvær teistur á Árnesánni og létu sig fljóta niðreftir.
Í dag trítlaði mínkur yfir veginn hjá skólanum.
Í dag sást svanur stinga höfðinu ofaní Finnbogastaðavatn.
Í dag voru tveir grjóthnullungar á veginum í Skriðunum.
Í dag heyrðist til þyrlu í þokunni.
Í dag söng þröstur á kofanum hans Urðarkattar.
Í fyrradag komu sjö kindur inná túnið hjá skólanum, sex hvítar og ein svört og hyrnd.
Í gær stakk selur upp kollinum í Ófeigsfirði.
Í dag sást til spóa á kletti í Hellisvík.
Í dag hafði tjaldið gert hreiður við árbakkann.
Í kvöld er þoka langt niðrí miðjar hlíðar.

Bænahald

Það liggur allt á bæn á þessum degi,
kollan á hreiðrinu,
selurinn á klöppunum,
refurinn á bráðinni,
vargurinn á útkikkinu,
báturinn á sjónum.

Og veðrið: Himneskt.

Línurnar í Ófeigsfirði (í vinnslu)

Himinninn sker
Ófeigsfjörðinn
selurinn gárar
hafflötinn
vel málaður
æðarfuglinn
tófan teiknuð
í þarabunkann
maður dregur
bát að landi
hjartað strokið
í sandinn
gráhærð álfkona
í fossinum
passar línurnar.

14 maí 2009

Úr Ófeigsfirði

Sjórinn flauelsblár
bylgjast langt á haf út,
selur stingur upp kollinum,
æðarfuglinn úar,
hjartað mitt,
Húsáin einsog foss,
gráhærð álfkona
sem passar uppá línurnar.

Ófeigsfjörður

Það er soldið heilagt
að sigla inní Ófeigsfjörð
framhjá Seljanesi
sérstaklega ef stendur þar
stelpa á klöppunum
sextán ára og hefur
bara eitt að segja:
Ég veit hvað ég vil.

Sonur minn og tengdadóttir

Sonur minn og tengdadóttir
tóku mig til Indíánalandsins
til að sýna mér að ég er ekki lengur barn
og Indíánarnir ekki lengur Indíánar,

hvílík hryggð og undarlegheit,
en í staðinn varð til sælustund
við straumharða ána Ooouunalufte
þar sem við sátum kvöld eftir kvöld
og spiluðum tuttugu og einn,
elstu fjöll í heimi vaxin barrtrjám
þar sem leyndust skógarbirnir og fjallaljón.
Vetrarbrautin í allri sinni dýrð
og hláturinn þeirra.

Þessi á sagði stöðugt eitthvað
sem ég skildi ekki
því ég var ekki lengur barn
og ekki lengur Indíáni,
en ég fann samt að hljóðið
var það sama og í æðum mínum.

*

Vestanáttin

Ég var virkilega farin að trúa á vestanáttina þegar ég vakna upp í morgun við einmunablíðu og glaðasólskin.

13 maí 2009

Úrskurður hæstaréttar (Speki dagsins)

Betra er að vera étinn af ísbirni en ofurseldur ísbjarnarhræðslu.

Dögun

Í nótt gerðist svo lotningarfullt atriði að ég get varla andað þegar ég minnist þess. Ég vaknaði um hálffjögur og það var eitthvað að gerast útvið sjóndeildarhringinn, sviptingar, línur og birta, ég lagðist aftur í rúmið og dró gluggatjöldin frá, svo eftir smástund gerðist það: Sólin! Logarauð birtist uppúr djúpinu, hin fyrsta dögun heimsins.

Það var einsog hún lyfti sér upp og allt varð fallegt.

Um áttaleytið var þessi sama sól yfir Reykjaneshyrnunni og nú er hún yfir Finnbogastaðafjalli, hvað er klukkan þá... ha ha ha. Tólf.

Stórtíðindi: Óskar í Tígurholu

Hrafn og Elín keyptu sértilgerðar kattaholur fyrir kettina að kúra í, mjúkar og fínar, einsog fást í gæludýrabúð. Í nótt gerði Óskar sér lítið fyrir og kúrði sig oní holuna með tígrismynstrinu.

12 maí 2009

Elísabet kennir í Trékyllisvíkurskóla

Í skólanum eru tvær stúlkur, Ásta og Júlíana, þær eru alveg ótrúlega gáfaðar og sniðugar, ég fékk að kenna þeim örsögugerð í síðustu viku og í dag var ég að kenna þeim að skrifa leikrit. Það endaði reyndar með að þær kenndu mér meira. Loksins lærði ég eitthvað í þeim efnum!!! Svo fékk ég kjötsúpu í skólanum hjá Hrefnu í Árnesi sem ég held að kunni allt milli himins og jarðar, einsog tildæmis að búa til þráð þar á milli.

Krían er komin og segir krí krí, svo það er spurning hvenær Vííí komi og segi Ví Ví.

Það er yndislegt hér í Árneshreppi og nú er vestanáttin að ganga niður svo sennilega neyðist ég tilað fara útað labba en í gær labbaði ég útað Vatnslæk og viti menn!! Fann gyllta jólakúlu, og örpínulítinn dansandi krossfisk og sá stuðlaberg, rekaviðardrumba og fugla sem flugu upp þegar ég nálgaðist. Kettirnir kúra og bíða næturinnar, það virðist vera þeirra tími enda verður einhver að passa uppá nóttina.

Annars er ég að lesa heimsbókmenntirnar, Kurt Vonnegut, Sláturhús 5, sem ég hef aldrei lesið. Og svo eru leysingar.
Leysingar.
Já leysingar.... í mínu sálarlífi, ég finn hvernig sálin glitrar í þessum leysingum.